sunnudagur, október 29, 2006

brunavarðapistill

Upp og niður sigann í húsinu okkar hafa í dag hlaupið fullklæddir brunaverðir, það flokkast líklegast með óþægilegri heimsóknum sem maður getur fengið. Þeir létu okkur samt ekki vita hvað væri að gerast, svo að við ákváðum að kíkja út og athuga hvort við kæmust að því hvað væri að. Þá var búið að loka stóru götunni sem að okkar gata liggur út frá og lögreglu- og brunaliðsbílar með blikkandi ljós voru út um allt, í rauninni stóðum við í miðju öryggissvæðinu sem afmarkað var með bílum og borðum, svo töltum við út fyrir það. Það virtist ekkert sérstakt vera að og þegar ég spurði einn slökkviliðsmanninn hvað væri að sagði hann að vinnupallurinn utan á húsinu var laus og það þyrfti að festa hann betur. Það var hvasst og því hætta á því að pallurinn myndi hrynja.
-
Brunaliðsmenn í Frakklandi eru búnir að slökkva eld í nokkrum bílum eftir ólæti. Einhvern veginn virðist mér eins og fjölmiðlar heimsins býði eftir því að aftur sjóði uppúr, þeir byrjuðu fyrir löngu að segja að líklega yrðu aftur ólæti líkt og í fyrra. Í rauninni virðast þeir bara hafa beðið eftir því að eitthvað fréttnæmt gerðist og svo fara þeir í fýlu ef ekkert gerist. Svona eins og þegar allir fjölmiðlar á Íslandi mættu á Keflavíkurflugvöll í sumar og biðu eftir því að logandi þota frá BA kæmi til lendingar, en svo voru þeir bara hundfúlir þegar það var enginn eldur.
En það væri nú svo sem ekki skrítið ef eitthvað gerðist því aðstæður þessa fólks í París hafa ekkert batnað frá fyrir ári, samkvæmt því sem ég las í Suddeutsche Zeitung er það alveg eins. Enginn hefur reynt að gera neitt til að aðstoða þessa íbúa Frakklands sem að búa við bág kjör. Við heima á Íslandi ættum að læra af hinum fjölmörgu misstökum Evrópubúa og hugsa vel um það fólk sem setst að hjá okkur með því t.d. að veita þeim góða íslenskukennslu. Það er nefnilega ekki sjálfsagt mál að aðlögun að nýja samfélagi gangi fyrir sig án þess að samfélagið taki á réttan hátt við þeim sem koma.
-
Sjálfur er ég í aðlögun, eins og barn á leikskóla og gengur vel þó að ég hugsi stundum til þess hvort að mamma og pabbi komi ekki bráðum.

Lalli

föstudagur, október 20, 2006

Smjörklípusteiktur hvalur

Ef það hefur farið framhjá einhverjum þá kenndi Davíð Oddsson Íslendingum smjörklípu aðferðina í viðtali í Kastljósinu fyrir ekki alls löngu. Vafðist það fyrir ykkur hvernig þessi aðferð virkar í Praxis? Allt er um það bil að verða brjálað vegna leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins og þá er skellt inn hvalveiðimálinu. Tilgangslaust mál sem breytir engu nema því að Sjallarnir fá frið og tíma til að brenna skjöl í olíutunnum.
Hvalveiðar sitja undarlega djúpt í sálum Íslendinga, ég sá t.d. skoðanakönnun þar sem mikill meirihluti Íslendinga taldi að hvalveiðarnar myndu ekki skaða ímynd Íslands. Meirihluti Íslendinga virðist ekki fatta að það er ekki bara hryðjuverkamaðurinn Paul Watson sem er á móti hvalveiðum, RÍKISSTJÓRNIR Breta, Ástrala, Bandaríkjanna og Evrópusambandið hafa mótmælt okkur. Ekki það að við megum ekki fara geng því sem þeim er þóknanlegt, þá hefur þetta að sjálfsögðu áhrif á ímynd okkar. Þetta eru ekki bara Greenpeace (sem eru risa-NoGo-samtök) eða eitthvað þessháttar, þetta eru þjóðkjörnir fulltrúar annara landa. Auðvitað eru þeirra rök ekki fullkomin, frekar en okkar. Þetta skemmir bara fyrir því að hlustað sé á okkur, þ.e. að við hlustum ekki á aðra. Það er ekki sjálfsagður hlutur að hlustað sé á Ísland á alþjóðavettvangi og það bætir ekki fyrir þegar við látum jafn lítið mál og hvalveiðar trufla það. Hvalveiðar í vísindatilgangi voru ágætur millivegur í skrítnum heimi. Sú aðferð hefur undanfarið veitt okkur ágætt magn af hrefnukjöti, ég veit ekki til þess að það hafi verið skortur á því.
En aftur að smjörklípunni, sem betur fer eru hvalir sjávardýr og innihalda mikla fitu svo að smá smjöklípa rennur bara af þeim og við getum haldið áfram að rannsaka leyniþjónustumálið.

góðar stundir,
Lalli litli

þriðjudagur, október 17, 2006

þar er gleði birta ylur

Það er farið að kólna hérna í Vínarborg, kanski kominn tími til og það er reyndar ekkert algjörlega slæmt, þegar haustið kemur færist smá ró yfir alla, hún varir fram að jólun og tekur svo aftur við í febrúar. Í gær kom maður frá Vaillant að kíkja á gashitarann okkar, hitarinn í íbúðinni vinnur ekki stöðug heldur hefur átt það til að rjúka upp í þrýstingi þegar við þurfum að hita vel. En vonandi virkaði hreinsunin hjá honum. Svo kom pípari í morgun að kíkja ofnan, en þeir hitna ekki algjörlega, vegna þess að einhver sem bjó hér áður hefur brotið litla tappann á ofninum sem að notaður er hleypa lofti út. En þessi pípari ætlaði að skipta um þessa tappa, vonandi virkar þetta bara og íbúðin okkar nær að hitna almennilega. En ef þetta virkar ekki, verðum við annaðhvort að flytja inn gám af lopapeysum eða vinna í lottói og kaupa nýjann hitara.
-
Á morgun fáum við flygilinn okkar, við leituðum lengi uns fundum einn flygil. Það er varla hægt að bjóða Eyrúnu uppá það að vera í tónlistarnámi en hafa ekki hljóðfæri hérna heima og í Vínarborg eru flyglar til í nokkrum eintökum. Í næsta húsi við okkur fundum við píanósmið sem að seldi okkur flygil í toppstandi, stilltan og fluttan í íbúðina okkar fyrir sanngjarnt verð.
-
Stundum birtast greinar eftir mig á uja .is
-
En núna er kominn tími til að halda áfram að læra.

lalli kveður, á bleikum náttkjól!

fimmtudagur, október 12, 2006

heimurinn l nnirumieh

Ég er ekki viss, en ég hef sterkan grun um að heimurinn snúi eitthvað undarlega þessa dagana. Á Íslandi er ólögleg leyniþjónusta og hún hefur að öllum líkindum njósnaðu um t.d. fyrrum Utanríkisráðherra landsins. Það þykir reyndar ekki merkileg frétt, því frekar er maðurinn spurður að því af hverju hann hafi ekki sagt einhverjum, t.d. þeim sem líklega njósnuðu um hann frá því. Jón Baldvin sagði líka frá því að njósnakerfi Bandaríkjamanna næðu til sín upplýsingum frá allri Evrópu með gervihnöttum. Maður sem var sendi- og utanríkisráðherra hlýtur að hafa eitthvað fyrir sér í þessum efnum. Ekki nema hann sé orðinn nógu bilaður til að fara í Seðlabankann.
Svo eru Bandaríkjamenn og Kínverjar sammála. Hverjum hefði dottið það í hug? Nema út af því atriði að önnur þjóð er að troða sér inn í kjarnorkuvopnaklíkuna þeirra. Þjóð sem reyndar hefur átt kjarnorkuvopn frá 2003, miðað við fyrri yfirlýsingar stjórvelda eins og USA og Íslands.
Það sem að sannfærir mig aftur á móti að þetta eru bara tvær tilviljanir er það, að þegar enskusnillingurinn Valgerður Sverrisdóttir og Norðmaðurinn Geir Hilmar Haarde mættu til fundar við Condi Rice þá bauð hún ráðherra Írlands velkomna! Er þetta ekki fólkið sem að náði að "bjarga varnarsamningum" með því að samþykkja tilboðið: Við förum og þið takið upp skítinn okkar, ok? -- Betra hefði verið að reka ósómalýðinn af landi með skömm! -- Eða eigum við kanski að taka til eftir þá á fleiri stöðum, næg yrðu þá verkefnin, blóðslóðin liggur þvers og kruss um höttinn.

lifið í friði
surál / lárus

mánudagur, október 09, 2006

Samyrkjuþrotabú

Ég fór í fyrsta tímann á þessari önn í dag, ProSeminar Grundkurs Politischen Theorien, hann er alls ekki jafn flókinn og nafnið gefur til kynna. Það er að sjaldnast með nokkuð hérna í Austurríki, hlutirnir eru bara gerðir töff með því lengja og flækja nafnið. Reynar er ég bara að bulla, ég á það til stundum kemur það mér í klandur og ég segi upphátt hluti sem aðeins "vinnustaðagrínarinn" eða "Trúðurinn sem hafði ekkert að segja" úr fóstbræðrum myndu segja. Þá skammast ég mín og hugsa ég er ekki ég ég er annar það segi ég þér.
-
Sjálfstæðisflokkurinn hefur rekið leyniþjónustu í fjölmörg ár og njósnaði um hættulega vinstri menn. Líklegast hefur Bjarni Ben, pabbi Björns Bjarnasonar, þá verið ábyrgur njósnum um Einar Olgeirsson, ekki nóg með það að þeir hafi unnið á sama vinnustað, þá voru börnin þeirra Björn og Sólveig dóttir Einars leikfélagar. Ó þú litla Ísland. Einar er vafalaust einn þeirra stórhættulegu kommúnista sem höfðu mikil tengsl við Ráðstjórnarríkin, þó svo að hann hafi ekki verið einn þeirra sem hafi fengið þjálfun í vopnaburði. Einhver þau mestu illvirki sem hann framdi voru líklegast baráttufundir með verkamönnum og skrif um málefni jafnaðarstefnu. Meðal þeirra sem lærðu vopnaburð í Rússlandi var söguhetja bókarinnar Yfir Eborfljótið, hann fór til Spárnar til að berjast gegn Franco, þvílíkt og annað eins illmenni hlýtur sá maður að hafa verið, að vera til búinn til þess að fórna lífi sínu svo fasismi nái ekki fótfestu á Spáni.
Þegar um þetta mál hefur verið fjallað af öðrum fjölmiðlum en La-Rusl þá hafa menn bent á það að í landinu hafi verið hópur kommúnista sem þurft hafi að njósna um. Hvergi er minnst á það að peningum hafi verið skotið undan til þess að reka pólitískt apparat sem fylgdist með ákveðnum hópi Íslendinga.
-
Davíð og Halldór rufu 85 ára gamla yfirlýsingu Íslendinga um ævarandi hlutleysi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur um ára bil njósnað um pólitíska andstæðinga sína. Er ekki tími til kominn að breyta um stjórnarhætti á Íslandi. Ég hef heyrt um mjög sniðuga hugmynd hérna á meginlandinu hún kallast lýðræði. Mikið ósköp væri það gott ef Ísland myndi hér eftir þróast eftir fyrirmynd þeirrar hugmyndar.

kveðja,
lalli

föstudagur, október 06, 2006

1 vika búin

Fyrsta vikan mín í fullu námi í Háskólanum í Vínarborg er liðin og í hausnum á mér liggur enginn vafi á því að ég stóð mig best allra í þessari viku og ég efast ekki um það að svo verði áfram.
-
Aldrei þessu vant hef ég verið að velta stjórnmálum fyrir mér, hérna í Austurríki og heima í Klakanum. Austurríkismenn eru núna að bíða eftir því að stjórnmálamenn frá Sósíaldemókrötum og Þjóðarflokknum komi sér saman um að starfa saman í stjórn, ef það gengur ekki þarf líklegast að kjósa aftur, því enginn myndi sætta sig við að fá yfir sig stjórn Þjóðarflokksins og rasistaflokkan tveggja sem eru viðurstyggileg samtök sem draga yfir sóðaleg málefnin sín lök í mildari litum, en hver sá sem sjá vill sér Rasismann og hatrið sem þeir boða.
Heima er ástandið skárra, en samt finnst mér sem einhver ólga sé undirniðri. Sumir í mínum flokki gætu farið að verða pirraðir ef ekki fer að ganga betur í að draga á Íhaldið, sem aftur á móti er orðið þreytt á því að við séum alltaf að skjóta á þá þegar upp kemur um svik þeirra og pretti í gegnum tíðina. Framsókn þarf að fá minnst þrjár auglýsingastofur til að fegra sína ímynd.

Ég er kátur en samt er svartsýni undirliggjandi hjá mér. Ætli það sé ekki bara veturinn sem er á leiðinni. Íslendingar eru snjallir að hafa kosningar á vorin, þá eru allir hressir.

Friður með yður
Surál da la-rusl ritstjóri.