þriðjudagur, júní 03, 2008

búið

Ég er búinn að ákveða að flytja mig um set og fara yfir til Eyrúnar og Bumbulínu á www.eunnarsdottir.net/blog - þar krúttumst við saman öll þrjú.

Endilega kíkið á okkur þar.

Lalli

miðvikudagur, maí 07, 2008

Bumbus

Það er vitleysa að segja að það sé sárt að sakna, það er e.t.v. vont gott, en það er samt gott. Ég var núna á myspace-ferðalagi, eitthvað sem ég geri sára sjaldan, en það var ljúft og ég saknaði þess að geta ekki vitleysast með strumpum af fróni. Ef ég hefði ekki saknað þeirra hefði ég aldrei kíkt á síðurnar og brosað yfir því hvað þeir eru töff og miklir nördar.
Svo er líka gott að eiga hjá mér hérna úti besta vin, unnustu og tilvonandi barnsmóður í sömu manneskjunni. Jámm, fyrir þá sem ekki voru búnir að frétta af því þá eigum við Eyrún von á bumbusi í heiminn, eða núna er viðkomandi Bumbus, en verður svo sjálfstæður, lítill og sætur einstaklingur í byrjun október. Sem sagt spennandi tímar framundan.
-
Síðustu mánuði hef ég verið við og við skrifað greinar á politik.is, ekkert nema gott um það að segja - enda á maður að taka þátt í umræðunni ef maður hefur áhuga á henni.
En ég er oft í erfiðleikum með að setja greinarnar í rétt form, þær verða stundum hálf þurrar og leiðinlegar. En það kemur allt með æfingunni - áður en þið vitið af verð ég meistari!

Lalli

fimmtudagur, apríl 17, 2008

íslenska + þýska = ?

Ég er ekki frá því að málfari mínu, stíl og stafsetningu hafi hrakað á þessum vetrum hér í Vínarborg. Scheiße! En sem betur fer hefur mér farið fram í þýsku á þessum tíma, annað væri nú líka lélegt.

Ég veit að það má ekki alltaf leggja saman tvo hluti og fá óhjákvæmilega út þann þriðja, en á sama tíma og íslenskunni hefur hrakað og eftir því sem ég hef verið lendur hérna úti, þá fækkar að sama skapi þeim sem heimsækja síðuna mína. En það þýðir ekki að gráta það, enda fullorðnast ég sem aldrei fyrr þessa dagana orðinn íbúðareigandi og margt merkilegra á leiðinni.

kv.
Lalli

mánudagur, apríl 14, 2008

Af sauðburði og vertíðarlokum

Maður les það og heyrir frá Íslandi að frónverjar séu orðnir pirraðir á stjórnmálamönnunum sínum. Þetta er né ekkert eins dæmi, ég horfði á þátt í gær á ríkissjónvarpinu hérna í Austurríki þar sem fjallað var um leiðtogakrísu Evrópu, það vantar alvöru leiðtoga í stjórnmálin í álfunni. Ég held að þetta sé komið til vegna þess að það kerfi sem við búum við, var ekki hannað fyrir okkar tíma, þ.e. 21. öldina þar sem fólk er vel menntað og getur sjálft fundið upplýsingar um allt milli himins og jarðar. Við vitum flest öll töluvert margt um flesta hluti og lítum þess vegna síður á ákveðna einstaklinga sem "alvitra snillinga" sem eiga að redda hlutunum - okkur vantar frekar fyrirliða sem heldur hópnum saman og s.s. einn af okkur sem stýrir leiknum.

Á Íslandi var fólk pirrað yfir því að þingmenn réðu sér aðstoðarmenn, en í rauninni finnst mér furðulegt að aðstoðarmenn hafi ekki verið komnir fyrr til þeirra eða fleiri aðstoðarmenn verið til staðar fyrir þingflokkana. Þeir myndu og munu gera þingstarfið skilvirkara, þ.e.a.s ef þeir vinna störf sín vel. Að auki ætti svo að fækka þingmönnum e.t.v. niður í 43 og gera landið að einu kjördæmi, svo innan fárra ára verðum við komin með 5 menn á þingið í Brussel.
Núverandi kerfi var hvorki hannað fyrir Ísland þar sem sauðburðu og vertíð skipta ekki höfuðmáli og heldur ekki fyrir Ísland þar sem tekur aðeins 45 mín að ferðast landshorna á milli. Það að hafa 63 þingmenn í Reykjavík í nokkra mánuði og svo í fríi þess á milli "til að sinna kjördæmunum" á einfaldlega ekki við í dag.
Það væri einnig hægt að gera fleiri tilbreytingar til dæmis að ráðherrar hafi ekki fast sæti á þingi eins og sumstaðar er gert.

Þegar þessar breytingar fara í gegn ætti einnig að auka vald sveitarfélaganna og færa meira af þjónustu yfir til þeirra, þar af leiðandi þyrfti ríkið að gefa þeim eftir skatttekjur. Það myndi auðvelda almenning mikið að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, auk þess sem fólk myndi vera áhugasamara um stjórnmál, þar sem það hefði meira að segja.

Er nokkurt vit í öðru en að breyta til í þessu 19. aldar kerfi sem að við búum við? Stjórnmálkerfi sem og stofnanir sem í því vinna eiga að vera í endalausri endurskoðun sem reynir að bæta þær, því eins og önnur sköpunarverk eru þau ekki fullkomin.

Lalli

föstudagur, apríl 11, 2008

það er vor, sólin skín á himnum

Þáttakendum á Ólympíuleikunum í sumar verður bannað að vera hafa á sér fána Tíbets hvort sem er á keppnissvæðinu eða í Ólympíuþorpinu og þar með talið í sínum herberjum.
Stundum er sagt að Ólympíuleikar og raunar íþróttir yfir höfuð, séu yfir pólitík hafin. Það þýði ekkert að draga Ólympíuhugsjónina niður á það lága plan sem stjórnmál manna eru, því sú dyggð að hlaupa í hringi, synda og stökkva sé ofar argaþrasi hversdagsins. Ekkert í heiminum stendur samt sem áður eitt og sér, óháð umhverfi sínu - allt er háð einhverju öðru og Ólympíuleikarnir eru ekki undanskildir. Þegar íþróttahátíð er haldin í ákveðnu landi, sama hvaða landi, undir leiðsögn leiðtoga þess lands, þá er ekki hægt að aðskilja hátíðina og þá sem að henni standa. Ef þeir kjósa að banna ákveðna uppröðun lita áprentað á efni vegna þeirra hugmynda sem þeir litir tákna - eru Ólympíuleikarnir pólitískir.
Auðvitað er svekkjandi fyrir íþróttamenn að þurfa að hlusta á okkur hin ræða um það hvort þeir eigi eða eigi ekki að taka þátt í leikunum. En þeir standa heldur ekki fyrir utan okkur hin og utan mannlegrar samkenndar vegna þess að þeir eru íþróttamenn. Auðvitað er svekkjandi að stefna að ákveðnu markmiði, ná því og svo gætu pólitíkusar ákveðið að maður fái ekki að komast að leiðarenda.
En þeir mega heldur ekki gleyma því að þeir eru fyrirmyndir, ef að þeir sætta sig við mannréttindabrot afhverju ættu ekki aðrir að gera það líka.

Lalli

sunnudagur, apríl 06, 2008

eitt

Stundum er kvartað yfir kolefnisjöfnun, enn ofar er rifist um hvort eigi að gera eitthvað, s.s. spara raforku, bensín eða nota meira almenningssamgöngur, vegna yfirvofandi hlýnurnar jarðar. En svo er þessu öllu bölvað af snjéníum sem sjá það í hendi sér að þú getir bara ekki kolefnisjafnað þig sí svona og hlýnun jarðar sé bara gabb sett fram af pólitíkus í Bandaríkjunum og fégráðugum vísindamönnum.
Ok, gott og vel segjum sem svo að kolefnisjöfnum virki ekki og þetta "klimawandel" sé bara gabb. Þá mælir samt ekkert á móti því að planta trjám og vernda regnskóg - þó svo að fólki finnist kolefnisjöfnun heimskuleg. Það að spara orku, ganga frekar en aka bíl eða nota hjól og almenningssamgöngur, er að sama skapi frábært - burt séð frá því hvort heimurinn farist eftir 100.000 milljón ár eða 100 milljón ár. Ef hlutirnir fara svo eins og þessir fégráðugu vísindamenn halda fram, þ.e. að þeir hafi ekki verið að gabba, þá hjálpar allt við að draga úr vandanum.
Sama hvort vandamálið er til staðar eða ekki til staðar, þá sakar ekkert að hugsa um umhverfið - það skemmir ekki neitt.
Svo er það ekkert nema frábært að fyrirtæki séu tilbúin að planta trjám í skiptum fyrir viðskipti, t.d. Krombacher sem verndar 1 fm af regnskógi fyrir hvern seldan kassa af bjór. Maður getur ekki annað en grætt, verndað umhverfið með því að drekka bjór? Ekkert nema snilld.

Lalli

föstudagur, apríl 04, 2008

mislukkaður fyrirlestur og HHG

Ég átti að halda fyrirlestur í gær, var búinn að undirbúa mig undir að minn hluti af fyrirlestrinum væri 10 mínútur um gagnrýni á Réttlætiskenningar Rawls, kenningar Marx um réttlæti og sitthvað fleira. Ég fékk ekki nema 3 mínútur - kennarinn notaði nefnilega 45 mínútur af tímanum til skipulagshluta sem hann hefði getað og átt að gera í tímanum fyrir páska. Ég stóð til að byrja með eins og asni og reyndi að vera eins snöggur að koma hlutunum frá mér og ég gat. - En ok, þetta er kanski líka reynsla í að bregðast við aðstæðum og geta ekki gert hlutina eins og maður vildi í upphafi.
En engu að síður fúlt. Því þetta var ágætur fyrirlestur hjá mér.
-
Annarrs langaði mig að segja tvennt um Hannes Hólmstein og hans mál. Í fyrsta lagi, er það ekki þversögn að safna með samskotum upp í skuld hægrimanns, sem hann komst í af eigin rammleik? Hinir hæfustu lifa af og allt það... Þeir virðast jafnvel nýta sér verk annarra til að reyna að lifa af.
Hannes Hólmstein hefur ekki beint verið sá sem að vílar fyrir sér að þjarma að mönnum í pólitískri umræðu, oft í persónlegum stíl en ekki fræðilegum og á maðurinn engu að síður að heita fræðimaður í stjórnmálafræði.

Stundum endar það þannig ef að maður kemur fram eins og besserwisser og ber ekki snefil af virðingu fyrir skoðunum annarrs þá á endanum kemur það niður á manni. Hannes Hólmsteinn hefur farið mikinn í langan tíma, núna missteig hann sig tvisvar og þarf að gjalda fyrir það, með peningum.
Mér þætti reynar áhugavert að sjá hvernig yrði tekið á svona máli hérna í Vín, ég þarf að skila inn sérstakri "Ritstuldar yfirlýsingu" (plagiats erklärung) með hverju verkefni - ef að kennari yrði svo dæmdur fyrir ritstuld. Svolítið dæmigert fyrir Ísland að sumir benda á að það væru "pólitísk hreynsun" að reka Hannes frá Háskólanum fyrir þetta. Þetta snýst samt ekki um hægri eða vinstri, enda er það bara gott að hafa allt litróf stjórnmálanna við Stjórnmálafærðideildir - þó Hannes mætti reyndar efast aðeins meira um ágæti þess sem hann las í Oxford fyrir aldarfjóðungi og efast og endurskoða eins og fræðimönnum ber að gera. Þetta snýst að mínu mati um prinsip - sá sem er staðinn að ritstuldi á ekki að vinna sem háskólakennari.
--
En ég nenni ekki að eyða meiri tíma í þetta, ég þarf að skreppa í ræktina.

Lalli

miðvikudagur, apríl 02, 2008

Silly walks..



Bara svona smá grín. Það má ekki hafa endalausar áhyggjur, enda hef ég þær ekki þó svo að bloggið mitt verði stundum (les. alltaf) fyrir barðinu á áhyggjum/athugasemdum mínum um heiminn og málefni tengd þeim fyrirbærum.
-
Það er margt að brjótast um í heilanum mínum, ótrúlegt en satt. Vonandi kem ég því yfir á skjáinn bráðlega. Þessar hugmyndir eru margar hverjar snjallar - eða virka a.m.k. þannig í hausnum á mér, sjá um hvað gerist ef ég kem þeim út úr hausnum og í skiljanlegra form.

Lalli

mánudagur, mars 24, 2008

ÓL 2008


Síðan hvenær hafa Ólympíuleikar ekki verið pólitískir? Íþróttir þar sem að stuðningsaðilar eru ríkustu fyrirtæki í heimi snúast ekki um að allir fái að vera með eða aðrar ungmenna félagshugsjónir. Á síðustu önn var ég í tíma sem hér "Macht Bewegung" Macht=vald og Bewegung=hreyfing s.s. bæði það að hreyfa sig og fjöldahreyfing. Áhugaverður kúrs sem að gaman væri að skoða bara út frá Ólypmíuleikum. (Á þessari önn er ég svo í öðrum sem að fjallar um fótbolta (risaveldissport valdsins). Þegar að stór íþróttahreyfing, með mikil völd, ákveður að veita stórundarlegu risaveldið þá ábyrgð að halda svona mót, með þeirri athygli sem því fylgir, þá verður hreyfingin bara að taka því. En ástandið í Kína lítur út fyrir að vera alvarlegra en hinn venjulegi fréttafíkill gerði sér grein fyrir og fleiri héruð en Tíbet eru á suðupunkti. Og á meðan að óháðir fjölmiðlar mega ekki segja okkur fréttir af því sem fram fer, þá er ekki nema von að við efumst um það sem fram fer.

Lalli

Sérhagsmunir-hverhagsmunir

Í páskafríinu er ég ekki búinn að lesa mikið, verð því greinilega að taka mig á í þessari viku. Við Eyrún erum aðallega búin að krúttast hérna tvö í Vínarborg, fórum út að borða og í bíó á laugardaginn, sáum Dan in Real Life og okkur þótti hún afbragð. Í gær elduðum við svo ungverska ali-gæs, með fyllingu, brúnuðum kartöflum og alles, okkur þótti hún einnig vera afbragð. Enda erum við afbragðskokkar.
-
Það sem ég er búinn að vera að lesa, þetta litla smá, eru upplýsingar um Ísland og Evrópusambandið. Þetta eru "Mótum eigin framtíð" sem að SI (Samtök iðnaðarins) gaf út á Iðnþinginu og svo "Hvað með Evruna?". Í bæklingnum frá SI eru öll helst málin tekin fyrir, eitt af öðru og rætt við annað hvort sérfræðinga eða ráðamenn ESB og stundum er rætt við hvoru tveggja. Það skín eiginlega í gegn í hverju einasta máli að hagsmunir heildarinnar liggja á ESB en stundum er sérhagsmunum betur borgið utan þess. En oftast eru til fordæmi sem hægt væri að fylgja til að koma til móts við sérhagsmunina. Ísland liggur t.d. allt norðar en 62 breiddargráða, svo að landbúnaður hér telst heimskautalandbúnaður og á því rétt á meiri styrkjum en annar landbúnaður. Þetta kæmi sér vel fyrir sauðfjárbændur, mjólkurframleiðendur og fleiri í dæmigerðum landbúnaði en ekki fyrir kjúkklingrækt og svínabú. Varðandi fiskveiðar þá hafa þær þjóðir sem að reiða sig mikið á fiskveiðar eins og Malta fengið undanþágur. Reyndar tel ég líklegra að íslenskir útgerðarmenn muni sækja á mið evrópumanna frekar en þeir komi hingað. Það er nefnilega þannig að ef einhver fær að veiða hjá okkur, þá fáum við líka að veiða hjá þeim. En svo eru það auðvitað ekki hagsmunir heildarinnar (ESB) að taka undirstöðu atvinnuveg úr löndum sambandsins. Það er ekki í hag ESB að fá óánægt Ísland inn í sinn hóp og það er eiginlega líklegra að Íslendingar hafi mikið um fiskveiðistjórnun ESB að segja en að einhverjir sem enga reynslu hafa af fiskveiðum stjórni okkar hafsvæði. Íslenskir útvegsmenn hafa ekkert að hræðast, ef þeir halda rétt á spilunum verður allt þeim í hag.
Svo myndi dæmigerð fjögura manna fjölskylda spara 1,7 milljónir í vaxtagreiðslur ef að við værum í ESB, verða á nauðsynjavörum lækka og markaðir opnast fyrir Íslendinga.
Það er svolítið fyndindið að vera líka á móti því að ræða við ESB, allt í lagi að finnast eitthvað vera að Sambandinu eða eftir á að vera á móti samninginum - en að vera á móti því að tala við ESB? Það bara skil ég ekki. En ég held áfram að lesa mér til um þetta í dag.

Svo er svo helvíti fínt að búa í ESB.
Lalli

föstudagur, mars 14, 2008

Guðbergur, ópera, Hitler og kertaljós

Á miðvikudaginn síðasta var afmæli Vínarborgarháskóla, ekki var mikið gert úr því annað en að senda engan í skólann. Frekar undarlegt svona eftir á að hyggja, væri ekki betra að heiðra háskólann með mega-session af lærdómi í stað þess að loka, loka og læsa og allt það. En það var fleira markvert á seiði þann 12. mars. Guðbergur Bergsson var í Vínarborg við kynningu á Flatey-Frey sem að var að koma út í þýskri þýðingu. Frábært framtak, því önnur síðan er á íslensku og hin á þýsku svo hún passar mjög vel fyrir þá sem glíma við bæði málin. Jón Bjarni Atlason íslensku kennari við UniWien sá um að kynna Guðberg fyrir þeim sem mættir voru á Shakespeare & Company, sem er skemmtileg bókabúð og mjög sjarmerandi. Mér þótti margt vera skemmtilegt í því sem að lesið var upp, sem dæmi má nefna þetta hér:
En Freyr
þegar orðið verður eingilt eins og í íslenskri list
og gengi þessi endanlega skráð
eins og hjá óhagganlegum skáldum
sem skrifa bækur líkar velreyttum hænum
þá ætti vesælt orðið að liggja á vöxtum í lands-
bankanum
og vera í útláni handa leigupennum fyrir jól.

Eftir upplesturinn voru samt margir í vafa um hvort þeir hefðu skilið eitthvað af því sem að Guðbergur las, það sem helst stóð uppúr var án vafa Orða-Borða óperan sem Guðbergur söng hluta úr. Skemmtileg gagnrýni á ofneyslu orða og mikilvægi þess að melta það sem maður les, því annarrs gubbar maður.
-
12. mars 1938 er dagsetning sem að gleymist seint í Austurríki, þá marseruðu Þjóðverjar inn í landið - án nokkurar mótstöðu þeirra austurrísku. Þjóðin er enn í dag að glíma við söguna og hættir því sjálfsagt aldrei. Sumir vilja meina að Austurríkismenn geti með sanni kallað sig fórnarlömb, aðri vilja ekki heyra á það minnst, enda voru ofsóknir gegn gyðingum löngu byrjaðar og barátta vinstir og hægrimanna staðið yfir í mörg ár, með tilheyrandi blóðsúthellingum.
Til að minnast þessa dags og þeirra 80.000 Vínarborgara sem að myrtir voru af nasistum, var skipulögð athöfn á Heldenplatz þar sem kveikt var á yfir 80.000 kertum. Eftir upplestur Guðbergs löbbuðum við þangað og litum yfir kertahafið. Ég las svo síðar í Der Standard að aðeins 5.000 manns hefðu mætt á minningarathöfnina. Til samanburðar tóku yfir 250.000 manns á móti Hitler 70 árum áður.
Hvað segir það okkur?

Lalli

fimmtudagur, mars 13, 2008

vændi, mansal, strípiklúbbar og kynlíf

Ég er einn af þeim sem að finnst frelsi fólks mikilvægt, hverjum finnst það ekki? Líkast til fáum. En þegar að við lendum í þeim aðstæðum að þurfa að vega og meta frelsi tveggja einstaklinga, þá verður málið oft flóknara. Dæmi sem að oft kemur upp er vændi - þar skarast frelsi karlmanna til að fá að ríða hvenær sem og frelsi stúlkna og kvenna að fá að lifa eðlilegu lífi og sá réttur að vera ekki fórnarlömb. Nú hlaupa eflaust margir upp til handa og fóta, hvað er Lalli að bulla núna. Telur hann sig svo merkilegan mann að hann geti ákveðið hvað sé eðlilegt líf? Og hvað þá heldur, þekkir Lalli sögu allra vændiskvenna heimsins og stimplar þær þar með fórnarlömb. Eins og ég sagði að ofan þá er þetta ekki svona einfalt. En ég met einfaldlega ofar rétt þessara kvenna en karlanna sem ekki fá á broddinn reglulega - vandamál þeirra er líkast til ekki fjöldi kvenna, sem eiga víst að vera u.þ.b. jafnmargar karlmönnum. Lausn á þeirra vandamáli er ekki búa til fórnarlamb úr annarri manneskju.
Vandamálið eru karlarnir, að líta á það sem sjáflsagðan hlut að 10 karlmenn sofi hjá einni og sömu konunni sama daginn - og halda því fram að hún sé bara nokkuð sátt með lífið, er einhver sú ömurlegasta tilraun til sjálfsblekkingar sem ég veit um. Fimmtíu karlmenn með bjór í krús sitja við langborð þar sem ung stúlka fer úr spjörunum og hristir brjóstin framan í þá í von um aur. Það að á 21.öldinni séum við ekki enn komin framar en þetta í samfélagslegri þróun er sorglegt. Enn og aftur liggur rót vandans hjá karlmönnunum. Svo má ekki gleyma því að margar af þessum konum eru beinlínis fluttar inn til þeirra landa sem þær vinna svo í, þær sem komast til ágætra staða eru heppnar. Aðrar sitja eftir fast t.d. á landamærum Þýskalands og Tékklands og búa þar við ömurlegar aðstæður. Svo er líka vinsælt hjá þeim sem verja mansal og áníðslu að benda á að það séu nú margir aðrir sem séu hnepptir í þrældóm - það bætir ekki bölið að benda á eitthvað annað. Sú staðreynd aldrei hafi áður veirð jafnmargir þrælar til í heiminum er skelfileg staðreynd. Lélegustu rökin sem ég hef heyrt hjá þeim sem að tala fyrir vændi, eru þau að nauðgunum fækki ef vændi sé leyft. Hvurslagst djöfuls-dólgar eru karlmenn eiginlega ef að þeir geta ekki hamið sig og skánar það eitthvað ef að við leyfum þeim að ríða hórum í stað þess að nauðga. Vandamálið, það er hálfvita skapur karlmanna, er ennþá til staðar. Það er eitthvað að karlmönnum ef þeir telja þetta eðlilegt, svo einfalt er það.
Þess vegna finnst mér ömurlegt að heyra í fólk, oft á tíðum gáfuðu fólk, sem er vel að sér, nota tíman sinn í jafn ógeðslegan hlut og réttlæta fyrir heiminum þjáningar fórnarlamba.
Það óskar enginn faðir eða móðir sér þess að barnið þess verðir hóra, það óskar enginn systursinn þess að hún dilli rassinum framan í fulla kalla í von um ölmusu. Ekkert barn óskar móður sinni þess að hún sofi hjá tugum karlmanna í viku.

Þeir sem ekki sjá heildarmyndina og halda því fram að þetta sé spurning um kynlíf tveggja einstaklinga á jafnvægis grundvelli, eru á villigötum. Kynlíf þeirra sem báðir koma að borðinu/rúminu (eða hvar sem það nú fer fram) er falleg og yndislegt - þetta er ekki spurning um að borga. Þetta er spurning um virðingu fyrir öllum manneskjum.

Lalli

föstudagur, mars 07, 2008

við eigum þennan heim

Ég er ekki alltaf sammála Björk, stundum bullar hún bara. En það að segja Tíbet, Tíbet, Tíbet á tónleikum í Kína var einfaldlega frábært og hugrakt. Tónlistin hennar er að mínu mati frábær og nær yfir rosalega breytt svið, allt frá mestu rólegheitum og til rafpönks af bestu gerð.
Ég er búinn að vera að lesa mér svolítið meira til um Tíbet á netinu, eftir að hún sagði þetta fimm stafa orð. Saga Tíbet frá 1949 er ótrúlega sorgleg og í rauninni fáránlegt að þetta risaríki níðist á friðsælu munka-fjallahéraði. En það er líka eitt sem Björk kennir okkur, alltaf þegar við heyrum "Kína" - hugsum þá Tíbet, Torg hins himneska friðar og Falun Gong. Falun Gong eru eltir uppi, myrtir og líffærin úr þeim notuð. Þegar við heyrum "Rússland" - hugsum þá um Téténíu, ofbeldi gegn minnihlutahópum, ekkert lýðræði. Við erum nú þegar, eða öllu heldur, Bandaríkin eru nú þegar búin að skilyrða sig svona í hugum flestra. Það er ekki hægt að segja flottir skór ("made in China")eða hrósa Kínverjum fyrir frábæran hagvöxt og fussa svo yfir því að aldrei hafa fleiri þrælar verið til í heiminum.
Í dag á sama tíma og menntunarstig fólks útum allan heim hækkar og hækkar, þá hækkar hlutfall fólks sem eru þrælar líka!
En hvað um það, getum við nokkuð gert?
Jú auðvitað látið ekki eins og fokking hálfvitar, auðvitað getum við allt gert. T.d. bara að segja lítið fimm stafa orð "Tíbet". Eða þriggja stafa orð "NEI" og bæta við þetta gengur ekki lengur.
Betri heimur er mögulegur!
--
Viðauki: Teng Biao, kínverskur lögfræðingur sem að barist hefur fyrir mannréttindum í Kína t.d. Falun Gong og gagnrýnt framkvæmd og undirbúning Ólympíuleikanna í sumar, hefur horfið sporlaust. Áður hafði hann verið aðvaraður að láta af gagnrýni sinni og framkomu í fjölmiðlum.
-
Lalli

sunnudagur, mars 02, 2008

sólblómakjarnorka

Þorrablót Félags Íslendinga í Austurríki var haldið í gær. Að venju var vel mætt og mikið rætt og ótrúlegt en satt líka snætt. Kjammar, pungar og fleira fínerí rann niður með kollum af bjór hjá mjög svo svöngum blótsgestum. Við Eyrún röltum heim á leið um 3 leitið eftir að hafa skemmt okkur vel í hópi góðs fólks.
-
Ég hef aldrei verið jafn tilbúinn að takast á við nýja önn og ég er núna. Eftir að hafa skoðað þau fög sem í boði eru á þessari önn var ég meira en lítið spenntur og ég fann fjölmarga áhugaverða kúrsa, núna á ég bara eftir að raða þeim niður í góða og stóra stundartöflu.
--
Ég er búinn að vera að lesa nokkrar góðar bækur í fríinu og í gær vann Eyrún "Rimla hugans" eftir Einar Má í þorrablótshappadrætti, svo þar kemur ein til viðbótar sem ég get gætt mér á.

vesist blesa
Lalli

laugardagur, febrúar 23, 2008

the good life


Verkefnin sem voru með "dead-line" 21. febrúar eru blessunarlega komin til skila, annars væri ég í vondum málum. Ein ritgerð er eftir, en hún verður létt verk og löðurmannlegt. Ég á aðeins eftir að koma henni í form og þessháttar, en hún fjallar um velferðarríkið, uppruna þess og þróun. Svolítið annað en ég hef oft verið að vinna með, en það er líka áhugavert og spennandi að gera nýja hluti.
-
Húsið á bak við mig á myndinni er Leopold Museum, þar er stærsta safn Egon Schiele mynda í heiminum og nokkuð magn af Gustav Klimt líka. Við Eyrún tókum eftir því að hann Gustav bjó ekki langt frá nýju íbúðinni okkar. Hann var mikill snillingur og reyndar Egon Schiele ekkert síðri, þessir gömlu Vínarborgarar... Ég reyndar las það í grein að ungir menn á þessum tíma hafi verið svo uppteknir af því að vera gamlir og reyndir og listamannalegir að þeir ekki bara gengu í skósíðum frakka með hatta heldur lang flestir gengu þeir við staf, án þess að þurfa þess. Þeir höltruðu eins og gamal menni því það var kúl. Hégóminn er víst ekki bara nútíma fyrirbæri.
--
En núna ætla ég að haltra á markaðinn og kaupa góðgæti.

pís át
Lalli

miðvikudagur, febrúar 13, 2008

ljómandi hress...

Ég hef aldrei heyrt neinn afneita "ellefta september" eins og Egill Helgason segir á bloggsíðunni sinni. Aftur á móti er ótrúlegt ef að fólk efast ekki um upplýsingarnar sem að "liggja" fyrir og hvernig málið hefur verið skoðað. Það er að mínu mati einfaldlega barnalegt að taka við tyggjóklessunni frá Kananum og jórtra glaður á henni. Það þýðir samt ekki að ég styðji hryðjuverkamenn eða hafi óskað eða óski enn 3000 N.Y. búum dauða. - Ef það er eitthvað sem við eigum að læra af fortíðinni og framkvæma í dag og í framtíðinni þá er það að efast, spyrja spurninga og leita svara. Ekki segja já og amen við öllu sem okkur er sagt og sérstaklega ekki ef það skiptir sköpum fyrir framgang heimsmálanna.
Það afneitar enginn 9/11 en það er skynsamlegt að velta því fyrir sér, leita upplýsinga, EFAST, vega og meta, e.t.v. kemst fólk svo að sömu niðurstöðu og Bush og Egill Helgason og kanski ekki.
-
Ég skrifaði grein á politik.is um daginn, þið getið lesið hana þar. Í þessari mjög svo stuttu grein vildi ég bara hvetja fólk til að tala um innflytjendamál, ekki fela þau og leyfa rasistum að sjá um umræðuna því það er að mínu mati stórhættulegt. Við verðum að tala um hlutina og þegar einhver segir að útlendingar séu fífl, þá verðum við að benda því fífli á að hann sé fíflið á málefnalegan og rökstuddan hátt.
Við vinnum ekki á nauðgunum með því að vorkenna fórnarlambinu og tala ekki um hlutinn. Við þurfum að hlúa að fórnarlambinu og taka á gerandanum - en fyrst og fremst þurfum við að koma í veg fyrir að fleiri gerendur verði til.

Lalli

sunnudagur, febrúar 03, 2008

febrúar fyrir vinnufrídaga

Loksins! Febrúar er runninn upp, afhverju gleðst ég svo mjög yfir því? Át ég úldinn Schnitzel sem ruglaði þannig í líkamstarfsemi minni að ég sit hér í Bandgasse og fagna gríðarlega febrúar að tilefnislausu? Ekki er það nú svo gott, slæmt eða ágætt. Febrúar er einfaldlega fínn mánuður, því þá er ekki gert ráð fyrir því að maður mæti í tíma, ekki heldur að maður taki próf, en því frekar er gert ráð fyrir því að verkefni séu unnin og ritgerðir skrifaðar og ég er svo undarlegur að það finnst mér skemmilegt.
-
Fyrir utan verkefnavinnu þá má líka nota febrúar til annarra góðra verka, eins og að gera íbúðina okkar fínni, skoða nýfæddan pandabjörn í dýragarðinum í Vín, lesa góðar bækur (e.t.v. slæmar líka) og njóta þess að búa í fallegri borg. Miðað við allt það sem ég ætla að taka mér fyrir hendur veitir mér ekkert ef því að hafa páksana snemma í ár og fá örlítið marsfrí líka, svo ég geti hvílt mig eftir annasamt febrúar"frí".

Lalli

fimmtudagur, janúar 31, 2008

Ball ballanna

Viðbót þar sem mér blöskraði áðan: Silfrið Rúv

Spilling eða ekki spilling, þetta er ógeðslegt - hvaða heilvita einkafyrirtæki ræður mann til sín með því að borga honum 300 milljónir (!). Svo er þetta trekk í trekk réttlætt með því að ef mönnunum séu ekki borguð hærri laun heima þá fari þeir bestu úr landi, hefur einhverjum þeirra svo mikið sem verið boðin staða við stóran erlendan banka? Var það ekki þannig að forstjórar íslensku smáfyrirtækjanna eru með hærri laun en forstjórar Skandinavískra stjórfyrirtækja eins og Ericsson. Þessir menn sem taka á móti þessum greiðslum hafa ekki vott af siðferðiskennd í sér og það fólk sem ver þetta hérna að ofan varla heldur. Ef þú ert með milljón á mánuði, þá ertu ríkur og getur leyft þér nánast allt, en 300 milljónir fyrir að byrja í vinnunni! Svo um leið og einhver dirfist að segja eitthvað á móti þá er það "öfund" - ég þekki ekki neinn sem öfundar þetta siðblinda og spillta fólk. Það eru greinilega einhverstaðar til peningar í þessu samfélagi þó að leikskólar séu ekki mannaðir, elliheimili undirmönnuð og að því er virðist er siðferðiskennsla við íslenska skóla í algjöru lágmarki.

En passið ykkur að mótmæla þessu nú ekki of kröftuglega, þið gætuð umbreyst í skríl.
--
Í dag gleðjast velstæðir Vínarborgarar, það er komið að sjálfu Óperuballinu. Þar keppast þeir sem aur eiga að sýna hversu flottir þeir eru og svolgra í sig Kampavíni milli þess sem þeir dansa Vínarvals við tónlist Óperu Sinfóníunar. Miðinn inn í húsið kostar 270 € í stæði, s.s. þá máttu vera niðri og dansa o.s.frv.. Þeir sem að eru í alvörunni flottir, fínir og frægir þeir leigja sér bás (loge) í Óperunni og geta þannig lokað sig af og notið þess að fá hvíld frá skítugum almúganum á götunni og verið með fólk sem er fínu fólk sæmandi. Það þarf að loka götum og 700 lögreglumenn verða á vakt í kringum Óperuhúsið til að koma í veg fyrir að skríllinn komist ekki nálægt ballinu. Reyndar hefur oft komið til þess að alvöru skríll, s.s. ekki í morgunblaðs/sjálfstæðisflokks túlkun á því orði, heldur grjót- og molotovkokteilakastandi rugludallar mæti á svæðið til að "berja fína fólkið í augun". Þeir sem að bara vilja púa á eyðsluna og oflætið hætta sér ekki í svoleiðis skrílslæti.
-
Þessi veisla skilar Staatsoper líklega meiri tekjum en allt annað sem að hún setur upp, enda ekki nema örfáir skemmtikraftar sem þarf að borga og þeim mun meira af Kampavíni sem selst. En þeir sem að geta eytt í þetta mættu líka gefa svolítið með sér og því væri snjallt fyrir Óperuna að gefa fólki möguleika á því að borga í góðgerðarsjóð eða eitthvað slíkt á sama tíma og miðinn er keyptur. Reyndar veitir Óperunni heldur ekkert af aurunum því þar koma fram á hverjum einasta degi tugir listamanna á heimsmælikvarða. Það er einmitt það fallegast og skemmtilegasta við ballið, að sjá balletinn, sem að þessu sinni var Fussballet í tilefni af EM í fótbolta og svo söng sjálfur Carreras, svolítið gamall orðinn en flottur engu að síður. Svo tekur við snobb, snobb og aftur snobb. Íslenskir auðkylfingar og bankaræningjar væru flottir þar að láta rigna kampavíni upp í nefið á sér.
--
Þeir sem að lesa bloggið mitt en eru ekki búnir að lesa Rottumanns bakþanka Óla Sindra, ef einhverjir eru, þá eru þau hér með hvött til þess.

Lalli

þriðjudagur, janúar 29, 2008

eigoobiguM

Fyrsta próf búið og fyrirlestur sama dag, hvort tveggja gekk vel - ég bullaði um Open Source og Póstfordisma í Arbeit am Ich og náði að skrifa góða ritgerð í Gesellschaftstheorien, kennarinn virtist líka ánægður með bókina sem ég valdi að skrifa ritdóm um "The Protestant Ethic and the Spirit of Capitalism" vonandi verður hann bara jafn ánægður með útkomuna.
-
Stundum þegar ég les blogg þá verð ég að kommenta á þau, hálfleiðinlegur kvilli en ég held að þetta sé frekar af því að mig langi að segja hæ yfir hafið frekar en að ég sé uppáþrengjandi mófó. Ég setti til dæmis tilgangslaust komment inn á síðuna hans Óla Sindra áðan. En hvað um það.
--
Ég er búinn að sniðganga mbl.is síðan eftir að borgarstjórnin féll ekki af fúlleika og svekkelsi heldur vegna þess að það er fáránlegt að sætta sig við svona umfjöllun. Der Standard sem að ég les hefur u.þ.b. 300.000 lesendur og er mjög svo kraftmikill og málefnalegur fjölmiðill. Ég bíst nú ekki við því að nokkur taki uppá því að starta nýju blaði núna, það væri eins og að framleiða Túbusjónvörp í massavís. Það væri samt mjög gott að fá kraftmikinn vefmiðil, sem kafar dýpra í málin en Eyjan - þó hún sé afbragð.
---

En í bili segi ég bless kex.
lalli

föstudagur, janúar 25, 2008

Framhald frá í gær...

Í mogganum í dag stendur eitthvað á þessa leið:
"Þeir sem missa völdin geta verið ósáttir við þessa breytingu en þeir eiga engan annan kost en að kyngja breytingunni og leitast svo við að snúa henni við í næstu borgarstjórnarkosningum, sem fram fara eftir rúmlega tvö ár."

Bíddu nú við? Samkvæmt þessu hefðu Sjálfstæðismenn átt að "kyngja breytingunni og leitast svo við að að snúa henni..." Já, eins og ég sagði í gær þá er öll vitleysan eins.
-
En það er a.m.k eitt jákvætt við allt þetta rugl, í svona aðstæðum sjáum við íhaldið í sínu rétta ljósi - í ritstjórnargreinunum, í viðtölum og á heimasíðum sjálfstæðismanna koma þeir undan bleiku sauðagærunni og sína drulluskítugar krumlurnar. Ætli það séu ekki bara spennandi tímar framundan í íslenskri pólitík?
--
En það sem ég reyndi að koma frá mér í gær með Volksbegehren, en begehren þýðir að sækjast eftir, köllum það bara "Þjóðarsókn" þar sem þjóðin sækist eftir því að fá umfjöllunum um mál. Og það er eins og ég hélt, 100.000 manns þurfa að skrifa undir áskorunina, en eftir að tillagan er lögð með a.m.k. 8.000 staðfestum og trúverðugum undirskriftum sem er ca. 1 % íbúa Austurríkis, hefur sá hópur 10 taga til að fá 100.000 og þá fjallar Nationalrat/Þingið um málið. Frá 1964 til 2004 náðu 29 tillögur inn á þingið - í rúmlega helmingi tilfellanna voru það samt ekki borgararnir sjálfir heldur stjórnarandstöðuflokkarnir sem að lögðu tillögurnar fram og því voru þær felldar. Einnig þurfa tillögunar að vera settar fram tilbúinn texti sem stenst lög, sem að minnkar möguleikann á því að einhver vitleysa komsti inn. En möguleikinn er a.m.k. fyrir hendi, annað en heima.
---

lalli

fimmtudagur, janúar 24, 2008

Öll vitleysan er eins...

Borgarstjórnarbrölltið í Reykjavín City er með undarlegri sýningum á pólitískuleiksviði Íslands í langan tíma - allt í senn harmleikur, gamanleikur og svo dramatísk sjúkarhússaga (sem má ekki tala um. Það eina sem vantar í þetta er spenna og þó það er jú spennandi að fylgjast með bullinu í mbl.is og þeim sem greinilega eru hægri sinnaðir bloggarar þar. Skrílslæti og afbökun á lýðræðinu heitir það að hrópa og kalla í ca. klukkutíma og labba svo sjálfur út!
-
Svo ég sleppi nú klisjum og týpísku tuði á íslenskan bloggmáta.
--
Nú hef ég ekki tíma til að leita að upplýsingum um rétt íslenskra borgara til að leggja fram tillögur á þingi. Í Austurríki geta borgararnir sjálfir með undirskriftarlista 100.000 manna af rúmlega 8. milljónum, en þá getur s.s. fólkið í landinu lagt fram tillögu um lög eða reglur sem þingið síðan fjallar um. Þetta væri e.t.v. eitthvað sem nytsamlegt væri á Íslandi núna.

lalli

miðvikudagur, janúar 16, 2008

íslandistar

Ótrúlegt hvað maður eins og Egill Helgason, sem telur sig mjög gáfaðan og leikur sitt hlutverk eftir því getur verið þröngsýnn. Umræðan á síðunni hans um Íslam og hryðjuverk er undarleg í meira lagi, umræður hans og kolbeins í athugasemdakerfinu eru fróðlegar - í það minnsta til að átta sig á þeim takmörkunum og hömlum sem trufla þennan "áhrifamesta fréttaskýranda" landsins.
-
Annarrs er það helst að frétta frá Austurríki að Frjáslindir (FPÖ, die Soziale Nationalpartei (sic!)) í Graz reyndu að veiða atkvæði með því að benda á þá staðreynd, að þeirra mati, að Muhammed hafi verið m.a. barnaníðingur. Fyrir vikið er búið að hóta konunni sem þetta sagði, Susanne Winter, lífláti. Frekar mikil dramatík hjá bókstafstrúuðum Múslimum eins og svo oft áður, aðrir í Austurríki s.s. forsetinn og fleiri fordæma þetta harðlega og alvörublöð eins og Standard taka FPÖ fíflin í gegn í greinum. En "die Globale Islamische Medienfront" hótuðu einfaldlega að drepa hana. Ef að einn flokkur myndi taka íslenska innflytjendur fyrir og leggja okkur í einelti þá myndi ég sletta á þau skyri - er það ekki svipað á þeirra mælikvarða - við slettum skyri - þau drepa fífl (eða fólk sem þau telja vera fífl-fólk sem hefur samskipti við fífl osfrv)? Nei kanski er þetta ekkert líkt. En mér finnst samt gaman að sjá að íslendingar vilja greinilega vera með í alheimsumræðunni og ræða um hryðjuverkamenn eins og aðrir, þó þeir séu kanski ekkert á leiðinni á klakann.
--
Okkar vandamál á Íslandi eru oftar en ekki lúxus-vandamál, auðvitað mætti fjölmargt betur fara en þó er flest í lagi - eða kanski vinnum við bara svo mikið að við sjáum ekki vandamálin. En hvað um það maður myndi halda að þetta gæfi okkur forskot t.d. í umræðum um vandamál og málefni sem eru okkur fjarlæg eins og Íslam - við gætum tekið á þeim Theoriskt en ekki í upphrópana stíl a la Jörg Haider, sem að sá sér leik á borði og bætti við umræðuna í Austuríki í ræðu nýlega: "grüss gott" sagði hann, sem þýðir heilsaðu guði og fólk segir þetta í staðinn fyrir Góðan dag, má maður ekki ennþá segja Grüss gott? bætti hann við, þarf nokkuð að segja "Allah ist groS".
Við þurfum nefnilega að passa okkur að viðhalda umræðunni og þeir sem að hafa eitthvað til málanna að leggja verða að tala - það er stórhættulegt að láta fólk eins og Winter og Haider að ógleymdum H.C. Strake sjá um umræðuna.
---
Lesendur La Rusl hafa að sjálfsögðu mörgu við þessa umræðu, sem og aðrar, að bæta svo þið látið í ykkur heyra - annað er einfaldlega hættulegt.

Auf wiedersehen,
Lárus

miðvikudagur, janúar 09, 2008

hljóðheimur=ljósheima+hurð

Mikið er gott að vera kominn heim, þ.e. í íbúðina okkar í Vín - en það er líka alltaf svolítið skrítið að yfirgefa hinn staðinn sem við köllum heim. Ísland er yndislega skrítið og þær taugar sem maður ber til þess eru jafn skrítnar og það sjálft er skrítið. Við vitum öll hvernig það er - kalt, dimmt og blautt bróðurpart ársins og yfir sumarmánuðina vex þar gras og nýlega innfluttar haustplöntur frá meginlöndunum beggja vegna við okkur. Fólkið er líka (ég þar á meðal) undarlegt svo ekki sé meira sagt, en kanski er það einmitt það sem gerir landið gott. Á Íslandi er t.d. hægt að segjast hafa farið niður í bæ að skoða mannlífið og gera það í orðsins fyllst merkingu. Einfaldlega sitja á kaffihúsi og horfa á annað fólk. Frænka mín sem bjó lengi í Stokkhólmi þótti alltaf undarlegt að koma heim og labba niður Laugarveginn eða vera á öðrum fjölförnum stöðum því þar horfðu allir á hana og henni fannst eins og hún ætti að þekkja þetta fólk og heilsa því, á meginlandinu glápir maður ekki á fólk sem maður þekkir ekki. Nema ég, þegar ég er í Neðanjarðarlest, Strætó eða Sporvagni þá eru allir svo uppteknir við að horfa á nákvæmlega ekki neitt, að Íslendingurinn ég get leyft mér að glápa, en auðvitað bara pínu. Reyndar virðist það vera samþykkt af samfélaginu að dást að hundum og börnum í almenningssamgöngukerfi Vínarborgar, enda eru bæði hundar með múl og börn með snuð vita meinlaus.
-
Mætingin í íslensku tímana mína sló með í dag þegar að svo mikið sem núll nemendur mættu. Jón Bjarni Atlason íslenskukennar í Vín sagði mér þá að nemendur væru lengur í gang en við kennararnir.
--

vesist blesa,
lalli