fimmtudagur, nóvember 30, 2006

ég ætlaði að blogga um bólu!

Ég kláraði "vinnutörn" í skólanum á mánudagskvöldið, síðastliðnar fjórar vikur hafa verið frekar erfiðar þar sem ég skilaði af mér verkefnum, ritgerðum og hélt fyrirlestra í bunum (má maður safna bunum!?). Ég vildi ekki byrja of snemma á svoleiðis hlutum á þessari önn, en heldur ekki vera að því í kringum prófin sem eru í Janúar, svo að þetta var allt á sama tíma, en gekk samt upp... vona ég.
Ég er kominn með allskonar hugmyndir í kollinn eftir þessa törn, sem að þýðir að núna "þarf" ég að skoða það sem mér datt í hug á meðan ég skrifaði þessi verkefni. Það sem mér datt í hug voru m.a. lýðræðisbyltingar, frjálsfélagasamtök, gegnsæji hjá Esb og að endalokum fullkomlega sanngjarn heimur. Eitthvað nýtt? það efast ég um, en það er hollt að hafa eitthvað að hugsa um og vinna að. Hví ekki sanngjarnari heimur? - Tja, fyrst maður má safna bunum þá hlýtur að vera leyfilegt að láta sig dreyma.
--
Kanski verður aldrei hægt að snúa heiminum frá heimsku og græðgi, mér finnst t.d. hryllilegt að hugsa sér að fólk hafi það í sér að þiggja 20. milljónir í mánaðarlaun og ganga með eyrnalokka sem kosta 10 milljónir. Það deyja börn vegna þess að þau fá ekki hreint vatn. HREINT VATN!
Svo gefa svona millar kanski 500.000. krónur í söfnun og láta taka mynd af sér brosandi góðmennsku colgatebrosi. Stundum þegar að fólk eins og ég núna, skammast yfir þessu, þá er það sagt öfundsjúkt, fyrir mér er þetta ekki öfundsýki, ég hef það ágætt. Þeir sem að fá 500.000 á mánuði og eiga það skilið vegna dugnaðar, menntunar, hæfileika eða hvað annað sem telur, það er ekki hvorki vandamálið né hættulegt. Því að það er heimskulega mikill munur á svona velstæðum einstaklingi og siðblindufólki sem tekur margar milljónir fyrir að vinna vinnuna sína, sem á sínar eigin skútur og einkaþotur til að færa sig á milli hallanna sinni og mælir lífshamingju sína í hagvexti.
Við eigum ekki að vera feimin við að segja það að þetta sé rangt.
Skelfingaröfund er þetta í mér!
-
Annað, ef að svo færi núna að kreppa kæmi, eins og svo oft áður hefur gerst og sagan segir okkur að líklega komi aftur. Hvernig fer þá fyrir okkur? Hvernig fer fyrir íslenskum heimilum? Ungu fólk sem að skuldar 200.000 í yfirdrátt?

Ekki nóg með að ég verði að læra stjórnmálafræði og stjórnmálaheimspeki til að komast að því sem ég hugsa heldur verð ég að skilja hagfræði líka.

ég hef ekki tíma fyrir þetta, því að ég fæ bara námslán í nokkur ár...
lalli

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Leopold Engleitner

Stundum þá finnst mér að ég sé allt að því einfaldur í pólitíksri rétthugsun, rétt skal vera rétt og rangt rangt. Það er auðvitað hættulegt því að ekkert er alveg svart og hvítt, heitt eða kalt og maður á hvorki að trúa öllu né engu sem maður sér og heyrir.
Það kom t.d. upp umræða hérna í Austurríki um daginn eftir að þingmaður Freiheitliche Partie Österreichs (Frjálslyndaflokksins) svaraði spurningunni hvort að ríkisstjórn Hitlers hefði gert eitthvað gott játandi, hann útrýmdi atvinnuleysi árið 1933 á erfiðustu krepputímunum. Afhverju gerði hann það? Ég veit það ekki sagði þingmaðurinn, ég var ekki fæddur þá. Ef til vill til að undirbúa stríðið, bryggja vopnaverksmiðjur og vegi sem að nýttust því að skapa Þjóðverjum "Lebensraum" í austri, sagði fréttamaðurinn og fékk ekkert svar...

Í skólanum í dag sat 101 árs gamall Austurríkismaður, Leopold Engleitner að nafni, í hjólastól fyrir framan 200 háskólanema og með aðstoð ævisöguritarans síns sagði frá ævi sinni í máli og myndum. Hann hitti Franz Josef keisara árið 1914, en sagði hann hafa verið slæman einvald en ágætan veiðimann. Leopold var fátækur í æsku og heima hjá honum var varla til brauð en keisarinn var með gullmedalíur í jakkanum sínum þegar hann heilsaði krökkunum. Eftir fyrri heimstyrjöldina fékk hann Spænskuveikina og var vart hugað líf en hann þraukaði. Árið 1932 gerðist hann Votti Jehóva og fyrir það var honum mismunað um árabil og að lokum var hann sendur í fangabúðir Nasista t.d. KZ Buchenwald og KZ Ravensbrück. Núna er hann elsti eftirlifandi fangi þeirra búða og líklega allra hinna líka. Hérna er hægt að lesa söguna hans.
Ótrúlegt svona fólk sem stendur á sínu, neitar að láta kúga sig. Hann neitaði að skrifa undir skjal þar sem hann gæfi upp trúnna sína. Einfaldur bóndi frá Austurríki sem trúði ekki á stríð og morð.

Ég bara varð að skrifa eitthvað um þennan mann á bloggið mitt, þó svo að hann eigi meira skilið en þessi fátæklegu orð. Hann vill ekki láta líta á sig sem hetju, heldur vill hann að fólk sjái að það sé hægt að standa á sínu þó maður sé einn og lítill, þess vegna ferðast hann um Austurríki og raunar heiminn t.d. þvert yfir Bandaríkin í Maí og segir frá ævi sinni. Hann vildi hitta Arnold Schwarzenegger í Californinu en ríkistjórninn komst ekki svo hann sagði: "I'll be back!" og brosti. Hress gamall karl.

Lalli litli

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

think globally



Í gær var frétt á Vísi að á laugardaginn væri alþjóðlegur "ekki kaupa neitt dagur", gott og blessað og hvað um það, ég kíkti inn á tengil frá þessum samtökum þar voru m.a. gervi-auglýsingar frá ýmsum stórfyrirtækjum. T.d. Esso, Nike og fleirum. klikkið á þær til að geta lesið smá letrið
--
Ég hef svo sem ekkert fyrir mér þessu, ég sá þetta og þótti áhugavert. Stundum þegar við hugsum um svona mál þá detta okkur alltaf í hug svo greinilegir og stórir hlutir en við gleymum þessum smáu. Eins og með hluta af umhverfismálum, ef við á Íslandi sem miðað við umræðuna þykjumst allt að því umhverfisvæn myndum vera það í verki. Til dæmis varðandi litla hluti: labba út í búð, nota innkaupapoka aftur og aftur eða bara bakpoka, flokka sorp, kaupa mat sem er lífrænn og e.t.v. í endurunnum umbúðum sem við settum svo aftur í endurvinnslu o.s.frv. þá myndi margt breytast hjá okkur. Við myndum eitt og eitt ekki umbreyta heiminum með byltingu en á endanum ætti umbreyting sér stað. Ef að hvert og eitt okkar breytir sinni hugsun, þá þýðir það að sjálfsögðu það að þeir sem að vinna í eða reka fyrirtæki og stofnanir gera það líka því þau eru bara venjuleg eins og við. Kanski á ég einhvern tíman eftir að vinna í fyrirtæki eða stofnun, svo að ég ætla núna að breyta minni hugsun og passa allt þetta smá sem ég geri, því margt smátt...

kv.

lalli ljóstillífandi rauðgrænþörungur

laugardagur, nóvember 18, 2006

lhá

Það hefur verið og verður nóg að gera í skólanum, sem er hið besta mál, ég er duglegastur að læra þegar að ég þarf að gera eitthvað. Þess á milli á ég það til að detta niður í smá leti, þessvegna hef ég óbeit á tilgangslausum fríum sem slíta í sundum þann tíma sem ég vil nota til að læra. Ég er þannig skilyrtur að ég má oft ekki við svoleiðis truflunum. Eftirhádegi á mánudaginn á ég að skila ca. 2-3 blaðsíðna "ritgerð" um alþjóðlega aðlila sem hafa komið að málum Eystrasaltslandanna frá 1989. Mér finnst það áhugavert og bísna spennandi. Svo heldur skólinn áfram og ekkert frí svo að ég næ að halda mínu striki. Ein af greinum sem að ég las í dag til að kynna mér umbreitingarnar sem hafa átt sér stað, fjallaði örlítið um hvort þjóðríki séu nauðsynleg á 21.öldinni. Mér þykja þessar pælingar vera áhuga verðar og ætla að kynna mér þær frekar. Er skynsamlegt og nauðsynlegt að líta á sig sem einstakling frá sérstöku landi? Þetta ætla ég að skoða.
--
Jólamarkaðurinn hjá ráðhúsinu í Vín opnar í dag, Bürgermeister Häupl kveikir á trénu klukkan hálf sex. Dr. Häupl er eins mikill Bürgermeister og þeir geta orðið, með bumbu, yfirvaraskegg. Við Eyrún ætlum að skella okkur þangað, enda finnst mér að Häupl eigi alfarið að stjórna því hvenær jólaundirbúningur má hefjast og það er best að byrja hann með því að slappa af á fallegum stað í Vín með Glühwein í bolla.
-
Skrítið hvað það þarf stundum stóra viðburði til þess að hreyfa við fólk, maðurinn bíður og bíður þar til hann verður að taka stökk áfram til að detta ekki. Hlýnun jarðar er dæmi um þetta, ekkert hefur verið gert fyrr en allt í einu þarf að gera eitthvað í einu stökki. Við vanrækjum umhverfið og okkur sjálf þar til við sjáum að það gengur ekki lengur og tökum stökk. Ef samfélagið okkar og við sjálf væri í raun og veru skipulög væri þetta vandamál ekki til staðar.

ciao,
lalli

sunnudagur, nóvember 12, 2006

90.000€

Við Eyrún förum stundum í labbitúra, stundum í fallegum görðum, stundum í hverfinu okkar og stundum í miðbænum þar sem við skoðum í búðir og búðarglugga. Á Kohlmarkt eru fínustu búðirnar í Vínarborg s.s. Armani, Gucci, Chanel þar getur ríkt fólk keypt sér föt við hæfi. Í þessari götu eru líka fínar skartgripabúðir sem hæfa vel fína fólkinu eins og Tiffany's og Carter, þar eru verðmiðarnir sérstaklega stílaðir á mold-skíta-ríka. Þegar við löbbuðum í gegnum Kohlmarkt um daginn litum við í gluggann hjá Carter, verðmiðinn á einum eyrnalokkunum skar sig úr, litlar 90.000€, er ekki í lagi heima hjá fólki? Ætli sá eða öllu heldur sú, sem að gengur með gullglingur fyrir næstum 10 milljónir hangandi í eyrunum á sér hafi enga samvisku gagnvart umheiminum? Það væri hægt að finna fínt glansandi og glitrandi dót fyrir 25€ eða jafnvel 250€ eða hjá þeim eiga mikla peninga 2500€.
Ef ég myndi hitta svona manneskju myndi ég líklega segja við hana "stansaðu! Skammastu þín og snáfðu burt!" en það myndi líklegast ekki breyta neinu því sumu fólk er held ég ekki við bjargandi.

argandi gargandi,
lalli

föstudagur, nóvember 03, 2006

n 1 x

Ég er í býsna áhugaverðum áfanga á föstudögum, Grunnkúrs í Alþjóðastjórnmálafræði þar sem aðallega er horft til átaka sem blossað hafa upp í fyrrum Sovétríkjum, Transformationsländer. Fyrstu tímarnir hafa mest megnis farið í að tala um þau hugtök sem tengjast þessu svæði og aðra theoríu en í dag kom til okkar kona frá samtökum sem kallast International Labour Organization, ILO, í Rússlandi. Það var margt áhugavert sem hún benti okkur á varðandi Mið-Asíu og Kákasus löndin, land eins og Kasakstan t.d. sem á vesturlöndum er ekki talaðum nema minnst sé á Borat á undan, er 2,717.300 km2 og þar búa samt bara 15 milljónir manna meðan að Frakkland er 543.965 km2 og þar búa 60 milljónir.

Þetta var auðvitað ekki aðalatriðið, en pælið því í stærðinni og hvað veit venjulegur maður um landið? Ekkert. Hvað veit maður um Tajikistan? Ekkert. Það eina sem fréttist frá Turkmenistan er að Saparmurad Niyasov, öðru nafni Turkmen Basi, stýrir öllu þar með alræðisbrölti. Í þessum löndum eru Non Govermental samtök bönnuð, það að vera meðlimur Amnesty er lífshættulegt og Evrópubúum er alveg sama um þetta svæði. Það er varla hægt að kenna olíunni um það því að t.d. eru olíulindir í Kazakstan og Turkmenistan, peningunum frá þeim er svo vandlega ekki deilt á meðal ríkisborgaranna. Ekki vantar Islamista til að berjast við því þeir liggja og fela sig á landamærum Kasakstan, Úsbekistan og Tajikistan. Mannréttindi eru brotin á íbúum þessara landa daglega og þau eiga meira sameiginlegt með Evrópu heldur en Asíu þó svo að þessi heimshluti kallist Mið-Asía. Staða barna í þessum heimshluta er efni í annan svona pistil, en hún er vægast sagt ömurleg.

Í Kákasuslöndunum virðast svo deilur milli Armena og Azerbaijana engan enda ætla að taka og Georgíumenn hafa þurft að þola eins og öll hin löndin á þessu svæði ótrúlegan yfirgang frá Rússum allt frá falli Sovétríkjanna. Moskvustjórnin heldur þessu svæði í erfiðri stöðu eins og dæmin sanna; þegar að -30°c frost var í Gegoríu í fyrra vetur skrúfuðu þeir fyrir gasið. En samt er Moskvustjórnin sú eina sem að fær einhverja athygli frá öðrum ríkjum heimsins.

Hvað gera Evrópuþjóðir? Þær líta ekki á þessa stöðu sem sitt vandamál, heldur draga línuna við Úkraínu og reyna að hjálpa íbúum Hvíta-Rússlands sem býr við alræðiðstjórn.

Það er hræsni af okkur að fordæma mannréttindabrot og berjast gegn fátækt hér og þar, svona eins og okkur hentar til að friða sálartetrið, en horfa svo framhjá hinum hlutunum. Einræðis- og harðræðisstjórnir eiga allar að fá skömm, en svo þarf líka að styðja fólkið til að brjótast úr ömurleikanum og til mannsæmandi lífs.
-

En núna þarf ég að stuðla að eigin heilsu, bæði líkamlegri og andlegri með því að kyssa konuna mína, elda mat og drekka bjór með íslenskum öðlingum.

kv.
Lalli

p.s. hvað þýðir titillinn?