mánudagur, mars 24, 2008

ÓL 2008


Síðan hvenær hafa Ólympíuleikar ekki verið pólitískir? Íþróttir þar sem að stuðningsaðilar eru ríkustu fyrirtæki í heimi snúast ekki um að allir fái að vera með eða aðrar ungmenna félagshugsjónir. Á síðustu önn var ég í tíma sem hér "Macht Bewegung" Macht=vald og Bewegung=hreyfing s.s. bæði það að hreyfa sig og fjöldahreyfing. Áhugaverður kúrs sem að gaman væri að skoða bara út frá Ólypmíuleikum. (Á þessari önn er ég svo í öðrum sem að fjallar um fótbolta (risaveldissport valdsins). Þegar að stór íþróttahreyfing, með mikil völd, ákveður að veita stórundarlegu risaveldið þá ábyrgð að halda svona mót, með þeirri athygli sem því fylgir, þá verður hreyfingin bara að taka því. En ástandið í Kína lítur út fyrir að vera alvarlegra en hinn venjulegi fréttafíkill gerði sér grein fyrir og fleiri héruð en Tíbet eru á suðupunkti. Og á meðan að óháðir fjölmiðlar mega ekki segja okkur fréttir af því sem fram fer, þá er ekki nema von að við efumst um það sem fram fer.

Lalli

Sérhagsmunir-hverhagsmunir

Í páskafríinu er ég ekki búinn að lesa mikið, verð því greinilega að taka mig á í þessari viku. Við Eyrún erum aðallega búin að krúttast hérna tvö í Vínarborg, fórum út að borða og í bíó á laugardaginn, sáum Dan in Real Life og okkur þótti hún afbragð. Í gær elduðum við svo ungverska ali-gæs, með fyllingu, brúnuðum kartöflum og alles, okkur þótti hún einnig vera afbragð. Enda erum við afbragðskokkar.
-
Það sem ég er búinn að vera að lesa, þetta litla smá, eru upplýsingar um Ísland og Evrópusambandið. Þetta eru "Mótum eigin framtíð" sem að SI (Samtök iðnaðarins) gaf út á Iðnþinginu og svo "Hvað með Evruna?". Í bæklingnum frá SI eru öll helst málin tekin fyrir, eitt af öðru og rætt við annað hvort sérfræðinga eða ráðamenn ESB og stundum er rætt við hvoru tveggja. Það skín eiginlega í gegn í hverju einasta máli að hagsmunir heildarinnar liggja á ESB en stundum er sérhagsmunum betur borgið utan þess. En oftast eru til fordæmi sem hægt væri að fylgja til að koma til móts við sérhagsmunina. Ísland liggur t.d. allt norðar en 62 breiddargráða, svo að landbúnaður hér telst heimskautalandbúnaður og á því rétt á meiri styrkjum en annar landbúnaður. Þetta kæmi sér vel fyrir sauðfjárbændur, mjólkurframleiðendur og fleiri í dæmigerðum landbúnaði en ekki fyrir kjúkklingrækt og svínabú. Varðandi fiskveiðar þá hafa þær þjóðir sem að reiða sig mikið á fiskveiðar eins og Malta fengið undanþágur. Reyndar tel ég líklegra að íslenskir útgerðarmenn muni sækja á mið evrópumanna frekar en þeir komi hingað. Það er nefnilega þannig að ef einhver fær að veiða hjá okkur, þá fáum við líka að veiða hjá þeim. En svo eru það auðvitað ekki hagsmunir heildarinnar (ESB) að taka undirstöðu atvinnuveg úr löndum sambandsins. Það er ekki í hag ESB að fá óánægt Ísland inn í sinn hóp og það er eiginlega líklegra að Íslendingar hafi mikið um fiskveiðistjórnun ESB að segja en að einhverjir sem enga reynslu hafa af fiskveiðum stjórni okkar hafsvæði. Íslenskir útvegsmenn hafa ekkert að hræðast, ef þeir halda rétt á spilunum verður allt þeim í hag.
Svo myndi dæmigerð fjögura manna fjölskylda spara 1,7 milljónir í vaxtagreiðslur ef að við værum í ESB, verða á nauðsynjavörum lækka og markaðir opnast fyrir Íslendinga.
Það er svolítið fyndindið að vera líka á móti því að ræða við ESB, allt í lagi að finnast eitthvað vera að Sambandinu eða eftir á að vera á móti samninginum - en að vera á móti því að tala við ESB? Það bara skil ég ekki. En ég held áfram að lesa mér til um þetta í dag.

Svo er svo helvíti fínt að búa í ESB.
Lalli

föstudagur, mars 14, 2008

Guðbergur, ópera, Hitler og kertaljós

Á miðvikudaginn síðasta var afmæli Vínarborgarháskóla, ekki var mikið gert úr því annað en að senda engan í skólann. Frekar undarlegt svona eftir á að hyggja, væri ekki betra að heiðra háskólann með mega-session af lærdómi í stað þess að loka, loka og læsa og allt það. En það var fleira markvert á seiði þann 12. mars. Guðbergur Bergsson var í Vínarborg við kynningu á Flatey-Frey sem að var að koma út í þýskri þýðingu. Frábært framtak, því önnur síðan er á íslensku og hin á þýsku svo hún passar mjög vel fyrir þá sem glíma við bæði málin. Jón Bjarni Atlason íslensku kennari við UniWien sá um að kynna Guðberg fyrir þeim sem mættir voru á Shakespeare & Company, sem er skemmtileg bókabúð og mjög sjarmerandi. Mér þótti margt vera skemmtilegt í því sem að lesið var upp, sem dæmi má nefna þetta hér:
En Freyr
þegar orðið verður eingilt eins og í íslenskri list
og gengi þessi endanlega skráð
eins og hjá óhagganlegum skáldum
sem skrifa bækur líkar velreyttum hænum
þá ætti vesælt orðið að liggja á vöxtum í lands-
bankanum
og vera í útláni handa leigupennum fyrir jól.

Eftir upplesturinn voru samt margir í vafa um hvort þeir hefðu skilið eitthvað af því sem að Guðbergur las, það sem helst stóð uppúr var án vafa Orða-Borða óperan sem Guðbergur söng hluta úr. Skemmtileg gagnrýni á ofneyslu orða og mikilvægi þess að melta það sem maður les, því annarrs gubbar maður.
-
12. mars 1938 er dagsetning sem að gleymist seint í Austurríki, þá marseruðu Þjóðverjar inn í landið - án nokkurar mótstöðu þeirra austurrísku. Þjóðin er enn í dag að glíma við söguna og hættir því sjálfsagt aldrei. Sumir vilja meina að Austurríkismenn geti með sanni kallað sig fórnarlömb, aðri vilja ekki heyra á það minnst, enda voru ofsóknir gegn gyðingum löngu byrjaðar og barátta vinstir og hægrimanna staðið yfir í mörg ár, með tilheyrandi blóðsúthellingum.
Til að minnast þessa dags og þeirra 80.000 Vínarborgara sem að myrtir voru af nasistum, var skipulögð athöfn á Heldenplatz þar sem kveikt var á yfir 80.000 kertum. Eftir upplestur Guðbergs löbbuðum við þangað og litum yfir kertahafið. Ég las svo síðar í Der Standard að aðeins 5.000 manns hefðu mætt á minningarathöfnina. Til samanburðar tóku yfir 250.000 manns á móti Hitler 70 árum áður.
Hvað segir það okkur?

Lalli

fimmtudagur, mars 13, 2008

vændi, mansal, strípiklúbbar og kynlíf

Ég er einn af þeim sem að finnst frelsi fólks mikilvægt, hverjum finnst það ekki? Líkast til fáum. En þegar að við lendum í þeim aðstæðum að þurfa að vega og meta frelsi tveggja einstaklinga, þá verður málið oft flóknara. Dæmi sem að oft kemur upp er vændi - þar skarast frelsi karlmanna til að fá að ríða hvenær sem og frelsi stúlkna og kvenna að fá að lifa eðlilegu lífi og sá réttur að vera ekki fórnarlömb. Nú hlaupa eflaust margir upp til handa og fóta, hvað er Lalli að bulla núna. Telur hann sig svo merkilegan mann að hann geti ákveðið hvað sé eðlilegt líf? Og hvað þá heldur, þekkir Lalli sögu allra vændiskvenna heimsins og stimplar þær þar með fórnarlömb. Eins og ég sagði að ofan þá er þetta ekki svona einfalt. En ég met einfaldlega ofar rétt þessara kvenna en karlanna sem ekki fá á broddinn reglulega - vandamál þeirra er líkast til ekki fjöldi kvenna, sem eiga víst að vera u.þ.b. jafnmargar karlmönnum. Lausn á þeirra vandamáli er ekki búa til fórnarlamb úr annarri manneskju.
Vandamálið eru karlarnir, að líta á það sem sjáflsagðan hlut að 10 karlmenn sofi hjá einni og sömu konunni sama daginn - og halda því fram að hún sé bara nokkuð sátt með lífið, er einhver sú ömurlegasta tilraun til sjálfsblekkingar sem ég veit um. Fimmtíu karlmenn með bjór í krús sitja við langborð þar sem ung stúlka fer úr spjörunum og hristir brjóstin framan í þá í von um aur. Það að á 21.öldinni séum við ekki enn komin framar en þetta í samfélagslegri þróun er sorglegt. Enn og aftur liggur rót vandans hjá karlmönnunum. Svo má ekki gleyma því að margar af þessum konum eru beinlínis fluttar inn til þeirra landa sem þær vinna svo í, þær sem komast til ágætra staða eru heppnar. Aðrar sitja eftir fast t.d. á landamærum Þýskalands og Tékklands og búa þar við ömurlegar aðstæður. Svo er líka vinsælt hjá þeim sem verja mansal og áníðslu að benda á að það séu nú margir aðrir sem séu hnepptir í þrældóm - það bætir ekki bölið að benda á eitthvað annað. Sú staðreynd aldrei hafi áður veirð jafnmargir þrælar til í heiminum er skelfileg staðreynd. Lélegustu rökin sem ég hef heyrt hjá þeim sem að tala fyrir vændi, eru þau að nauðgunum fækki ef vændi sé leyft. Hvurslagst djöfuls-dólgar eru karlmenn eiginlega ef að þeir geta ekki hamið sig og skánar það eitthvað ef að við leyfum þeim að ríða hórum í stað þess að nauðga. Vandamálið, það er hálfvita skapur karlmanna, er ennþá til staðar. Það er eitthvað að karlmönnum ef þeir telja þetta eðlilegt, svo einfalt er það.
Þess vegna finnst mér ömurlegt að heyra í fólk, oft á tíðum gáfuðu fólk, sem er vel að sér, nota tíman sinn í jafn ógeðslegan hlut og réttlæta fyrir heiminum þjáningar fórnarlamba.
Það óskar enginn faðir eða móðir sér þess að barnið þess verðir hóra, það óskar enginn systursinn þess að hún dilli rassinum framan í fulla kalla í von um ölmusu. Ekkert barn óskar móður sinni þess að hún sofi hjá tugum karlmanna í viku.

Þeir sem ekki sjá heildarmyndina og halda því fram að þetta sé spurning um kynlíf tveggja einstaklinga á jafnvægis grundvelli, eru á villigötum. Kynlíf þeirra sem báðir koma að borðinu/rúminu (eða hvar sem það nú fer fram) er falleg og yndislegt - þetta er ekki spurning um að borga. Þetta er spurning um virðingu fyrir öllum manneskjum.

Lalli

föstudagur, mars 07, 2008

við eigum þennan heim

Ég er ekki alltaf sammála Björk, stundum bullar hún bara. En það að segja Tíbet, Tíbet, Tíbet á tónleikum í Kína var einfaldlega frábært og hugrakt. Tónlistin hennar er að mínu mati frábær og nær yfir rosalega breytt svið, allt frá mestu rólegheitum og til rafpönks af bestu gerð.
Ég er búinn að vera að lesa mér svolítið meira til um Tíbet á netinu, eftir að hún sagði þetta fimm stafa orð. Saga Tíbet frá 1949 er ótrúlega sorgleg og í rauninni fáránlegt að þetta risaríki níðist á friðsælu munka-fjallahéraði. En það er líka eitt sem Björk kennir okkur, alltaf þegar við heyrum "Kína" - hugsum þá Tíbet, Torg hins himneska friðar og Falun Gong. Falun Gong eru eltir uppi, myrtir og líffærin úr þeim notuð. Þegar við heyrum "Rússland" - hugsum þá um Téténíu, ofbeldi gegn minnihlutahópum, ekkert lýðræði. Við erum nú þegar, eða öllu heldur, Bandaríkin eru nú þegar búin að skilyrða sig svona í hugum flestra. Það er ekki hægt að segja flottir skór ("made in China")eða hrósa Kínverjum fyrir frábæran hagvöxt og fussa svo yfir því að aldrei hafa fleiri þrælar verið til í heiminum.
Í dag á sama tíma og menntunarstig fólks útum allan heim hækkar og hækkar, þá hækkar hlutfall fólks sem eru þrælar líka!
En hvað um það, getum við nokkuð gert?
Jú auðvitað látið ekki eins og fokking hálfvitar, auðvitað getum við allt gert. T.d. bara að segja lítið fimm stafa orð "Tíbet". Eða þriggja stafa orð "NEI" og bæta við þetta gengur ekki lengur.
Betri heimur er mögulegur!
--
Viðauki: Teng Biao, kínverskur lögfræðingur sem að barist hefur fyrir mannréttindum í Kína t.d. Falun Gong og gagnrýnt framkvæmd og undirbúning Ólympíuleikanna í sumar, hefur horfið sporlaust. Áður hafði hann verið aðvaraður að láta af gagnrýni sinni og framkomu í fjölmiðlum.
-
Lalli

sunnudagur, mars 02, 2008

sólblómakjarnorka

Þorrablót Félags Íslendinga í Austurríki var haldið í gær. Að venju var vel mætt og mikið rætt og ótrúlegt en satt líka snætt. Kjammar, pungar og fleira fínerí rann niður með kollum af bjór hjá mjög svo svöngum blótsgestum. Við Eyrún röltum heim á leið um 3 leitið eftir að hafa skemmt okkur vel í hópi góðs fólks.
-
Ég hef aldrei verið jafn tilbúinn að takast á við nýja önn og ég er núna. Eftir að hafa skoðað þau fög sem í boði eru á þessari önn var ég meira en lítið spenntur og ég fann fjölmarga áhugaverða kúrsa, núna á ég bara eftir að raða þeim niður í góða og stóra stundartöflu.
--
Ég er búinn að vera að lesa nokkrar góðar bækur í fríinu og í gær vann Eyrún "Rimla hugans" eftir Einar Má í þorrablótshappadrætti, svo þar kemur ein til viðbótar sem ég get gætt mér á.

vesist blesa
Lalli