þriðjudagur, mars 27, 2007

já halló halló, nú ert þetta þú ég þekki þig...

Mig langar að biðjast velvirðingar á því að stundum, eftir að ég skrifa bloggin mín þá les ég þau ekki vel yfir og þess vegna eru stafsetningarvillur e.t.v. algengar hjá mér. Kanski er það vegna þess að ég er vitlaus, kanski vegna þess að ég er óheyrilega latur en líklegast vegna þess að ég flýti mér að blogga um allt og ekkert og ýti á "publish" simm-salla-bimm. Batnandi mönnum er best að lifa og ég skal bæta mig hvað þetta varðar. Einhverja fleiri galla veit ég um en nenni ekki að blogga um þá, ég held þeim bara fyrir sjálfan mig um stundar sakir í það minnsta.
-
Ég er, eða á að vera, að vinna í ritgerð ég skila henni á föstudaginn og svo eftir einn tíma á laugardaginn er ég kominn í páskafrífrífrífrí... Þá verðum við Eyrún fyrst hérna í kotinu okkar og höfum það gott og lærum ef við verðum dugleg. Svo förum við til Essen og hittum Hönnu, Dóra, Maju og Torfa og mamma og pabbi koma líka, eftir nokkra góða dag í Essen, fer svo allt liðið að Dóra undanskildum til Vínar þar sem við eigum eftir að eiga góðar stundir. Hér og þar, er og verður næs, ógeðslega næs!
-
Ég sá þýsk-franska heimildarmynd í gærkvöldi á ARTE, um nýnasista, rasista, kristna-hvíta gyðingahatara og fleiri slíka hættulega hópa. Hún sýndi svart á hvítu og í lit að alþjóðleg tengsl eru á milli þessara hópa, sérstaklega frá þeim sem kalla sig "Blood and Honour" sem að eru með mjög sterktengsl sín á milli og svo líka yfir til austurevrópu, en þar er örtvaxandi kynþátta, innflytjenda og útlendingahatur stórt vandamál og mikið áhyggju efni. Talað var við svona gaura frá a.m.k. þessum löndum Svíþjóð, Bretlandi, Bandaríkjunum, Serbíu og Rússlandi. Hóparnir í Svíþjóð framleiddu mikið af ljótum áróðursmyndböndum, þar sem m.a. voru byrt nöfn og heimilisföng meðlima anti-fasista hreyfinga í Skandinavíu og þeir þar með gerðir að skotmörkum nýnasista. Þessi þróun ætti að vekja meiri ugg meðal almennings, enda eru ekki nema 60 að hópar af þessu tagi komust til valda í Evrópu og reyndu að útrýma öllum þeim sem ekki voru þeim þóknanlegir. Hópurinn í Rússlandi var virkilega ógnvekjandi, skipulagður og með tengsl inn í Dúmuna og forkólfarnir þar stóðu eins og ekkert væri fyrir framan Kreml og réttu fram höndina og heilsuðu Hitler. Hóparnir í Bandaríkjunum voru beintengdir gömlu KKK hreyfingunni sem og kirkjum og prestum sem að höfðu vægast sagt undarlegar hugmyndir um heiminn. - Okkur sem líkar vel við lýðræði og mannréttindi verðum vera vakandi fyrir þessu og þora að mótmæla þessu, en umfram allt, taka mönnum alvarlega sem hata lýðræðið, hata litað fólk, hata almennt fólk sem ekki er 100% eins og það vill hafa það, taka þeim alvarlega því þeir eru vopnaðir, hættulegir og of þeir hika ekki við að drepa, pína og niðurlægja fólk og skemma fyrir því að við getum byggt um réttlátt samfélag.
-
Svo hef ég án vafa eitthvað til þess að tuða yfir á laugardaginn eða sunnudaginn.. þangað til þá
prumpkveðja,
Lalli

miðvikudagur, mars 21, 2007

umhverfið, alheimurinn og litli ég

Ég veit ekki hvort mér leyfist að skrifa um umhverfismál, hvað þá heldur reyna að halda því fram að ég sé umhverfissinni eða hafi almennt gaman að útiveru í náttúrinni. Það sem setur mig í þau spor að fá líklega ekki leyfi fyrir þessum skoðunum mínum, hjá þeim sem líklega lesa ekki bloggið mitt, er afstaða mín gagnvart Kárahnjúkavirkjun. Ég er s.s. hlynntur henni, ég veit að hún skemmir landið sem hún er á og setur ör á einn stað á Íslandi. En að mínu mati eru kostirnir fyrir Norðausturland einfaldlega fleiri. Þýðir þetta að ég sé ósjálfkrafa hlynntur öllum örðum virkjunum og álverum á Íslandi, nei engan veginn. Raunar held ég að núna sé fínt að staldra við, enda megum við varla menga meira samkvæmt Kyotobókuninni. Engu að síður þá er ég umhverfissinni og sem slíkur leiðist mér hryllilega umræðan um umhverfismál sem að ein og sér dóminerer allt annað á Íslandi í dag. Hún snýst um virkjanir og álver. Raunverulegar ógnir við heiminn, s.s. hlýnun jarðar fær varla að komast að, eyðing regnskóga ekki heldur, nei vatnsaflsvirkjanir. Fyrir mér eru umhverfismál, eins og flest öll önnur mál, alþjóðlegmál. Ef við á vesturlöndum myndum draga úr notkun einkabíla og minnka orkunotkun við t.d. upphitun húsa, einangra þau betur og nota minna gas. Á sama tíma og við myndum fella niður skuldir þriðja heimsins og aðstoða þar með þær þjóðir við koma sér upp betri aðstæðum gætum við breytt miklu. Því að fátækt þeirra gerir það að verkum að þau taka ekki þátt í baráttunni, þau hafa um annað að hugsa. Þetta myndi samt ekki leiða til kreppu, í fyrsta lagi hafa hagfræðingar svör við því þeim vandamálum sem upp gætu komið og með samstöðu gætum við tekið á þeim. Í hnattvæddum heimi getur ekkert eitt land sama hversu lítið eða stórt það er tekið einhliða ákvarðanir.
Heimurinn er langt því frá að vera jafn hættulegur og sumir á Íslandi virðast halda. Sameiginleg mynt Evrópu myndi ekki drepa Íslendinga, raunar las ég það í dag hjá Ásgeiri Jónsyni hagfræðingi að mikill meirihluti gjaldmiðla hafi verið gengistengdur við gull í upphafi 1900. Alþjóðleg samvinna á aðeins eftir að aukast, það þýðir ekki að ætla sér hvert í sínu eigin horni að hugsa um sín mál og þá lenda þjóðir heimsins í því að finna allar upp hjólið trekk en engin þeirra getur einbeitt sér að einhverju nýju. Til dæmis eyðum við Íslendingar/Evrópubúar (sumir) tíma og peningum í grænmetisrækt í gróðurhúsum, með að fólki í sólríkari löndum kemur sínum vörum ekki á markaðinn því hann er verndaður.
Vestur-Evrópu hefur aldrei vegnað betur en þau 50 ár sem hún hefur í sameiningu reynt að vinna úr sínum málum, auðvitað er Evrópusambandið ekki fullkomið, þess vegna er alltaf hægt að bæta það.
-
Til þess að geta skrifað lengra um þetta þyrfti ég að fara í hagfræði og tíminn minn "Politik und Ökonomie" byrjar á föstudagin... og núna er ég að fara (og ætti að hafa verið) að vinna í fyrirlestri fyrir kúrs um Kyn í Alþjóðasamskiptum.

kv.
Lalli

p.s. myndir úr hjólatúrnum okkar eru á myndasíðunni okkar Eyrúnar.

mánudagur, mars 19, 2007

góð helgi, yndislegur sunnudagur, erfið skólavika, ljúft líf,

Síðasti sunnudagur var ljómandi fínn, í alla staði. Við Eyrún vöknuðum á góðum sunnudagstíma, ekki of-sofin og ekki van, bara alveg passlega. Jón kom til okkar með Semmel (rúnstykki) og smjör, við fengum okkur soðin egg, tvo kaffibolla, lýsi, góð semmel, vítamín, appelsínusafa og síðast en ekki síst þá bakaði Eyrún kanilsnúða (umm). Svo héldum við af stað á hjólunum okkar og hittum Kristínu, sem að var við það að verða morgunhress, hún leigði sér hjól og kom með okkur í leiðangur. Við hjóluðum eftir Donau Insel meðfram borginni í dágóða stund en skiptum yfir á meginlandið til að komast meðfram Kalinberg og til Klosterneuburg. Þar sem við gæddum okkur á snúðunum og öðru góðgæti. Hjóluðum svo til baka inn í borgina aftur og stoppuðum næst við fallega brú, sem að sást í kærustuparamyndinni "Before Sunrise". Eftir hjólatúrinn elduðum við svo hörkufínt pasta saman og til þess að fullkomna daginn fórum við á jasstónleika, með hljómsveitinni Kelomat. Mjög snjallir spilarar, sem að léku sér mikið með tónlistina sína og tóku hlutunum ekki alvarlega, en voru samt ekki með óþarfa fíflaskap. Eftir að hafa tekið nokkur frumleg/nútíma jasslög, með tilheyrandi ískrum í blásturshljóðfærunum kölluðu þeir vin sinn inn á sviðið. Hann var með gervikúk á hausnum og kallaðist á við saxafóninn. Það er ekki á hverjum degi sem flinkur tónlistarmaður (saxófónleikarinn) kallar aula upp á svið til sín með gervikúk á hausnum til þess að herma eftir hljóðunum sem hann framkallar. Í laginu sem þeir léku eftir uppklapp fór trommarinn svo á kostum, skipti um tónlistarstefnur á nokkura sekúntna fresti: leiddi hljómsveitina á ca. 2 mínútum úr nútímajassi, yfir í brjálað fönk og hiphop sem síðan fór yfir í argasta rokk og að lokum lentu þeir í mjúklega hefðbundunum jassi þar sem lagið einfaldlega dó út....
Snilld.
Alltaf gaman að eiga góðan dag og leyfa náttúrinni, gróðri, vindi og veðri sem og mönnunum sjálfum að hreyfa við manni.
Ég sofnaði sæll og glaður í gærkvöldi.
-
Seinna skal ég blogga um pólitík, skóla, vandamál heimsins, illsku og heimsku mannanna. En eftir að hafa séð gaur með kúk á hausnum jassa, er ég bara of hress.
-
svo verður líka nóg að gera í skólanum á þessari önn, sem ég virkilega fíla...
kveðja,
lalli (ekki með kúk á hausnum)

miðvikudagur, mars 14, 2007

Skólinn er hafinn og hafið er ekki hér

Skólinn kominn á fullt, mér líst eins og alltaf í upphafi önnin líta einstaklega vel út. Ég er í þremur tímum um Evrópusambandið, einum um stjórnmál og efnahag, áfanga um kyn í alþjóðasamskiptum, svo er áfangi um Öryggis- og samvinnumálastofnun Evrópu og Politikfeld analyse.
-
Svo er hausinn minn að fyllast af kosningaáróðri handa lesendum mínum. En ekkert ykkar telst til íhaldsmanna, svo að þið eigið öll eftir að kjósa Samfylkinguna 12. maí. Ekki nema einhver lesenda minna þrái ríkisstjón þar sem alþjóðlegsamvinna yrði skammaryrði og tal um jafnrétti myndi ekki komast að fyrir netlögreglu og tilraunum til að skilgreina klám og síðar sannfæra þá sem eru ósammála um að þeir séu hálfvitar. Nei, kæru vinir, ég veit að þið viljið það ekki.
-
kv.
Lalli

p.s. kanski skal ég vera málefnalegri næst. En ég læt Árna Pál Árnason um það í bili.

laugardagur, mars 10, 2007

ó blogg mitt blogg

Blogg er nördismi, Íslendingar hafa nú, og fyrir nokkru meira að segja, algjörlega misst sig í bloggi. Það virðist enginn geta átt heimasíðu á Íslandi nema hún sé skráð hjá mogga-bloggi, í það minnsta ef einhver á að fara inn á hana. Stjórnmálamenn nýta sér þetta og skrifa um allt og ekkert og sumir leyfa örðum að segja skoðun sína á málinu, en ekki allir. Er það samt tilviljun að enginn málsmentandi Sjálfstæðismaður haldi úti flottri heimasíðu, ok, fyrir utan Björn Marskálk. Annarrs er það bara Eyþór Arnalds sem þótti það nógu mikilvægt til að blogga um að ISG hefði skroppið til Kanarí. En aftur að nördismanum, Íslendingar eru mega-nörd, sem dæmi um það er að ég er Íslendingur og nota orðið mega. Við misstum okkur yfir Rockstar og elskum Evróvisjón, íslenskir íþróttafréttamenn þykjast líka alltaf vera vinir íþróttamannanna. En nóg um það, við erum bara púkó.
-
Áðan sá ég í dagskránni hjá Rúv, Aplasyrpu.. svo kíkti ég aftur og sá að það var Alpasyrpa, það þótti mér leitt.
-
Ég er hress ekkert stress, bless, kex
Lalli

fimmtudagur, mars 08, 2007

framkallaðu bros fyrir heiminn


Hjartanlega til hamingju með baráttudaginn konur! Bara ef þið hefðuð meiri völd í heiminum, þá væri markt líklega einfaldara. Til dæmis ef fer sem mögulegt er að konur verði í æðstu embættum Þýskalands, Bandaríkjanna, Frakklands og Íslands. Fram-sam-fylking!
-
George Bush er í heimsókn í Suður-Ameríku þessa dagana, Bandaríkjamenn hafa ekki verið óvinsælli í háa herrans tíð. Hugo Chávez kallaði Gogga djöful úr ræðustól fyrir ekki alls löngu, Brasilíumenn ákváðu að fyrst það þyrfti að taka fingraför af öllum frá Brasilíu sem vildu komast til Bandaríkjanna væri best að gera svoleiðis við þá Bandaríkjamenn sem vilja koma til Brasilíu. Mótmæli gegn honum hófust með 6 milljón manna mótmælum í Sao Paulo, samkvæmt því sem ég las á Brasilískum fréttavef áðan. Það er búist við því að hann reyni að hvetja Brasilíumenn til aukinar framleiðslu á Etanóli, framleiddu úr sykurreyr, sem að þeir nota sem eldsneyti. Með því minnka jafnframt viðskipti þeirra við Venesúela, tilgangur þessa hjá Bush er ekki náttúruvernd heldur tilraun til að minnka áhrif Chávez í álfunni. Síðar mun hann fara til Úrúgvæ, Kólumbíu, Guatemala og Mexíkó.
Ef það verður erfitt að verja Bush í Brasilíu veit ég ekki hvernig það verður þegar hann kemur til Kólumbíu síðar í ferðinni, þar sem hann mun leggja áherslu á baráttu gegn kókaínframleiðslu. Það er hættulegt fyrir venjulega ferðalanga að þvælast til Kólumbíu, þá hlýtur jafn óvinsæll maður og Bush að eiga virkilega erfitt að ferðast um, sérstaklega ef hann vill berjast geng þeim sem stjórna helmingi landsins.

Þegar hann kom til Vínarborgar í fyrra vor, voru heilmikil mótmæli, hann stytti dvöl sína um 2 daga vegna þess og hin eiginlega mótmælaganga var í rauninni farin þegar hann var á leiðinni úr borginni. Af öryggisástæðum var þetta gert, enda leynast oftar en ekki mislitir ofbeldissauðir í svona hópum. Eins og kom svo á daginn þegar nokkrir hlupu beint að löggunni þegar að Hofburg var komið og grýttu hana. - Enda er öllum ljóst að lögreglumenn í Austurríki stjórna gangi heimsmálanna.
-
En það er bara að vona að hann komist lifandi frá þessu. Hvað ætli Bandaríkjamenn myndu gera ef Bush yrði ógnað að ráði? Ógnað að ráði, hvað meina ég, það eru 6 milljónir að öskra á hann að koma sér heim núna... Bara vonandi að þetta fari friðsamlega fram, því þessi lönd þurfa ekki á óvild Bandaríkjamanna að halda.. nóg hafa Vesturlönd gert þeim í gegnum tíðina.
-
Annarrs svona í lokin, þá fékk ég 1 einkun í tímanum sem ég átti eftir að fá einkun úr. 1 er hæsta einkunin hérna í skólanum, svo að ég fékk 10!

Lalli

mánudagur, mars 05, 2007

tekinn í misgripum


Vín. AP.
Íslendingafélagið í Vínarborg hélt sitt árlega þorrablót á góu á síðastliðinn laugardag. Blótið fór fádæmavel fram og annað eins hrútspunga- og sviðakjammaát og brennivínssvolgr hefur ekki áður þekkst utan landhelgi Íslands. Skemmtun kvöldsins fólst helst í því að eilítið ölvaðir söngvarar klöppuðu hvern annan upp og létu félaga sína syngja óæfðar aríur. Þegar tenórinn Snorri Wium var kallaður upp í annað skipti ákvað hann að láta ekki leika svo auðveldlega á sig og hnippti í öxlina á unga gullbarkanum og stórsöngvaranum Lárusi Heiðari Ásgeirssyni. Einar Guðmundsson bað Snorra um að synga "O sole mio", til að kynna Lárus fyrir áhorfendum eða til að koma honum í vandræðalega stöðu ákvað Snorri að láta Lárus fá hljóðnemann í augnarblik áður en lagið hófst. Þá komst upp um misgripin, Snorri hafði farið mannavilt og dregið með sér stjórnmálafræðinörd í stað óperusjarmatrölls. Allt kom fyrir okki og gítarspilið hófst og Snorri byrjaði á línunni "ó sóle mínó" sem hvert mannsbarn þekkir og kláraði það með sóma, að því loknu rétti hann Lárusi hljóðnemann og gerði Lárus sér þá lítið fyrir og samdi nýjan texta " ó snorri wium" og við rífandi fögnuð samlanda sinna, sem hvorki héldu vatni né brennivíni yfir dýrðinni.
-
Ég vona að þetta sé rétt haft eftir AP fréttastofunni
Kveðja, látrungs Lalli

föstudagur, mars 02, 2007

Kosningar eftir 73 daga


Ég bætti við nokkrum góðum tenglum á bloggið mitt, ég á eftir að fjölga þeim eftir því sem nær dregur að kjördegi. Í dag þá mæli ég sérstaklega með grein eftir Róbert Marshall og svo líka greininni eftir Hallgrím Helgason sem ég sagði frá í gær. Það er nefnilega grafalvarlegt mál ef að frjálshyggjuflokkunum með græna fálkann og grænu kindina verði ekki refsað fyrir að hafa misþyrmt íslensku velferðakerfi undanfarin ár. Þar að auki drógu þeir nafn Íslands í stríð, sem enn í dag nokkrum árum eftir að Bush sagði því lokið með sigri geysar af krafti.
Ég hef reyndar ekki áhyggjur af því að Samfylkingin fái ekki góða kosningu og enn minn áhyggjur eftir að Jakob Frímann gekk úr flokknum (!)(lol), í staðinn fyrir fornmæltann frum-stuðmann fengum við kröftugasta borgarfulltrúa VG í Reykjavík í tíð R-listans.
Síðustu skoðanakannanir á auðvitað að taka alvarlega, en Samfylkingin réttir úr kútnum, VG aftur á móti er að tapa grænasjarmanum og eftir standa Óli kommi, Steingrímur J., Ragnar Skjálfti, Kolbrún Halldórsdóttir í gamal dags baráttu fyrir afturhaldi. VG er nefnilega hvorki framsækinn né opinn og frjálslegur, heldur flokkur sem að sér alltaf bara eina lausn og eina leið til að leysa vandamálin, sína leið.
Heimurinn er bara ekki svo einfaldur og fólkið er jafn margbreytilegt og það er margt.

Lalli ..... kominn í gír;)

fimmtudagur, mars 01, 2007

kaffibolli og ritter sport


Ljómandi! Við erum aftur komin til Vínar og Eyrún fór í fyrsta tímann sinn í dag og ég var að skrá mig í þá tíma sem að ég vil fara í áðan. Einhverja tímana mun ég sitja í þessari fallegu byggingu á myndinni. Skildufög sem ég ætla að taka á þessari önn eru Stjórnmál og Hagfræði, Austurríki og EsB - bæði grunnkúrs og fyrirlestur, Samanburður stjórnmálakerfa - líka grunnkúrs og fyrirlestur. Svo skráði ég mig í tíma sem fjallar um kyn í alþjóðasamskiptum og annan sem að fjallar um OSCE. Svo tek ég líklegast tvo fyrirlestrar áfanga í viðbót, ef að eitthvað vantar uppá eða ég fæ ekki pláss þar sem ég vil vera.
-
Reykjavíkur ferðin var fín, það var gott að hitta alla og gaman að komast óvænt í afmælið hans Heimis á föstudaginn. Laugardagurinn var svo undirlagður fyrir útskriftarveislu frá 16-04:) við Eyrún vorum því skiljanlega þreytt á sunnudaginn, en mamma og pabbi fóru með okkur á sögusýningu Landsbankans og svo á Listasafn Reykjavíkur og því næst í pönnsur til ömmu. Það hressti okkur við.
-
Páfagaukurinn brjánsi er bjánalega blár blúndubani belgtroðinn af blammeringum brasilískum bambusveiðistöngum og kjúkklingabrjóstum.

Ekki reyna að verja það andskotans fífl!
-
Annars langar mig að benda ykkur á grein sem að Hallgrímur Helgason skrifaði og er á heimasíðunni hans. Hann kann að koma orðum á blað sá skallakrati, það er gott að hann skuli vera í réttu liði. Greinin heitir Hið karlæga kvenelti og Hallgrímur á þar marga góða spretti.
-
Tjá
Lalli