miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Frá degi til dags



Góðann dag,

Ég er búinn að vera lasinn í gær og í dag, eitthvert helvítis slen í mér. En það er að líða hjá, hægt og bítandi, svo ég verð ferskur í kvöld og frískur á morgun.

Áðan kom maður í heimsókn hérna niðri í kjallara í Eyrarlandsveginum, hann bauð mér góðann dag og sagðist heita Davíð (minnir mig) og sagðist hafa tekið sér tíma í dag til þess að tala við fólk um Biblíuna. Mér þótti þetta mjög snjallt hjá manninum, taka sér frí frá vinnunni til þess að tala við fólk. Ég sagði manninum frá því að ég hefði ekkert farið í vinnuna í dag svo ég væri ef til vill ekki í sem bestu ástandi til þess að ræða við hann um sín áhugamál. Þá bauð hann mér bæklinga um það sem hann ætlaði að tala um, þrjá bæklinga. Einn þeirra heitir "Bók fyrir alla", næsti "Vaknið!" og sá þriðji "Varðturninn, - Kunngerir Ríki Jehóva" en framan á honum stendur einnig Ættirðu að óttast dauðann?
Ég dauð sé eiginlega eftir því að hafa ekki rætt við manninn, tja og þó... Kanski hefði ég átt að bjóða honum upp á hafragraut, maður kann sig ekki.

Í dag var Litáhinn frá Kaunas sýknaður af ákærunni um að hafa flutt inn til landsins brennisteinsýru til þess að framleiða Amfetamín. Þessir gaukar, lögreglan var víst of fljót á sér og þess vegna fær dópsalinn, sem kemur frá alræmdasta framleiðslubæli fíkniefna í Evrópu að labba burt.
Ég veit ekki hvað skal segja um þetta.. Gaurinn var búinn að koma þrisvar sinnum til landsins á nokkrum mánuðum, kanski er hann bara misskildur íslandsvinur, eins og Elton John.

laugardagur, ágúst 27, 2005

og það var gúrka!

Evrópa hefur undanfarið verið að undirbúa komu okkar Eyrúnar, við erum tilbúin og því þurfti aðeins að baka fleiri brauð og auka við slátrun á nokkrum stöðum til að anna eftirspurninni sem fylgir okkur. Heyrst hefur að milljóna tugir munu á næstu dögum flytjast búferlum og þar með fara nær okkur skötuhjúunum.
Nei, þetta er nú ekki alveg satt, en við erum að minnsta kosti að verða tilbúin.. svona allt að því tilbúin.

Síðan að við Alti ræddum vandamál heimsins sitjandi efst í kirkjutröppunum við Akureyrarkirkju, þá hef ég mikið velt fyrir mér fréttaflutningi hjá okkur og þeim málum sem við viljum fylgjast með. Það sem gerist í stjórnmálum Vesturlanda, auk hryðjuverka, glæpa og náttúruhamfara eru þeir atburðir sem við fáum fréttir af. Ef að svokölluð gúrkutíð er í þessum fréttum, þá kippa fréttastofurnar inn fréttum af hungursneyð og vosbúð frá fjarlægum og framandi löndum.
Að sama skapi virðumst við beina okkar auka orku í átt til þess sem okkur er sagt að séu mest aðkallandi málefnin, en gelymum hinu, nema kanski þegar að gúrkutíðar fréttamennskan hefur áhrif á okkur.
Það sem jók ennfrekar á þessar hugsanir mínar var myndin Hotel Rwanda, sem sýnir hvernig þetta virkar í raun og veru.

Það er svo lítið mál að vera svartsýnn og dapur yfir heiminum, þess vegna reyni ég að tileinka mér bjartsýni, þó svo að ég þurfi oft að plata sjálfan til þess.

Lárus, ritstjóri la-rusl

fimmtudagur, ágúst 25, 2005

Fyrsta blogg á nýjum stað

Mér líkar vel við svona bloggsíður, enda get ég þar tjáð mig í orðum rituðum niður af fingrum mínum og það líkar mér.
Ég á alveg eftir að skoða þetta blogger kerfi, en ég ætla að hafa þetta betra en annað sem ég hef gert á netinu. Þetta verðum minn miðill og því mun ég vanda vel það sem ég set niður. Þetta þykir einhverjum líklegast lummó, sama aðila þykir orðið lummó væntanlega einnig hallærislegt, en þeim, sem og öðrum ráðlegg ég að lesa færslurnar vandlega og reglulega og ræða málin í kjölfarið á síðunni.

Takk og bless
Lalli