mánudagur, október 31, 2005

laufblöð í baði

Þessi yfirskrift á blogginu nær allt að því að vera eðlileg og í einhverjum takti við veruleikan. Í dag fórum við Eyrún í langan, góðan og skemmtilegan göngutúr. Eftir að við vorum búin í skólanum fórum við í garðinn okkar og lékum okkur að því að fíflast, syngja, sparka í laufblöð og tak myndir, það var mjög skemmtilegt, vægast sagt. Því næst fórum við yfir að Schönburnn Schoss og löbbuðum um garðinn þar áður en við fórum í búðina til að gera innkaup vikunnar.
Í dag er Halloween eða í dag er Hallóvín?

Sjálfstæðisflokkurinn fengi 57% í borginni ef kosið yrði nú, og hinir deila með sér restinni ásamt auðum og ógildum, eðlilega. Um hvað væri samt verið að kjósa þegar að enginn hefur sett neitt fram, jú líklegast fólkið sem er að fara að bjóða sig fram og hugmyndir. Vilja í alvörinni 57% fólks Gísla Martein, nú eða Vilhjálm? Sem hefur í 20 ár verið á lista í borginni en enginn veit hver hann er? Líkast til segir þetta meira um hitt fólkið sem er að fara að bjóða sig fram en þá tvo...
Engu að síður, þá er Gísli varla með næga stjórnunarreynslu til þess að stjóran einu stærsta, ef ekki stærsta fyrirtæki landsins og Vilhjálmur, bíddu hver er það aftur?

Annarrs er líka verið að kjósa annars staðar á landinu, afhverju gerir RÚV, sem stóð fyrir þessari könnun sem ég vitnaði í ekki könnun á Ísafirði eða Höfn í Hornafirði? (Hér forðast ég að segja Akureyri vegna þess að þá verð ég gagnrýndur fyrir kjördæmapot og akureyrarsnobb) Ég man ekki til þess að Ríkisútvarpið hafi velt við mörgum steinum utan höfuðborgarsvæðisins í svona umræðu.

Áðan sat ég og drakk rauðvín (það er frí á morgun) og horfði á Sumoglímu, ég hef áður horft á Sumo og þetta er án vafa eitt albesta sjónvarpsefni sem til er. Hvet alla til þess að skoða hana við tækifæri.

Bless í bili,
Lalli í bala

föstudagur, október 28, 2005

Le nozze di Figaro

Stundum hérna í Vínarborg þegar ég hef ekkert að gera. Þegar ég er búinn að læra í þýsku, búinn að fara í búð og búinn að lesa fréttir og Morgunblaðið. Þá fer ég stundum á bloggara flakk, oftast skoða ég það sama og í flestum tilfellum þá skrifa ég eitthvað svipað í comment. Stundum er það eitthvað stutt, jafnvel bara "einmitt", eða "hehe, fyndið þetta með gulu vísnabókina", oftar en ekki er það samt einkahúmur frá mér. Þá er það eitthvað sem mér þykir sniðugt eða fyndið og þar sem ég er ekki um þessar mundir í miklum tengslum við stóran hóp af fólki þá skilja líklegast fæstir commentin. Kanski skilur Eyrún þau ef hún sér þau, en ekki mikið fleiri.
Einhvern tíman verð ég eitthvað annað en námsmaður, jafnvel eitthvað merkilegt eða sem betra er skemmtilegt, það er samt undarleg tilhugsun og ég stórlega efast um sannleiks gildi hennar. Reyndar geri ég það ekki, ég á eflaust eftir að drulsa mér í að gera eitthvað hressandi í framtíðinni.

Bara ef ég gæti ælt yfir heiminn jákvæðni og gleði
þá myndu allir fá hroll yfir viðbjóðnum,
en finna samt sælustrauma
skola svo af sér skítinn og finna,
hvernig neikvæðni fylgdi sápunni

Svo færi jákvæðnin niður í ræsin
og þaðan út í sjó,
en hún myndi aldrei hverfa,
bara verða hluti af heiminum
og vatninu svo enginn fengi aftur hroll
en væru þess í stað glaðir

---
Ég sakna þeirra sem ég sakna og hinna líka,
lalli

miðvikudagur, október 26, 2005

húbert himbrimi

Mamma er komin í heimsókn, í gær tók ég mér frí í skólanum til að sækja hana á flugvöllinn. Svo gengum við um borgina fram og til baka og ég reyndi að sýna henni sem mest af fallegum húsum og flottum görðum.
Ég ákvað að skrifa ekkert í tilefni Kvennafrísins á mánudaginn, það vita hvort sem er flestir mína skoðun á þessu máli. Fyrir ykkur sem hugsið núna, hver er hún? Jú auðvitað styð ég baráttu kvenna fyrir jöfnum rétti í hvívetna. Ég kveikti á tölvunni minni í þann mund sem að fundurinn var að hefjast og kom mér vel fyrir með kveikt á beinni útsendingu frá RÚV. Ég var ánægður með mætinguna og að sjá hversu margt fólk var tilbúið að styðja þessa baráttu, en mér fannst baráttuandann vanta. Það eru 30 ár síðan að konur söfnuðust fyrst saman með þessum hætti, það fara að verða 100 ár síðan konur fengu kosningarétt og ennþá, ennþá hefur fullu jafnrétti ekki verið náð. Mér fannst vanta alla frekju og hörku í þennan fund, þetta átti ekki að vera hátíðarsamkoma þar sem því var fangnað að 30 ár væru liðin frá baráttufundi. Það fannst mér að minnsta kosti ekki.
Svo sendu Sjálfstæðismenn skeyti á fundinn og sögðu að sín stefna, einstaklingsfrelsi væri rétta og besta leiðin að kvennfrelsi. Fallega gert af þeim, en er það ekki pínu hræsni? Bara smá? Að mínu mati, þar sem þeir blessaðir karlarnir hafa líkast til einir völdin til að breyta einhverju í þessum efnum, t.d. að afnema launaleynd.

En nóg í bili, við mamma og Eyrún þurfum að fara út að ganga:)
lalli

sunnudagur, október 23, 2005

loftið gervinýra

Í gær fórum við skötuhjúin í IKEA, þessi drauma staður norrænna námsmanna í borg smekklausra sófa sveik okkur ekki og við löbbuðum út með glös, diska og sængur. Þannig að íbúðin er núna tilbúin fyrir komu mömmu:)

Þegar að þeirri ferð var lokið skelltum við okkur í betri gallan og örkuðum af stað í óperuna, við tókum með okkur bækur, enda áttum við ekki miða í sæti heldur biðum í röð eftir að fá stæði. Við fengum miða á Toscu og tókum svo stæði frá með því að binda, annars vegar bindið mitt og hins vegar sjalið hennar Eyrúnar á grindverkið hjá stæðunum okkar. Sýningin var svo algjör snilld, alveg hreint út sagt frábær. Söngvararnir stórgóðir og hljómsveitin mjög flott, reyndar klikkaði sú sem söng Toscu á hæsta tóninum í einni aríunni og upp skar pú! frá nokkrum áhorfendum, en aðrir hrópuðu bravó! svo þetta kom út á sléttu. Í fyrsta hléi fórum við fram og fengum okkur hvítvín með fólkinu í Armani fötunum, slepptum súkkulaði húðuðu jarðaberjunum, en það býður bara betri tíma. Sviðið er líka eitt það flottasta sem ég hef séð í leikhúsi, alveg ótrúlega stórt og sviðsmyndirnar þrjá sem notaðar voru flottar.

Eftir sýninguna fórum við á Salm Brau, sem er hundgamalt brugghús hérna og fengum okkur öl og austurrískan mat. Eftir það vorum við orðin svo þreytt eftir að hafa staðið í heila óperu sýningu að við fórum bara heim í kotið okkar.

Kveðja úr Öl-vín götu
Lalli

föstudagur, október 21, 2005

bara rusl ekki la-rusl

Ég skilaði verkefni í dag í skólanum, það var 15 setninga ritverk sem átti að byrja á: Als ich eines Tages... Ég skrifaði um að ég hefði fundið unga á götunni, farið með hann heim og hjálpað honum og svo hafi hann sungið fyrir mig. Væmið, auðvelt og búið.
Tíminn í dag var öðruvísi því að við fórum í ratleik um borgina, við áttum að finna staði og spyrja spurninga og rata svo á kaffihús undir lokin. Þetta var ágæt tilbreyting frá málfræði og meiri málfræði, ég var í liði með mexíkóskum markaðsfræðingi og japönskum leikhúsfræðinema. Okkur gekk bara nokkuð vel og vorum fyrstir með þetta mikilvæga verkefni.
Undarlegt með mig, stundum dreymir mig um að gera eitthvað merkilegt, sem að skiptir máli fyrir heiminn eða bara eitthvað uppbyggjandi, en svo eyði ég heilu dögunum í ratleik um kaffihús og listasöfn Vínarborgar. Annarrs er nóg af fólki hérna sem heldur að það sé að bjarga heiminum, það stendur á götuhornum og reynir að tala við mann um Greenpeace, þá vil ég nú frekar vera í ratleik. Kannski er það vandamálið, of margir eru að stara út í heiminn í leit að einhverju merkilegu og frábærlega ótrúlegu að gera svo að þeir gleyma að ryksuga heima hjá sér eða flokka ruslið. Ef að allir væru örlítið meira sjálfhverfir, þannig að þeir sæju sína eigin smávægilegu galla og reyndu að laga þá, í stað leita að stórum vandamálum og stórum svörum, ætli heimurinn yrði eitthvað betri?

Lalli

fimmtudagur, október 20, 2005

höfrungar harma hermileiki

Í gær söng Eyrún á tónleikum í skólanum sínum, hún stóð sig frábærlega eins og alltaf. Hún var stressuð fyrir þessum tónleikum vegna þess að kennarinn hennnar hefur verið að kenna henni nýja hluti sem hún var ekki alveg búin að ná. En svo tók hún sig til eins og venjulega og stóð sig frábærlega, var bara best og söngurinn hennar fyllti salinn. Það var mjög gaman að hlusta á hina líka og margir voru efnilegir, en sumir aðeins og ýktir, einbeittu sér meira að því að leika en syngja, þá sérstaklega ein stelpa en hún var í kvöldkjól og var með furðulega leikrænatilburði eða öllu heldur tilraunir.

Mamma kemur í heimsókn í næstu viku, það verður rosalega gaman að sýna henni borgina og allt sem hún býður upp á. Við eigum eftir að eiga nokkra góða daga hérna saman og við verðum á hlaupum um alla borgina, til að sjá sem mest:)

Annars langar mig að biðja þá sem lesa síðuna mína að leita sér líka upplýsinga um jarðskjálftasvæðið í Indlandi og Pakistan. Nú þegar eru 80.000 manns látnir og dánartalan á án vafa eftir að hækka. Einnig vantar 400.000 tjöld fyrir þá sem komust lífs af í hamförunum og standa heimilislausir frammi fyrir ísköldum vetri í Kasmír. Ekki bætir það ástandið að Indverjar og Pakistanar hafa í 15 ár deilt um þetta svæði, en sem betur fer hafa þeir lagt ágreinings mál sín til hliðar og einbeita sér að hjálparstarfinu. Við hljótum öll að geta fundið hjá okkur örlitla upphæð til að auðvelda hjálparstarfið.

Lifið heil,
Lalli

mánudagur, október 17, 2005

Mánudagur

Í dag er mánudagur og það einhver sá almest mánudagur sem ég hef upplifað lengi, venjulegur skóli, venjulegt veður reyndar var kaldara en venjulega en það gerir daginn bara enn mánudagslegri. Við Eyrún fórum síðan og keyptum straujárn og nál og tvinna, ekkert merkilegt bara hversdagslegt s.s. mánudagslegt.
Það sem gerði skóladaginn eitthvað öðruvísi var þegar að ég var á örlitlu spjalli við sessunaut minn í skólanum og hann sagðist vera fæddur árið 1985. Þetta þótti mér undarlegt svo ég leit hissa á hann og þá sagði hann eða það stendur að minnsta kosti á skilríkjunum mínum, en ég er fæddur 1983! Ha? Ég varð nú alveg hvummsa og spurði hann frekar út í þetta. Þá kom hann víst frá Írak árið 1990 og fór þaðan yfir til Tyrklands og einhverju síðar til Þýskalands og þaðan til Vínarborgar. Afhverju skildi hann samt vera með rangan fæðingardag á skilríkjunum sínum? Getur einhver hjálpað Lalla að skilja það....

Í það minnst ætla ég í tilefni af þessu mánudagslega mánudegi að hætta núna.
Lárus Heiðar fæddur 23.07.83 (eða er það ekki?)

föstudagur, október 14, 2005

þegar krummi svaf í klettagjá

Varð hissa í gær eftir að ég las brot úr ræðu Davíðs Oddsonar sem hann flutti við setningu landsþings Sjálfstæðismanna. Hvað var maðurinn að pæla? Svona algjörlega einlægt og spauglaust spurt. Hann er ekki lélegasti ræðumaður í heimi og á það til að vera hnittinn en afhverju ákvað hann að "enda" sinn pólitískaferil svona? Var blessaður karlinn búinn að telja of oft upp öll þau skipti sem hann hefur íklæddur skikkju og rauðum nærbuxum, einn síns liðs bjargað þjóðinni frá hungursneyð, frjálsum fjölmiðlum og ódýrum kalkúnalærum? Ég efast stórlega um það að allir hafi mætt á landsfundinn til þess að heyra fimmaura brandara og útúrsnúninga á málum sem ennþá eru í fullum gangi.

Ummæli eins og þessi eru nákvæmlega það sem fólki finnst leiðinlegt við íslensk stjórnmál, þegar að stjórnmálamenn bulla í staðinn fyrir að tala um staðreyndir. Davíð hefði til dæmis geta sagt, nei það skiptir í rauninni engu hvað hann hefði sagt. Annað en að 99% þess sem kæmi frá flokki á Íslandi væri bull, nú hugsa eflaust einhverjir.. "nú hefur Lalla litla sárnað", nei vitið þið þetta snýst ekku um það. 99% þess sem kemur frá x-D eða Framsókn er ekki bull, þó svo að maður sé ósammála þeim í einhverjum eða flestum tilfellum, gæti maður talið upp jákvæða þætti innan þess sem flokkarnir segja, jú auðvitað. Ég hef líka orðið var við þetta hugarfar hjá Samfylkingar fólki, sem segja að flokkurinn hafi verið stofnaður sem mótvægi við x-D og því megi ekki starfa með þeim, sem segja að Framsóknarmenn séu ekki með stefnu og hoppa uppí hjá hverjum sem er og að VG séu ofstækismenn. Með hverjum á þá að vinna? Ef að allir eru ómögulegir 0g við ein hugsum rétt, hvaða skilaboð er fólk þá að senda?

Það hefði væri best ef að stjórnmálamenn gætu í ræðum bara talað um sinn eigin flokk og sínar eigin skoðanir, í staðinn fyrir að koma með skítkast eða ásakanir um að aðri séu vitlausir. Davíð er samt ekki einn um þetta, íslenskir stjórnmálamenn hafa undanfarið verið upp til hópa arfaslakir, endalaust bull og gróusögur, sem allir bera endalaust út um allt. Lýðræði á ekki að virka þannig að við kjósum og þau bulla, Íslendingar ættu að tileinka sér það að gera kröfur til þess sem stjórnmálamenn segja, og blaðamenn eru oftar en ekki okkar tengiliðir við þá, svo við ættum í rauninni að senda þessi skilaboð til þeirra líka.

Fyrst ég er byrjaður, þá er eins gott að ég hvíli mig aðeins.. En mikið rosalega var þetta nú gott, aðeins að hrista fram út úr mér pólitískarhugsanir.
Annarrs var fínt í skólanum í dag, ég talaði þýsku, ensku, portúgölsku og spænsku (það litla sem ég kann af henni) það var gaman og fólk hló mikið og vel:) Ég sagði þeim meðal annars frá eftirnafnakerfinu á Íslandi, samnemendur mínir og kennarinn urðu mjög undrandi á alvandi fornafnsins í því. Þau urðu svo ennþá meira undrandi þegar að ég fullyrti að ég væri eini Lárus Heiðar Ásgeirsson í heiminum;) Tyrkneski strákurinn varð samt meira undrandi á því þegar að kennarinn sagði að í sumum löndum hefði fjölskyldan borðin nafn móðurinnar, en hann er líka að fasta og er því kanski ekki mjög opinn gagnvart jafn öfgafullum breytingum og þessum.

Bless og takk ef þið nenntuð að lesa allt
Lalli

miðvikudagur, október 12, 2005

Österreichs bestes Bier

Ég gerði mig að fífli í dag, í skólanum hvar annars staðar. Eftir frábæra takta í tímanum í dag, ætlaði ég mér of mikið undir lok hans. Þegar að kennarinn lagði til að allir rifjuðu upp eitt orð var ég ekki lengi að taka við mér, Aufträge var mér ofarlega í huga, en ég hafði flett því upp í orðabók, þar stóð "pöntun". Þá tilkynnti kennarinn það að ég mætti aðeins svara með já eða nei, ja oder nein, alles gut! Já, auðvitað, sögnin að panta, lítið mál. Þá hófust spurningarnar, er þetta uhhhm, og enginn sagði neitt, er þetta sögn? Já, þetta er sögn, sagði ég. Svo héldu spurningarnar áfram og alltaf varð ég aulalegri og aulalegri, á endanum var ég beðinn um að segja fyrstu stafina og þá tókst loksins einhverjum að geta upp á NAFNORÐINU Aufträge. Helvítis djöfulsins, afsakið orðbragðið, drullu orðabók, hún sagði bara panta! En ég dó ekki og heldur neinn samnemenda minna, en ég skammaðist mín alla leið í gegnum gólfið, út úr skólanum og í þýskustofuna í M.A. -takk!

Það var fótboltaleikur að klárast rétt í þessu, Austurríkismenn gerðu sér lítið fyrir og sigruðu Norður-Íra með tveimur mörkum gegn engu! Það sem Austurríkismenn höfðu fram yfir þá írsku var knattspyrna, aldrei hef ég séð jafn ljótar tæklingar og hjá Írunum í þessum leik, þrátt fyrir að Íslendingar höfum bæði Heiðar Helguson og Brynjar Björn þá komast þeir kettlingar ekki nálægt þessum bölvuðu durtu frá Stóra-Bretlandi.

Í fyrsta skipti á þessum eina mánuði urðu mér á mistök í eldhúsinu, í þetta skipti var það grjónagrautur sem mallaði í pottinum, en í stressi yfir sófafluttingum (sjá neðar) þá gleymdi ég að hræra og hann brann lítillega við. En Pizzeri-Mafiosi reddaði mér:) Þessir Tyrknseku mafíósalegu herramenn..ó himnesku flatbökur.

Í dag fórum við Eyrún heim til leigjandans okkar og tókum sófa úr herbergi sonar hennar. Ég var orðinn of þreyttur á sófaleysi íbúðarinnar að mér var sama, svo var hann líka hermaður, með plakat af Che Guevara á veggnum, Bob Marley á hurðinni og bók um Bill Clinton í skápnum. Ég hef ákveðið að læra af því að bregðast íslenskt við því að eitthvað sé að hjá mér og byrja á über kurteisi, nei börnin góð hlustið á mig, þegar eitthvað vantar hjá ykkur sem á að vera, hvort það er vatnsglas, betur steikt kjöt eða sófi. Standið þá upp og kallið hátt og snjallt: ,,Hér inni er stúlka í alltof þröngum kjól" Nei afsakið nú sló saman, standið þá upp og heimtið ykkar!

Annars er að vakna yfir hinum pólitíska Lalla, ef þið vissuð ekki að ég væri í dvala, kanski tekur það einhvern tíma, en í hausnum mínum er hann að vakna.

lalli-

þriðjudagur, október 11, 2005

Skólinn er byrjaður!

Fyrstu tveir tímarnir í þýskunámskeiðinu liðnir, tveir dagar og tveir þýsku tímar, samtals fjórar stundir.. ok? Gott, þetta gengur bara ágætlega og er hæfilega krefjandi og ég get staðið mig vel hérna.
Á föstudaginn fórum við á Íslendingakvöld á Universitätsbraü, það var mjög skemmtilegt og margir mættu hátt í 20 manns sem komu og það telst góð mæting hérna, en í allt búa á milli 60-70 Íslendingar í borginni.

Ég varð vitni að skelfilegum hlut á sunnudaginn, aftan á Belvedere, fyrrum sumardvalarstað keisara og prinsa, m.a. Franz Ferdinand, var búið að setja neon-skilti sem myndaði útlínur Austurríkis. Þvílíkt og annað eins, og satt best að segja get ég ekkert meira um það sagt! Myndin hér að ofan er af húsinu sjálfu, en ég vil ekki sýna ykkur neon-skiltið ótilneyddur.


Já svona er heimurinn undarlegur og maðurinn smekklaus.

En núna þarf ég að læra heima í þýsku, en ég lofa sjálfum mér að skrifa eitthvað merkilegra næst.

Lifið heil,
Lalli

föstudagur, október 07, 2005

muna: skjæla ekki æla!

Enn einn viðburðarríkur dagur að líða hér í Vínarborg.
Eyrún fór sem fyrr í skólan og ég varð eftir heima, ég skemmti mér frameftir degi yfir sögunum hans Óskars, blikktrommarans dvergvaxna. Rétt fyrir tvö kom Eyrún heim, en stoppaði stutt við og hélt af stað í þýskutíma, ég ákvað að fylgja henna a.m.k. áleiðis. En þegar á hólminn var komið fór ég bara alla leið í skólann hennar og ætlaði að bíða, enda tölum við bæði að þetta yrði dæmigerður "fyrsti tími" og ekki mikið kennt. Eftir að hafa setið og lesið í smá stund var ég kominn með bullandi leið á Óskari og gaf skáldskap upp á bátinn. Þá tók biðin við, ég beið í einn og hálfan tíma þar til Eyrún kom út og sagði mér að hún yrði einn og hálfan í viðbót. Eftir að hafa fengið þær fréttir ákvað ég að fara niður í miðbæ, þar átti margt eftir að gleðja mig.

Þegar ég steig útúr lestinni sá ég að stuðningsmenn Palestínu voru að koma sér fyrir á Graben (dýrustu verslunar götunni). Ég fylgdist með þeim um stund og hélt svo áfram göngu minni, þar til ég kom að búð sem ég vissi hreint ekki hvað seldi, svo að ég fór inn í hana. Þetta var þá, og er enn, einhver flottasta gourmet búð sem ég hef séð. Óteljandi ostar, vín og kjötvörur, sultur og gotterí og KRYDD!! Í þessari búð fann ég Estragon, sem við Eyrún höfum leitað hérna úti, auk fjölda annarra hluta. Þegar útúr þessari hressilegu vin ilms og braða var komið tóku á móti mér ungir sósíalistar sem að voru í kröfugöngu. Ég ákvað að fylgja þeim eftir, svona fyrir forvitnissakir, svo ég þrammaði í takt við fjandmenn kaptitalisma og stuðningsmenn byltinga. Það var nokkurn veginn það eins sem ég skildi af því sem þau öskruðu í gjallarhornin: "niður með kapitalisma" og "lausnin er bylting". Ég gekk á eftri þeim dágóða stund, eða þar til ég var orðinn allt að því áttavilltur og taldi best að snúa við á rólegri slóðir. Það var skemmtilegt að sjá að lögreglan virtist hafa gaman af þessum mótmælum, því a.m.k. 5 bílar með níu lögregluþjóna innan borðs fylgdust með þessu og nokkrir voru þar að auki á gangi. Ennþá skemmtilegra er þó að segja frá því að sósíalistarnir gengu framhjá bistro matsölustöðum þar sem "viðskiptafólk" drakk hvítvín og borðaði paté eða eitthvað svoleiðis...
Á leiðinni til baka stoppaði ég aftur hjár Palestínuvinunum og hlustaði á þau í smástund en hélt svo heim á leið, enda bjórkvöld í kvöld og best að koma sér heim og fá sér pizzu vel tímanlega:)

..en núna er ég samt að borða harðfisk..

kveðja,
Lárus von Island

fimmtudagur, október 06, 2005

hrákadallur ríka fólksins....


Í dag gekk ég um götur Vínarborgar, Eyrún var dugleg og fór snemma í skólann, en ég kúrði í 30 mín í viðbót og fór svo á fætur. Las féttir og hlustaði á tónlist. Svo gekk ég af stað, fyrst stoppaði ég á Starbucks, ég nennti ekki að leita að örðu kaffihúsi, svo ég fékk mér bara stóran bolla. Las og ætlaði að læra mikið í þýsku, en tók óvart hljómfræði bókina hennar Eyrúnar í staðin fyrir málfræði! Skrambans ólukka. Eftir það ákvað ég að labba niður í bæ, svo ég gekk heillengi og hafði gagn og gaman af, á göngu minni sá fullt af skrítnum og eðlilegum hlutum. Meðal þess sem fyrir augu mín bar voru Segway hjól (minnar að þau heiti það) og japanskir túristar að taka myndir af japönskum túristum taka myndir... ég var næstum búinn að taka mynd af þeim.

Ég hef í tvígang orðið vitni að því þegar gamlar konur eru pirraðar úti fólk í kringum sig hérna. Fyrra skiptið var í lestinni, þegar lítil taksa frá lítilli japanskri konu datt á fót eldri konu. Sú japanska afsakaði sig í bak og fyrir en allt kom fyrir ekki eldri konan fussaði og sveijaði í nokkrar mínútur á eftir.
Í gær vorum við Eyrún að ganga út götuna okkar þegar að hress krakkahópur mætti okkur, rétt á undan okkur var eldri kona og svo óheppilega vildi til að eitt barnanna rakst í konuna. Hvað haldið þið, konan fussaði og sveijaði alla leið út götuna og alla leið inní kirkju.
Ég vil samt taka það fram að ég hef ekkert á móti konum, ekki einu sinni eldri konum, enda hef ég mest lítið á móti fólki.

lalli mannvinur og göngumaður

miðvikudagur, október 05, 2005

Tuð

Tuð fylgir öllum mönnum, það að juðast áfram í einhverjum sem oftast nær er smáatriði en skiptir þá, oftast nær þá eina, einhverju örlitlu máli. Flest skrif mín hér eru til dæmis uppfull af tuði, en stundum ekki, studnum tuða ég og stundum ekki.
En fleiri geta tuðað, las til dæmis áðan grein eftir Egil Helgason á vísir.is, þar sem hann gagnrýndi Hringbrautina og fleiri Vatnsmýrarmál í Reykjavík. Ekkert sérstaklega vel skrifuð en innihaldið var samt allt í lagi. Nóg um það, í kjölfar greinarinnar fylgdu stutt skrif frá karlkyns tuðurum sem allir tuðuð yfir því sama, að nú tæki þá lengri tíma að fara í vinnuna. Ég get vel trúað því, en líklegast eru þetta einhverjar 3-5 mínútur sem ferðin lengist um. Ef ég man rétt þá var Hringbrautin færð til að skapa aukið rými til bygginga hjá Sjúkrahúsinu, enginn þeirra minntist á þetta né það að ef byggja á í Vatnsmýrinni þar góðar og greiðar leiðir út úr Vatnsmýrinni.
Annað tuð sem ég tók eftir var frá akureyrska varaþingmanninum Hlyni Hallsyni, þar sem hann sagði frá raunum sínum á Alþingi. Þar sem hann var þvingaður til að vera með bindi, og það ekki einu sinni, neibbs! Tvisvar! Tvisvar sinnum og í fyrra skiptið missti hann af atkvæðagreiðslu vegna þessa. Ef það eru einhverjar reglur, þá fylgir maður þeim. Ef maður er ósáttur á Alþingi, þá safnar maður smá hóp á bak við sig og kemur málinu af stað! Maður tuðar ekki yfir því og mætir svo aftur bidnislaus, þannig breytist ekkert.

Æj, hvað að er gott að tuða smá, þó svo að maður breyti engu.
-Ef ég geri eitthvað skemmtilegt í dag þá bæti ég við bloggið.

lalli...

mánudagur, október 03, 2005

Sviðin jörð

Ég tók eftir því þegar ég stóð í langri röð um daginn að margir tóku upp Gsm-símann sinn þegar þeir voru farnir að ókyrrast, litu á hann og settu hann svo með vonleysissvip aftur í vasann eða töskuna. Skrítið hvernig símar eru, þeir bjarga fólki stundum en svo þegar við mest þurfum á þeim að halda, þá heyrist ekkert í þeim og ekkert af númerunum kemur manni framar í röðinni eða getur hjálpað manni. Þeir svíkja eigendur sína á versta tíma. Sem betur fer var ég ekki með minn á mér svo ég varð bara að stóla á sjálfan mig, sem og ég gerði.
Svo sá ég í dýragarðinum hrægamm fá að borða, hann fékk rottu og var að kjammsa á henni þegar að við gengum framhjá. Frekar ömurleg örlög fyrir ógeðis-rottuna, fá að fara í dýragarð og vera étin af hrægammi úr annarri heimsálfu.
Í gær hitti ég líka nokkrar dúfur, eins og svo oft áður, en ég fór að velta því fyrir mér hvort miðbæjardúfur nútímans séu ekki haldnar einhverjum velmegunar sjúkdómum. Þær lifa á frönskum og öðrum skyndibita og hreyfa sig allt of lítið. Það getur ekki verið að þær hafi gott af þessu öllu saman.

Í gær fórum við Eyrún á Kunsthistorisches museum, fyrst löbbuðum við smá hring um egypskar, grískar og rómverskar mynjar. En við vorum í meira skapi fyrir málverk, því töltum við af stað upp glæsileg og massív marmaraþrepin, en safnbyggingin sjálf er listaverki líkust, alveg órtúleg, skreytt frá grunni til rjáfurs. Meðal þess sem sem við sáum voru verk eftir Peter Paul Rubens, Dürer, Rembrandt, Raphael, Caravaggio, Migelangelo. Það eina sem hægt er að gagnrýna er fjöldi verkanna, við urðum ringluð á því að reyna að skoða þetta allt saman og því verðum við eiginlega bara að fara síðar og fara þá ef til vill hægar yfir og skoða allt rólega.
Eftir alla þessa menningu urðum við svöng og vildum endilega reyna að fá okkur kaffi of köku eða eitthvað þess háttar. Undanfarið er ég mikið búinn að breka um Sachertertu á Hotel Sacher, en svo þegar á hólminn var komið flúðum við túristamergðina og fórum bara á venjulegt kaffihús í miðbænum. Þegar að við gengum frá kaffihúsinu hjá Sacher og framhjá andyrinu þá komu nýjir gestir á hótelið, Porsce jeppi, gullúr og allt eitthvað voðalega, hroðalega fínt og flott allt saman.

Bless í bili
Lalli

laugardagur, október 01, 2005

Hvað heldur þú?

Í dag ætlum við Eyrún að leggja af stað í leiðangur, taka með okkur nesti og góða skapið og skoða hallir og önnur falleg gömul hús.
Það er ekkert ákveðið hvert við förum, svo að ég segi ykkur það bara á eftir... bloggfærslan verður kláruð seinna í dag... Sem sagt núna.

Við fórum fyrst í skólann hennar Eyrúnar, þar sem hún æfði sig að syngja, en hún byrjar í skólanum á mánudaginn. Svo fórum við í Schönnbrunn höllina, þvílíkt og annað eins glæsi-svæði, höllin er ótrúleg bygging og meira að segja er leyfilegt að fara inn í hana. En við létum það bíða betri tíma og verra veðurs og fórum rakleiðis inn í garðinn. Höllin var reyst í sinni núverandi mynd af Mariu Teresu og garðurinn í ný-klassískum stíl hefur alla tíð verið opin almenningi, sem er undarlegt miðað við glæsileika hans:) Svo fórum við í elsta dýragarð í heimi, 250 ára gamlan og það var eins og alltaf, rosalega gaman að stara á apa og tígrisdýr og vorkenna þeim.

Eitt sem ég fór samt að velta fyrir mér. Það tók menn svo, svo langan tíma að losna við keisara og koma á lýðræði, stendur fólk agndofa fyrir framan svona mynjar og hugsar kanski; ,,Afhverju byggir fólk ekki svona hallir í dag!"... eða eitthvað.
Það er bara svo undarlegt falla í stafi (kanski fullmikið sagt) en í það minnsta, þá eru þetta mynjar um fólk sem tók nógu mikið af fé til þess að byggja þessar rosalegu hallir, með gullsölum og ótal gluggum, meðan að fólkið í ríkinu átti bara kofa... (hérna gæti fylgt- öreigar allra landa sameinist! en ég sleppi því)

bless í bili