fimmtudagur, mars 30, 2006

röð

Enn einn daginn byrjaði ég á því að fara í Ölweingasse og athuga hvort mér hefði borist bréf, og hvað haldið þið? Auðvitað barst mér ekki bréf frekar en liðsforingjanum hans Marquez. En ég var búinn að segja sjálfum mér það að ef ég ekkert bréf hefði borist, þá færi ég bara niður eftir og heimtaði að fara í skólann. Ég mætti tveimur klukkutímum áður en tekið yrði á móti umsækendum, það tyggði mér pláss fremst í röðinni. Ég þurfti reyndar að reka nokkra tyrkneska raðartroðara aftur fyrir mig áður en hurðin opnaðist en ekkert mannfall varð samt við það. Þegar ég kom inn sagðist ég fyrst þurfa að breyta heimilsfanginu mínu og gaf upp bearbeitungsnummer-ið mitt og viti menn, herramaðurinn bak við borðið sagði að þeir væru búnir að svara umsókninni minni og sent svarið á Klettaborg 9. Jæja, svarið var jákvætt og því er ég búinn með þessa raða vitleysu í bili. OG ÉG ER KOMINN INN Í HÁSKÓLANN!

takk og bless,
lalli

p.s. ég þakka líka þeim sem buðust til þess að meiða manninn bak við dyrnar um daginn. En þess má geta að hann var ekki á staðnum í dag. Sjálfsagt misst vitið og vinnuna um leið.

miðvikudagur, mars 29, 2006

í tunglskugga

Ég sit núna í nýju íbúðinni og horfi á tölvuskjáinn, fyrir stuttu síðan horfði ég í gegnum plastfilmu og sá hvernig tunglið skyggði á sólina. Í Nígeríu hafa stjórnvöld sent út þá tilkynningu að sólmyrkvi sé ekki upphafið að endilokum alheimsins, en einhverjir íbúanna brugðust víst harkalega við síðasta sólmyrkva þar í landi. Dæmi um grátbroslega fáfræði, sem er auðvitað ekki á nokkurn skapaðan hátt fyndin en engu að síður.. Tja það er bara ekki allt alveg eins í þessum heimi.

Til dæmis er Berlusconi með eindæmum undarlegur karakter, á meðan aðrir stjórnmálamenn í heiminum láta út úr sér dularfullar setningar eins og "það geta ekki allir farið heim af ballinu með sætustu stelpunni, svo maður verður bara að finna sér eitthvað jafngott". Þá þykir honum mikilvægt í miðri kosningabaráttu á Ítalíu að fjalla í ræðu um meint barnaát Kommúnista í Kína á tíma Maos formanns. Það er auðvelt mál að setja út á mannréttindamál í Kína, en hvort þeir hafi kerfisbundið soðið börn til manneldis og áburðarframleiðslu? Rökin fyrir slíkum fullyrðingum þyrftu að vera algjörlega skotheld til þess að forseti lands geti látið hafa þau eftir sér.

En annarrs er ég bara að lesa mig aftur í tímann í þessa viku sem ég var án sambands við netheiminn, það breyttist svo sem ekkert, enda var varla við því að búast. Því að "heimurinn er alltaf eins hann breytist bara smá, en við getum ekki sé það því við horfum bara inna frá. "

lalli

mánudagur, mars 27, 2006

nýtt hús

Jæja þá er netið komið í nýja húsið, í þessa einu netlausu viku hefur heimurinn haldið áfram að snúast á þess að ég fylgist náið með honum. Það kom mér ótrúlega mikið á óvart, ég bjóst satt best að segja ekki við því.
Mamma og pabbi komu í heimsókn í vikunni sem leið, þó að maður eigi að heita fullorðinn þá er óneytanlega gott að hafa mömm' o pabba hjá sér.
Eyrún er búin að vera á fullu að æfa og núna sýna kórhlutverk í óperu með skólanum, það er bekkurinn hans Jóns sem setur hana upp og Jón fer með nokkur hlutverk og gerir það bara ljómandi vel. En Eyrún stendur sig auðvitað langbest.

bis später
lalli

miðvikudagur, mars 15, 2006

vandræði

Frá Ólafi Sindra: Segðu frá vandræðalegasta (eða a.m.k. mjög vandræðalegu) augnabliki í lífi þínu, og drekktu einn bjór á meðan þú skrifar. Það er mjög mikilvægt að þessi bjór sé drukkinn, því annars er leikurinn ónýtur. Síðan skorarðu á nokkra aðra að gera það sama, en þú verður að drekka aukabjór fyrir hvern einstakling sem þú skorar á.


Ég hef oft og tíðum hugsað um það að ég hljóti að vera óvenjulega minnugur maður, ég man eftir ýmsum hlutum, atburðum og samtölum sem ég hef átt við fólk langt aftur í tímann, a.m.k. eins langt og mín ævi og minni nær til. Þegar kemur að því að rifja upp vandræðalegt augnablik fyrir tilstilli áskorunar Ólafs Sindra, þá rekur ekki einn einasta svera rekaviðardrumb á fjörur minninga minna. Hvort það þýðir að ég sé með eindæmum heppinn maður eða óskeikult minni mitt loki á vandræðalegar minningar skal ósagt látið. Í það minnsta eru þær sögur sem ég gæti rifjað upp barnaleikur og í rauninni ekki hót vandræðarlegar, þegar þeim er stillt upp við hlið sögunnar hans Ólafs Sindra. Þá sögu hvet ég ykkur eindregið til þess að lesa, enda er hún einfaldlega vandræðaleg.

Þegar ég var í Brasilíu lærði ég ýmsa nýja hluti, ég tókst á við aðstæður sem þroskuðu mig og leiddu nær þeim einstaklingi sem ég er í dag. Samskipti við fólk af ólíkum uppruna voru án vafa einn af þessum hlutum. Þessi saga fjallar einmitt um það. Ég var staddur ásamt þremur öðrum skiptinemum í glæsilegu húsi, sem fjölskylda stelpunar sem var heima hjá mér átti. Við vorum búin að hafa það gott í heilan dag, liggjandi í sólbaði, dansandi samba með fótbolta á tánum og Capirinha í glasi syngjandi “Girl from Ipanema”. Eftir þetta vorum við Jay orðin hálfþreyttir á þeim Jennifer og Ann-Ev, svo ég ákvað sem hluta af tilraun í samskiptum við fólk af öðrum uppruna að athuga hvernig það væri að henda einni bandarískri og einni þýskri stelpu út í sundlaug ásamt bandarískum strák. Athöfnin sjálf gekk ágætlega eftir, fullklæddar stúlkur enduðu skríkjandi í sundlauginni og við það að lenda í henni æptu þær, “þið skuluð fá að kenna á því!” Ég sem trúgjarn og minnugur ungur drengur treysti Bandaríkjamanni og Þjóðverja ekki frekar en svo til hefndarverka að ég tók á rás og hljóp á fullum krafti rakleiðis á glerhurð sem skildi bakgarðinn frá stofunni. Sem betur fer eru foreldrar Biu efnaðir og höfðu því splæst í hert öryggisgler svo ég braut það ekki. En á ennið fékk ég horn, kinnin varð blá en gleraugun sluppu. Eftir að hafa ætlað að vera rosalega fyndinn og þar á eftir sleppa við illgirni hefndarverka stúlknana endaði eftirmynd af andlitinu mínu á glerhurð og ég varð að hlátursefni.

Ég kvet Atla, Nesa , Heimi og Jón til þess að gera vandræðum sínum góð skil og gleðjast yfir líð á meðan.
Lárus

að mörgu að hyggja



Við Eyrún erum á fullu í pökkunar- og flutningahugleiðingum, við eigum ekki mikið af dóti hjá okkur. En það tekur samt sinn tíma og svo verðum við líka að flytja heimilisfangið okkar á nýja staðinn og þess háttar.
Næsta helgi verður svolítið strembin hvað það varðar. Fyrst hjálpa ég Örvari og Þóru, sem búa núna í húsinu, að flytja út, svo byrja ég að flytja eitthvað af okkar dóti yfir í nýju íbúðina. Vonandi get ég fengið flutningabíl á föstudeginum og þá flytjum við þvottavélina og nokkra kassa. Ef ekki þá gerum við það eftir hádegi í laugardaginn. Þá getum við tekið til í Ölweingasse og verðum vonandi laus undan henni. Milli klukkan 8-11 á laugardaginn koma svo hraustir sveinar með IKEA-húsgögnin okkar og bera þau upp á fjórðu hæð. Þá ætti allt að vera komið inn, þá tekur við að skrúfa saman húsgögn frá IKEA:) Það verður nóg af þeim á staðnum...

Vonandi get ég svo byrjað í skólanum í næstu viku, en ef allt gengur eftir þá fæ ég bréf frá skólanum á þriðjudaginn. Núna er ég að lesa bók um stjórnmálasögu Austurríkis, kanski er bara best að halda því áfram..

meira blogg síðar...
lárus

laugardagur, mars 11, 2006

ég er þyrstur sósíalisti

2. gr.: "Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi..."

Eruð þið ekki að grínast, ef einhvern tíman þarf Gúttóslag númer tvö og að stjaka við Sigurði Kára (segi ég sem friðarsinni), þá gæti það verið núna. Ekki ætla ég að hvetja til ofbeldis, en þetta mál er samt gríðarlega mikilvægt. Eftir hundrað ár verður Kárahnjúkavirkjun e.t.v. verðlaust mannvirki, en þá þurfum við samt að drekka vatn!
Vatn er ekki verslunarvara og það er ekki hægt að eiga það sem öll jörðin þarf til að lifa! -Nema hvað þá verður fyrst hægt að segja, "ég þarf að gefa blómunum að drekka"

Í dag sá ég Írana mótmæla á Graben, þeir mótmæltu Ajatollunum sem stjórna landinum þeirra og voru með myndir af sósíalistum sem hengu úr vinnukrönum vegna skoðana sinna og kúguðum konum. Ég studdi þá, enda stoppaði ég við mótmælaspjöldin og las.
Það er margt sem er undarlegt við þessar þjóðir og oft skil ég þær ekki, en mannréttindi eru að mínu mati ekki afstæði, því við erum bara fólk.

lalli

fimmtudagur, mars 09, 2006

bókasafnsferðir


Ég er að hugsa um að stofna ferðaþjónustu fyrirtæki sem sérhæfir sig í bókasafnsferðum milli landa. Þá geta bókaormar allra landa sameinast og farið í hópferðir milli landa og safna.
Mér datt þetta í hug í dag eftir að hafa farið á stærsta bókasafn sem ég hef kom í og varð hissa á úrvalinu. Þar voru ýmsar bækur sem ég gæti hugsað mér að lesa, ég tók með mér heim bók um stjórnmál í Austurríki. Hún gæti komið sér vel ef ég kemst í háskólann, en ef ég kemst ekki í hann, þá les ég bara endalaust á þessu safni og finn mér vinnu og........ NEI! lalli þetta má ekki segja, því ég fer í þennan bölde háskóla. Og vitið þið hvað ég ætla að vera jafn ánægður með háskólann og ég var mað seðilinn hans Jóns!

Lalli

miðvikudagur, mars 08, 2006

það er fátt leiðinlegra en að bíða eftir svari
fátt leiðinlegra en fá loforð og svo er ekki staðið við það
leiðinlegt er að drekka of heitt kaffi
það er fátt leiðinlegra en að vita ekki alveg hvernig maður á að bera sig að
fátt leiðinlegra en tala við Frau Dehimi
leiðinlegt er að bíða eftir því að kaffið kólni og bíða of lengi

-lallinho eða lallaou

þriðjudagur, mars 07, 2006

mynd

sólargeislum rignir yfir mynd

þetta er fallegasta mynd gjörvallrar veraldar sögunnar

teiknuð af heimsins besta eintaki af mannskepnu

undir áhrifum allra góðra verka og hugmynda

lítil börn hlægja en fullorðnir standa undrunar vegna agndofa

teiknarinn hvílir sig

leggur, frá sér litina og augun aftur

setur hönd í vasann og tekur upp eldspýtur

myrkur

gjörvöll veröldin lokar augunum

og grætur

því í myrkrinu skynjar hún tilgangsleysi

og hún man ekki að sólin kemur upp á morgun

það sem skipti engu máli

skemmdi heiminn

fimmtudagur, mars 02, 2006

lítill leiðangur

Nú rétt í þess var ég að koma heim úr leiðangri sem bar vinnuheitið "myndir af múhamed og fuglaflesa". Leiðangur þessi var gerður út af Lárusi Heiðari Ásgeirssyni en óafvitandi styrktur af Eyrúnu Unnarsdóttur. Vopnaður skáldsögu eftir Gabriel Garcia Marquez, One Hundred Years of Solitude og Konica Minolta stafrænni ljósmyndavél hélt ég á vit ævintýranna á slóðir keisara og keisaraynja í Schönbrunn Schloss garðinum. Það tók á að komast huldu höfði dulbúinn sem ferðamaður en ekki leiðangursmaður inn í garðinn, en með þeirri snilli að taka mynd af höllinni að framan eins og asískur túristi tókst það með naumindum. Þegar inn í garðinn var komið tók ég eftir því að njósnarar höfðu komið sér fyrir aftan við sjálfa höllina dulbúnir sem verkamenn. Til að vekja ekki á mér grunsemdir settist ég á bekk og gluggaði í bókinni, á blaðsíðu 61 starði ég milli þess sem ég sá hvaða fuglar voru á svæðinu. Fyrir aftan mig voru endur, að öllum líkindum nýkomnar til landsins, fyrir faman mig voru mávar og krákur. Þegar að Neptunbrunninum var komið tók ég mynd af styttunum og velti því fyrir mér hvort þeim væri ekki kalt. Síðan laumaðist ég til þess að taka mynd af skilti sem boðaði bann við því að fóðra fuglana. Ég gekk því næst upp brekkuna, framhjá dýragarðinum og sá þar örn sem virtist hress, en engu að síður skynjaði ég hræðslu hans. Ofar í garðinum sá ég heimskar dúfur og lítinn sætan fugl sem stillti sér upp fyrir myndatöku, hann var greinilega athyglissjúkur því hann hætti ekki uppstillingunum. Á sömu stundu og ég áttaði mig á tvöfeldni hins athyglissjúka smáfugls heyrði ég bank, aftur og aftur, það var spæta. Ég gekk örlítið áfram og sá spætuna hátt upp í tré, senda morsskilaboð til allrar fugla í skóginum að ég væri kominn! Bölvuð spætu álkan! Meira að segja íkornarnir skildu hvað hún átti við og hlupu í skjól í hvert sinn sem ég nálgaðist. Vonsvikinn eftir þennan hörmulega endi á þessum hluta leiðangursins rölti ég fram hjá Gloriette og gekk þar fram á endur sem lágu við hliðina á háu tré. "Eruð þið með flensu?" spurði ég. Ekkert svar, líklega voru þær hásar og þar með fársjúkar.
Hinn hluti leiðangursins var leit að mynd af múhamed, ég fann enga mynd en ég fann tvo hryðjuverkamenn. Það voru ítalskir vinstrisinnar, fyrrverandi liðsmenn Rauðu Herdeildanna, sem sátu á bekk í garði dulbúnir sem arabískar konur.

--
Lalli