fimmtudagur, janúar 31, 2008

Ball ballanna

Viðbót þar sem mér blöskraði áðan: Silfrið Rúv

Spilling eða ekki spilling, þetta er ógeðslegt - hvaða heilvita einkafyrirtæki ræður mann til sín með því að borga honum 300 milljónir (!). Svo er þetta trekk í trekk réttlætt með því að ef mönnunum séu ekki borguð hærri laun heima þá fari þeir bestu úr landi, hefur einhverjum þeirra svo mikið sem verið boðin staða við stóran erlendan banka? Var það ekki þannig að forstjórar íslensku smáfyrirtækjanna eru með hærri laun en forstjórar Skandinavískra stjórfyrirtækja eins og Ericsson. Þessir menn sem taka á móti þessum greiðslum hafa ekki vott af siðferðiskennd í sér og það fólk sem ver þetta hérna að ofan varla heldur. Ef þú ert með milljón á mánuði, þá ertu ríkur og getur leyft þér nánast allt, en 300 milljónir fyrir að byrja í vinnunni! Svo um leið og einhver dirfist að segja eitthvað á móti þá er það "öfund" - ég þekki ekki neinn sem öfundar þetta siðblinda og spillta fólk. Það eru greinilega einhverstaðar til peningar í þessu samfélagi þó að leikskólar séu ekki mannaðir, elliheimili undirmönnuð og að því er virðist er siðferðiskennsla við íslenska skóla í algjöru lágmarki.

En passið ykkur að mótmæla þessu nú ekki of kröftuglega, þið gætuð umbreyst í skríl.
--
Í dag gleðjast velstæðir Vínarborgarar, það er komið að sjálfu Óperuballinu. Þar keppast þeir sem aur eiga að sýna hversu flottir þeir eru og svolgra í sig Kampavíni milli þess sem þeir dansa Vínarvals við tónlist Óperu Sinfóníunar. Miðinn inn í húsið kostar 270 € í stæði, s.s. þá máttu vera niðri og dansa o.s.frv.. Þeir sem að eru í alvörunni flottir, fínir og frægir þeir leigja sér bás (loge) í Óperunni og geta þannig lokað sig af og notið þess að fá hvíld frá skítugum almúganum á götunni og verið með fólk sem er fínu fólk sæmandi. Það þarf að loka götum og 700 lögreglumenn verða á vakt í kringum Óperuhúsið til að koma í veg fyrir að skríllinn komist ekki nálægt ballinu. Reyndar hefur oft komið til þess að alvöru skríll, s.s. ekki í morgunblaðs/sjálfstæðisflokks túlkun á því orði, heldur grjót- og molotovkokteilakastandi rugludallar mæti á svæðið til að "berja fína fólkið í augun". Þeir sem að bara vilja púa á eyðsluna og oflætið hætta sér ekki í svoleiðis skrílslæti.
-
Þessi veisla skilar Staatsoper líklega meiri tekjum en allt annað sem að hún setur upp, enda ekki nema örfáir skemmtikraftar sem þarf að borga og þeim mun meira af Kampavíni sem selst. En þeir sem að geta eytt í þetta mættu líka gefa svolítið með sér og því væri snjallt fyrir Óperuna að gefa fólki möguleika á því að borga í góðgerðarsjóð eða eitthvað slíkt á sama tíma og miðinn er keyptur. Reyndar veitir Óperunni heldur ekkert af aurunum því þar koma fram á hverjum einasta degi tugir listamanna á heimsmælikvarða. Það er einmitt það fallegast og skemmtilegasta við ballið, að sjá balletinn, sem að þessu sinni var Fussballet í tilefni af EM í fótbolta og svo söng sjálfur Carreras, svolítið gamall orðinn en flottur engu að síður. Svo tekur við snobb, snobb og aftur snobb. Íslenskir auðkylfingar og bankaræningjar væru flottir þar að láta rigna kampavíni upp í nefið á sér.
--
Þeir sem að lesa bloggið mitt en eru ekki búnir að lesa Rottumanns bakþanka Óla Sindra, ef einhverjir eru, þá eru þau hér með hvött til þess.

Lalli

þriðjudagur, janúar 29, 2008

eigoobiguM

Fyrsta próf búið og fyrirlestur sama dag, hvort tveggja gekk vel - ég bullaði um Open Source og Póstfordisma í Arbeit am Ich og náði að skrifa góða ritgerð í Gesellschaftstheorien, kennarinn virtist líka ánægður með bókina sem ég valdi að skrifa ritdóm um "The Protestant Ethic and the Spirit of Capitalism" vonandi verður hann bara jafn ánægður með útkomuna.
-
Stundum þegar ég les blogg þá verð ég að kommenta á þau, hálfleiðinlegur kvilli en ég held að þetta sé frekar af því að mig langi að segja hæ yfir hafið frekar en að ég sé uppáþrengjandi mófó. Ég setti til dæmis tilgangslaust komment inn á síðuna hans Óla Sindra áðan. En hvað um það.
--
Ég er búinn að sniðganga mbl.is síðan eftir að borgarstjórnin féll ekki af fúlleika og svekkelsi heldur vegna þess að það er fáránlegt að sætta sig við svona umfjöllun. Der Standard sem að ég les hefur u.þ.b. 300.000 lesendur og er mjög svo kraftmikill og málefnalegur fjölmiðill. Ég bíst nú ekki við því að nokkur taki uppá því að starta nýju blaði núna, það væri eins og að framleiða Túbusjónvörp í massavís. Það væri samt mjög gott að fá kraftmikinn vefmiðil, sem kafar dýpra í málin en Eyjan - þó hún sé afbragð.
---

En í bili segi ég bless kex.
lalli

föstudagur, janúar 25, 2008

Framhald frá í gær...

Í mogganum í dag stendur eitthvað á þessa leið:
"Þeir sem missa völdin geta verið ósáttir við þessa breytingu en þeir eiga engan annan kost en að kyngja breytingunni og leitast svo við að snúa henni við í næstu borgarstjórnarkosningum, sem fram fara eftir rúmlega tvö ár."

Bíddu nú við? Samkvæmt þessu hefðu Sjálfstæðismenn átt að "kyngja breytingunni og leitast svo við að að snúa henni..." Já, eins og ég sagði í gær þá er öll vitleysan eins.
-
En það er a.m.k eitt jákvætt við allt þetta rugl, í svona aðstæðum sjáum við íhaldið í sínu rétta ljósi - í ritstjórnargreinunum, í viðtölum og á heimasíðum sjálfstæðismanna koma þeir undan bleiku sauðagærunni og sína drulluskítugar krumlurnar. Ætli það séu ekki bara spennandi tímar framundan í íslenskri pólitík?
--
En það sem ég reyndi að koma frá mér í gær með Volksbegehren, en begehren þýðir að sækjast eftir, köllum það bara "Þjóðarsókn" þar sem þjóðin sækist eftir því að fá umfjöllunum um mál. Og það er eins og ég hélt, 100.000 manns þurfa að skrifa undir áskorunina, en eftir að tillagan er lögð með a.m.k. 8.000 staðfestum og trúverðugum undirskriftum sem er ca. 1 % íbúa Austurríkis, hefur sá hópur 10 taga til að fá 100.000 og þá fjallar Nationalrat/Þingið um málið. Frá 1964 til 2004 náðu 29 tillögur inn á þingið - í rúmlega helmingi tilfellanna voru það samt ekki borgararnir sjálfir heldur stjórnarandstöðuflokkarnir sem að lögðu tillögurnar fram og því voru þær felldar. Einnig þurfa tillögunar að vera settar fram tilbúinn texti sem stenst lög, sem að minnkar möguleikann á því að einhver vitleysa komsti inn. En möguleikinn er a.m.k. fyrir hendi, annað en heima.
---

lalli

fimmtudagur, janúar 24, 2008

Öll vitleysan er eins...

Borgarstjórnarbrölltið í Reykjavín City er með undarlegri sýningum á pólitískuleiksviði Íslands í langan tíma - allt í senn harmleikur, gamanleikur og svo dramatísk sjúkarhússaga (sem má ekki tala um. Það eina sem vantar í þetta er spenna og þó það er jú spennandi að fylgjast með bullinu í mbl.is og þeim sem greinilega eru hægri sinnaðir bloggarar þar. Skrílslæti og afbökun á lýðræðinu heitir það að hrópa og kalla í ca. klukkutíma og labba svo sjálfur út!
-
Svo ég sleppi nú klisjum og týpísku tuði á íslenskan bloggmáta.
--
Nú hef ég ekki tíma til að leita að upplýsingum um rétt íslenskra borgara til að leggja fram tillögur á þingi. Í Austurríki geta borgararnir sjálfir með undirskriftarlista 100.000 manna af rúmlega 8. milljónum, en þá getur s.s. fólkið í landinu lagt fram tillögu um lög eða reglur sem þingið síðan fjallar um. Þetta væri e.t.v. eitthvað sem nytsamlegt væri á Íslandi núna.

lalli

miðvikudagur, janúar 16, 2008

íslandistar

Ótrúlegt hvað maður eins og Egill Helgason, sem telur sig mjög gáfaðan og leikur sitt hlutverk eftir því getur verið þröngsýnn. Umræðan á síðunni hans um Íslam og hryðjuverk er undarleg í meira lagi, umræður hans og kolbeins í athugasemdakerfinu eru fróðlegar - í það minnsta til að átta sig á þeim takmörkunum og hömlum sem trufla þennan "áhrifamesta fréttaskýranda" landsins.
-
Annarrs er það helst að frétta frá Austurríki að Frjáslindir (FPÖ, die Soziale Nationalpartei (sic!)) í Graz reyndu að veiða atkvæði með því að benda á þá staðreynd, að þeirra mati, að Muhammed hafi verið m.a. barnaníðingur. Fyrir vikið er búið að hóta konunni sem þetta sagði, Susanne Winter, lífláti. Frekar mikil dramatík hjá bókstafstrúuðum Múslimum eins og svo oft áður, aðrir í Austurríki s.s. forsetinn og fleiri fordæma þetta harðlega og alvörublöð eins og Standard taka FPÖ fíflin í gegn í greinum. En "die Globale Islamische Medienfront" hótuðu einfaldlega að drepa hana. Ef að einn flokkur myndi taka íslenska innflytjendur fyrir og leggja okkur í einelti þá myndi ég sletta á þau skyri - er það ekki svipað á þeirra mælikvarða - við slettum skyri - þau drepa fífl (eða fólk sem þau telja vera fífl-fólk sem hefur samskipti við fífl osfrv)? Nei kanski er þetta ekkert líkt. En mér finnst samt gaman að sjá að íslendingar vilja greinilega vera með í alheimsumræðunni og ræða um hryðjuverkamenn eins og aðrir, þó þeir séu kanski ekkert á leiðinni á klakann.
--
Okkar vandamál á Íslandi eru oftar en ekki lúxus-vandamál, auðvitað mætti fjölmargt betur fara en þó er flest í lagi - eða kanski vinnum við bara svo mikið að við sjáum ekki vandamálin. En hvað um það maður myndi halda að þetta gæfi okkur forskot t.d. í umræðum um vandamál og málefni sem eru okkur fjarlæg eins og Íslam - við gætum tekið á þeim Theoriskt en ekki í upphrópana stíl a la Jörg Haider, sem að sá sér leik á borði og bætti við umræðuna í Austuríki í ræðu nýlega: "grüss gott" sagði hann, sem þýðir heilsaðu guði og fólk segir þetta í staðinn fyrir Góðan dag, má maður ekki ennþá segja Grüss gott? bætti hann við, þarf nokkuð að segja "Allah ist groS".
Við þurfum nefnilega að passa okkur að viðhalda umræðunni og þeir sem að hafa eitthvað til málanna að leggja verða að tala - það er stórhættulegt að láta fólk eins og Winter og Haider að ógleymdum H.C. Strake sjá um umræðuna.
---
Lesendur La Rusl hafa að sjálfsögðu mörgu við þessa umræðu, sem og aðrar, að bæta svo þið látið í ykkur heyra - annað er einfaldlega hættulegt.

Auf wiedersehen,
Lárus

miðvikudagur, janúar 09, 2008

hljóðheimur=ljósheima+hurð

Mikið er gott að vera kominn heim, þ.e. í íbúðina okkar í Vín - en það er líka alltaf svolítið skrítið að yfirgefa hinn staðinn sem við köllum heim. Ísland er yndislega skrítið og þær taugar sem maður ber til þess eru jafn skrítnar og það sjálft er skrítið. Við vitum öll hvernig það er - kalt, dimmt og blautt bróðurpart ársins og yfir sumarmánuðina vex þar gras og nýlega innfluttar haustplöntur frá meginlöndunum beggja vegna við okkur. Fólkið er líka (ég þar á meðal) undarlegt svo ekki sé meira sagt, en kanski er það einmitt það sem gerir landið gott. Á Íslandi er t.d. hægt að segjast hafa farið niður í bæ að skoða mannlífið og gera það í orðsins fyllst merkingu. Einfaldlega sitja á kaffihúsi og horfa á annað fólk. Frænka mín sem bjó lengi í Stokkhólmi þótti alltaf undarlegt að koma heim og labba niður Laugarveginn eða vera á öðrum fjölförnum stöðum því þar horfðu allir á hana og henni fannst eins og hún ætti að þekkja þetta fólk og heilsa því, á meginlandinu glápir maður ekki á fólk sem maður þekkir ekki. Nema ég, þegar ég er í Neðanjarðarlest, Strætó eða Sporvagni þá eru allir svo uppteknir við að horfa á nákvæmlega ekki neitt, að Íslendingurinn ég get leyft mér að glápa, en auðvitað bara pínu. Reyndar virðist það vera samþykkt af samfélaginu að dást að hundum og börnum í almenningssamgöngukerfi Vínarborgar, enda eru bæði hundar með múl og börn með snuð vita meinlaus.
-
Mætingin í íslensku tímana mína sló með í dag þegar að svo mikið sem núll nemendur mættu. Jón Bjarni Atlason íslenskukennar í Vín sagði mér þá að nemendur væru lengur í gang en við kennararnir.
--

vesist blesa,
lalli