mánudagur, nóvember 28, 2005

nýtt! sjálfvirkur íkveikjubúnaður fyrir munka

Í gærkvöld eignaðist ég nýja frænku:) Til hamingu Maggi, Heiða, Magnea Ásta og Ásgeir Snær með nýja fjölskyldumeðliminn! Við Eyrún getum ekki beðið eftir því að hitta hana um jólin og knúsa hana, en samt ekki of fast, við knúsum hina krakkana bara fastar. Svo fáum við smá forskot á sæluna í vikunni þegar við förum til Hönnu og Dóra í Essen.
--

Ég hef mjög gaman Staksteinum Morgunblaðsins, þessum nafnlausu eða ekki nafnlausu skotum á þá sem ekki eru vinsælir meðal ritstjórnar Moggans. Oftar en ekki fær Ingibjörg að heyra það, oftast lauma þeir inn í þessa steina sína að "enginn viti nú fyrir hvað hún stendur". Mér finnst þetta vera svolítið fyndið, að fólk eins og í ritstjórn Moggans skrifi dylgju vangaveltur um aðra íbúa landsins. Það er sérstaklega skrítið vegna þess að ritsjórn Moggans er frekar "flott" lið, svona semí þotulið, sem fær sjálfsagt boð um að mæta í stórafmæli landsþekktra og opnanir og frumsýningar á listviðburðum. Svo skrifa þeir svona nafnlausar niðurrifsgreinar um þá sem ekki eru þeim þóknanlegir, minnir kanksi pínu á nafnlaust comment á bloggsíðu eða símaat.
Staksteinarnir fara ekki fyrir brjóstið á mér, en hugmyndin að þeim er fyndin. Núna í dag fékk Dagur B. Eggertson skilaboð frá ritstjórninni um að hann ætti nú að bjóða sig fram í prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík og á sama tíma fékk Stefán Jón Hafstein skilaboð um að "enginn viti fyrir hvað hann stendur". Það eru eiginlega skilaboð um að ritstjórninni líki ekki vel við hann, ætli menn séu ekki velliðnir hjá Sjálfstæðisflokknum ef menn fá "það veit enginn fyrir hvað þú stendur" í Staksteinum?

föstudagur, nóvember 25, 2005

úff! ha? já, úff!

Satt best að segja skammast ég mín fyrir ummæli um Georg Best, sem ég lét falla í gær, eftir andlát hans í dag. Ég dreg þau ekki til baka, en þau voru óviðeigandi. Afsakið.
--
Hannes Hólmsteinn hélt blaðamanna fund til að segja að sér hafi þótt óeðlilegt að vera dæmdur í Bretlandi. Vissu menn það ekki, þurfti blaðamannafund til þess, líklegast fékk hann borgað frá íslenskum fréttamönnum til þess að rífa þá uppúr gúrkutíðinni, en ekki mikið þó því þetta er léleg frétt.
--

Áðan sat ég á kaffihúsi, núna sit ég í mínu húsi.
Mér leiðist þessi bloggfærsla, en ég skal gera betur seinna, á sunnudaginn eða mánudaginn kemur góð bloggfærsla, ég lofa.
Lalli lati

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

"Never say never, then why say never twice"

Lífið lék við folaldið, það hoppaði milli hrigleikahúsa en að lokum stökk það á lýsisperlu og skall í kjölfarið á snæviþakta jörðina. Það hrysti af sér gömul nammibréf og sand, en náði ekki tyggjóklessu af bakinu. Folaldið að skæla, það grét sætum bláum tárum og bað froskaprinsinn Guðbrand að taka það af sér. Sá óþverri brást hinn versti við og æpti: "snáfaðu bara burt, ólukku folaldið þitt!"
Folaldið hoppaði heim á leið með grátstafinn í kverkunum, þar beið þess heysúpa og staur til að naga.
--

Eee. Já afsakið hlé.

--
Gott, nú get ég byrjað aftur, tæknin var eitthvað að stríða okkur þarna í upphafi og það sló saman á línunum. Afhverju eru alltaf fréttir af George Best í íþróttafréttum? Ok, hann var fótboltamaður, en ætti þetta ekki frekar heima í slúðri eða eitthvað. Um daginn var, svo dæmi sé tekið, frétt af því þegar Maradona fór fyrir mótmælagöngu geng Bush í Argentínu, ekki var hún í íþróttafréttum, hví þá? Vegna þess að hún tengdist ekki íþróttum, afhverju þarf þá alltaf að segja frá gömlum drykkfeldum karli í íþróttafréttum? Fá þær hvort sem er ekki nægt pláss í fjölmiðlum..

lalli prump

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Klemma fyrir rafmangsnúrur

Mig dreymdi elsku besta Cató í gærmorgun, við vorum saman tveir úti að labba og hann var hress. Mér finnst ákaflega skemmtilegt að þessi gamli vinur minn hafi heimsótt mig, það er eiginlega bara fátt sem gæti hafa glatt mig jafn mikið.

Á eftir held ég fyrirlestur í þýskunámskeiðinu um víkinga og Ísland, það verður létt verk og löðurmannlegt. Svo förum við Eyrún í Óperuna og sjáum La Traviata, það verður nú gaman:)

Jólahátíð Íslendinga á eftir að kosta 38,8 milljarða, það verður nú að gefa börnunum i-pod nano og psp-leikjatölvur, hvað er að ykkur? Já eða hinum...

Haldið þið að íslensku olíufurstarnir verði dæmdir? Endilega látið mig vita,
bless takk
froðusnakk,
Lalli

laugardagur, nóvember 19, 2005

hvað ætti það í rauninni að bögga þig?

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag. Við erum gestir og hótel okkar er Jörðin. Einir koma og aðrir fara í dag og alltaf bætast nýir hópar í skörðin. - Þessi texti hefur sönglað í hausnum á mér í nokkrar vikur og það þykir mér ekkert leiðinlegt, þetta er fallegt ljóð. Svo flauta ég líka reglulega brasilíska þjóðsönginn, mér líður alltaf vel þegar ég geri það.

Í dag röltum við Eyrún ásamt Jóni í gegnum flóamarkaðinn Naschmarkt, það er skemmtilegt að skoða draslið á flóamarkaðnum og enn skemmtilegra að ganga í gegnum matvælamarkaðinn. Þar má finna flest allt sem þarf í kryddskápa og grænmetishillur. Svo fórum við á kaffihús og fengum hressilegar móttökur hjá næst leiðinlegasta þjóni sem ég hef hitt hérna, hann var hvorki að safna gleðiprikum né þjórfé blessaður...
Svo gerði ég Pizzu, líklega þá bestu sem gerð hefur verið í Öl-víngötu, afstrympislega vel lukkuð flatbaka.

Núna er ég að verða búinn að blogga án þess að skrifa um eitthvað brjálæði, stríð, hörmungar eða stjórnmál. Ótrúlegt, ekki satt?
Auðvitað væri það ótrúlegt, jafnvel óeðlilegt svo hérna kemur það. Í dag sáum við mótmæli gegn loðfeldum, Pels ist mort! var slagorðið þeirra, þar sem þau þrömmuðu niður Mariahilferstrasse. Mér fannst leiðinlegast að þau skildu ekki hafa verið nakin, anti-pels fólk sem kemst í sjónvarpsfréttirnar er nefninlega alltaf nakið og skvettir málingu á pels og búðarglugga. Annarrs tók ég skilaboðin ekki mikið til mín, kanski afþví ég hef ekki efni á selskinnsjakka.

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Var að horfa á Jón Ólafsson í viðtali í Kastljósinu. Þetta var ágætt viðtal, en var þetta allt og sumt? Tækinlegir örðuleikar? Tja...
Það sem kom fram: Jón reykti mikið hass. Sjálfstæðisflokkurinn er skrítinn og hegðar sér stundum eins og mafía. Hannes Hólmsteinn, Davíð og co hata Jón og Jón. Þórhallur var með kveikt á símanum! Jón á viðbjóðslega mikinn pening og vill hvorki tala um Davíð né nefna milljarð, nei ég meina tölur.

Allt og sumt, maður veit það ekki, en það sem eftir stendur hjá mér er að viðskiptalífið á Íslandi skortir aðhald og síðan er reynt að bjarga því sem bjargað verður með skattrannsóknum og kærum. Annarrs er undarlegast að heyra það hvernig svona viðskipti fara fram, Jón hringir í Jón og býður honum að kaupa allt sem hann á á Íslandi.
Annað sem stendur eftir, ætli fyrirmynd Hannesar Hólmsteins sé Grímur ormstunga úr Lord of the Rings? Ef að LOTR yrði sett upp sem leikrit ættu við íslendingar a.m.k. mann í hlutverkið.

lalli í vín

laugardagur, nóvember 12, 2005

vatn og sykur

Kúrdíski samnemandi minn sem ég sagði frá hérna um daginn kom mér á óvart á föstudaginn. Við sátum fyrir utan skólastofuna fyrir tímann og ræddum heimsmálin á bjagaðri þýsku. Umræðan var að mestu um aðstæður Kúrda í Tyrklandi, Írak og Sýrlandi, þá fór hann að segja mér frá undarlegri atburðarrás sem hann olli í fyrrum háskólanum sínum í Tyrklandi. Hann neitaði að samþykkja þá fullyrðingu kennaranns að í Tyrklandi lifði aðeins ein þjóð, hann neitaði því og sagðist vera Kúrdi, ásamt fleiru. Það vakti ekki meiri lukku en svo að í næsta tíma komu Öryggislögreglumenn og handtóku hann og færðu í fangaklefa í háskólanum. Næstu 14 daga fékk hann bara vatn og sykur, og hann var þar til að þýskur mannréttinda lögfræðingur komst í málið of fékk hann lausann.
Ég sýndi þessu mikinn áhuga og eftir tímann bauð hann mér á fund, ég veit ekki hvort ég skelli mér, efast reyndar stórlega um það, en ég á eftir að lesa mér meira til um Kúrda eftir þetta.
Uppreisnarhetja, sessunautur minn?!?

Lalli

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

?

Fótbolti er yndislegur, það er vandfundinn annar leikur sem hefur viðlíka áhrif á heiminn, en samt verður hann, eða öllu heldur umræðan og allir kringum hann eitthvað ómerkilegri með hverjum deginum.
Ég las frétt í morgun um 7 ára efnilegan knattspyrnumann! Stóru liðin voru víst farin að hafa áhuga á þessu barni. Hvað er málið með að ensk og spænsk fyrirtæki, t.d. Bolton og Barcelona séu að reyna að semja við 7 ára barn? Auðvitað eru þetta ekkert nema fyrirtæki, frekar sérstök fyrirtæki en ekkert öðruvísi en hver önnur. Þau eru með stjórnendur, gjaldkera, afgreiðslumenn og skúringarkonur. En að reyna að lokka til sín börn? Einhvern tíman sá ég líka umfjöllun um 9 ára gamlan brasilískan strák, sem stóru liðin vildu fá, þau voru tilbúin að flytja heila fjölskyldu yfir til Evrópu til að þjálfa strák upp í að vera fótboltamaður. Hvað ef gaurinn myndi síðan missa áhugan og vilja verða verðbréfasali eða kennari? Sjálfsagt yrði það ekkert mál, en það er bara verið að rugla í hausnum á fólki með þessu og það er ljótt. Þetta er samt ekkert óþekkt, Motzart var undrabarn og spilaði fyrir kóngafólk um alla Evrópu alla sína ævi. En í dag ættu einhverjar reglur að gilda um þetta. Þetta jaðrar við að vera "barnaþrælkun" og nema hvað að þessir strákar eiga möguleika á að verða ríkir, hversu margir sem því nú ná. Unglingalið hjá þessum liðum eru ekki óeðlilegur hlutur í rauninni, að 16 ára strákar reyni fyrir sér sem fótboltamenn oftast sjá félögin þá um allt, einhverskonar skóla og þess háttar.
-
Ég skil stundum ekki stjórnmál. Þau eru svo flókin, ekki málin sjálf heldur mennirnir sem tala um þau. Þeir eru endalaust að passa hitt og þetta, segja hlutina án þess að styggja þennan. Ef þú spyrðir stjórnmálamann, hvort honum þætti betra svart eða hvítt, þá myndi hann segja tja, hvítur litur hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér, en svartur hefur alltaf staðið sig vel undanfarið. Ha? (ímyndið ykkur þetta með mönnum í stað lita) Halda þeir að þeir megi ekki hafa skoðun? Á Íslandi eru stjórnmálamenn bara venjulegir menn, afhverju mega þeir þá ekki segja að sér þyki þessi betri eða hinn, það er alhæfing bara skoðun á einföldum hlut.
Kanksi eru allir menn svona, einfaldir/flóknir og svo flækjast þeir... Ef til vill á ég svo sjálfur eftir að ákveða að verða svona, flókinn einfaldur.. minnið mig þá endilega á þetta.

Takk bless ég er hress,
Lalli

mánudagur, nóvember 07, 2005

ég er í parís að kveikja í bílum

Nei reyndar er það ekki satt og heldur var þetta ekkert fyndið, í rauninni ætti ég að þurka þetta út og skrifa eitthvað nýtt, og þó best er líklegast leyfa þessu að standa og viðurkenna mistökin.
Þetta er ekkert grín þessi staða sem er komin upp í Frakklandi, en líklegast hefur mörgum dottið það í huga að aðstæður sem þessar kæmu upp í innflytjendahverfi í einhverju af stærri löndum Evrópu. Í fréttum í nokkur ár hefur fólk getað fylgst með því hvernig hægri öfgamönnum vex ás megin í þessum sömu löndum og einhver ástæða liggur þar að baki, og líkast til hefur hún verið "falin" og haldið frá stóru fréttaveitunum eða þeir ekki haft áhuga á þessari eymd. Ég veit í rauninni varla hvar er best að byrja til að fjalla um þetta vandamál eða þessi vandamál, því auðvitað eru þeir þættir sem verða að þessu vandamáli samtvinnaðir. Það er ekki nóg að benda á of litla tungumálakennslu, eða of miklar kröfur um að láta af gömlum hefðum þeirra menningheima sem um ræðir. Ætli það sé frekar hægt að horfa aftur til áranna þegar að "gestaverkamennirnir" fluttu, í þessu tilfelli til Frakklands? Varla nema að litlu leyti. Getum við bent á eitthvað sem hefði getað komið í veg fyrir þetta? Sjálfsagt, en breytir það einhverju? Varla, svo að best væri fyrir deiluaðila að horfa til framtíðar og reyna að leysa vandann. Kannski er það samt ekki hægt með eðlilegum leiðum, vegna þess að þeir sem að kveikja í barnaheimilum og strætisvögnum til að mótmæla eru varla mjög meðtækilegir. Líklegast er franski innanríkisráðherrann ekki mikið líklegri til að fram sáttartillögu, enda kallaði hann brennuvargana, hyski sem ætti að hreisa burt eða eitthvað álíka.
Ætli fyrirbyggjandi aðferðir við þessu séu ekki gott menntakerfi og heilsugæsla sem nær til allra, ég held að minnsta kosti að það næði meiri árangri en að senda óeirðalögrelguna á brennuvargana eftir á.

--
Eyrún er að búa til pönnukökur:) - eða öllu heldur því þessi bloggfærsla verður hérna um óákveðinn tíma- Eyrún var að búa til pönnukökur:)

Þær voru góðar og ég ætla að læra,
Lárus Heiðar

sunnudagur, nóvember 06, 2005

ef þess þá þurfa þykir

Ég fékk saltfisk í gær, hann kom með flugvél frá Portúgal í fylgd með kærustunni hans Jóns og þau buðu okkur að fá bita af honum. Það minnti mig á Skötuveislu á Þorláksmessu og það gladdi mig.

Það er frekar gaman að vera til, samt líka bara ágætt að vera ekki alveg tilbúinn, þá fær maður frest hjá sjálfum sér... það er voðalega gaman.
Svo tekur maður sig taki og verður tilbúinn og þá er maður til.

já bless
Lalli

föstudagur, nóvember 04, 2005

kaffi, súkkulaði og megas

Samkvæmt ósk frá bróðum mínum Magnús Þór Ásgeirssyni varð ég að skrifa háalvarlegt blogg um áhrif súmóglímu á kaldastríðið um miðbik síðustu aldar, þess vegna skrifaði ég þennan milli kafla í síðasta blogg.

En núna hef ég ákveðið að skrifa sérstaklega gott blogg, þess vegna er ég að hita kaffi og ætla með því að borða súkkulaði og á meðan mun ég m.a. hlusta á annan Magnús, nefninlega hann Megas.

Þar síðustu nótt dreymdi mig að ég væri í Spidermanbúning og gæti flogið og Alti var reyndar með í draumnum ásamt fleirum en við tveir vorum þeir einu sem gátum flogið. Við flugum meðal annarrs framhjá fólki sem kom út af austurrískum bar með Ottakring bjórdósir. Ég trúi lítið á drauma, annað en að þeir hafa skemmtanagildi og þessi hafði það. Það er vissulega hægt að lesa eitthvað í þennan draum og ég ætla bara að lesa það úr honum sem mér þykir henta best. Það er nefninlega þannig að ég á mér stóra drauma, sem ég mun ná og í leiðinni flýg ég framhjá Ottakringbjór, sem mér þykir vera sull.
Stundum detta menn niður í leiðinda hugsanir um hæfni sína til ákveðinna verka, það lenda sjálfsagt allir í því en bara sumir sem að leyfa öðrum að heyra þær, hinir halda þeim líklegast fyrir sig og þykjast ekkert kannast við slíkt. Þessir sem halda þeim fyrir sig, vilja líklegast ekki sýnast vanmáttugir gagnvart verkefnum lífins og hafa að eiginmati einhverja ímynd sem þeir verði að passa. Fyrir þetta fólk er hollt og gott að heyra niðurstöðu úr samtali sem ég átti við Elvar Berg í gær. Ég sagði við Elvar að hann ætti e.t.v. að fá sér rautt bindi, vegna þess að ég sá grein um merkilega menn sem notuðu allir rauð bindi. Þá sagði hann mér að íslenski "baddsjélorinn" notaði rautt bindi, og ég tók þá eftir því að Robbie Williams var ekki með rautt bindi. Niðurstaðan úr samtalinu, rauð bindi skipta ekki máli og ekki heldur hvað allir hinir halda það skiptir meira máli að vera hress.

Hress og bless,
Lárus Heiðar Ásgeirsson - án bindis

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

stólar, stólar eða stólar?

Ég hef svolítið verið að pæla í þessari fulgaflensu undanfarið, sérstaklega núna þegar hún verður vonbráðar búin að umkringja mig hérna í Austurríki. Hvað á ég að gera ef hún ákveður að verða að faraldri? Ég bý í borg, ásamt 1,8 milljónum annarra manna auk einhverra túrista. Einhver þúsund, jafnvel einhver hundruð þúsund nota neðanjarðarlestina daglega, ef smitsjúkdómur næði almennri útbreyðslu væri hann ekki lengi að dreyfa sér á meðal okkar. Ætli stjórnvöld heima og hérna heima hugsi af alvöru um þetta, eða er þetta svona eins og hjá Bandarríkjastjórn varðandi flóðahættuna í New Orleans? Þ.e.a.s. Jú'auðvitað hugsum við um þetta og höfum stjórn á vandanum.. en gera svo ekki neitt?

Það er auðvelt að líkja þessu við Kaldastríðs umræðuna á suð-austur Grænlandi um miðbik síðustu aldar og þær aðgerðir sem fylgdu í kjölfarið. Það kom fram öflug hreyfing undir handleiðslu Asashoryu, sem upphaflega var andlegur leiðtogi mongólskra iðnaðarmanna. Þessi hreyfing spáði nokkuð námkvæmlega fyrir um viðræður Khrushjevs og Kennedys hérna í Vínarborg, reyndar var þetta útúr dúr. Það mikilvæga í þessum hugleiðingum eru áhrif þessara manna á hugarfar Sumoglímukappa varðandi Kaldastríðið og síðar meir áhrif glímukappanna á stríðið sjálft. Sumoglímukappar eru vinsælir og valdamiklir menn og geta því auðveldlega haft úrslitaáhrif á viðhorf margra til ýmissa mála. Þetta átti sér meðal annarrs stað á tímum kalda stríðsins og margir hafa haldið því fram og lagt fram gögn því til stuðnings að ef Sumoglímumenn hefðu ekki skipt sér af umræðunum í Schönbrunn höllinni þá hefðu þær jafnvel náð að leysa Berlínardeiluna.

Aftur að fulgaflensu, ég held að hún sé manngerður faraldur og sé bara einhver brella til að fá menn í Apótek og kaupa gamlar byrgðir af flensulyfjum sem voru að renna út á dagsetningu. - eða nei, þetta er alvöru...

Kær kveðja,
Lalli á þakinu