mánudagur, desember 31, 2007

áramótaheit

Þetta ár var gott, mér leið vel og ég stóð mig vel - vei ég! Næsta ár verður betra, enda liggur leiðin bara upp á við, líka blogglega séð. Gamaldagsblogg koma til baka á nýju ári netdagbækur þar sem viðkomandi segir vinum sínum frá því hvað á daga sína hefur drifið og skrifar um sín áhugamál. Íslendingar hætta vonandi að gera sig að fíflum á mbl.is.
-
Ég ætla ekki að láta þetta vera lengra í bili en áramótaheitið mitt í ár er eins og öll önnur ár að verða betri maður og sýna þar með sjáflum mér og öðrum að ég hafi lært eitthvað af síðasta ári. Þar á meðal ætla ég að blogga meira, enda finnst mér gott og gaman að láta vini og vandamenn heima heyra frá okkur í Vín með svoleiðis pistlum.

En í bili segi ég bara, farsælt komandi ár og takk fyrir allt gamallt og gott!
Lalli

föstudagur, desember 21, 2007

hohoho hahaha hihihi

Skemmtilegar þessar fjótfærnisvillur sem ég geri stundum, það þarf auðvitað gáfumenni eins og Emma til að átta sig á villunum mínum - hann er þrautþjálfaður í því að þefa uppi flóknar rökvillur. Ég ætlaði að sjálfsögðu segja þegar ég verð EKKI heima, þá get ég sem sagt gefið blöðin mín og einhverjir sem engan Standard fá geta lesið hann í tætlur.
-
Jólin eru að koma. Skatan er að koma. Jólagrautur og stess sem ég skil ekki. Hver nennir að vera stressaður - hlustaði það fólk ekki á Hemma Gunn? Hann sagði þetta "Verið hress - ekkert stress - bless" einfaldara getur það ekki verið.
--
Það voru 3 hæfari til að skrifa þetta blogg.
---
Lalli

fimmtudagur, desember 13, 2007

heim á leið

Það er ekki mikið eftir af þessari viðburðaríku önn, við förum heim á morgun - sem þýðir að það er nóg að gera í dag.
-
Vínarborg á aðventu er alveg einstök, það eru jólamarkaðir á hverju torgi og tilheyrandi skraut og gleði. Svo skemmir sætur ilmur af Glühwein ekki fyrir. Mér finnst eiginlega ótrúlegt að ferða- og kaupóðir íslendingar skuli ekki streyma til Vínar um þetta leyti - en líklegast á höfuðborg Habsburgaranna ekkert í Mall of Amerika og svoleiðis undur.
--
Ég sendi Der Standard tölvupóst um daginn og sagði að ég vildi ekki fá dagblaðið til mín þá daga sem ég verð heima. Þá buðu þeir mér skemmtilegan díl, að ég gefi blaðið mitt til heimila sem að fá ekkert blað en vildu það gjarnan, eins og athvarfs fyrir heimilislausra eða "Konukot". Að sjálfsögðu tók ég þessu boði enda er sælla að gefa en þiggja.

mánudagur, desember 10, 2007

nokixel-tluacuoF

Það hefur verið nóg að gera - það er samt ekki afsökun fyrir hryllilega-arfaslöku og yfirhöfuð og allt lélegs ástands á þessu bloggi. Ég tók það í gegn og skrifaði svo ekkert meir. Ekki gott.
En það sem gott er, er að í stað þess að blogga hef ég lært, flutt inn í nýju íbúðina, kennt íslensku og verið almennt hress og kurteis við vini og ókunnuga. Við Eyrún erum væntanleg til Íslands 14.des og ef veður leyfir förum við beinustu leið til Akureyrar þann dag. ´
Gáttaþefur kom á jólaball Íslendingafélagsins, ég misst því miður af honum, en fólk sagði mér að hann hefði verið í nokkru stuði, en samt frekar vitlaus greyið.

Ég ætla að vera duglegri við að blogga núna svo ef þú ert að lesa þetta, kíktu þá oftar við.
bless kex,
Lalli

föstudagur, nóvember 09, 2007

nú vinnuvikan er liðin í ársins skaut...

Ég hef undanfarna mánudaga náð mér í í tónhlöðuna mína þætti frá Rás1 sem heita Krossgötur, Hjálmar Sveinsson er stjórnandi þessar þáttar og er að gera mjög góða hluti - hann talar ekki bara við þessa sem venjulega fá að tjá sig um málin, heldur leitar annað og lengra og finnur oftar en ekki fólk með mjög áhugaverðar skoðanir. Það sem undanfarið hefur verið fjallað um eru fólksfluttningar milli landa og það sem Hjálmar kallar Landnám II, sárafáir fluttu til landsins frá hinu eiginlega landnámi og í 8-900 ár. En þetta er að breytast segir hann. Mjög áhugaverðar umræður um innflytjenda "vandamálið" og eins og svo oft áður í þessum þætti eru umræðurnar á allt örðu plani en í öðrum miðlum.
-
Eitt af því sem minnst var á í þættinum 3.11.07 var þýska orðið "gastarbeiter", orð sem óþarft er að þýða, það var sem sagt litið á þá sem fluttust inn í landið sem vinnuafl en ekki fólk og þar liggur rót vandans - Þjóðverjar og þeir sem til þeirra fluttust, langflestir Tyrkir - bjuggust við því að vinnuaflið færi svo í burtu þegar þess væri ekki þörf. En það gleymdist að gera ráð fyrir því að þetta var ekki vinnuafl sem kom til landsins heldur fólk, manneskjur. Ef að frá upphafi hafi verið litið á fólkið sem fólk og komið fram við það sem slíkt en ekki "farandverkamenn" eða "gestavinnuafl" hefði verið hægt að koma í veg fyrir fjölmörg vandamál í Þýskalandi nútímans. Fyrst ég fór að tala um Þýskaland í dag, þá er það þannig að þann 9. nóvember 1989 voru þýsk-þýsku landamærin opnuð, múrinn féll eða öllu heldur var brotinn niður.
--
En núna ætla ég að hitta hana Eyrúnu mína á Westbahnhof - við ætlum út í kvöld og vera hress og góð eins og alltaf.
---
passið ykkur á bílunum,
Lalli

laugardagur, nóvember 03, 2007

ok,ok - nú er ég til!

Takk fyrir að hafa beðið eftir mér kæra blogg - sumir hefðu fyrir löngu látið sig hverfa en þú beiðst og beiðst enda tryggur og traustur vinur sem að nennir að geyma bullið sem stundum kemur frá mér.
-
Allt þetta venjulega er komið af stað (fyrir löngu meira að segja) skólinn, veturinn, Vínarborg o.s.frv. Nýtt í fréttum er að ég er leiðbeinandi í íslensku við Skandinavíudeild Háskólans í Vínarborg, það er ágætis tilbreyting.
En annarrs erum við skötuhjúin í Vín komin á fullt í íbúðarkaupum - við fyltjum í okkar eigin íbúð í Vínarborg um mánaðarmótin Nóv-Des. Þetta er mjög falleg gömul íbúð, nýuppgerð með nýjum gluggum og gestaherbergi fyrir ferðalanga. Við erum ennþá að plana allt það sem hægt verður að gera við þá íbúð, en það verður ótrúlega gaman að standa í því.
--
Þetta væri nú ekki Lalla blogg ef ég segði ekki frá pólitískumálum af einhverju tagi. Ég las frétt um Enzo Rossi, ítalskan iðnjöfur sem ákvað að prófa að lifa af lámarkslaunum í 1 mánunuð. Hann reiknaði sér og konu sinni samtals 2000 € í mánaðarlaun og þau ásamt börnunum sínum tveimur reyndu að lifa á því í mánuð - þau fóru einu sinni öll í bíó og á pizzeríu, annarrs fóru peningarnir í venjulega reikninga og mat úr kjörbúðum. Þessi tilraun endaði þannig að þegar 20 dagar voru liðnir áttu þau 20€ eftir og gátu því ekki klárað mánuðinn. Enzo (not the baker!)sá með þessari tilraun sinni að sér og hækkaði laun starfsfólks í sínum verksmiðjum um 200€. Ef ekkert yrði að gert myndu samfélög okkar færast aftur til 19. aldar þar sem á hans slóðum menn voru annað hvort aðalsmenn eða daglaunafólk. - Sjáið þið ekki íslenska bankastjóra eða aðra alvöru karla fyrir ykkur gera svona "samfélagslegatilraun".
Mæli líka með áhugaverðri grein á Kistunni um hvarf verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi, greinin var skrifuð í kjölfar útkomu bókar sem fæst líkast til ekki í Thalia á Mariahilferstrasse.
---
ástar og saknaðar kveðjur frá heimaborg Habsborgaranna

fimmtudagur, júní 14, 2007

Dachs - Gerlich - Gottweis - Kramer - Lauber - Müller - Tálos (Hrsg)

14. júní, næstum öll verkefni búin, aðeins eftir að ditta að hinu og þessu í ritgerðum, það gæti tekið sinn tíma, en þar sem ég er búinn að skrifa þær þá ætti þetta að vera í lagi. Á morgun fer ég í próf, á laugardaginn í síðasta tímann í "Kyn í alþjóðasamskiptum", á mánudaginn er svo eitt verkefni (sem ég á eftir að gera) og lítið próf, svo er ekkert fyrr en 25.06 þá er stórt próf í "Austurrísk stjórnmál og Evrópusambandið", þann 27.06 er próf í tímanum "Grunþekking um ESB" og 28.06 í "Stjórnmála-umhverfis greiningu". - Rosalega var erfitt að þýða þessi nöfn yfir á íslensku, ég hef gott að því að komast heim og læra íslensku almennilega. 30. júní er svo loka skiladagur fyrir þrjár ritgerðir, en ég ælta að skila þeim í næstu viku frekar. Þann 4.júlí lendum við svo á Akureyrarflugvelli.. það verður næs, ógeðslega næs...
-
Ef ég verð duglegur, þá ætti ég ekki að blogga neitt fram til 29.júní. Sjáum til hvernig það gegnur, reyndar hef ég ekki sagt frá mörgu merkilegu undanfarið. Það þykir mér leiðinlegt, en ég hef bara verið með skriftregðu.
--
Ættu fleiri glæpamenn að heimta að fá sérstakt svæði úthlutað undir sína starfsemi eins og hraðakstursfíklar vilja?
"Fyrst þið viljið ekki hafa okkur á 170 á götunum, þá ætttuð þið bara að byggja fyrir okkur sérstakar brautir"
Hvernig væri að hætta frekar að keyra hratt, það er ekki lífsnauðsynlegt að aka eins og bjálfi.
---
pís
Lalli

mánudagur, júní 04, 2007

sjö fingur vs. tíu puttar

Í gær vorum við Eyrún svo ótrúlega heppin að Júlíus, íslenskur söngnemandi í Vín sem er héran í tveggja mánaða söngtíma- og tónleikaferð, bauð okkur á tónleika með Thomas Quasthoff þar sem hann söng Winterreise eftir Franz Schubert. Þvílíkur flutningur! Þvílíkur listamaður! Þvílíkur söngvari! Þetta var án vafa eitthvað það fallegast sem ég hef heyrt, hann söng í 70 mínútur tilfinninga þrungin ljóð og allir sem hlustuðu á hann gátu ekki annað en sýnt það í verki með því að trekk í trekk klappa hann upp, kanski allir nema konan sem sat einu sæti frá Eyrún sem hraut í næst síðasta ljóðinu. Svona kvöldstund á eftir að lifa lengi í minningum mínum. Að auki, þ.e. fyrir utan að hann gæti sungið hvar sem er vegna raddarinn og tækninnar, þá er Thomas Quasthoff líkamlega fatlaður. Þessa lýsingu fann ég á netinu: "1.34 meter groß, kurze Arme, sieben Finger - vier rechts, drei links - großer, relativ wohl geformter Kopf, braune Augen, ausgeprägte Lippen; Beruf: Sänger." Það er sérstak að sjá hann koma upp á sviðið, en þegar hann syngur tekur maður ekki eftir því hvernig hann lítur út, röddin og útgeislunin nær til allra í salnum. Jafnvel líka þeirra sem sofna undir lokin.
-
Á leiðinni heim mættum við svo frægari manni, með minni rödd en af mörgun talinn með meiri kynþokka. Á sunnudags kvöldgöngu á Kärtnerstasse var enginn annar en Justin Timberlake.

Ekki amalegt það.

bless í bili,
Lalli

þriðjudagur, maí 29, 2007

af næs einræðisherrum og illa lyktandi mótmælendum

Hugo Chavés fer á kostum sem einræðisherra herstjórnar þessa dagana, reyndar er ljótt að segja að hann fari á kostum, 10 manns voru myrtir þegar þeir mótmæltu lokun einkarekinar sjónvarpsstöðvar í Venisúela. Þrátt fyrir þessi átök og þessa kúgun "Sósíalistans" Húgó heyrist varla hósti né stuna frá vestrænum fjölmiðlum, í það minnsta á Íslandi. Fyrir örfáum dögum þótti mbl.is frekar en Vísi það fréttnæmt að lögrelgumaður á frívakt í Chicago lamdi 15 ára ungling. Svipað má segja af herskáum palestínum mönnum, stundum palestínskum hryðjuverkamönnum og ísraelska hernum. Ef palestínskir hermenn myrða einstakling í Ísrael kallast það morð, en Palestínumenn þeir falla oftast. Því þeir falla í stríð, en hinir eru myrtir af hryðjuverkamönnum. Pútín Rússlandsforseti stendur fyrir pólitískum ofsóknum, kúgunum og morðum gegn þeim sem ekki eru honum sammála. Fjölmiðlarnir segja frá því en stjórnmálamennirnir þora ekki að kvarta því þeir vilja ekki loka á olíuflæðið. Vinstrimenn gagnrýna aldrei Kúbu af gömlum vana, þeir eru örlítið líklegri til að kvarta yfir Kína.
Fjölmiðlungar taka ekki upp á neinu nýju, þýða einungis fréttir frá AP, Reuters o.s.frv. Hvernig ætli fréttaveiturnar fái sínar fréttir, þýða þær úr fréttum annarra landa? Internet fjölmiðlar og ókeypis miðlar ganga bráðum af aðhaldi "fjóðra valdsins" dauðu, sundurtættu og óendurlífganlegu. Össur Skarphéðinsson segir frá því hvernig spurningar hann hefur fengið frá því hann varð ráðherra, ekkert efnislegt, bara bölvað blaður. En það er hvorki hægt né skynsamlegt að pína fólk til að lesa, skrifa eða spyrja einhvers sérstaks, sbr. dæmið með Venesúelska skógardýrið Húgó.
-
Eruð þið búin að lesa ykkur til um G8 og mótmælin tengd þeim lokaða einræðisherra fundi? (Ég bið ykkur samt fyrir alla muni að muna að þegar ég gagnýrni G8 - ég styð aldrei ofbeldi eða skemmdarverk)
Þýsk yfirvöld vita í rauninni ekki hversu margir láta sjá sig í þessum mótmælum, ég væri ekki hissa ef yfir 100.000 gagnrýnendur alheimsvæðingarinnar mættu á svæðið. Auglýsingar um rútuferðir frá Wien og Salzburg til Heiligendamm hafa verið uppi í skólanum mínum í töluverðan tíma. Þessar ferðir eru á vegum Attac samtakanna. Ég vil ekki lengaja þess bloggfærslu með því að lýsa hvernig þau eru, en hvet ég ykkur til að kynna ykkur þau. Flestir þeir sem mótmæla í Heiligendamm eru ekki eins og þeir eru rangnefndir í fjölmiðlum, andstæðingar alheimsvæðingar, heldur gagnrýnendur vilja þeir sjá sanngjörn viðskipti en ekki bara frjáls viðskipti. - Enda er það heimskulegt að þeir einu sem hafa alþjóðlegar reglur um sín mál séu þeir sem þeir sem stunda viðskipti, en þeir sem vinna hafi mismunandi reglur tvist og bast!
Eitt sem svipaðir hópar og þeir sem mótmæla innan tíðar í Þýskalandi klikka samt oft á er að gangrýna ekki alla sem mikið er að hjá. Þegar Bush kom til Vínar í fyrra og ræddi við Evrópusambandsmenn, þá héldu sameinuðust svona hópar um að halda ráðstefnu sem bar yfirskriftina "Alternativas - eine andere welt ist möglich". Meðal gesta á þessari ráðstefnu var títtnefndur Chavés, hann arkaði þar um eins og Muhammed Ali á egótrippi og var fagnað eins og hetju. Ef svona mótmælahópar hefðu í andstöðu við Chavés viljað halda ráðstefnu í Venesúela, hefði lögreglunni líklega verið sigað á þá.
-
Það er enginn alslæmur, en allir eiga skilið gagnrýni og allir hafa rétt á því að gagnrýna.

pís
Lalli

sunnudagur, maí 27, 2007

!"#$%&/()=

Í gær sveik sólin okkur Eyrúnu, bjarta fallega sólin faldi sig bak við ský þegar við fórum í fyrstu sundferðina okkar í ár. Í kring um hádegið þegar við fórum í innkaupaleiðangur skein hún á allt og alla sem vildu láta skína á sig, en klukkan 14.30 var hún horfin bak við ský. Við spurðum skýin hversu lengi þau ætluðu að vera og hvort líklegt væri að þau sendu regndropa niður til jarðarinnar. Skýn svöruðu engu, ekki frekar en fyrri daginn, fyrir utan eitt lítið ský sem söng mjóróma að það væri bara að horfa á leiki mannanna. Þrátt fyrir líkur á rigningu héldum við af stað í átt að baðstaðnum, við borguðum aðgangseyrinn og skiptum yfir í sundbúninga. Þykkir skýjabakkar skýldu þeim kroppum sem bursluðu í pollunum, við settumst á bekk og reyndum að lesa í úr skýjunum hversu lengi þau myndu loka fyrir aðgang sólarinnar að fölbleikum líkkömum íslenskra námsmanna. Eftir að hafa dvalið dágóða stund töldum við líklegast að skýin væru komin til að vera og ekki nokkurt vit væri í því að sitja fáklædd við kaldaburslupolla mikið lengur. Við gáfumst upp og fórum. Á leiðinni heim tók að birta til og þegar við fórum út úr Ofanjarðarhluta-neðanjarðarlestar nr. U-6 var nánast heiðskýrt og sólin, fallega og bjarta, skein aftur á þá sem vildu láta skína á sig.
-
Ég get ekki annað sagt en að mér líst ljómandi vel á þessa ríkisstjórn, fyrir utan að Björn Bjarnason er áfram ráðherra. Samfylkingin kemur með ferskan blæ inn í stjórnina, konur fá til jafns við karla að takast á við ráðherraembætti (ráðfrúar) og um leið og Samfylingin tekur við er lagst í að breyta til í ráðuneytum. Að mínu mati hefðu frekari breytingar verið til hins góða, en ég skal hafa biðlund um hríð, því allt tekur sinn tíma.
--
Það er nóg að gera hjá mér þessa dagana í skólanum 4 verkefni framundan og leið og þeim líkur, PRÓF og nóg af þeim.
---
Um síðastliðna helgi var fór ég í handboltabulluferð til Essen og horfði á Dóra stýra Tusem Essen upp í úrvaldsdeild í þýskaboltanum. Mikið rosalega var ég kátur og hás, enda hef ég aldrei öskrað svona mikið, né lengi. Allan síðari hálfleikinn stóðum við og klöppuðum og til skiptist fórum við á taugum eða öskrðum úr okkur lungun.
----
pís,
lalli

p.s. kein macht für G8! bölvaðir hræsnarar að hittast 8 (reyndar 9) saman og ræða framtíð heimsins.

fimmtudagur, maí 17, 2007

nú híja einhverjir á mig..

Miðað við fréttir í dag og síðust færslu skaut ég mig e.t.v í fótinn, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hættu við að mynda stjórn og Geir H. Haarde sagði að líklegast væri að þeir myndu ræða við Samfylkinguna varðandi nýja stjórn. Þá er fyrsta takmarki X-S náð, því að stjórnmál snúast númer 1,2 og 3 um það að koma sínum málum á framfæri. En núna er svo líka tækifæri fyrir grasrótin hjá x-s að láta í sér heyra og hlífa hvorki x-s né x-d frá gagnrýni ef eitthvað er í ólagi. Án þess að ég haldi að nokkuð verði að, Samfylkingin stendur sterk á sínu og þá er allt í lagi.
-
Annarrs ætla ég ekki að segja neitt meira fyrr en eftir helgi, þá verður Dóri kominn upp í úrvalsdeild í þýskaboltanum og Samfylkingin komin í stjórn.

lalli

þriðjudagur, maí 15, 2007

ég viðurkenni..

ég er hundfúll!
-
Ég var svo ánægður um miðnætti þegar fyrstu tölur komu. Við á kosningavöku Samfylkingarinnar í Vínarborg, misstum ekki vonina þegar stjórnin náði aftur "meirihluta". En þegar ég vaknaði um morguninn og úrslitin voru ljós, hvarf sólin bak við ský og ólykt gaus upp úr holræsum Vínarborgar!
En í alvörunni, þá liggur við að manni líði svona, því að allt stefnir í að þessi stjórn haldi áfram, með eins þingmanns meirihluta og 48% atkvæða á bakvið sig. Þessi stjórn er ekki búin að vinna að neinu af viti síðustu ár, mestu máli hefur skipt að passa upp á stólana, að sem flestir fái að prófa sem flest ráðuneyti og enginn fari í hættulega mikla fýlu. Valgerður, Guðni og Sif nenna engan vegin að hanga sem óbreyttir þingmenn í 4 ár svo þau heimta frekar að fá fín ráðuneyti til að reka. Svo koma varamenn inn á þing í stað þeirra. Þessi stjórn hefur hvorki getu, þor, dug né metnað til að takast á við þau vandamál sem blasa við á Íslandi í dag.
--
En í rauninni er þetta ekki skelfilegt, vegna þess að þessi stjórn nær aldrei flugi, hún hefur á móti sér stóra og kraftmikla stjórnarandstöðu sem vex ásmegin við hverja hindrun. Ef að Íhaldinu dettur í hug að selja Landsvirkjun eða "finna" þá snilldar lausn að leysa vandamálin í mennta- og heilbrigðiskerfinu með eintómum einkavæðingum þá munu þeir einfaldlega fá fólkið í landinu upp á móti sér og þá mun stjórnin springa! Þetta verður líklega í desember og við kjósum aftur í Janúar og þá - LOKSINS - fellur stjórnin almennilega og til valda kemst stjórn sem að virðir fólkið í landinu.
---
En svo getur líka vel verið að ég hafi algjörlega rangt fyrir mér og það sé í rauninni þannig að 36% kjósenda á íslandi séu rúmlega fimmtugir, mjög vel stæðir karlmenn af Stór-Reykjavíkur svæðinu, sem reka sitt eigið fyrirtæki, eiga gríðarstóra bankareikninga, sem að þrá ekkert frekar en þeir hagnist sem mest á sem skemmstum tíma og er nákvæmlega sama á hvaða hátt það gerist eða með hvaða afleiðingum! Er fólk í alvörunni ekki búið að fá nóg af þessari óstöðvandi græðgi.
----
Það er eins og einhverskonar þoka liggi yfir Íslandi, þessi þoka blindar okkur og gerir það að verkum að við höldum að það sé náttúrulögmál: að vinna lengstu vinnuviku í Evrópu, að allir frá 17 ára aldri þurfi að eiga bíl, að þeir sem lægst hafa launin hafi ekki efni á því að lifa af í "ríkasta landi í heimi", að þeir sem tali um evrópusambandið vilji gefa "landið okkar", að bankar geti verið með vexti sem okurlánarar væru stoltir af, að matvælaverð heimskulega hátt.

Það er hægt að breyta þessu öllu, við þurfum bara að ákveða það. 52% þjóðarinnar vilja það en einhvervegin er það skrítið ætla að 48% ráða!

við felldum þessa ríkistjórn, höldum því bara áfram þar til hún hættir!

kveðja frá Rauðu-Vín
Lalli

fimmtudagur, maí 10, 2007

þriðjudagur, maí 08, 2007

ljómandi

Síðasta helgi var góð, það var meira en nóg að gera í skóla og skemmtun. Íslendingafélagið hélt sitt mánaðarlega bjórkvöld á föstudaginn og á laugardaginn hélt Bess, sambýlismaður Jóns, elskhugi hans og ástmaður*, upp á 30 ára afmælið sitt, auk þess sem High5 kjallarapöbbinn "okkar" átti eins árs afmæli. Við mættum að sjálfsögðu á alla þessa merkilegu viðburði. Auk þess kusum við á föstudaginn, en fengum hvorki svart né sykurlaust hvað þá bakkelsi að kosningu lokinni. Eftir kosninguna fór ég í heimsókn með Gundkurs: Österreichische Politik und EU í sjálft þinghúsið í Vínarborg, ákaflega falleg bygging og sjálfsagt væri hægt að koma íslenska þinghúsinu mörgum sinnum inn í það. Annar þingsalurinn var sprengdur í seinni heimstyrjöldinni (flott að við íslendingar gerum bara ráð fyrir fyrri og síðari), og gjöreyðilagðist hann við það, í kjölfarið var hann byggður upp í nútímastíl = 1950 stíl! Skrambans ólukka, stærri salurinn, þar sem Bundesversamlung (sameinað þing) kemur saman t.d. til að staðfesta kjör forsetans og minningarathafnir eru haldnar, er í ótrúlega fallegum gömlum stíl með styttum af heims- og stjórnmálaspekingum liðinna alda og einstaklega fallega innréttaður. Nóg af innlit útlit.
-
Auk þess sem að ég skemmti mér um helgina, lærði ég líka slatta þar sem ég þurfti að skila tveimur verkefnum á mánudeginum.
-
Þingkosningar nálgast óðfluga og mér sýnist Samfylkingin vera að toppa á réttum tíma. Jafnvel gæti farið svo að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn fái bara frí eftir kosningar! Einkavinavæðingu væri lokið. Virðing fyrir fólki tæki við. Stuðningi við morð lokið. Utanríkistefna friðar tæki við. Biðlistar þeirra sem minnst mega sín lengjast ekki meir. Heilbrigðiskerfið myndi vera rekið mannúðlega. Stöðnun í menntmálum væri lokið. Fjárfesting í framtíðinni í gegnum vel menntað fólk tæki við.
Vonandi verða íslendingar svo heppnir að sjálft sig í stjórn, þ.e. venjulegt fólk.

ps. hvernig virkar Morgunblaðið sem stjórnarandstöðusnepill?
-
kveðja úr Kupkagasse,
Lalli
*tekið skal fram að þeir eru samkvæmt því sem ég best veit og þeir sjálfir líka gagnkynhneigðir.

mánudagur, apríl 30, 2007

1.maí

Einu sinni á ári fer fólk sem trúir því að frelsi, jafnrétti og bræðralag eigi að vera leiðarljós í samfélögum heimsins út á götu, allskonar fólk, frá flest öllum löndum, úr margskonar atvinnugeirum, misróttækt en allt þetta fólk marserar engu að síður saman - í alþjóðlegri samstöðu á degi verkalýðsins, alþýðunnar, fólksins. Í baráttunni fyrir þessum degi hefur fólk verið myrt, lokað inni, lamið og niðurlægt. Það að fara í kröfugöngu þýðir ekki að þú haldir að þú sér verkalýður, ein þjáð sál þúsunda frá þúsund löndum. Það þýðir að þér fannst baráttan sem þetta fólk stóð í þess virði að gefa henni tvær klukkustundir einu sinni á ári og minnast hennar. Ennfremur þýðir kröfugangan einfaldlega að þú vilt setja manneskjuna í fyrsta sæti, það er hægt að útrýma fátækt og það er meira að segja ekki dýrt, hugarfars breytingu þarf bara til. Vegna þess að kerfið okkar í dag virkar ekki fyrir fólk, bara fyrirtæki, peninga og tilbúinn hagvöxt - en án hamingjusamra jafnra borgar sem lifa í frjálsu samfélagi sem kemur vel fram við alla, óháð kyni, þjóðfélagsstöðu, heilsufari og aldri. Þá skiptir það bara engu máli.
-
Gleðilegan 1.Maí
Lalli

föstudagur, apríl 27, 2007

lærdómur á föstudagskvöldi...

Einn sit ég og skrifa
inní gömlu húsi
enginn kemur að sjá mig
ekki litla músin

mánudagur, apríl 23, 2007

hæj

Ef sá sem þetta les er ekki búin að fara inn á síðuna hennar Eyrúnar og hlusta á tónleikaupptökurnar hennar, þá skipa ég þeim einstaklingi að gera það strax og koma svo til baka og klára að lesa bloggið mitt. Það er einfaldlega hollt og gott fyrir hjartað að hlusta á Eyrúnu syngja.
--
Hægt og bítandi færast þingkosningarnar nær og alveg jafn hægt og bítandi verða mis-málefnalegir stjórnmálablaðrarar í sjónvarpsþáttum, í dagblöðum og á internetinu heitari og æstari yfir eigin snilld og því hversu flokkurinn þeirra er ótrúlega frábærir. Til að klára röksemdafærslurmar er svo bent á að ýmist vinstri eða hægri menn séu það ógeðslegasta sem fyrirfinnst í gjörvallri veröldinn og að lokum er fólk uppnefnt sem kratar eða kommar, græningjar eða femistar og svo fasistar og íhaldsfúskar og ljóskur. Ég þarf varla að taka það fram að ég er áhugamaður um stjórnmál, ég læri stjórnmálafræði og ég hef verið upptekinn af stjórnmálum frá því ég kastaði snjóboltum ofan af svölum Alþýðuhúsins á Akureyri í átt að strákum sem pissuðu á vegg bak við sjoppuna Turninn, þá fór fram einhver fundur Alþýðubandalagsins. Stjórnmál eru skemmtileg, málefnaleg umræða um þjóðfélagið er lykillinn að því að það verði betra, en það lykillinn að því að við getum gert það betra, er að hlusta á hvort annað, án þess er umræðan tilgangslaus. Ef ekki þá getum við alveg eins bara kastað snjóboltum eða handsprengjum hvort í annað. Ég varð bara að létta á mér eftir að hafa lesið nokkur mogga- og vísisblogg. Sem betur fer eru margir þeirra sem koma í spjallþætti betur að sér í mannasiðum en sumir bloggarar Moggans og Vísis. Það eru ekki gerðar merkilegar kröfur á þá sem vilja verða þingmenn og -konur en við skulum í það minnsta vona að fólk taki starfið sitt alvarlega og sé málefnalegra en sumt fólkið sem styður það.
-
Jeltsín er dáinn. Undarlegt hvað allir verða alltaf góðir þegar þeir gefa upp öndina. Hann er kallaður lýðræðissinni, hvatamaður frjálsra viðskipta og einkavæðingar í Rússlandi og frelsishetja. En var ef til vill bara popúlisti, þegar hann meikaði það ekki í Kommúnistaflokknum og Sovétið var að liðast í sundur greip hann tækifærið og seldi allt sem hann gat selt á spott prís til þeirra sem voru honum þóknanlegir.
-
Þangað til seinna..
lalli

mánudagur, apríl 16, 2007

Aftur blogg eftir páska


Þessir páskar voru rosalega góðir, ferð til Essen, dagsferð um Köln, matur og vín, síðan ferð til Vínar. Hérna var frábært veður 22-25c° og glampandi sól alla dagana, svo að mamma og pabbi fengu sumarfrí um páska og Hanna og krakkarnir fengu sárabætur fyrir austurríska maíhretið sem þau lentu í í fyrra. Pabbi og mamma voru með nýju myndavélina sína, við Eyrún erum alvarlega að hugsa um að fara ekki til sólarstrandar eins og við áætluðum, heldur kaupa svona vél:)
Það er samt varla hægt að skrifa um allt fríið, það var bara einfaldlega gott.
-
Lalli

miðvikudagur, apríl 04, 2007

stubbaknús frá Knúti ísbjarnahún

Mikið rosalega eru stríð ljót, ég fór var að skoða tengil sem Atli setti inn á síðuna sína yfir á undermars.com, síðu þar sem hermenn í Írak birta sínar eigin myndir. Þar er hellingur af myndur af hauslausum búkum, hausum án búka og þar fram eftir götunum. - Ljótt og ekki fyrir viðkvæma.

Ég las nokkrar greinar um síðustu helgi í kynjafræðitímanum um Írak og Afganistan, í ljósi þess að ein helstu rök Bandaríkjamanna til að fara inn í Afgansitan var framkoma Talibana við konur. Reyndar voru stjórnin í Washington komin langt á leið með olíu- og viðskiptasamninga við Talibana á fyrri hluta ársins 2001, en hættu skiljanlega við það eftir 9/11, enda hafa viðskiptasamningar og sameiginlegir hagsmunir aldrei hjálpað þjóðum að hætta illindum og þessháttar. En aftur að konunum, feministasamtök í Bandaríkjunum höfðu bent Bandaríkjastjórn á ástandið í jafnréttismálum í Afganistan frá árinu 1996. Þessi feminstasamtök voru samt ekki rótæk, heldur meira svona liberal, en beittu sér engu að síður fyrir bættum hag kvenna í Afganistan. Miðað við hvað ég las í "Bóksalanum frá Kabúl" þá hefur ástandið ekkert skánað í Afganistan. Enda eru stríðsherrarnir í Norðurbandalaginu engu meiri herramenn, mannréttindafrömuðir eða jafnréttissinnar en Talíbanar. Ég skil aldrei afhverju stjórnmálamenn, úr upplýstum samfélögum, sem að myndu aldrei kenna barninu sínu að lemja gaurinn sem að var vondur við það. Telja að ofbeldi í alþjóðasamfélaginu sé raunhæflausn á vandamálum. Stjórnleysi Realista í alþjóðasamskiptum og -fræðum er ömurlegasta túlkun á samfélagi manna sem til er. Evrópa á róaðist ekki fyrr en allar þjóðirnar höfðu sameiginlegra hagsmuna að gæta. - Ef ég nenni skal ég skrifa betri grein um þetta síðar.. en núna verður þetta bara svona.
-
Núna eru páskarnir að koma. Því er fagnað víða um heim með auknu súkkulaðiáti, hvort sem eggið er tákn lífsins og sigurs þess eða bara gott á braðið. Á Íslandi virðast líka trúaðir og djammarar takast á um hvort sé mikilvægara að eiga frí eða fara á rall. Trúaðir vilja a.m.k. fá að hafa Föstudaginn Langa fyrir sig, en djammarar vilja halda brandarakeppni þá, miðað við hvað ég sá á einum fréttamiðlinum áðan. Í umræðum um fréttina kvörtuðu margir yfir frekju kirkjunnar að vilja halda í þessa frídaga, einn vildi fá að úthluta sínum "kirkju"frídögum sjálfur ásamt örðum frídögum. - Fyrir mér má fólk djamma og líka hugsa um flóknari hluti eins og trúmál, tilvist og gleðjast yfir gulum páskaungum. En er það samt fyndið að vera ekki trúaður, en vilja samt fá frídagana og flytja þá bara annað.. æj mér fannst það bara pínu kómískt. Sama manni finnst líklega ömurlegt að börn fermist og þyki ekkert verra að fá nokkra pakka með.
-
Annarrs förum við Eyrún til Essen á morgun, ég er alveg sáttur við þetta páskafrí...
-
ciao
Lallao

þriðjudagur, mars 27, 2007

já halló halló, nú ert þetta þú ég þekki þig...

Mig langar að biðjast velvirðingar á því að stundum, eftir að ég skrifa bloggin mín þá les ég þau ekki vel yfir og þess vegna eru stafsetningarvillur e.t.v. algengar hjá mér. Kanski er það vegna þess að ég er vitlaus, kanski vegna þess að ég er óheyrilega latur en líklegast vegna þess að ég flýti mér að blogga um allt og ekkert og ýti á "publish" simm-salla-bimm. Batnandi mönnum er best að lifa og ég skal bæta mig hvað þetta varðar. Einhverja fleiri galla veit ég um en nenni ekki að blogga um þá, ég held þeim bara fyrir sjálfan mig um stundar sakir í það minnsta.
-
Ég er, eða á að vera, að vinna í ritgerð ég skila henni á föstudaginn og svo eftir einn tíma á laugardaginn er ég kominn í páskafrífrífrífrí... Þá verðum við Eyrún fyrst hérna í kotinu okkar og höfum það gott og lærum ef við verðum dugleg. Svo förum við til Essen og hittum Hönnu, Dóra, Maju og Torfa og mamma og pabbi koma líka, eftir nokkra góða dag í Essen, fer svo allt liðið að Dóra undanskildum til Vínar þar sem við eigum eftir að eiga góðar stundir. Hér og þar, er og verður næs, ógeðslega næs!
-
Ég sá þýsk-franska heimildarmynd í gærkvöldi á ARTE, um nýnasista, rasista, kristna-hvíta gyðingahatara og fleiri slíka hættulega hópa. Hún sýndi svart á hvítu og í lit að alþjóðleg tengsl eru á milli þessara hópa, sérstaklega frá þeim sem kalla sig "Blood and Honour" sem að eru með mjög sterktengsl sín á milli og svo líka yfir til austurevrópu, en þar er örtvaxandi kynþátta, innflytjenda og útlendingahatur stórt vandamál og mikið áhyggju efni. Talað var við svona gaura frá a.m.k. þessum löndum Svíþjóð, Bretlandi, Bandaríkjunum, Serbíu og Rússlandi. Hóparnir í Svíþjóð framleiddu mikið af ljótum áróðursmyndböndum, þar sem m.a. voru byrt nöfn og heimilisföng meðlima anti-fasista hreyfinga í Skandinavíu og þeir þar með gerðir að skotmörkum nýnasista. Þessi þróun ætti að vekja meiri ugg meðal almennings, enda eru ekki nema 60 að hópar af þessu tagi komust til valda í Evrópu og reyndu að útrýma öllum þeim sem ekki voru þeim þóknanlegir. Hópurinn í Rússlandi var virkilega ógnvekjandi, skipulagður og með tengsl inn í Dúmuna og forkólfarnir þar stóðu eins og ekkert væri fyrir framan Kreml og réttu fram höndina og heilsuðu Hitler. Hóparnir í Bandaríkjunum voru beintengdir gömlu KKK hreyfingunni sem og kirkjum og prestum sem að höfðu vægast sagt undarlegar hugmyndir um heiminn. - Okkur sem líkar vel við lýðræði og mannréttindi verðum vera vakandi fyrir þessu og þora að mótmæla þessu, en umfram allt, taka mönnum alvarlega sem hata lýðræðið, hata litað fólk, hata almennt fólk sem ekki er 100% eins og það vill hafa það, taka þeim alvarlega því þeir eru vopnaðir, hættulegir og of þeir hika ekki við að drepa, pína og niðurlægja fólk og skemma fyrir því að við getum byggt um réttlátt samfélag.
-
Svo hef ég án vafa eitthvað til þess að tuða yfir á laugardaginn eða sunnudaginn.. þangað til þá
prumpkveðja,
Lalli

miðvikudagur, mars 21, 2007

umhverfið, alheimurinn og litli ég

Ég veit ekki hvort mér leyfist að skrifa um umhverfismál, hvað þá heldur reyna að halda því fram að ég sé umhverfissinni eða hafi almennt gaman að útiveru í náttúrinni. Það sem setur mig í þau spor að fá líklega ekki leyfi fyrir þessum skoðunum mínum, hjá þeim sem líklega lesa ekki bloggið mitt, er afstaða mín gagnvart Kárahnjúkavirkjun. Ég er s.s. hlynntur henni, ég veit að hún skemmir landið sem hún er á og setur ör á einn stað á Íslandi. En að mínu mati eru kostirnir fyrir Norðausturland einfaldlega fleiri. Þýðir þetta að ég sé ósjálfkrafa hlynntur öllum örðum virkjunum og álverum á Íslandi, nei engan veginn. Raunar held ég að núna sé fínt að staldra við, enda megum við varla menga meira samkvæmt Kyotobókuninni. Engu að síður þá er ég umhverfissinni og sem slíkur leiðist mér hryllilega umræðan um umhverfismál sem að ein og sér dóminerer allt annað á Íslandi í dag. Hún snýst um virkjanir og álver. Raunverulegar ógnir við heiminn, s.s. hlýnun jarðar fær varla að komast að, eyðing regnskóga ekki heldur, nei vatnsaflsvirkjanir. Fyrir mér eru umhverfismál, eins og flest öll önnur mál, alþjóðlegmál. Ef við á vesturlöndum myndum draga úr notkun einkabíla og minnka orkunotkun við t.d. upphitun húsa, einangra þau betur og nota minna gas. Á sama tíma og við myndum fella niður skuldir þriðja heimsins og aðstoða þar með þær þjóðir við koma sér upp betri aðstæðum gætum við breytt miklu. Því að fátækt þeirra gerir það að verkum að þau taka ekki þátt í baráttunni, þau hafa um annað að hugsa. Þetta myndi samt ekki leiða til kreppu, í fyrsta lagi hafa hagfræðingar svör við því þeim vandamálum sem upp gætu komið og með samstöðu gætum við tekið á þeim. Í hnattvæddum heimi getur ekkert eitt land sama hversu lítið eða stórt það er tekið einhliða ákvarðanir.
Heimurinn er langt því frá að vera jafn hættulegur og sumir á Íslandi virðast halda. Sameiginleg mynt Evrópu myndi ekki drepa Íslendinga, raunar las ég það í dag hjá Ásgeiri Jónsyni hagfræðingi að mikill meirihluti gjaldmiðla hafi verið gengistengdur við gull í upphafi 1900. Alþjóðleg samvinna á aðeins eftir að aukast, það þýðir ekki að ætla sér hvert í sínu eigin horni að hugsa um sín mál og þá lenda þjóðir heimsins í því að finna allar upp hjólið trekk en engin þeirra getur einbeitt sér að einhverju nýju. Til dæmis eyðum við Íslendingar/Evrópubúar (sumir) tíma og peningum í grænmetisrækt í gróðurhúsum, með að fólki í sólríkari löndum kemur sínum vörum ekki á markaðinn því hann er verndaður.
Vestur-Evrópu hefur aldrei vegnað betur en þau 50 ár sem hún hefur í sameiningu reynt að vinna úr sínum málum, auðvitað er Evrópusambandið ekki fullkomið, þess vegna er alltaf hægt að bæta það.
-
Til þess að geta skrifað lengra um þetta þyrfti ég að fara í hagfræði og tíminn minn "Politik und Ökonomie" byrjar á föstudagin... og núna er ég að fara (og ætti að hafa verið) að vinna í fyrirlestri fyrir kúrs um Kyn í Alþjóðasamskiptum.

kv.
Lalli

p.s. myndir úr hjólatúrnum okkar eru á myndasíðunni okkar Eyrúnar.

mánudagur, mars 19, 2007

góð helgi, yndislegur sunnudagur, erfið skólavika, ljúft líf,

Síðasti sunnudagur var ljómandi fínn, í alla staði. Við Eyrún vöknuðum á góðum sunnudagstíma, ekki of-sofin og ekki van, bara alveg passlega. Jón kom til okkar með Semmel (rúnstykki) og smjör, við fengum okkur soðin egg, tvo kaffibolla, lýsi, góð semmel, vítamín, appelsínusafa og síðast en ekki síst þá bakaði Eyrún kanilsnúða (umm). Svo héldum við af stað á hjólunum okkar og hittum Kristínu, sem að var við það að verða morgunhress, hún leigði sér hjól og kom með okkur í leiðangur. Við hjóluðum eftir Donau Insel meðfram borginni í dágóða stund en skiptum yfir á meginlandið til að komast meðfram Kalinberg og til Klosterneuburg. Þar sem við gæddum okkur á snúðunum og öðru góðgæti. Hjóluðum svo til baka inn í borgina aftur og stoppuðum næst við fallega brú, sem að sást í kærustuparamyndinni "Before Sunrise". Eftir hjólatúrinn elduðum við svo hörkufínt pasta saman og til þess að fullkomna daginn fórum við á jasstónleika, með hljómsveitinni Kelomat. Mjög snjallir spilarar, sem að léku sér mikið með tónlistina sína og tóku hlutunum ekki alvarlega, en voru samt ekki með óþarfa fíflaskap. Eftir að hafa tekið nokkur frumleg/nútíma jasslög, með tilheyrandi ískrum í blásturshljóðfærunum kölluðu þeir vin sinn inn á sviðið. Hann var með gervikúk á hausnum og kallaðist á við saxafóninn. Það er ekki á hverjum degi sem flinkur tónlistarmaður (saxófónleikarinn) kallar aula upp á svið til sín með gervikúk á hausnum til þess að herma eftir hljóðunum sem hann framkallar. Í laginu sem þeir léku eftir uppklapp fór trommarinn svo á kostum, skipti um tónlistarstefnur á nokkura sekúntna fresti: leiddi hljómsveitina á ca. 2 mínútum úr nútímajassi, yfir í brjálað fönk og hiphop sem síðan fór yfir í argasta rokk og að lokum lentu þeir í mjúklega hefðbundunum jassi þar sem lagið einfaldlega dó út....
Snilld.
Alltaf gaman að eiga góðan dag og leyfa náttúrinni, gróðri, vindi og veðri sem og mönnunum sjálfum að hreyfa við manni.
Ég sofnaði sæll og glaður í gærkvöldi.
-
Seinna skal ég blogga um pólitík, skóla, vandamál heimsins, illsku og heimsku mannanna. En eftir að hafa séð gaur með kúk á hausnum jassa, er ég bara of hress.
-
svo verður líka nóg að gera í skólanum á þessari önn, sem ég virkilega fíla...
kveðja,
lalli (ekki með kúk á hausnum)

miðvikudagur, mars 14, 2007

Skólinn er hafinn og hafið er ekki hér

Skólinn kominn á fullt, mér líst eins og alltaf í upphafi önnin líta einstaklega vel út. Ég er í þremur tímum um Evrópusambandið, einum um stjórnmál og efnahag, áfanga um kyn í alþjóðasamskiptum, svo er áfangi um Öryggis- og samvinnumálastofnun Evrópu og Politikfeld analyse.
-
Svo er hausinn minn að fyllast af kosningaáróðri handa lesendum mínum. En ekkert ykkar telst til íhaldsmanna, svo að þið eigið öll eftir að kjósa Samfylkinguna 12. maí. Ekki nema einhver lesenda minna þrái ríkisstjón þar sem alþjóðlegsamvinna yrði skammaryrði og tal um jafnrétti myndi ekki komast að fyrir netlögreglu og tilraunum til að skilgreina klám og síðar sannfæra þá sem eru ósammála um að þeir séu hálfvitar. Nei, kæru vinir, ég veit að þið viljið það ekki.
-
kv.
Lalli

p.s. kanski skal ég vera málefnalegri næst. En ég læt Árna Pál Árnason um það í bili.

laugardagur, mars 10, 2007

ó blogg mitt blogg

Blogg er nördismi, Íslendingar hafa nú, og fyrir nokkru meira að segja, algjörlega misst sig í bloggi. Það virðist enginn geta átt heimasíðu á Íslandi nema hún sé skráð hjá mogga-bloggi, í það minnsta ef einhver á að fara inn á hana. Stjórnmálamenn nýta sér þetta og skrifa um allt og ekkert og sumir leyfa örðum að segja skoðun sína á málinu, en ekki allir. Er það samt tilviljun að enginn málsmentandi Sjálfstæðismaður haldi úti flottri heimasíðu, ok, fyrir utan Björn Marskálk. Annarrs er það bara Eyþór Arnalds sem þótti það nógu mikilvægt til að blogga um að ISG hefði skroppið til Kanarí. En aftur að nördismanum, Íslendingar eru mega-nörd, sem dæmi um það er að ég er Íslendingur og nota orðið mega. Við misstum okkur yfir Rockstar og elskum Evróvisjón, íslenskir íþróttafréttamenn þykjast líka alltaf vera vinir íþróttamannanna. En nóg um það, við erum bara púkó.
-
Áðan sá ég í dagskránni hjá Rúv, Aplasyrpu.. svo kíkti ég aftur og sá að það var Alpasyrpa, það þótti mér leitt.
-
Ég er hress ekkert stress, bless, kex
Lalli

fimmtudagur, mars 08, 2007

framkallaðu bros fyrir heiminn


Hjartanlega til hamingju með baráttudaginn konur! Bara ef þið hefðuð meiri völd í heiminum, þá væri markt líklega einfaldara. Til dæmis ef fer sem mögulegt er að konur verði í æðstu embættum Þýskalands, Bandaríkjanna, Frakklands og Íslands. Fram-sam-fylking!
-
George Bush er í heimsókn í Suður-Ameríku þessa dagana, Bandaríkjamenn hafa ekki verið óvinsælli í háa herrans tíð. Hugo Chávez kallaði Gogga djöful úr ræðustól fyrir ekki alls löngu, Brasilíumenn ákváðu að fyrst það þyrfti að taka fingraför af öllum frá Brasilíu sem vildu komast til Bandaríkjanna væri best að gera svoleiðis við þá Bandaríkjamenn sem vilja koma til Brasilíu. Mótmæli gegn honum hófust með 6 milljón manna mótmælum í Sao Paulo, samkvæmt því sem ég las á Brasilískum fréttavef áðan. Það er búist við því að hann reyni að hvetja Brasilíumenn til aukinar framleiðslu á Etanóli, framleiddu úr sykurreyr, sem að þeir nota sem eldsneyti. Með því minnka jafnframt viðskipti þeirra við Venesúela, tilgangur þessa hjá Bush er ekki náttúruvernd heldur tilraun til að minnka áhrif Chávez í álfunni. Síðar mun hann fara til Úrúgvæ, Kólumbíu, Guatemala og Mexíkó.
Ef það verður erfitt að verja Bush í Brasilíu veit ég ekki hvernig það verður þegar hann kemur til Kólumbíu síðar í ferðinni, þar sem hann mun leggja áherslu á baráttu gegn kókaínframleiðslu. Það er hættulegt fyrir venjulega ferðalanga að þvælast til Kólumbíu, þá hlýtur jafn óvinsæll maður og Bush að eiga virkilega erfitt að ferðast um, sérstaklega ef hann vill berjast geng þeim sem stjórna helmingi landsins.

Þegar hann kom til Vínarborgar í fyrra vor, voru heilmikil mótmæli, hann stytti dvöl sína um 2 daga vegna þess og hin eiginlega mótmælaganga var í rauninni farin þegar hann var á leiðinni úr borginni. Af öryggisástæðum var þetta gert, enda leynast oftar en ekki mislitir ofbeldissauðir í svona hópum. Eins og kom svo á daginn þegar nokkrir hlupu beint að löggunni þegar að Hofburg var komið og grýttu hana. - Enda er öllum ljóst að lögreglumenn í Austurríki stjórna gangi heimsmálanna.
-
En það er bara að vona að hann komist lifandi frá þessu. Hvað ætli Bandaríkjamenn myndu gera ef Bush yrði ógnað að ráði? Ógnað að ráði, hvað meina ég, það eru 6 milljónir að öskra á hann að koma sér heim núna... Bara vonandi að þetta fari friðsamlega fram, því þessi lönd þurfa ekki á óvild Bandaríkjamanna að halda.. nóg hafa Vesturlönd gert þeim í gegnum tíðina.
-
Annarrs svona í lokin, þá fékk ég 1 einkun í tímanum sem ég átti eftir að fá einkun úr. 1 er hæsta einkunin hérna í skólanum, svo að ég fékk 10!

Lalli

mánudagur, mars 05, 2007

tekinn í misgripum


Vín. AP.
Íslendingafélagið í Vínarborg hélt sitt árlega þorrablót á góu á síðastliðinn laugardag. Blótið fór fádæmavel fram og annað eins hrútspunga- og sviðakjammaát og brennivínssvolgr hefur ekki áður þekkst utan landhelgi Íslands. Skemmtun kvöldsins fólst helst í því að eilítið ölvaðir söngvarar klöppuðu hvern annan upp og létu félaga sína syngja óæfðar aríur. Þegar tenórinn Snorri Wium var kallaður upp í annað skipti ákvað hann að láta ekki leika svo auðveldlega á sig og hnippti í öxlina á unga gullbarkanum og stórsöngvaranum Lárusi Heiðari Ásgeirssyni. Einar Guðmundsson bað Snorra um að synga "O sole mio", til að kynna Lárus fyrir áhorfendum eða til að koma honum í vandræðalega stöðu ákvað Snorri að láta Lárus fá hljóðnemann í augnarblik áður en lagið hófst. Þá komst upp um misgripin, Snorri hafði farið mannavilt og dregið með sér stjórnmálafræðinörd í stað óperusjarmatrölls. Allt kom fyrir okki og gítarspilið hófst og Snorri byrjaði á línunni "ó sóle mínó" sem hvert mannsbarn þekkir og kláraði það með sóma, að því loknu rétti hann Lárusi hljóðnemann og gerði Lárus sér þá lítið fyrir og samdi nýjan texta " ó snorri wium" og við rífandi fögnuð samlanda sinna, sem hvorki héldu vatni né brennivíni yfir dýrðinni.
-
Ég vona að þetta sé rétt haft eftir AP fréttastofunni
Kveðja, látrungs Lalli

föstudagur, mars 02, 2007

Kosningar eftir 73 daga


Ég bætti við nokkrum góðum tenglum á bloggið mitt, ég á eftir að fjölga þeim eftir því sem nær dregur að kjördegi. Í dag þá mæli ég sérstaklega með grein eftir Róbert Marshall og svo líka greininni eftir Hallgrím Helgason sem ég sagði frá í gær. Það er nefnilega grafalvarlegt mál ef að frjálshyggjuflokkunum með græna fálkann og grænu kindina verði ekki refsað fyrir að hafa misþyrmt íslensku velferðakerfi undanfarin ár. Þar að auki drógu þeir nafn Íslands í stríð, sem enn í dag nokkrum árum eftir að Bush sagði því lokið með sigri geysar af krafti.
Ég hef reyndar ekki áhyggjur af því að Samfylkingin fái ekki góða kosningu og enn minn áhyggjur eftir að Jakob Frímann gekk úr flokknum (!)(lol), í staðinn fyrir fornmæltann frum-stuðmann fengum við kröftugasta borgarfulltrúa VG í Reykjavík í tíð R-listans.
Síðustu skoðanakannanir á auðvitað að taka alvarlega, en Samfylkingin réttir úr kútnum, VG aftur á móti er að tapa grænasjarmanum og eftir standa Óli kommi, Steingrímur J., Ragnar Skjálfti, Kolbrún Halldórsdóttir í gamal dags baráttu fyrir afturhaldi. VG er nefnilega hvorki framsækinn né opinn og frjálslegur, heldur flokkur sem að sér alltaf bara eina lausn og eina leið til að leysa vandamálin, sína leið.
Heimurinn er bara ekki svo einfaldur og fólkið er jafn margbreytilegt og það er margt.

Lalli ..... kominn í gír;)

fimmtudagur, mars 01, 2007

kaffibolli og ritter sport


Ljómandi! Við erum aftur komin til Vínar og Eyrún fór í fyrsta tímann sinn í dag og ég var að skrá mig í þá tíma sem að ég vil fara í áðan. Einhverja tímana mun ég sitja í þessari fallegu byggingu á myndinni. Skildufög sem ég ætla að taka á þessari önn eru Stjórnmál og Hagfræði, Austurríki og EsB - bæði grunnkúrs og fyrirlestur, Samanburður stjórnmálakerfa - líka grunnkúrs og fyrirlestur. Svo skráði ég mig í tíma sem fjallar um kyn í alþjóðasamskiptum og annan sem að fjallar um OSCE. Svo tek ég líklegast tvo fyrirlestrar áfanga í viðbót, ef að eitthvað vantar uppá eða ég fæ ekki pláss þar sem ég vil vera.
-
Reykjavíkur ferðin var fín, það var gott að hitta alla og gaman að komast óvænt í afmælið hans Heimis á föstudaginn. Laugardagurinn var svo undirlagður fyrir útskriftarveislu frá 16-04:) við Eyrún vorum því skiljanlega þreytt á sunnudaginn, en mamma og pabbi fóru með okkur á sögusýningu Landsbankans og svo á Listasafn Reykjavíkur og því næst í pönnsur til ömmu. Það hressti okkur við.
-
Páfagaukurinn brjánsi er bjánalega blár blúndubani belgtroðinn af blammeringum brasilískum bambusveiðistöngum og kjúkklingabrjóstum.

Ekki reyna að verja það andskotans fífl!
-
Annars langar mig að benda ykkur á grein sem að Hallgrímur Helgason skrifaði og er á heimasíðunni hans. Hann kann að koma orðum á blað sá skallakrati, það er gott að hann skuli vera í réttu liði. Greinin heitir Hið karlæga kvenelti og Hallgrímur á þar marga góða spretti.
-
Tjá
Lalli

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Lungu jarðarinnar – í minningu Önnu Nicole Smith

Amasón frumskógurinn minnkar með hverjum deginum. Þessi stutta setning felur ekki í sér nein ný sannindi, enginn hrekkur við eða hváir, gamalt vandamál sem ennþá er til staðar sem ekki fær marga dálksentimetra í dagblöðum heimsins og fáir stjórnmálamenn velta fyrir sér. Það sem var vinsælast á mbl.is klukkan 19.15 á Valentínusardaginn 14. febrúar 2007 var:
Nr.1 – Lífvörðurinn kann að vera barnsfaðir Önnu Nicole.
Nr.2 – Upptaka af símtali hjúkrunarkonu Smith við neyðarlínu gerð opinber.
Nr.3 – Fréttastofur gagnrýndar fyrir slælega umfjöllun um andlát Önnu Nicole.
Nr. 4 – Þrír í haldi grunaðir um skemmdarverk í Hafnarfirði í nótt.
Nr.5- Verjendur mótmæla löngum yfirheyrslum í Bausmáli.
Fyrstu þrjár fréttirnar um konu sem var fræg fyrir það vera fræg og nú nýlátin, fjórða fréttin um skemmdarverk unglingspilta í Hafnarfirði og sú fimmta um svartan blett á íslensku samfélagi. Ef til vill er það Mogginn sem aldrei lýgur sem virðist helst setja upp slúðurfréttir á vefinn eða þá að íslenskir lesendur velji sér ekki alvarlegra lesefni.

En ég fór að velta fyrir mér Amasónskóginum eftir að afi minn gaf mér eintak af National Geographic, hann sagði að þar væri grein um Brasilíu sem ég hefði vafalaust áhuga á. Mikið rétt hjá gamla, þar var grein sem hét Amazon – Forest to Farms. Battel to Stop the Land Grab. Hún vakti mig til umhugsunar í flugi milli Englands og Austurríkis. Hún minnti mig á að landið sem að ég var svo heppinn að fá að kynnast í heilt ár 17 ára gamall þarfnast hjálpar frá Evrópskum Jafnaðarmönnum. Evrópa er nefnilega vandamálið, við þurfum ódýr matvæli og til að framleiða þau þarf ódýrt hráefni. Regnskógurinn er höggvinn niður og nautgripum beitt á landið. Eftir að það grær aftur er soja plantað og baunirnar sendar beint til Evrópu þar sem þær eru nýttar, skv. því sem ég sá á BBC, til kjúklingaeldis. Ég veit ekki með ykkur en ég hef lítinn áhuga á því að verða saddur á kostnað þess að Amasón frumskógurinn hverfi. Þeir íbúar Brasilíu sem að reyna að standa upp í hárinu á landræningjunum, lifa við ofbeldi og hótanir og hundruðir þeirra hafa fallið í valinn á síðustu áratugum. Þeir sem að rækta sojabaunirnar eða eiga nautgripina eru ekki hluti landlausra fátækra bænda, heldur stóreignamenn með viðskipasamninga í Evrópu og þeir standa ekki sjálfir í búskapnum. Einn þessara mann er Blairo Maggi, fylkisstjóri í Mato Grosso og einn stærsti framleiðandi sojabauna í heiminum, en hann á yfir 400.000 ha (4000 km2) af ræktarlandi. Alríkisstjórnvöld í Brasilíu, Umhverfisráðuneytið og fleiri vilja stöðva þessa þróun, en á meðan markaðurinn í Evrópu kallar á meira og aftur meira, er lítið hægt að gera. Skógarsvæðið sem á hverjum degi hverfur undir sojarækt fyrir Evrópu er stórt, en land eins og Brasilía, þar sem vandamálin eru mörg og stór, ræður ekki eitt og sér við verkefnið.
Er það ekki athyglisvert að 80% þeirra sem búa við hungur í heiminum búa á svæðum sem nærri eingöngu framleiða mat. Á meðan að við í Evrópu áttum okkur ekki á því að við erum hluti, og e.t.v. rót, vandans þá er hann ennþá til staðar.

Afhverju þarfnast Brasilía og önnur sambærileg lönd hjálpar jafnaðarmanna? Einfaldlega vegna þess að það er í kjarna jafnaðarstefnunnar að líta á heiminn sem heild. Í dag, á tímum alheimsvæddrar peningahyggju og hlýnunar jarðar, er það hlutverk evrópskra jafnaðarmanna að snúa blaðinu við. Hugmyndin um jöfnuð þekkir ekki landamæri. Í fjölmiðlum á Íslandi fangar andlát Önnu Nicole Smith athygli okkar, en á jörðinni okkar eru vandamálin stærri og fleiri. Við höfum vitað af þeim alltof lengi, núna er kominn tími fyrir aðgerðir á öllum sviðum, ef ekki þá er baráttan gegn mönnum eins og Blairo Maggi, peningahyggju þeirra og vanvirðingu gagnvart öðrum íbúum heimsins fyrirfram töpuð.

hafið það gott,
lallinn ykkar

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Ruhrgebiet -Metropole

Tvær myndir: An Inconvinient Truth og Blood Diamonds.
Fyrri mjög góð til að fá upplýsingar um loftslagsbreytingarnar og sjá að við öll berum ábyrgð og getum gert eitthvað til að hjálpa.
Seinni mjög góð en líka mjög ljót, e.t.v. vegna þess að hún sýnir heiminn eins og hann er, hún segir manni líka að við öll berum ábyrgð í málum sem að við skiljum kanski ekki fullkomlega. Það eru nefnilega þessir hvítu-ríku-kallar sem hafa verið með skítugu lúkur sýnar mitt inní í nánast öllum átökum sem við þekkjum. Það er samt óneytanlega leiðinlegt að fara í bíó og missa trúna á mannkynið, en við erum bara svo vitlaus á köflum , ef ekki öllum köflum.
-
Þegar að við höldum að við gerum allt rétt, politically correct, þá erum við samt svo illa upplýst og með fáa möguleika til að gera eitthvað í málunum að við getum ekkert gert. Neytendasamtök eru engan vegin að standa sig og hafa ekki náð að skapa sér nógu stórt vinnusvæði. Hversu margir myndu til dæmis minnka kjúkklinga át í Evrópu ef allir vissu að sojabaunirnar sem að notaðar eru til að fæða kjúkklingana koma frá Amazonsvæðinu í Brasilíu, þar sem regnskógur er tættur niður svo að við fáum ódýran kjúkling. Þetta væri gott verkefni fyrir neytendasamtök, ekki aðeins geta reikið vöruna til bóndans sem ræktaði kjúklinginn, heldur alla aðra vörur sem notaðar eru í framleiðslunni. Ég kæri mig ekki um að vera saddur ef að Regnskógar hverfa í kjölfarið.
Ef til vill er lausnin við þessu bara bylting.
-
Pælið í því ef að allir peningarnar sem að Bandaríkjamenn hafa eytt í Íraksstríðið hefðu farið í mannúðarstarf? Skólabyggingar? Brunna? Læknastöðvar? .. þessi auma veröld.
-
Á eftir förum við Eyrún til Essen og hittum alla þar! Það verður gaman, það er svo langt síðan við höfum farið til þeirra, núna verðum við frá fimmtudagsmorgni til þriðjudagskvölds og höfum það gott. Maja og Torfi Geir verða pottþétt í stuði og Hanna og Dóri líklega líka, okkur hlakkar til að koma í morgunmat á morgun hjá þeim.
-
Ástar- og saknaðarkveðjur til þeirra sem þekkja mig,
Lalli

miðvikudagur, janúar 31, 2007

Að lokinni prófatíð

Þá er ég búinn að klára þessa prófatíð, hún var stutt en ég á líka eftir að skrifa 3 ritgerðir sem ég á að skila á næstu önn. Reyndar grunar mig að ég eigi eftir að taka eitt af þessum prófum aftur, helvítis Politische Theorien, hljómar einfalt og er það líka, nema fyrir mig sem þarf að læra tungumál á meðan ég skil og get skilgreint hugtök, kenningar og hvað þetta heitir allt saman. Í því prófi svilduðu samnemendur mínir svo mikið að mig blöskraði, virkilega, ég sem var e.t.v. sá eini sem hefði getað með einhverju móti "mátt" svindla gerði það að sjálfsögðu ekki. Í prófinu sem ég var í í morgun var þannig uppbyggt að þú getur ekki svindlað, það má taka allt með sér í prófið sem að mögulega gæti hjálpað þér. Prófið, í Politik und Recht, snérist sem sagt ekki um að muna uppbyggingu stjórnkerfa, stjórnarskráa, alþjóðalaga, o.s.frv. heldur að vera klókur að bera þetta saman og geta lesið út úr uppbyggingunni hvernig hún er og þesshátta. Ég held að ég hafi staðið mig ágætlega, vona það besta að minnta kosti. Fyrsta prófið sem ég fór í var auðvelt, Historische Grundlagen der Politik, ég vona að ég fái a.m.k 2 í því.
Kerfið hérna er þannig að einkunnir eru gefnar frá 5-1 og 1 er best, 5 er fall, 4 er slef, 3 er ágætt og 2 er líkast til aðeins meira ágætt.
-
Þvílíkur leikur í gær! Ég vorkenni "strákunum okkar" alveg heilan helling. Eftir að Baunadruslurnar skoruðu síðasta markið hélt ég að ég yrði ekki eldri. En slökunartónlist og róleg öndun reddaði lífinu mínu og því að ég gat haldið áfram að læra eftir leikinn.
-
Núna í febrúarfríinu okkar verður nóg að gera, við þurfum að læra helling, ég að skrifa ritgerðir og Eyrún æfa sig daglega því hún fer í stórt próf í vor. Svo förum við til Hönnu og co . í Essen í tæpa viku og heim yfir góða helgi. Á milli þess förum við í ræktina, kaffihús lesum jólabækur (sem við eigum ennþá inni:)) og njótum þess að vera í Vínarborg.
-
Svo ætla ég líka að vera duglegur að blogga, þætti líka væntum ef einhver kommentaði á þetta hjá mér. Þó svo að þið gerið það ekki þá skiptir það ekki, Íslenska-, Ameríska- og Austurrískaleyniþjónustan skoðar þetta.

Kex í baði,
lalli

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Nýtt! nýr nútími

Nýtt ár. Nýr Lalli. Það besta við nýja árið, ef að maður skildi ágætlega við það gamla er að maður getur byrjað upp á nýtt, með ný markmið og leyft nýjum hugmyndum að ráða.
Ég fór í tíma í morgun og skilaði síðasta verkefninu mínu í þeim tíma í gærkvöldi, svo seinni partinn fór ég í annan tíma en kennarinn vildi ekki kenna, hann vildi taka þátt í þeim mótmælum sem að staðið hafa yfir undanfarna daga hérna í Austurríki. Þannig er mál með vexti að kosningaloforð SPÖ (sósíaldemókrata) var að afnema skólagjöld á háskólastigi, sem síðasta ríkistjórn kom á og það var þeirra kosningaloforð og það átti að gerast strax eftir að þeir kæmust í stjórn. En þegar að á hólminn var komið og SPÖ áttu engan annan kost en að mynda Stórbandalag með ÖVP (Þjóðarflokknum) og í þeim viðræðum tókst ekki að koma í gegn afnámi þessara gjalda. Ein hugmyndin sem að sett var fram var sú að þeir sem ekki gætu borgað skólagjöldin (ca. 400€ á önn) gætu unnið fyrir þeim með 60 stunda "samfélags"vinnu = 6.5€ á tímann eftir skóla. Þeir fátækustu ættu sem sagt að vinna samfélagsþjónustu til að geta lært. - Afhverju borga þeir þetta ekki með sumarlaununum sínum? Hvað með námslánin? Kerfið er ekki það sama og heima og það er ekki alltaf hægt að stökkva inn á næsta vinnustað og fá vinnu eins og heima.
Ég reyndar stoppaði stutt við núna, þar sem ég þarf að klára verkefni fyrir morgundaginn en þessari baráttu austurrískra námsmann fyrir jöfnum tækifærum til náms er ekki lokið, svo að ég læt ef laust sjá mig næst. Kennarinn sem að fékk okkur til að ganga út úr tíma, sagði okkur meðal annarrs frá því að stofan sem við værum í væri skráð fyrir 160 manns en þegar Leopold Engleitner, sem ég sagði frá um daginn, spjallaði við okkur voru 400 manns í stofunni. Skólinn minn er stór, það eru 60- 70.000 nemendur í honum, en mér líkar vel við hann, þó að það sé annað að vera í stórum sal en ekki eins og í Unak þar sem voru e.t.v. 6 í Nútímafræðitímum.
-
Svo er ég búinn að lesa mikið um Amazon frumskóginn undarfarið og ætla að leita mér að frekari upplýsingum um vandamálin þar. Skógurinn er tættur niður fyrir sojabaunir sem fara á evrópumarkað. Æj hvað það er nú gott hugsa sumir, það getur ekki verið mikið, það eru svo fáir sem borða Sojabaunir... Nei ekki alveg, þær eru notaðar sem fóður fyrir t.d. kjúkklinga. En ég þarf smá meiri upplýsingar og tíma til að vinna úr þessu máli, sem undarlegt en satt virðist ekki brenna á Græningjum Evrópu...

Lalli á spani