laugardagur, desember 30, 2006

Ár


Á þessu ári trúlofaði ég mig, við Eyrún fluttum í fallega íbúð og ég byrjaði á fullu í háskólanum í Vínarborg, fyrir mína parta þá er þetta ár gott ár og ég varð að betri gaur á þessum 12 mánuðum. Vonandi verður árið 2007 jafn gott fyrir mig, en um fram allt vona ég að það verði betra fyrir heiminn, fyrir jafnrétti og frið í honum. Árið 2006 endar engu að síður ekki á þann hátt að við getum vonað það. Síðast liðna nótt var Saddam Hussein myrtur, þeir sem að myrtu þann auma einræðisherra gerðu það í nafni frelsis og réttlætis. Morð kalla venjulega ekki á frið og sættir, hví ætti þetta morð að gera það? Hlýnum heimsins er vandamál sem við vitum öll af, en samt er bara rætt um það, en ekkert gert, hvergi nokkursstaðar.
Í síðustu Gallup könnum ársins er Sjálfstæðisflokkurinn með 38% en Samfylkingin aðeins með 24%, þetta þýðir auðvitað aðeins að allir þeir sem vilja sjá réttlátt samfélag þurfa að bretta upp ermarnar og hætta að rífast í öllum hornum og nota kraftana til þess að hlúa að öllum í samfélaginu. Þegar púðri, peningum og kröftum er eitt í að drepa 9 óæta hvali en 5000 börn eru fátæk þá þarf að skipta um stjórn. Við þurfum að taka höndum saman. Hætta að skemma fyrir hvoru örðu og breyta samfélaginu okkar.

Ég ætla að gera mitt til að og ég vona að þið gerið ykkar.

Sameinuð stöndum vér sundru föllum vér,
hjartans óskir um gleði- og friðarár.

Lalli

laugardagur, desember 23, 2006

Jólin koma..

Ég rétt svo lauk við að skrifa jólapistilinn minn, ýtt svo á publish og þá sagðist Internet Explorer ekki vilja framkvæma þá skipun, u.þ.b. 5 mínútum áður hafði ég brennt jólagrautinn, þegar ég reyndi að sjóða vatn og kveikti á vitlausri hellu. Við þessum vandamálum eru til lausnir, annarrs vegar henda grautnum og sjóða ný grjón fyrir Ris a la Mand og hins vegar ná í Mozilla Firefox, ég hef nú þegar gert hvort tveggja. Jólin koma þrátt fyrir þetta og ekkert stress. Jólastress þekki ég ekki af eigin raun, ferðaþreyta en ekkert stress.
Jólin eru falleg hátíð og við getum hvert og eitt nýtt okkur það sem við kjósum úr boðskap hennar, um fram allt eru jólin afsökun til þess að vera góður við fólkið sitt, hugsa um kærleika og njóta þess að vera til. Við getum hvorki keypt jólin, bakað þau né eldað, jólin eru ekki neitt eitt sem við finn, fáum eða þurfum að leita að. Jólahátíðin kemur okkar, hvort sem við erum gömul eða ung, rík eða fátæk. Þau ykkar sem viljið fá smá skammt af fallegum jólaboðskap gætuð t.d. farið í Hátíðarmessu í Akureyrarkirkju klukkan tvö, ef að presturinn nær ekki að færa ykkur boðskapinn, þá er ég þess fullviss að hún Eyrún mín færir ykkur hann en hún syngur tvo sálma.
Umfram allt njótum þess að hitta vini og vandamenn og knúsa fólk og brosa til þess, segja hátt og snjallt gleðileg jól!

Lalli

fimmtudagur, desember 21, 2006

úr -19 í +12

Ísland tekur aldeilis vel á móti manni, hamfara hláka og rokrassgat. Ég bíst nú samt við því að það sé algjörlega toppur sjálfhverfunnar að halda að því fram að veðrið breytist fyrir mig.
Fréttirnar hérna á Íslandi hafa undanfarið fjallað um veðrið og dónakalla. Það er lítið sem við getum gert í þessu veðri en þessir bölvaðir ógeðslegu siðspiltu "menn" sem að nauðga og misnota stúlkubörnum og konum, það er ýmislegt sem hægt er að gera við þá. En í því nýfrjálshyggju andrúmslofti sem löglærðir Reykvíkingar, sem stjórna landinu okkar, anda að sér virðist ekki vera rými fyrir þau vandamál samfélagsins sem hægt er að stjórna með "frjálsum" viðskiptum. Laga frumvörp, t.d. frá Ágústi Ólafi, um afnám fyrningarfrests komast ekki í gegn, dómstólar og lögregla sleppa mönnum út þrátt fyrir að þeir hafi í tvígang nauðgað fermingarstúlkum. Karlmenn eiga það til að móðgast ef það er sagt að þetta vandamál sé lýti á karlmönnum sem samfélagshóp eins og t.d. Egill Helgason gerði um daginn eftir að Þórunn Valdimarsdóttir benti á þetta.
En næst ætla ég ekki að benda á það sem er ljótt og leiðinlegt, heldur skrifa fallegan jólapistil og svo í lok desember ætla ég að rifja upp árið hérna á ruslinu mínu.

þangað til næst, þá verða jólin alveg að koma...

lalli

fimmtudagur, desember 14, 2006

ég vaknaði í morgun

Ég sýndi ótrúlegan aulahátt í morgun, ég vaknaði klukkan 07:07 og þegar að vekjaraklukkan hringdi klukkan 07:15 þá fór inn á bað burstaði tennurnar, fór svo í sturtu og að því loknu fór ég aftur inn í herbergi þar sem ég hefði átt að fara í fötin mín en hún Eyrún lá í rúminu okkar svo að ég lagðist við hliðina á henni og knúsaði hana og viti menn ég sofnaði svo ég svaf yfir mig þrátt fyrir að hafa vaknað, burstað og sturtað mig! Ég hlýt að vera eitthvað veikur...
----
Sá einhver Kastljósþáttinn þar sem Ingibjörg og Geir H. Haarde mættust? Mikið rosalega þótti mér Hr. Haarde vera aulalegur í honum. Þátturinn var varla byrjaður þegar að hann kvartaði yfir því að Ingibjög hefði gripið fram í, næst þegar að Ingibjörg fékk orðið greip hann sjálfur fram í og Ingibjörg bað hann um að biðja fólk ekki um að grípa ekki fram í ef hann gæti ekki setið á sér sjálfur. Svo svaraði hann umræðunni um fátækt með því að skýrslan væri léleg, en hún kemur einmitt úr hans ráðuneyti (árinni kennir... líklega illur árasmiður í þessu tilfelli) og rökin fyrir flestu sem rætt var um voru leiðréttingar á hinum og þessum mistökum sem að ríkisstjórnin hefur gert og hann bakkaði útúr hvalveiðiumræðunni og sagði hana bara smámál. Svo undirlokin var hann orðinn pirraður og sagði að Ingibjörg hefði talað allann tímann. Hann hefði nú þá barasta átt að tala meira, ekki var það henni að kenna ef henni tókst að færa rök fyrir sínu máli og hann gat engum nema sjálfum sér um kennt ef hann talaði ekki nóg.
---
Við erum búin að pakka í eina tösku, það er hlunkataskan okkar og í henni eru allir pakkarnir svo það er eins gott að hún skili sér, hún er samt svo stór að það væri gríðarlega erfitt að týna henni. Á morgun er föstudagur og klukkan 03.30 á laugardaginn þurfum við að leggja af stað út á flugvöll, við förum alla leið til Akureyrar í einni lotu og verðum lent á Akureyrarflugvelli klukkan 18:15.
--
Það verður ljómandi gott að komast heim, það verður gaman að hitta fólk, borða mat, labba í snjó, vera kalt á tánum, fara í fjallið, hanga og byrja svo aftur að læra á fullu því prófin eru eftir.
-
Ég vildi að ég væri duglegri við að skrifa um allt sem ég hugsa, kanski verður það áramótaheit, ásamt því að hreyfa mig meira og almennt að vinna í tilgangi lífsins: verða betri maður.

Vesist blesa og sjáumst fljótt,
Lalli

mánudagur, desember 11, 2006

jólaköttur


Ég held að jólakötturinn sé stórlega misskilin skepna, hann var gríðarstór og átti hvergi heima, hann var illa hyrtur og með ljót augu, svo vildi hann ekki mýs og mjálmaði aumlega og var þessvegna talinn skrítinn eins og oft vill með þá sem eru örðruvísi en hinir. En hann vildi vel þessvegna lagðist hann á fátæka fólkið sem fékk enga nýja spjör, hann lagðist á þau og reyndi að hlýja þeim! Svo kvæsti hún á þá sem að fengu föt og hvarf svo á braut, e.t.v. var hún bara að hrópa húrra á kattamáli. Við hinum ættum að taka köttinn okkur til fyrirmyndar og passa upp á það að öll börn fái nýja flík, það eru um 5000 börn á Íslandi sem lifa undir fátækrarmörkum
-
Síðasta bloggfærsla var óvenjuleg, enda nenni ég ekki alltaf að segja frá því sem að ég geri hérna í Vínarborg, en hún sýndi e.t.v. að stundum geri ég eitthvað annað en læra, blogga og hugsa um stjórnmál og vandamál.

næst verð ég samt að skrifa um stjórnmál, ef ekki, þá fer ég að hafa áhyggjur af mér.
lalli

sunnudagur, desember 10, 2006

TransAktionsNummern

Það var frí á föstudaginn í skólum og allstaðar nema í búðum, Maria Empfängnis hét þessi hátíðardagur Kaþólskra, en satt best að segja veit ég ekki 100% tilganginn með honum, eitthvað með erfðasynd heimsins og að María hafi fæðst án hennar, held ég en, æj ég ætla ekki að ljúga að ykkur, þetta var í það minnsta kærkomið frí. Ég var í tíma í skólanum til klukkan 20 á fimmtudagskvöldið og þegar ég kom heim voru Eyrún og Kristín farnar í partý í listaskólanum, svo að ég tók því rólega fékk mér rauðvínsglas og hékk á netinu, eins og ég geri ekki nóg af því. Seinna um kvöldið hitti ég Jón á ágætri Ölstofu og við röbbuðum um heima og geima.
Helgin fór svo í að rúnta um jólamarkaði og í búðir að leita uppi síðustu pakkana, sem fundust að lokum.
-
ljómandi fínt alveg hreint, pís át.. blogga meira og betur síðar..
lalli

fimmtudagur, desember 07, 2006

Nýtt útlit og nýjir tímar

Það var kominn tími á að gera þetta blogg mitt fallegra, var það ekki? Mér fannst það í það minnsta svo ég breytti því og núna þykir mér það fínt. Efnistökin verða ennþá þau sömu, allt það sem hrærist inn í hausnum mínum og mér tekst að koma frá mér, svona næstum skiljanlega.
Bloggmenningin á Íslandi hefur tekið gríðarlegan kipp frá því að mbl.is bauð upp á blogg í tengslum við fréttirnar hjá sér og margir eiga þar mjög góðar síður og loksins virðist umræðan um þjóðmál geta farið fram á vefnum án þess að Egill Helga eða Össur þurfi að skrifa um eitthvað.
Ekki ætla ég að hengja mig aftan í Moggann til þess að ég komi mínum hugmyndum á framfæri, nei bandarísk stórfyrirtæki skal það vera!
--
Ingibjörg Sólrún benti á flís í auga Samfylkingarinnar í ræðu um helgina, auk þess sem að hún sýndi og sannaði að öflugasta stjórnmálastarf landsins fer fram í flokknum. Starfsmenn Timburverksmiðju ríksins voru ekki lengi að hefja hróp og köll um að Samfylkingin væri með flís, en gleymdu að líta sér nær og sjá bjálkana sem þvers og kruss liggja gegnum þau öll. Hæst glumdi samt í gömlu tunnunum sem notaðar voru til að brenna njósnaskjöl frá Sjálfstæðisflokknum, en bergmálið úr tómum sölum Framsóknar var síst minna. Það eru fimm mánuðir til stefnu, það er kominn tími til að við tökum á þessu Íhaldsfuskum. Sameinuð stöndum við sundruð föllum við!
-
Ég var svo að lesa það áðan að Whole Foods í Bandaríkjunum væru hætt að markaðsetja íslenska matvöru vegna hvalveiðibröltsins. Flott hjá ríkisstjórninni, skemma það sem íslensk fyrirtæki eru að vinna að, með því að drepa óætar skepnur.

Lalli