þriðjudagur, júní 03, 2008

búið

Ég er búinn að ákveða að flytja mig um set og fara yfir til Eyrúnar og Bumbulínu á www.eunnarsdottir.net/blog - þar krúttumst við saman öll þrjú.

Endilega kíkið á okkur þar.

Lalli

miðvikudagur, maí 07, 2008

Bumbus

Það er vitleysa að segja að það sé sárt að sakna, það er e.t.v. vont gott, en það er samt gott. Ég var núna á myspace-ferðalagi, eitthvað sem ég geri sára sjaldan, en það var ljúft og ég saknaði þess að geta ekki vitleysast með strumpum af fróni. Ef ég hefði ekki saknað þeirra hefði ég aldrei kíkt á síðurnar og brosað yfir því hvað þeir eru töff og miklir nördar.
Svo er líka gott að eiga hjá mér hérna úti besta vin, unnustu og tilvonandi barnsmóður í sömu manneskjunni. Jámm, fyrir þá sem ekki voru búnir að frétta af því þá eigum við Eyrún von á bumbusi í heiminn, eða núna er viðkomandi Bumbus, en verður svo sjálfstæður, lítill og sætur einstaklingur í byrjun október. Sem sagt spennandi tímar framundan.
-
Síðustu mánuði hef ég verið við og við skrifað greinar á politik.is, ekkert nema gott um það að segja - enda á maður að taka þátt í umræðunni ef maður hefur áhuga á henni.
En ég er oft í erfiðleikum með að setja greinarnar í rétt form, þær verða stundum hálf þurrar og leiðinlegar. En það kemur allt með æfingunni - áður en þið vitið af verð ég meistari!

Lalli

fimmtudagur, apríl 17, 2008

íslenska + þýska = ?

Ég er ekki frá því að málfari mínu, stíl og stafsetningu hafi hrakað á þessum vetrum hér í Vínarborg. Scheiße! En sem betur fer hefur mér farið fram í þýsku á þessum tíma, annað væri nú líka lélegt.

Ég veit að það má ekki alltaf leggja saman tvo hluti og fá óhjákvæmilega út þann þriðja, en á sama tíma og íslenskunni hefur hrakað og eftir því sem ég hef verið lendur hérna úti, þá fækkar að sama skapi þeim sem heimsækja síðuna mína. En það þýðir ekki að gráta það, enda fullorðnast ég sem aldrei fyrr þessa dagana orðinn íbúðareigandi og margt merkilegra á leiðinni.

kv.
Lalli

mánudagur, apríl 14, 2008

Af sauðburði og vertíðarlokum

Maður les það og heyrir frá Íslandi að frónverjar séu orðnir pirraðir á stjórnmálamönnunum sínum. Þetta er né ekkert eins dæmi, ég horfði á þátt í gær á ríkissjónvarpinu hérna í Austurríki þar sem fjallað var um leiðtogakrísu Evrópu, það vantar alvöru leiðtoga í stjórnmálin í álfunni. Ég held að þetta sé komið til vegna þess að það kerfi sem við búum við, var ekki hannað fyrir okkar tíma, þ.e. 21. öldina þar sem fólk er vel menntað og getur sjálft fundið upplýsingar um allt milli himins og jarðar. Við vitum flest öll töluvert margt um flesta hluti og lítum þess vegna síður á ákveðna einstaklinga sem "alvitra snillinga" sem eiga að redda hlutunum - okkur vantar frekar fyrirliða sem heldur hópnum saman og s.s. einn af okkur sem stýrir leiknum.

Á Íslandi var fólk pirrað yfir því að þingmenn réðu sér aðstoðarmenn, en í rauninni finnst mér furðulegt að aðstoðarmenn hafi ekki verið komnir fyrr til þeirra eða fleiri aðstoðarmenn verið til staðar fyrir þingflokkana. Þeir myndu og munu gera þingstarfið skilvirkara, þ.e.a.s ef þeir vinna störf sín vel. Að auki ætti svo að fækka þingmönnum e.t.v. niður í 43 og gera landið að einu kjördæmi, svo innan fárra ára verðum við komin með 5 menn á þingið í Brussel.
Núverandi kerfi var hvorki hannað fyrir Ísland þar sem sauðburðu og vertíð skipta ekki höfuðmáli og heldur ekki fyrir Ísland þar sem tekur aðeins 45 mín að ferðast landshorna á milli. Það að hafa 63 þingmenn í Reykjavík í nokkra mánuði og svo í fríi þess á milli "til að sinna kjördæmunum" á einfaldlega ekki við í dag.
Það væri einnig hægt að gera fleiri tilbreytingar til dæmis að ráðherrar hafi ekki fast sæti á þingi eins og sumstaðar er gert.

Þegar þessar breytingar fara í gegn ætti einnig að auka vald sveitarfélaganna og færa meira af þjónustu yfir til þeirra, þar af leiðandi þyrfti ríkið að gefa þeim eftir skatttekjur. Það myndi auðvelda almenning mikið að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, auk þess sem fólk myndi vera áhugasamara um stjórnmál, þar sem það hefði meira að segja.

Er nokkurt vit í öðru en að breyta til í þessu 19. aldar kerfi sem að við búum við? Stjórnmálkerfi sem og stofnanir sem í því vinna eiga að vera í endalausri endurskoðun sem reynir að bæta þær, því eins og önnur sköpunarverk eru þau ekki fullkomin.

Lalli

föstudagur, apríl 11, 2008

það er vor, sólin skín á himnum

Þáttakendum á Ólympíuleikunum í sumar verður bannað að vera hafa á sér fána Tíbets hvort sem er á keppnissvæðinu eða í Ólympíuþorpinu og þar með talið í sínum herberjum.
Stundum er sagt að Ólympíuleikar og raunar íþróttir yfir höfuð, séu yfir pólitík hafin. Það þýði ekkert að draga Ólympíuhugsjónina niður á það lága plan sem stjórnmál manna eru, því sú dyggð að hlaupa í hringi, synda og stökkva sé ofar argaþrasi hversdagsins. Ekkert í heiminum stendur samt sem áður eitt og sér, óháð umhverfi sínu - allt er háð einhverju öðru og Ólympíuleikarnir eru ekki undanskildir. Þegar íþróttahátíð er haldin í ákveðnu landi, sama hvaða landi, undir leiðsögn leiðtoga þess lands, þá er ekki hægt að aðskilja hátíðina og þá sem að henni standa. Ef þeir kjósa að banna ákveðna uppröðun lita áprentað á efni vegna þeirra hugmynda sem þeir litir tákna - eru Ólympíuleikarnir pólitískir.
Auðvitað er svekkjandi fyrir íþróttamenn að þurfa að hlusta á okkur hin ræða um það hvort þeir eigi eða eigi ekki að taka þátt í leikunum. En þeir standa heldur ekki fyrir utan okkur hin og utan mannlegrar samkenndar vegna þess að þeir eru íþróttamenn. Auðvitað er svekkjandi að stefna að ákveðnu markmiði, ná því og svo gætu pólitíkusar ákveðið að maður fái ekki að komast að leiðarenda.
En þeir mega heldur ekki gleyma því að þeir eru fyrirmyndir, ef að þeir sætta sig við mannréttindabrot afhverju ættu ekki aðrir að gera það líka.

Lalli

sunnudagur, apríl 06, 2008

eitt

Stundum er kvartað yfir kolefnisjöfnun, enn ofar er rifist um hvort eigi að gera eitthvað, s.s. spara raforku, bensín eða nota meira almenningssamgöngur, vegna yfirvofandi hlýnurnar jarðar. En svo er þessu öllu bölvað af snjéníum sem sjá það í hendi sér að þú getir bara ekki kolefnisjafnað þig sí svona og hlýnun jarðar sé bara gabb sett fram af pólitíkus í Bandaríkjunum og fégráðugum vísindamönnum.
Ok, gott og vel segjum sem svo að kolefnisjöfnum virki ekki og þetta "klimawandel" sé bara gabb. Þá mælir samt ekkert á móti því að planta trjám og vernda regnskóg - þó svo að fólki finnist kolefnisjöfnun heimskuleg. Það að spara orku, ganga frekar en aka bíl eða nota hjól og almenningssamgöngur, er að sama skapi frábært - burt séð frá því hvort heimurinn farist eftir 100.000 milljón ár eða 100 milljón ár. Ef hlutirnir fara svo eins og þessir fégráðugu vísindamenn halda fram, þ.e. að þeir hafi ekki verið að gabba, þá hjálpar allt við að draga úr vandanum.
Sama hvort vandamálið er til staðar eða ekki til staðar, þá sakar ekkert að hugsa um umhverfið - það skemmir ekki neitt.
Svo er það ekkert nema frábært að fyrirtæki séu tilbúin að planta trjám í skiptum fyrir viðskipti, t.d. Krombacher sem verndar 1 fm af regnskógi fyrir hvern seldan kassa af bjór. Maður getur ekki annað en grætt, verndað umhverfið með því að drekka bjór? Ekkert nema snilld.

Lalli

föstudagur, apríl 04, 2008

mislukkaður fyrirlestur og HHG

Ég átti að halda fyrirlestur í gær, var búinn að undirbúa mig undir að minn hluti af fyrirlestrinum væri 10 mínútur um gagnrýni á Réttlætiskenningar Rawls, kenningar Marx um réttlæti og sitthvað fleira. Ég fékk ekki nema 3 mínútur - kennarinn notaði nefnilega 45 mínútur af tímanum til skipulagshluta sem hann hefði getað og átt að gera í tímanum fyrir páska. Ég stóð til að byrja með eins og asni og reyndi að vera eins snöggur að koma hlutunum frá mér og ég gat. - En ok, þetta er kanski líka reynsla í að bregðast við aðstæðum og geta ekki gert hlutina eins og maður vildi í upphafi.
En engu að síður fúlt. Því þetta var ágætur fyrirlestur hjá mér.
-
Annarrs langaði mig að segja tvennt um Hannes Hólmstein og hans mál. Í fyrsta lagi, er það ekki þversögn að safna með samskotum upp í skuld hægrimanns, sem hann komst í af eigin rammleik? Hinir hæfustu lifa af og allt það... Þeir virðast jafnvel nýta sér verk annarra til að reyna að lifa af.
Hannes Hólmstein hefur ekki beint verið sá sem að vílar fyrir sér að þjarma að mönnum í pólitískri umræðu, oft í persónlegum stíl en ekki fræðilegum og á maðurinn engu að síður að heita fræðimaður í stjórnmálafræði.

Stundum endar það þannig ef að maður kemur fram eins og besserwisser og ber ekki snefil af virðingu fyrir skoðunum annarrs þá á endanum kemur það niður á manni. Hannes Hólmsteinn hefur farið mikinn í langan tíma, núna missteig hann sig tvisvar og þarf að gjalda fyrir það, með peningum.
Mér þætti reynar áhugavert að sjá hvernig yrði tekið á svona máli hérna í Vín, ég þarf að skila inn sérstakri "Ritstuldar yfirlýsingu" (plagiats erklärung) með hverju verkefni - ef að kennari yrði svo dæmdur fyrir ritstuld. Svolítið dæmigert fyrir Ísland að sumir benda á að það væru "pólitísk hreynsun" að reka Hannes frá Háskólanum fyrir þetta. Þetta snýst samt ekki um hægri eða vinstri, enda er það bara gott að hafa allt litróf stjórnmálanna við Stjórnmálafærðideildir - þó Hannes mætti reyndar efast aðeins meira um ágæti þess sem hann las í Oxford fyrir aldarfjóðungi og efast og endurskoða eins og fræðimönnum ber að gera. Þetta snýst að mínu mati um prinsip - sá sem er staðinn að ritstuldi á ekki að vinna sem háskólakennari.
--
En ég nenni ekki að eyða meiri tíma í þetta, ég þarf að skreppa í ræktina.

Lalli