þriðjudagur, desember 20, 2005

eninga meninga

Ísland er land, hreint land, fagur land, dýrt land og svart land. Það er með góðu vatni og hreinu og góðu lofti, svo er það mjög fallegt þegar maður sér eitthvað af því milli 18 klukkustunda næturhúmsins sem breiðir sig yfir landið eins og það hafi beðið um að fá að kúra lengur. Allt kostar mjög mikið á þessu landi, en flest okkar fá líka ágætlega borgað, svo við náum að lifa og kaupa nauðsynjavörur eins og allt það nýjasta frá Sony og Nokia.
--
Annarrs ætla ég að spara bloggið, ég tala bara frekar við fólk heldur en rífast við sjálfa mig á netinu.

Sjáumst;)
lalli krúttrass

miðvikudagur, desember 14, 2005

á leiðinni heim, til fallega fólksins

Ætli ísland sé ekki eitt af fáum, ef ekki eina, landið í heiminum þar sem fegurðarsamkeppnir jaðra við að vera hápólitískt málefni? Helstu blaðamenn og sjálfskipaðir besservisserar landsins (þar með talinn ég) keppast við að hampa eða hrópa á hina nýkrýndu ungfrú heim. Spurningum eins og hvort sé hægt keppa í fegurð er skellt fram og hvort einhver muni eftir ungfrú heimi frá því í fyrra? Hverjum er ekki sama hvort einhver muni eftir ungfrú heimi eða ekki, hverjum er ekki sama hvort það sé hægt að keppa í fegurð eða ekki? Er í alvörunni svona lítið af vandamálum í heiminum okkar að við einbeitum orku okkar að því að velta okkur upp úr hæfileikakeppnum? Eða nennum við ef til vill ekki að kafa dýpra? Er það í alvörunni þess virði að bauna á forsætisráðherra (12% þjóðarinnar) fyrir að óska stelpunni til hamingju? Hvernig væri að hefja frekar baráttu fyrir því að halda táningspitlum og -stúlkum á Íslandi frá soraklámi sem ruglar bara í haunum á þeim? Eða kanski af alvöru hjálpa vanþróuðum og þróuðum ríkjum þar sem hvorki konur né karlar hafa það frelsi að geta tekið þátt í fegurðarsamkeppnum eða hafa yfirhöfuð FRELSI. Sá peningur sem þeir "erlendu" verkamenn, sem oftar en ekki hafa lág laun, senda heim til sín frá Evrópu á hverju ári er meiri en sá peningur sem ríkin og stofnanir innan þeirra gefa árlega.

Ef við skrifuðum lista yfir vandamál heimsin, ætli fegurðarsamkeppni væri í topp tíu? Myndi manni yfirhöfuð detta það í hug? Efast um það...

Lalli ljóti

sunnudagur, desember 11, 2005

ísbjarnadjús!

Í dag var jólaball hjá Íslendingafélaginu í Vínarborg, fyrst var spjallað smá og heilsað upp á samlanda. Síðar hófst kökuát, hnallþórur, vöfflur og tilheyrandi ákaflega ljúft allt saman. Þegar að börnin byrjuðu í leikjum, stólaleikur fór fram ásamt öðru. Svo byrjuðu börnin að syngja og dansa í kringum jólatré, hurðum var skellt og snarvitlaus jólasveinn ruddist fram í miðju lagi en snéri síðar við og gekk aftur út úr salnum, börnin hrópuðu á eftir honum. Jólasveinninn sneri við og hagaði sér undarlega, kvaðst heita Gáttaþefur og hafa ruglast. Að lokum áttaði blessaður sveinninn sig á því að hann væri á réttum stað og sagðist vera þar í tvennum tilgangi, annarrs vegar væri hann kominn til að dansa en hins vegar kominn til að færa nokkrum einstaklingum jólakort: Pálmi Gunnars var ekki á staðnum, ekki heldur Jón Ólafsson, svo að næsta kort fór til "gaursins sem spilar á meðan að við dönsum í kringum jólatréð" og restinni stakk hinn þjófótti jólasveinn í vasann. Að venju fékk hann að dansa og syngja í smá stund, en síðar tók hann pokann sinn og gekk á dyr! Börnin hrópuðu aftur á hann og spurðu hvort hann ætti ekki eitthvað í pokanum, þá dró hann upp Landsbankablöðru, hjólapumpu, herðatré, tóman sjampóbrúsa, sólgleraugu og sokk! Eitthvað þótti þetta undarleg samsettning í jólasveinapoka, en á endanum fann hann íslenskt sælgæti og rétti glöðum og góðum börnum á öllum aldri poka sem fékk þau til að brosa. Svo ranglaði hann í burtu glaður í bragði...
--

Annarrs var helgin yndisleg við keyptum gjafir og góðgæti. Svo fékk Eyrún snemmbúna afmælisgjöf:) Snjóbretti, bindingar, skó og tilheyrandi! Það verður svo gaman að fara í fjallið með henni.
Við förum heim á föstudaginn og ef allt gengur samkvæmt áætlun þá komum við til Akureyrar klukkan 20.30.

þriðjudagur, desember 06, 2005

hvað er heim?

Helgarferðin var yndisleg, fórum af stað klukkan 20.30 frá Wien og héldum af stað til Essen, við sváfum(n.b.) í kojum í 6-manna vagni og höfðum það bara náðugt. Komum svo til Hönnu, Dóra, Maju skvísu og ofur-Torfa Geirs rétt um 10. Jólamarkaður og rólegheit á föstudeginum, handboltaleikur og pitza á laugardeginum, Köln á sunnudeginum og krakkar knúsaðir á mánudeginum. Á jólamarkaðnum náðum við okkur í jólastemmingu, handblotaleikurinn kom okkur í stuð þó að Dóri hafi verið tekinn úr umferð í rúmlega 40 mínútur og Dragunski fengið skot í augað frá eigin(gjörnum) leikmanni. Köln var svo wunderschön og kirkjan þar er engu lík, nema þá Stephansdom hérna í Vín.
--
Æj blessaður slepptu þessu bara: urraði ljónið Sigurljón á páfagaukinn
slepptu þessu?: æpti páfagaukurinn Laugaukur á ljónið

Sum í hópnum mínum eru páfagaukar, það tekur þá alltaf tvær til þrjár tilraunir að skilja allt. Stundum svara þau líka ólógískt og Torfi Geir, "Was sprechen politiker aus seinem land über?" svar " Ja"... og svo þarf að að spyrja aftur og aftur...
Annarrs átti Torfi Geir mjög gott svar um helgina, eftir að hann ropaði og pabbi hans spurði: "Torfi, hvað segir maður þá?" - "Meira" sagði ofur-Torfi.

-

segir Lalli

mánudagur, nóvember 28, 2005

nýtt! sjálfvirkur íkveikjubúnaður fyrir munka

Í gærkvöld eignaðist ég nýja frænku:) Til hamingu Maggi, Heiða, Magnea Ásta og Ásgeir Snær með nýja fjölskyldumeðliminn! Við Eyrún getum ekki beðið eftir því að hitta hana um jólin og knúsa hana, en samt ekki of fast, við knúsum hina krakkana bara fastar. Svo fáum við smá forskot á sæluna í vikunni þegar við förum til Hönnu og Dóra í Essen.
--

Ég hef mjög gaman Staksteinum Morgunblaðsins, þessum nafnlausu eða ekki nafnlausu skotum á þá sem ekki eru vinsælir meðal ritstjórnar Moggans. Oftar en ekki fær Ingibjörg að heyra það, oftast lauma þeir inn í þessa steina sína að "enginn viti nú fyrir hvað hún stendur". Mér finnst þetta vera svolítið fyndið, að fólk eins og í ritstjórn Moggans skrifi dylgju vangaveltur um aðra íbúa landsins. Það er sérstaklega skrítið vegna þess að ritsjórn Moggans er frekar "flott" lið, svona semí þotulið, sem fær sjálfsagt boð um að mæta í stórafmæli landsþekktra og opnanir og frumsýningar á listviðburðum. Svo skrifa þeir svona nafnlausar niðurrifsgreinar um þá sem ekki eru þeim þóknanlegir, minnir kanksi pínu á nafnlaust comment á bloggsíðu eða símaat.
Staksteinarnir fara ekki fyrir brjóstið á mér, en hugmyndin að þeim er fyndin. Núna í dag fékk Dagur B. Eggertson skilaboð frá ritstjórninni um að hann ætti nú að bjóða sig fram í prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík og á sama tíma fékk Stefán Jón Hafstein skilaboð um að "enginn viti fyrir hvað hann stendur". Það eru eiginlega skilaboð um að ritstjórninni líki ekki vel við hann, ætli menn séu ekki velliðnir hjá Sjálfstæðisflokknum ef menn fá "það veit enginn fyrir hvað þú stendur" í Staksteinum?

föstudagur, nóvember 25, 2005

úff! ha? já, úff!

Satt best að segja skammast ég mín fyrir ummæli um Georg Best, sem ég lét falla í gær, eftir andlát hans í dag. Ég dreg þau ekki til baka, en þau voru óviðeigandi. Afsakið.
--
Hannes Hólmsteinn hélt blaðamanna fund til að segja að sér hafi þótt óeðlilegt að vera dæmdur í Bretlandi. Vissu menn það ekki, þurfti blaðamannafund til þess, líklegast fékk hann borgað frá íslenskum fréttamönnum til þess að rífa þá uppúr gúrkutíðinni, en ekki mikið þó því þetta er léleg frétt.
--

Áðan sat ég á kaffihúsi, núna sit ég í mínu húsi.
Mér leiðist þessi bloggfærsla, en ég skal gera betur seinna, á sunnudaginn eða mánudaginn kemur góð bloggfærsla, ég lofa.
Lalli lati

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

"Never say never, then why say never twice"

Lífið lék við folaldið, það hoppaði milli hrigleikahúsa en að lokum stökk það á lýsisperlu og skall í kjölfarið á snæviþakta jörðina. Það hrysti af sér gömul nammibréf og sand, en náði ekki tyggjóklessu af bakinu. Folaldið að skæla, það grét sætum bláum tárum og bað froskaprinsinn Guðbrand að taka það af sér. Sá óþverri brást hinn versti við og æpti: "snáfaðu bara burt, ólukku folaldið þitt!"
Folaldið hoppaði heim á leið með grátstafinn í kverkunum, þar beið þess heysúpa og staur til að naga.
--

Eee. Já afsakið hlé.

--
Gott, nú get ég byrjað aftur, tæknin var eitthvað að stríða okkur þarna í upphafi og það sló saman á línunum. Afhverju eru alltaf fréttir af George Best í íþróttafréttum? Ok, hann var fótboltamaður, en ætti þetta ekki frekar heima í slúðri eða eitthvað. Um daginn var, svo dæmi sé tekið, frétt af því þegar Maradona fór fyrir mótmælagöngu geng Bush í Argentínu, ekki var hún í íþróttafréttum, hví þá? Vegna þess að hún tengdist ekki íþróttum, afhverju þarf þá alltaf að segja frá gömlum drykkfeldum karli í íþróttafréttum? Fá þær hvort sem er ekki nægt pláss í fjölmiðlum..

lalli prump

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Klemma fyrir rafmangsnúrur

Mig dreymdi elsku besta Cató í gærmorgun, við vorum saman tveir úti að labba og hann var hress. Mér finnst ákaflega skemmtilegt að þessi gamli vinur minn hafi heimsótt mig, það er eiginlega bara fátt sem gæti hafa glatt mig jafn mikið.

Á eftir held ég fyrirlestur í þýskunámskeiðinu um víkinga og Ísland, það verður létt verk og löðurmannlegt. Svo förum við Eyrún í Óperuna og sjáum La Traviata, það verður nú gaman:)

Jólahátíð Íslendinga á eftir að kosta 38,8 milljarða, það verður nú að gefa börnunum i-pod nano og psp-leikjatölvur, hvað er að ykkur? Já eða hinum...

Haldið þið að íslensku olíufurstarnir verði dæmdir? Endilega látið mig vita,
bless takk
froðusnakk,
Lalli

laugardagur, nóvember 19, 2005

hvað ætti það í rauninni að bögga þig?

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag. Við erum gestir og hótel okkar er Jörðin. Einir koma og aðrir fara í dag og alltaf bætast nýir hópar í skörðin. - Þessi texti hefur sönglað í hausnum á mér í nokkrar vikur og það þykir mér ekkert leiðinlegt, þetta er fallegt ljóð. Svo flauta ég líka reglulega brasilíska þjóðsönginn, mér líður alltaf vel þegar ég geri það.

Í dag röltum við Eyrún ásamt Jóni í gegnum flóamarkaðinn Naschmarkt, það er skemmtilegt að skoða draslið á flóamarkaðnum og enn skemmtilegra að ganga í gegnum matvælamarkaðinn. Þar má finna flest allt sem þarf í kryddskápa og grænmetishillur. Svo fórum við á kaffihús og fengum hressilegar móttökur hjá næst leiðinlegasta þjóni sem ég hef hitt hérna, hann var hvorki að safna gleðiprikum né þjórfé blessaður...
Svo gerði ég Pizzu, líklega þá bestu sem gerð hefur verið í Öl-víngötu, afstrympislega vel lukkuð flatbaka.

Núna er ég að verða búinn að blogga án þess að skrifa um eitthvað brjálæði, stríð, hörmungar eða stjórnmál. Ótrúlegt, ekki satt?
Auðvitað væri það ótrúlegt, jafnvel óeðlilegt svo hérna kemur það. Í dag sáum við mótmæli gegn loðfeldum, Pels ist mort! var slagorðið þeirra, þar sem þau þrömmuðu niður Mariahilferstrasse. Mér fannst leiðinlegast að þau skildu ekki hafa verið nakin, anti-pels fólk sem kemst í sjónvarpsfréttirnar er nefninlega alltaf nakið og skvettir málingu á pels og búðarglugga. Annarrs tók ég skilaboðin ekki mikið til mín, kanski afþví ég hef ekki efni á selskinnsjakka.

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Var að horfa á Jón Ólafsson í viðtali í Kastljósinu. Þetta var ágætt viðtal, en var þetta allt og sumt? Tækinlegir örðuleikar? Tja...
Það sem kom fram: Jón reykti mikið hass. Sjálfstæðisflokkurinn er skrítinn og hegðar sér stundum eins og mafía. Hannes Hólmsteinn, Davíð og co hata Jón og Jón. Þórhallur var með kveikt á símanum! Jón á viðbjóðslega mikinn pening og vill hvorki tala um Davíð né nefna milljarð, nei ég meina tölur.

Allt og sumt, maður veit það ekki, en það sem eftir stendur hjá mér er að viðskiptalífið á Íslandi skortir aðhald og síðan er reynt að bjarga því sem bjargað verður með skattrannsóknum og kærum. Annarrs er undarlegast að heyra það hvernig svona viðskipti fara fram, Jón hringir í Jón og býður honum að kaupa allt sem hann á á Íslandi.
Annað sem stendur eftir, ætli fyrirmynd Hannesar Hólmsteins sé Grímur ormstunga úr Lord of the Rings? Ef að LOTR yrði sett upp sem leikrit ættu við íslendingar a.m.k. mann í hlutverkið.

lalli í vín

laugardagur, nóvember 12, 2005

vatn og sykur

Kúrdíski samnemandi minn sem ég sagði frá hérna um daginn kom mér á óvart á föstudaginn. Við sátum fyrir utan skólastofuna fyrir tímann og ræddum heimsmálin á bjagaðri þýsku. Umræðan var að mestu um aðstæður Kúrda í Tyrklandi, Írak og Sýrlandi, þá fór hann að segja mér frá undarlegri atburðarrás sem hann olli í fyrrum háskólanum sínum í Tyrklandi. Hann neitaði að samþykkja þá fullyrðingu kennaranns að í Tyrklandi lifði aðeins ein þjóð, hann neitaði því og sagðist vera Kúrdi, ásamt fleiru. Það vakti ekki meiri lukku en svo að í næsta tíma komu Öryggislögreglumenn og handtóku hann og færðu í fangaklefa í háskólanum. Næstu 14 daga fékk hann bara vatn og sykur, og hann var þar til að þýskur mannréttinda lögfræðingur komst í málið of fékk hann lausann.
Ég sýndi þessu mikinn áhuga og eftir tímann bauð hann mér á fund, ég veit ekki hvort ég skelli mér, efast reyndar stórlega um það, en ég á eftir að lesa mér meira til um Kúrda eftir þetta.
Uppreisnarhetja, sessunautur minn?!?

Lalli

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

?

Fótbolti er yndislegur, það er vandfundinn annar leikur sem hefur viðlíka áhrif á heiminn, en samt verður hann, eða öllu heldur umræðan og allir kringum hann eitthvað ómerkilegri með hverjum deginum.
Ég las frétt í morgun um 7 ára efnilegan knattspyrnumann! Stóru liðin voru víst farin að hafa áhuga á þessu barni. Hvað er málið með að ensk og spænsk fyrirtæki, t.d. Bolton og Barcelona séu að reyna að semja við 7 ára barn? Auðvitað eru þetta ekkert nema fyrirtæki, frekar sérstök fyrirtæki en ekkert öðruvísi en hver önnur. Þau eru með stjórnendur, gjaldkera, afgreiðslumenn og skúringarkonur. En að reyna að lokka til sín börn? Einhvern tíman sá ég líka umfjöllun um 9 ára gamlan brasilískan strák, sem stóru liðin vildu fá, þau voru tilbúin að flytja heila fjölskyldu yfir til Evrópu til að þjálfa strák upp í að vera fótboltamaður. Hvað ef gaurinn myndi síðan missa áhugan og vilja verða verðbréfasali eða kennari? Sjálfsagt yrði það ekkert mál, en það er bara verið að rugla í hausnum á fólki með þessu og það er ljótt. Þetta er samt ekkert óþekkt, Motzart var undrabarn og spilaði fyrir kóngafólk um alla Evrópu alla sína ævi. En í dag ættu einhverjar reglur að gilda um þetta. Þetta jaðrar við að vera "barnaþrælkun" og nema hvað að þessir strákar eiga möguleika á að verða ríkir, hversu margir sem því nú ná. Unglingalið hjá þessum liðum eru ekki óeðlilegur hlutur í rauninni, að 16 ára strákar reyni fyrir sér sem fótboltamenn oftast sjá félögin þá um allt, einhverskonar skóla og þess háttar.
-
Ég skil stundum ekki stjórnmál. Þau eru svo flókin, ekki málin sjálf heldur mennirnir sem tala um þau. Þeir eru endalaust að passa hitt og þetta, segja hlutina án þess að styggja þennan. Ef þú spyrðir stjórnmálamann, hvort honum þætti betra svart eða hvítt, þá myndi hann segja tja, hvítur litur hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér, en svartur hefur alltaf staðið sig vel undanfarið. Ha? (ímyndið ykkur þetta með mönnum í stað lita) Halda þeir að þeir megi ekki hafa skoðun? Á Íslandi eru stjórnmálamenn bara venjulegir menn, afhverju mega þeir þá ekki segja að sér þyki þessi betri eða hinn, það er alhæfing bara skoðun á einföldum hlut.
Kanksi eru allir menn svona, einfaldir/flóknir og svo flækjast þeir... Ef til vill á ég svo sjálfur eftir að ákveða að verða svona, flókinn einfaldur.. minnið mig þá endilega á þetta.

Takk bless ég er hress,
Lalli

mánudagur, nóvember 07, 2005

ég er í parís að kveikja í bílum

Nei reyndar er það ekki satt og heldur var þetta ekkert fyndið, í rauninni ætti ég að þurka þetta út og skrifa eitthvað nýtt, og þó best er líklegast leyfa þessu að standa og viðurkenna mistökin.
Þetta er ekkert grín þessi staða sem er komin upp í Frakklandi, en líklegast hefur mörgum dottið það í huga að aðstæður sem þessar kæmu upp í innflytjendahverfi í einhverju af stærri löndum Evrópu. Í fréttum í nokkur ár hefur fólk getað fylgst með því hvernig hægri öfgamönnum vex ás megin í þessum sömu löndum og einhver ástæða liggur þar að baki, og líkast til hefur hún verið "falin" og haldið frá stóru fréttaveitunum eða þeir ekki haft áhuga á þessari eymd. Ég veit í rauninni varla hvar er best að byrja til að fjalla um þetta vandamál eða þessi vandamál, því auðvitað eru þeir þættir sem verða að þessu vandamáli samtvinnaðir. Það er ekki nóg að benda á of litla tungumálakennslu, eða of miklar kröfur um að láta af gömlum hefðum þeirra menningheima sem um ræðir. Ætli það sé frekar hægt að horfa aftur til áranna þegar að "gestaverkamennirnir" fluttu, í þessu tilfelli til Frakklands? Varla nema að litlu leyti. Getum við bent á eitthvað sem hefði getað komið í veg fyrir þetta? Sjálfsagt, en breytir það einhverju? Varla, svo að best væri fyrir deiluaðila að horfa til framtíðar og reyna að leysa vandann. Kannski er það samt ekki hægt með eðlilegum leiðum, vegna þess að þeir sem að kveikja í barnaheimilum og strætisvögnum til að mótmæla eru varla mjög meðtækilegir. Líklegast er franski innanríkisráðherrann ekki mikið líklegri til að fram sáttartillögu, enda kallaði hann brennuvargana, hyski sem ætti að hreisa burt eða eitthvað álíka.
Ætli fyrirbyggjandi aðferðir við þessu séu ekki gott menntakerfi og heilsugæsla sem nær til allra, ég held að minnsta kosti að það næði meiri árangri en að senda óeirðalögrelguna á brennuvargana eftir á.

--
Eyrún er að búa til pönnukökur:) - eða öllu heldur því þessi bloggfærsla verður hérna um óákveðinn tíma- Eyrún var að búa til pönnukökur:)

Þær voru góðar og ég ætla að læra,
Lárus Heiðar

sunnudagur, nóvember 06, 2005

ef þess þá þurfa þykir

Ég fékk saltfisk í gær, hann kom með flugvél frá Portúgal í fylgd með kærustunni hans Jóns og þau buðu okkur að fá bita af honum. Það minnti mig á Skötuveislu á Þorláksmessu og það gladdi mig.

Það er frekar gaman að vera til, samt líka bara ágætt að vera ekki alveg tilbúinn, þá fær maður frest hjá sjálfum sér... það er voðalega gaman.
Svo tekur maður sig taki og verður tilbúinn og þá er maður til.

já bless
Lalli

föstudagur, nóvember 04, 2005

kaffi, súkkulaði og megas

Samkvæmt ósk frá bróðum mínum Magnús Þór Ásgeirssyni varð ég að skrifa háalvarlegt blogg um áhrif súmóglímu á kaldastríðið um miðbik síðustu aldar, þess vegna skrifaði ég þennan milli kafla í síðasta blogg.

En núna hef ég ákveðið að skrifa sérstaklega gott blogg, þess vegna er ég að hita kaffi og ætla með því að borða súkkulaði og á meðan mun ég m.a. hlusta á annan Magnús, nefninlega hann Megas.

Þar síðustu nótt dreymdi mig að ég væri í Spidermanbúning og gæti flogið og Alti var reyndar með í draumnum ásamt fleirum en við tveir vorum þeir einu sem gátum flogið. Við flugum meðal annarrs framhjá fólki sem kom út af austurrískum bar með Ottakring bjórdósir. Ég trúi lítið á drauma, annað en að þeir hafa skemmtanagildi og þessi hafði það. Það er vissulega hægt að lesa eitthvað í þennan draum og ég ætla bara að lesa það úr honum sem mér þykir henta best. Það er nefninlega þannig að ég á mér stóra drauma, sem ég mun ná og í leiðinni flýg ég framhjá Ottakringbjór, sem mér þykir vera sull.
Stundum detta menn niður í leiðinda hugsanir um hæfni sína til ákveðinna verka, það lenda sjálfsagt allir í því en bara sumir sem að leyfa öðrum að heyra þær, hinir halda þeim líklegast fyrir sig og þykjast ekkert kannast við slíkt. Þessir sem halda þeim fyrir sig, vilja líklegast ekki sýnast vanmáttugir gagnvart verkefnum lífins og hafa að eiginmati einhverja ímynd sem þeir verði að passa. Fyrir þetta fólk er hollt og gott að heyra niðurstöðu úr samtali sem ég átti við Elvar Berg í gær. Ég sagði við Elvar að hann ætti e.t.v. að fá sér rautt bindi, vegna þess að ég sá grein um merkilega menn sem notuðu allir rauð bindi. Þá sagði hann mér að íslenski "baddsjélorinn" notaði rautt bindi, og ég tók þá eftir því að Robbie Williams var ekki með rautt bindi. Niðurstaðan úr samtalinu, rauð bindi skipta ekki máli og ekki heldur hvað allir hinir halda það skiptir meira máli að vera hress.

Hress og bless,
Lárus Heiðar Ásgeirsson - án bindis

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

stólar, stólar eða stólar?

Ég hef svolítið verið að pæla í þessari fulgaflensu undanfarið, sérstaklega núna þegar hún verður vonbráðar búin að umkringja mig hérna í Austurríki. Hvað á ég að gera ef hún ákveður að verða að faraldri? Ég bý í borg, ásamt 1,8 milljónum annarra manna auk einhverra túrista. Einhver þúsund, jafnvel einhver hundruð þúsund nota neðanjarðarlestina daglega, ef smitsjúkdómur næði almennri útbreyðslu væri hann ekki lengi að dreyfa sér á meðal okkar. Ætli stjórnvöld heima og hérna heima hugsi af alvöru um þetta, eða er þetta svona eins og hjá Bandarríkjastjórn varðandi flóðahættuna í New Orleans? Þ.e.a.s. Jú'auðvitað hugsum við um þetta og höfum stjórn á vandanum.. en gera svo ekki neitt?

Það er auðvelt að líkja þessu við Kaldastríðs umræðuna á suð-austur Grænlandi um miðbik síðustu aldar og þær aðgerðir sem fylgdu í kjölfarið. Það kom fram öflug hreyfing undir handleiðslu Asashoryu, sem upphaflega var andlegur leiðtogi mongólskra iðnaðarmanna. Þessi hreyfing spáði nokkuð námkvæmlega fyrir um viðræður Khrushjevs og Kennedys hérna í Vínarborg, reyndar var þetta útúr dúr. Það mikilvæga í þessum hugleiðingum eru áhrif þessara manna á hugarfar Sumoglímukappa varðandi Kaldastríðið og síðar meir áhrif glímukappanna á stríðið sjálft. Sumoglímukappar eru vinsælir og valdamiklir menn og geta því auðveldlega haft úrslitaáhrif á viðhorf margra til ýmissa mála. Þetta átti sér meðal annarrs stað á tímum kalda stríðsins og margir hafa haldið því fram og lagt fram gögn því til stuðnings að ef Sumoglímumenn hefðu ekki skipt sér af umræðunum í Schönbrunn höllinni þá hefðu þær jafnvel náð að leysa Berlínardeiluna.

Aftur að fulgaflensu, ég held að hún sé manngerður faraldur og sé bara einhver brella til að fá menn í Apótek og kaupa gamlar byrgðir af flensulyfjum sem voru að renna út á dagsetningu. - eða nei, þetta er alvöru...

Kær kveðja,
Lalli á þakinu

mánudagur, október 31, 2005

laufblöð í baði

Þessi yfirskrift á blogginu nær allt að því að vera eðlileg og í einhverjum takti við veruleikan. Í dag fórum við Eyrún í langan, góðan og skemmtilegan göngutúr. Eftir að við vorum búin í skólanum fórum við í garðinn okkar og lékum okkur að því að fíflast, syngja, sparka í laufblöð og tak myndir, það var mjög skemmtilegt, vægast sagt. Því næst fórum við yfir að Schönburnn Schoss og löbbuðum um garðinn þar áður en við fórum í búðina til að gera innkaup vikunnar.
Í dag er Halloween eða í dag er Hallóvín?

Sjálfstæðisflokkurinn fengi 57% í borginni ef kosið yrði nú, og hinir deila með sér restinni ásamt auðum og ógildum, eðlilega. Um hvað væri samt verið að kjósa þegar að enginn hefur sett neitt fram, jú líklegast fólkið sem er að fara að bjóða sig fram og hugmyndir. Vilja í alvörinni 57% fólks Gísla Martein, nú eða Vilhjálm? Sem hefur í 20 ár verið á lista í borginni en enginn veit hver hann er? Líkast til segir þetta meira um hitt fólkið sem er að fara að bjóða sig fram en þá tvo...
Engu að síður, þá er Gísli varla með næga stjórnunarreynslu til þess að stjóran einu stærsta, ef ekki stærsta fyrirtæki landsins og Vilhjálmur, bíddu hver er það aftur?

Annarrs er líka verið að kjósa annars staðar á landinu, afhverju gerir RÚV, sem stóð fyrir þessari könnun sem ég vitnaði í ekki könnun á Ísafirði eða Höfn í Hornafirði? (Hér forðast ég að segja Akureyri vegna þess að þá verð ég gagnrýndur fyrir kjördæmapot og akureyrarsnobb) Ég man ekki til þess að Ríkisútvarpið hafi velt við mörgum steinum utan höfuðborgarsvæðisins í svona umræðu.

Áðan sat ég og drakk rauðvín (það er frí á morgun) og horfði á Sumoglímu, ég hef áður horft á Sumo og þetta er án vafa eitt albesta sjónvarpsefni sem til er. Hvet alla til þess að skoða hana við tækifæri.

Bless í bili,
Lalli í bala

föstudagur, október 28, 2005

Le nozze di Figaro

Stundum hérna í Vínarborg þegar ég hef ekkert að gera. Þegar ég er búinn að læra í þýsku, búinn að fara í búð og búinn að lesa fréttir og Morgunblaðið. Þá fer ég stundum á bloggara flakk, oftast skoða ég það sama og í flestum tilfellum þá skrifa ég eitthvað svipað í comment. Stundum er það eitthvað stutt, jafnvel bara "einmitt", eða "hehe, fyndið þetta með gulu vísnabókina", oftar en ekki er það samt einkahúmur frá mér. Þá er það eitthvað sem mér þykir sniðugt eða fyndið og þar sem ég er ekki um þessar mundir í miklum tengslum við stóran hóp af fólki þá skilja líklegast fæstir commentin. Kanski skilur Eyrún þau ef hún sér þau, en ekki mikið fleiri.
Einhvern tíman verð ég eitthvað annað en námsmaður, jafnvel eitthvað merkilegt eða sem betra er skemmtilegt, það er samt undarleg tilhugsun og ég stórlega efast um sannleiks gildi hennar. Reyndar geri ég það ekki, ég á eflaust eftir að drulsa mér í að gera eitthvað hressandi í framtíðinni.

Bara ef ég gæti ælt yfir heiminn jákvæðni og gleði
þá myndu allir fá hroll yfir viðbjóðnum,
en finna samt sælustrauma
skola svo af sér skítinn og finna,
hvernig neikvæðni fylgdi sápunni

Svo færi jákvæðnin niður í ræsin
og þaðan út í sjó,
en hún myndi aldrei hverfa,
bara verða hluti af heiminum
og vatninu svo enginn fengi aftur hroll
en væru þess í stað glaðir

---
Ég sakna þeirra sem ég sakna og hinna líka,
lalli

miðvikudagur, október 26, 2005

húbert himbrimi

Mamma er komin í heimsókn, í gær tók ég mér frí í skólanum til að sækja hana á flugvöllinn. Svo gengum við um borgina fram og til baka og ég reyndi að sýna henni sem mest af fallegum húsum og flottum görðum.
Ég ákvað að skrifa ekkert í tilefni Kvennafrísins á mánudaginn, það vita hvort sem er flestir mína skoðun á þessu máli. Fyrir ykkur sem hugsið núna, hver er hún? Jú auðvitað styð ég baráttu kvenna fyrir jöfnum rétti í hvívetna. Ég kveikti á tölvunni minni í þann mund sem að fundurinn var að hefjast og kom mér vel fyrir með kveikt á beinni útsendingu frá RÚV. Ég var ánægður með mætinguna og að sjá hversu margt fólk var tilbúið að styðja þessa baráttu, en mér fannst baráttuandann vanta. Það eru 30 ár síðan að konur söfnuðust fyrst saman með þessum hætti, það fara að verða 100 ár síðan konur fengu kosningarétt og ennþá, ennþá hefur fullu jafnrétti ekki verið náð. Mér fannst vanta alla frekju og hörku í þennan fund, þetta átti ekki að vera hátíðarsamkoma þar sem því var fangnað að 30 ár væru liðin frá baráttufundi. Það fannst mér að minnsta kosti ekki.
Svo sendu Sjálfstæðismenn skeyti á fundinn og sögðu að sín stefna, einstaklingsfrelsi væri rétta og besta leiðin að kvennfrelsi. Fallega gert af þeim, en er það ekki pínu hræsni? Bara smá? Að mínu mati, þar sem þeir blessaðir karlarnir hafa líkast til einir völdin til að breyta einhverju í þessum efnum, t.d. að afnema launaleynd.

En nóg í bili, við mamma og Eyrún þurfum að fara út að ganga:)
lalli

sunnudagur, október 23, 2005

loftið gervinýra

Í gær fórum við skötuhjúin í IKEA, þessi drauma staður norrænna námsmanna í borg smekklausra sófa sveik okkur ekki og við löbbuðum út með glös, diska og sængur. Þannig að íbúðin er núna tilbúin fyrir komu mömmu:)

Þegar að þeirri ferð var lokið skelltum við okkur í betri gallan og örkuðum af stað í óperuna, við tókum með okkur bækur, enda áttum við ekki miða í sæti heldur biðum í röð eftir að fá stæði. Við fengum miða á Toscu og tókum svo stæði frá með því að binda, annars vegar bindið mitt og hins vegar sjalið hennar Eyrúnar á grindverkið hjá stæðunum okkar. Sýningin var svo algjör snilld, alveg hreint út sagt frábær. Söngvararnir stórgóðir og hljómsveitin mjög flott, reyndar klikkaði sú sem söng Toscu á hæsta tóninum í einni aríunni og upp skar pú! frá nokkrum áhorfendum, en aðrir hrópuðu bravó! svo þetta kom út á sléttu. Í fyrsta hléi fórum við fram og fengum okkur hvítvín með fólkinu í Armani fötunum, slepptum súkkulaði húðuðu jarðaberjunum, en það býður bara betri tíma. Sviðið er líka eitt það flottasta sem ég hef séð í leikhúsi, alveg ótrúlega stórt og sviðsmyndirnar þrjá sem notaðar voru flottar.

Eftir sýninguna fórum við á Salm Brau, sem er hundgamalt brugghús hérna og fengum okkur öl og austurrískan mat. Eftir það vorum við orðin svo þreytt eftir að hafa staðið í heila óperu sýningu að við fórum bara heim í kotið okkar.

Kveðja úr Öl-vín götu
Lalli

föstudagur, október 21, 2005

bara rusl ekki la-rusl

Ég skilaði verkefni í dag í skólanum, það var 15 setninga ritverk sem átti að byrja á: Als ich eines Tages... Ég skrifaði um að ég hefði fundið unga á götunni, farið með hann heim og hjálpað honum og svo hafi hann sungið fyrir mig. Væmið, auðvelt og búið.
Tíminn í dag var öðruvísi því að við fórum í ratleik um borgina, við áttum að finna staði og spyrja spurninga og rata svo á kaffihús undir lokin. Þetta var ágæt tilbreyting frá málfræði og meiri málfræði, ég var í liði með mexíkóskum markaðsfræðingi og japönskum leikhúsfræðinema. Okkur gekk bara nokkuð vel og vorum fyrstir með þetta mikilvæga verkefni.
Undarlegt með mig, stundum dreymir mig um að gera eitthvað merkilegt, sem að skiptir máli fyrir heiminn eða bara eitthvað uppbyggjandi, en svo eyði ég heilu dögunum í ratleik um kaffihús og listasöfn Vínarborgar. Annarrs er nóg af fólki hérna sem heldur að það sé að bjarga heiminum, það stendur á götuhornum og reynir að tala við mann um Greenpeace, þá vil ég nú frekar vera í ratleik. Kannski er það vandamálið, of margir eru að stara út í heiminn í leit að einhverju merkilegu og frábærlega ótrúlegu að gera svo að þeir gleyma að ryksuga heima hjá sér eða flokka ruslið. Ef að allir væru örlítið meira sjálfhverfir, þannig að þeir sæju sína eigin smávægilegu galla og reyndu að laga þá, í stað leita að stórum vandamálum og stórum svörum, ætli heimurinn yrði eitthvað betri?

Lalli

fimmtudagur, október 20, 2005

höfrungar harma hermileiki

Í gær söng Eyrún á tónleikum í skólanum sínum, hún stóð sig frábærlega eins og alltaf. Hún var stressuð fyrir þessum tónleikum vegna þess að kennarinn hennnar hefur verið að kenna henni nýja hluti sem hún var ekki alveg búin að ná. En svo tók hún sig til eins og venjulega og stóð sig frábærlega, var bara best og söngurinn hennar fyllti salinn. Það var mjög gaman að hlusta á hina líka og margir voru efnilegir, en sumir aðeins og ýktir, einbeittu sér meira að því að leika en syngja, þá sérstaklega ein stelpa en hún var í kvöldkjól og var með furðulega leikrænatilburði eða öllu heldur tilraunir.

Mamma kemur í heimsókn í næstu viku, það verður rosalega gaman að sýna henni borgina og allt sem hún býður upp á. Við eigum eftir að eiga nokkra góða daga hérna saman og við verðum á hlaupum um alla borgina, til að sjá sem mest:)

Annars langar mig að biðja þá sem lesa síðuna mína að leita sér líka upplýsinga um jarðskjálftasvæðið í Indlandi og Pakistan. Nú þegar eru 80.000 manns látnir og dánartalan á án vafa eftir að hækka. Einnig vantar 400.000 tjöld fyrir þá sem komust lífs af í hamförunum og standa heimilislausir frammi fyrir ísköldum vetri í Kasmír. Ekki bætir það ástandið að Indverjar og Pakistanar hafa í 15 ár deilt um þetta svæði, en sem betur fer hafa þeir lagt ágreinings mál sín til hliðar og einbeita sér að hjálparstarfinu. Við hljótum öll að geta fundið hjá okkur örlitla upphæð til að auðvelda hjálparstarfið.

Lifið heil,
Lalli

mánudagur, október 17, 2005

Mánudagur

Í dag er mánudagur og það einhver sá almest mánudagur sem ég hef upplifað lengi, venjulegur skóli, venjulegt veður reyndar var kaldara en venjulega en það gerir daginn bara enn mánudagslegri. Við Eyrún fórum síðan og keyptum straujárn og nál og tvinna, ekkert merkilegt bara hversdagslegt s.s. mánudagslegt.
Það sem gerði skóladaginn eitthvað öðruvísi var þegar að ég var á örlitlu spjalli við sessunaut minn í skólanum og hann sagðist vera fæddur árið 1985. Þetta þótti mér undarlegt svo ég leit hissa á hann og þá sagði hann eða það stendur að minnsta kosti á skilríkjunum mínum, en ég er fæddur 1983! Ha? Ég varð nú alveg hvummsa og spurði hann frekar út í þetta. Þá kom hann víst frá Írak árið 1990 og fór þaðan yfir til Tyrklands og einhverju síðar til Þýskalands og þaðan til Vínarborgar. Afhverju skildi hann samt vera með rangan fæðingardag á skilríkjunum sínum? Getur einhver hjálpað Lalla að skilja það....

Í það minnst ætla ég í tilefni af þessu mánudagslega mánudegi að hætta núna.
Lárus Heiðar fæddur 23.07.83 (eða er það ekki?)

föstudagur, október 14, 2005

þegar krummi svaf í klettagjá

Varð hissa í gær eftir að ég las brot úr ræðu Davíðs Oddsonar sem hann flutti við setningu landsþings Sjálfstæðismanna. Hvað var maðurinn að pæla? Svona algjörlega einlægt og spauglaust spurt. Hann er ekki lélegasti ræðumaður í heimi og á það til að vera hnittinn en afhverju ákvað hann að "enda" sinn pólitískaferil svona? Var blessaður karlinn búinn að telja of oft upp öll þau skipti sem hann hefur íklæddur skikkju og rauðum nærbuxum, einn síns liðs bjargað þjóðinni frá hungursneyð, frjálsum fjölmiðlum og ódýrum kalkúnalærum? Ég efast stórlega um það að allir hafi mætt á landsfundinn til þess að heyra fimmaura brandara og útúrsnúninga á málum sem ennþá eru í fullum gangi.

Ummæli eins og þessi eru nákvæmlega það sem fólki finnst leiðinlegt við íslensk stjórnmál, þegar að stjórnmálamenn bulla í staðinn fyrir að tala um staðreyndir. Davíð hefði til dæmis geta sagt, nei það skiptir í rauninni engu hvað hann hefði sagt. Annað en að 99% þess sem kæmi frá flokki á Íslandi væri bull, nú hugsa eflaust einhverjir.. "nú hefur Lalla litla sárnað", nei vitið þið þetta snýst ekku um það. 99% þess sem kemur frá x-D eða Framsókn er ekki bull, þó svo að maður sé ósammála þeim í einhverjum eða flestum tilfellum, gæti maður talið upp jákvæða þætti innan þess sem flokkarnir segja, jú auðvitað. Ég hef líka orðið var við þetta hugarfar hjá Samfylkingar fólki, sem segja að flokkurinn hafi verið stofnaður sem mótvægi við x-D og því megi ekki starfa með þeim, sem segja að Framsóknarmenn séu ekki með stefnu og hoppa uppí hjá hverjum sem er og að VG séu ofstækismenn. Með hverjum á þá að vinna? Ef að allir eru ómögulegir 0g við ein hugsum rétt, hvaða skilaboð er fólk þá að senda?

Það hefði væri best ef að stjórnmálamenn gætu í ræðum bara talað um sinn eigin flokk og sínar eigin skoðanir, í staðinn fyrir að koma með skítkast eða ásakanir um að aðri séu vitlausir. Davíð er samt ekki einn um þetta, íslenskir stjórnmálamenn hafa undanfarið verið upp til hópa arfaslakir, endalaust bull og gróusögur, sem allir bera endalaust út um allt. Lýðræði á ekki að virka þannig að við kjósum og þau bulla, Íslendingar ættu að tileinka sér það að gera kröfur til þess sem stjórnmálamenn segja, og blaðamenn eru oftar en ekki okkar tengiliðir við þá, svo við ættum í rauninni að senda þessi skilaboð til þeirra líka.

Fyrst ég er byrjaður, þá er eins gott að ég hvíli mig aðeins.. En mikið rosalega var þetta nú gott, aðeins að hrista fram út úr mér pólitískarhugsanir.
Annarrs var fínt í skólanum í dag, ég talaði þýsku, ensku, portúgölsku og spænsku (það litla sem ég kann af henni) það var gaman og fólk hló mikið og vel:) Ég sagði þeim meðal annars frá eftirnafnakerfinu á Íslandi, samnemendur mínir og kennarinn urðu mjög undrandi á alvandi fornafnsins í því. Þau urðu svo ennþá meira undrandi þegar að ég fullyrti að ég væri eini Lárus Heiðar Ásgeirsson í heiminum;) Tyrkneski strákurinn varð samt meira undrandi á því þegar að kennarinn sagði að í sumum löndum hefði fjölskyldan borðin nafn móðurinnar, en hann er líka að fasta og er því kanski ekki mjög opinn gagnvart jafn öfgafullum breytingum og þessum.

Bless og takk ef þið nenntuð að lesa allt
Lalli

miðvikudagur, október 12, 2005

Österreichs bestes Bier

Ég gerði mig að fífli í dag, í skólanum hvar annars staðar. Eftir frábæra takta í tímanum í dag, ætlaði ég mér of mikið undir lok hans. Þegar að kennarinn lagði til að allir rifjuðu upp eitt orð var ég ekki lengi að taka við mér, Aufträge var mér ofarlega í huga, en ég hafði flett því upp í orðabók, þar stóð "pöntun". Þá tilkynnti kennarinn það að ég mætti aðeins svara með já eða nei, ja oder nein, alles gut! Já, auðvitað, sögnin að panta, lítið mál. Þá hófust spurningarnar, er þetta uhhhm, og enginn sagði neitt, er þetta sögn? Já, þetta er sögn, sagði ég. Svo héldu spurningarnar áfram og alltaf varð ég aulalegri og aulalegri, á endanum var ég beðinn um að segja fyrstu stafina og þá tókst loksins einhverjum að geta upp á NAFNORÐINU Aufträge. Helvítis djöfulsins, afsakið orðbragðið, drullu orðabók, hún sagði bara panta! En ég dó ekki og heldur neinn samnemenda minna, en ég skammaðist mín alla leið í gegnum gólfið, út úr skólanum og í þýskustofuna í M.A. -takk!

Það var fótboltaleikur að klárast rétt í þessu, Austurríkismenn gerðu sér lítið fyrir og sigruðu Norður-Íra með tveimur mörkum gegn engu! Það sem Austurríkismenn höfðu fram yfir þá írsku var knattspyrna, aldrei hef ég séð jafn ljótar tæklingar og hjá Írunum í þessum leik, þrátt fyrir að Íslendingar höfum bæði Heiðar Helguson og Brynjar Björn þá komast þeir kettlingar ekki nálægt þessum bölvuðu durtu frá Stóra-Bretlandi.

Í fyrsta skipti á þessum eina mánuði urðu mér á mistök í eldhúsinu, í þetta skipti var það grjónagrautur sem mallaði í pottinum, en í stressi yfir sófafluttingum (sjá neðar) þá gleymdi ég að hræra og hann brann lítillega við. En Pizzeri-Mafiosi reddaði mér:) Þessir Tyrknseku mafíósalegu herramenn..ó himnesku flatbökur.

Í dag fórum við Eyrún heim til leigjandans okkar og tókum sófa úr herbergi sonar hennar. Ég var orðinn of þreyttur á sófaleysi íbúðarinnar að mér var sama, svo var hann líka hermaður, með plakat af Che Guevara á veggnum, Bob Marley á hurðinni og bók um Bill Clinton í skápnum. Ég hef ákveðið að læra af því að bregðast íslenskt við því að eitthvað sé að hjá mér og byrja á über kurteisi, nei börnin góð hlustið á mig, þegar eitthvað vantar hjá ykkur sem á að vera, hvort það er vatnsglas, betur steikt kjöt eða sófi. Standið þá upp og kallið hátt og snjallt: ,,Hér inni er stúlka í alltof þröngum kjól" Nei afsakið nú sló saman, standið þá upp og heimtið ykkar!

Annars er að vakna yfir hinum pólitíska Lalla, ef þið vissuð ekki að ég væri í dvala, kanski tekur það einhvern tíma, en í hausnum mínum er hann að vakna.

lalli-

þriðjudagur, október 11, 2005

Skólinn er byrjaður!

Fyrstu tveir tímarnir í þýskunámskeiðinu liðnir, tveir dagar og tveir þýsku tímar, samtals fjórar stundir.. ok? Gott, þetta gengur bara ágætlega og er hæfilega krefjandi og ég get staðið mig vel hérna.
Á föstudaginn fórum við á Íslendingakvöld á Universitätsbraü, það var mjög skemmtilegt og margir mættu hátt í 20 manns sem komu og það telst góð mæting hérna, en í allt búa á milli 60-70 Íslendingar í borginni.

Ég varð vitni að skelfilegum hlut á sunnudaginn, aftan á Belvedere, fyrrum sumardvalarstað keisara og prinsa, m.a. Franz Ferdinand, var búið að setja neon-skilti sem myndaði útlínur Austurríkis. Þvílíkt og annað eins, og satt best að segja get ég ekkert meira um það sagt! Myndin hér að ofan er af húsinu sjálfu, en ég vil ekki sýna ykkur neon-skiltið ótilneyddur.


Já svona er heimurinn undarlegur og maðurinn smekklaus.

En núna þarf ég að læra heima í þýsku, en ég lofa sjálfum mér að skrifa eitthvað merkilegra næst.

Lifið heil,
Lalli

föstudagur, október 07, 2005

muna: skjæla ekki æla!

Enn einn viðburðarríkur dagur að líða hér í Vínarborg.
Eyrún fór sem fyrr í skólan og ég varð eftir heima, ég skemmti mér frameftir degi yfir sögunum hans Óskars, blikktrommarans dvergvaxna. Rétt fyrir tvö kom Eyrún heim, en stoppaði stutt við og hélt af stað í þýskutíma, ég ákvað að fylgja henna a.m.k. áleiðis. En þegar á hólminn var komið fór ég bara alla leið í skólann hennar og ætlaði að bíða, enda tölum við bæði að þetta yrði dæmigerður "fyrsti tími" og ekki mikið kennt. Eftir að hafa setið og lesið í smá stund var ég kominn með bullandi leið á Óskari og gaf skáldskap upp á bátinn. Þá tók biðin við, ég beið í einn og hálfan tíma þar til Eyrún kom út og sagði mér að hún yrði einn og hálfan í viðbót. Eftir að hafa fengið þær fréttir ákvað ég að fara niður í miðbæ, þar átti margt eftir að gleðja mig.

Þegar ég steig útúr lestinni sá ég að stuðningsmenn Palestínu voru að koma sér fyrir á Graben (dýrustu verslunar götunni). Ég fylgdist með þeim um stund og hélt svo áfram göngu minni, þar til ég kom að búð sem ég vissi hreint ekki hvað seldi, svo að ég fór inn í hana. Þetta var þá, og er enn, einhver flottasta gourmet búð sem ég hef séð. Óteljandi ostar, vín og kjötvörur, sultur og gotterí og KRYDD!! Í þessari búð fann ég Estragon, sem við Eyrún höfum leitað hérna úti, auk fjölda annarra hluta. Þegar útúr þessari hressilegu vin ilms og braða var komið tóku á móti mér ungir sósíalistar sem að voru í kröfugöngu. Ég ákvað að fylgja þeim eftir, svona fyrir forvitnissakir, svo ég þrammaði í takt við fjandmenn kaptitalisma og stuðningsmenn byltinga. Það var nokkurn veginn það eins sem ég skildi af því sem þau öskruðu í gjallarhornin: "niður með kapitalisma" og "lausnin er bylting". Ég gekk á eftri þeim dágóða stund, eða þar til ég var orðinn allt að því áttavilltur og taldi best að snúa við á rólegri slóðir. Það var skemmtilegt að sjá að lögreglan virtist hafa gaman af þessum mótmælum, því a.m.k. 5 bílar með níu lögregluþjóna innan borðs fylgdust með þessu og nokkrir voru þar að auki á gangi. Ennþá skemmtilegra er þó að segja frá því að sósíalistarnir gengu framhjá bistro matsölustöðum þar sem "viðskiptafólk" drakk hvítvín og borðaði paté eða eitthvað svoleiðis...
Á leiðinni til baka stoppaði ég aftur hjár Palestínuvinunum og hlustaði á þau í smástund en hélt svo heim á leið, enda bjórkvöld í kvöld og best að koma sér heim og fá sér pizzu vel tímanlega:)

..en núna er ég samt að borða harðfisk..

kveðja,
Lárus von Island

fimmtudagur, október 06, 2005

hrákadallur ríka fólksins....


Í dag gekk ég um götur Vínarborgar, Eyrún var dugleg og fór snemma í skólann, en ég kúrði í 30 mín í viðbót og fór svo á fætur. Las féttir og hlustaði á tónlist. Svo gekk ég af stað, fyrst stoppaði ég á Starbucks, ég nennti ekki að leita að örðu kaffihúsi, svo ég fékk mér bara stóran bolla. Las og ætlaði að læra mikið í þýsku, en tók óvart hljómfræði bókina hennar Eyrúnar í staðin fyrir málfræði! Skrambans ólukka. Eftir það ákvað ég að labba niður í bæ, svo ég gekk heillengi og hafði gagn og gaman af, á göngu minni sá fullt af skrítnum og eðlilegum hlutum. Meðal þess sem fyrir augu mín bar voru Segway hjól (minnar að þau heiti það) og japanskir túristar að taka myndir af japönskum túristum taka myndir... ég var næstum búinn að taka mynd af þeim.

Ég hef í tvígang orðið vitni að því þegar gamlar konur eru pirraðar úti fólk í kringum sig hérna. Fyrra skiptið var í lestinni, þegar lítil taksa frá lítilli japanskri konu datt á fót eldri konu. Sú japanska afsakaði sig í bak og fyrir en allt kom fyrir ekki eldri konan fussaði og sveijaði í nokkrar mínútur á eftir.
Í gær vorum við Eyrún að ganga út götuna okkar þegar að hress krakkahópur mætti okkur, rétt á undan okkur var eldri kona og svo óheppilega vildi til að eitt barnanna rakst í konuna. Hvað haldið þið, konan fussaði og sveijaði alla leið út götuna og alla leið inní kirkju.
Ég vil samt taka það fram að ég hef ekkert á móti konum, ekki einu sinni eldri konum, enda hef ég mest lítið á móti fólki.

lalli mannvinur og göngumaður

miðvikudagur, október 05, 2005

Tuð

Tuð fylgir öllum mönnum, það að juðast áfram í einhverjum sem oftast nær er smáatriði en skiptir þá, oftast nær þá eina, einhverju örlitlu máli. Flest skrif mín hér eru til dæmis uppfull af tuði, en stundum ekki, studnum tuða ég og stundum ekki.
En fleiri geta tuðað, las til dæmis áðan grein eftir Egil Helgason á vísir.is, þar sem hann gagnrýndi Hringbrautina og fleiri Vatnsmýrarmál í Reykjavík. Ekkert sérstaklega vel skrifuð en innihaldið var samt allt í lagi. Nóg um það, í kjölfar greinarinnar fylgdu stutt skrif frá karlkyns tuðurum sem allir tuðuð yfir því sama, að nú tæki þá lengri tíma að fara í vinnuna. Ég get vel trúað því, en líklegast eru þetta einhverjar 3-5 mínútur sem ferðin lengist um. Ef ég man rétt þá var Hringbrautin færð til að skapa aukið rými til bygginga hjá Sjúkrahúsinu, enginn þeirra minntist á þetta né það að ef byggja á í Vatnsmýrinni þar góðar og greiðar leiðir út úr Vatnsmýrinni.
Annað tuð sem ég tók eftir var frá akureyrska varaþingmanninum Hlyni Hallsyni, þar sem hann sagði frá raunum sínum á Alþingi. Þar sem hann var þvingaður til að vera með bindi, og það ekki einu sinni, neibbs! Tvisvar! Tvisvar sinnum og í fyrra skiptið missti hann af atkvæðagreiðslu vegna þessa. Ef það eru einhverjar reglur, þá fylgir maður þeim. Ef maður er ósáttur á Alþingi, þá safnar maður smá hóp á bak við sig og kemur málinu af stað! Maður tuðar ekki yfir því og mætir svo aftur bidnislaus, þannig breytist ekkert.

Æj, hvað að er gott að tuða smá, þó svo að maður breyti engu.
-Ef ég geri eitthvað skemmtilegt í dag þá bæti ég við bloggið.

lalli...

mánudagur, október 03, 2005

Sviðin jörð

Ég tók eftir því þegar ég stóð í langri röð um daginn að margir tóku upp Gsm-símann sinn þegar þeir voru farnir að ókyrrast, litu á hann og settu hann svo með vonleysissvip aftur í vasann eða töskuna. Skrítið hvernig símar eru, þeir bjarga fólki stundum en svo þegar við mest þurfum á þeim að halda, þá heyrist ekkert í þeim og ekkert af númerunum kemur manni framar í röðinni eða getur hjálpað manni. Þeir svíkja eigendur sína á versta tíma. Sem betur fer var ég ekki með minn á mér svo ég varð bara að stóla á sjálfan mig, sem og ég gerði.
Svo sá ég í dýragarðinum hrægamm fá að borða, hann fékk rottu og var að kjammsa á henni þegar að við gengum framhjá. Frekar ömurleg örlög fyrir ógeðis-rottuna, fá að fara í dýragarð og vera étin af hrægammi úr annarri heimsálfu.
Í gær hitti ég líka nokkrar dúfur, eins og svo oft áður, en ég fór að velta því fyrir mér hvort miðbæjardúfur nútímans séu ekki haldnar einhverjum velmegunar sjúkdómum. Þær lifa á frönskum og öðrum skyndibita og hreyfa sig allt of lítið. Það getur ekki verið að þær hafi gott af þessu öllu saman.

Í gær fórum við Eyrún á Kunsthistorisches museum, fyrst löbbuðum við smá hring um egypskar, grískar og rómverskar mynjar. En við vorum í meira skapi fyrir málverk, því töltum við af stað upp glæsileg og massív marmaraþrepin, en safnbyggingin sjálf er listaverki líkust, alveg órtúleg, skreytt frá grunni til rjáfurs. Meðal þess sem sem við sáum voru verk eftir Peter Paul Rubens, Dürer, Rembrandt, Raphael, Caravaggio, Migelangelo. Það eina sem hægt er að gagnrýna er fjöldi verkanna, við urðum ringluð á því að reyna að skoða þetta allt saman og því verðum við eiginlega bara að fara síðar og fara þá ef til vill hægar yfir og skoða allt rólega.
Eftir alla þessa menningu urðum við svöng og vildum endilega reyna að fá okkur kaffi of köku eða eitthvað þess háttar. Undanfarið er ég mikið búinn að breka um Sachertertu á Hotel Sacher, en svo þegar á hólminn var komið flúðum við túristamergðina og fórum bara á venjulegt kaffihús í miðbænum. Þegar að við gengum frá kaffihúsinu hjá Sacher og framhjá andyrinu þá komu nýjir gestir á hótelið, Porsce jeppi, gullúr og allt eitthvað voðalega, hroðalega fínt og flott allt saman.

Bless í bili
Lalli

laugardagur, október 01, 2005

Hvað heldur þú?

Í dag ætlum við Eyrún að leggja af stað í leiðangur, taka með okkur nesti og góða skapið og skoða hallir og önnur falleg gömul hús.
Það er ekkert ákveðið hvert við förum, svo að ég segi ykkur það bara á eftir... bloggfærslan verður kláruð seinna í dag... Sem sagt núna.

Við fórum fyrst í skólann hennar Eyrúnar, þar sem hún æfði sig að syngja, en hún byrjar í skólanum á mánudaginn. Svo fórum við í Schönnbrunn höllina, þvílíkt og annað eins glæsi-svæði, höllin er ótrúleg bygging og meira að segja er leyfilegt að fara inn í hana. En við létum það bíða betri tíma og verra veðurs og fórum rakleiðis inn í garðinn. Höllin var reyst í sinni núverandi mynd af Mariu Teresu og garðurinn í ný-klassískum stíl hefur alla tíð verið opin almenningi, sem er undarlegt miðað við glæsileika hans:) Svo fórum við í elsta dýragarð í heimi, 250 ára gamlan og það var eins og alltaf, rosalega gaman að stara á apa og tígrisdýr og vorkenna þeim.

Eitt sem ég fór samt að velta fyrir mér. Það tók menn svo, svo langan tíma að losna við keisara og koma á lýðræði, stendur fólk agndofa fyrir framan svona mynjar og hugsar kanski; ,,Afhverju byggir fólk ekki svona hallir í dag!"... eða eitthvað.
Það er bara svo undarlegt falla í stafi (kanski fullmikið sagt) en í það minnsta, þá eru þetta mynjar um fólk sem tók nógu mikið af fé til þess að byggja þessar rosalegu hallir, með gullsölum og ótal gluggum, meðan að fólkið í ríkinu átti bara kofa... (hérna gæti fylgt- öreigar allra landa sameinist! en ég sleppi því)

bless í bili

fimmtudagur, september 29, 2005

Schülerduden!

Eftir annasama daga undanfarið þá tókum við Eyrún okkur nokkur veginn frí í dag, engin IKEA ferð, engin skráning og ekkert vesen. Við fórum reyndar til Vienna International Center (Sameinuðu þjóða byggingin) í dag og ætluðum að hitta íslenskan mann nafni Guðna Harðarson, en við mættum of seint og þá hann var farinn á fund svo það varð ekkert af því.

Þvottavélin okkar er komin á sinn stað, borvélin, skrúfjárnin, hallamálið og allt hitt dótið í sinn skáp og tölvan er komin á sinn rétta stað. Það eina sem vantar hér er sófi, sem á að koma á næstu fimm dögum, ef hann kemur ekki verð ég alveg snar-snæduvitlaus og bít í súrt epli!

Við ætlum ef til vill að reyna að komast í óperuna um helgina, og ef ekki þá kaupum við okkur miða á netinu fyrir einhverja sýningu fljótlega.

Það eru ótalmargir ógeðslegir karlar á sveimi í kringum miðbæinn og lestarstöðvarnar, auðvitað eru flestir þeirra bara venjulegar fyllibyttur, en sumir þeirra eru bara svo ógeðslegir. Einhvern tíman voru þeir sæt ungabörn, kanski voru stefndu þeir hátt en sitja núna á skítugum götum og betla. Við Eyrún sáum meira að segja einn gaur pissa við hliðina á glervegg hjá Westbahnhof, það þarf ef til vill ekki að taka það fram að þá sáu vegfarendur allt á kauða. Þar sem veggurinn var úr gleri, ok, nóg um það.

Ég skildi einu sinni eitthvað í Baugsmálinu, en núna? Gamlir tölvupóstar og hótanir fram og aftur, í nútíð og þátíð, þetta er undarlegt. Ef eitthvað af því sem þetta fólk segir er satt þá á einhver eftir að verða myrtur, það gerirst alla veganna í alvöru sápuóperum. Eða þá að einhver klóni Jón Ásgeir og skíri hann Jón Gerald, eða Jónínu Ben og segji að hann sé bara brjálaður og svo drepur hann sig, en bara í þykjó og kemur svo aftur eftir fimm ár og sakar Sturlu Böðvarðsson um að hafa stýrt þessu öllu.(skildu þið þetta? nei, gott ekki ég heldur)

Það verður eitthvað af viti að koma út úr þessum bloggskrifum bráðlega... svo er Eyrún búin að uppfæra myndasíðuna...
bæbæ, Lalli

mánudagur, september 26, 2005

Öl-vín að verða fín...

Við erum búin að vinna í flest öllu hérna úti. Eyrún er búin að skrá sig í sinn skóla og á bara eftir að staðfesta/ákveða kúrsana sína. Ég aftur á móti kemst ekki inn í skólann sem ég ætlaði mér, þar sem ég tala ekki þýsku, ég bjóst við því að geta tekið innan skólans einhverja þýsku fyrir útlendinga en svo var ekki. Svo að ég er kominn í nýjan skóla, sem ber sama nafn og hinn, en er samt ekki hluti af honum... En hvað um það, ef til vill kemst ég samt á námslán, ef ekki þá verður hún Eyrún mín bara að bjóða mér í bíó í allan vetur. Eða eitthvað:)
Um síðustu helgi fórum við í lestarferð til Essen að heimsækja Hönnu, Dóra, Álfheiði Maríu og Torfa Geir. Það gaf okkur orku og við náðum að slappa af með tvo yndislega orkukrakka að "atast" í okkur og að hjálpa foreldrunum setja saman rúm, bora í veggi og öskra á handboltaleik. Dóri spilaði á móti Ibbenbürener SpVg o8, Tusem Essen vann! Eins og þeir hafa gert í allan vetur... Dóri var góður sérstaklega í seinni hálfleik, en þetta var samt erfitt hjá Essen... Mjög gaman að sjá Dragunski taka á mönnum í vörninni. Dóri var svo að segja mér að hann hefði tekið sófasettið hjá þeim einn úr gámnum og inn í hús og við erum að tala um mjög þungt sófasett.. gaurinn er rúmlega tröll...;)
Í dag fengum við sjónvarp, internet og síma mjög gott mál og dagskráin er bara fín, svo tók ég "inntöku"-próf í nýja skólanum mínum sem var til að sjá hvernig ég stend og viti menn ég var dæmdur í 3.stig eða miðstig. Konan sem talaði við mig var mjög ánægð með hvað ég var góður að tala, en ekki jafn sátt meðferð mína á þýskum sögnum.. eitthvað kannast ég við þetta en tókst að komast upp á 3. stig.
Svo erum við búin að vera heima og taka til, skúra skrúbba og bóna í allt kvöld. Á morgun förum við svo í skólana okkar að klára skráningu og fá frekari upplýsingar, eftir það er það IKEA ljúfa IKEA til að kaupa fallega og nytsamlega hluti og mat, því í IKEA hérna er hægt að kaupa norræna matvöru;) Eftir að leitum við að þvottavél.
Þetta blogg er það heimilislegasta í gjörvöllum netvöllum, kanski fyrir utan þessa.

Ég lofa að skrifa um eitthvað krassandi bráðum og svo skal ég bara horfa á fótbolta á mogun, Rapid Wien - Juve... og leikurinn sýndur á stöð sem við náum:)
Bless kex,
lali-baba

fimmtudagur, september 15, 2005

velkominn til Vínar Lárus

Jaeja, thá er tetta byrjad. Ferdin gekk vel og vid komumst baedi heil í íbúdina okkar og allt dótid med. Fyrst aetladi tyrknerskaettadi leigubílstjórinn okkar ekki ad finna götuna! Kommon´hver veit ekki hvar Ölwiengasse er!
Svo er íbúdin okkar ekki alveg eins og vid vildum, vid héldum ad vid mudum ef til vill vilja skipta, en svo skodudum vid adra íbúd og thá sáum vid ad okkar íbúd er alveg ágaett.
Í gaer fórum vid á veitingahúsid í Öelwiengasse, og fengum okkur Erdinger og ég fékk mér Spinat, Egg og Rüsti... ég bordadi tad, en meira verdur ekki sagt um thá máltíd:)
Svo erum vid núna á leidinni nidur í bae ad skoda söfn og fara á kaffihús og hafa thad gott, naesta vika verdur svo notud til tess ad breyta holunni í höll.

föstudagur, september 09, 2005

víkingurinn virtist villtur, eða hvað?

Jújú kæru vinir ég er á leiðinni í burtu af landinu, flýg á miðvikudaginn út til heitu landanna þar sem sólin skín og smjör drýpur af pálmatrjám en ekki stráum.
Það verður nú aldeilis hressandi og gefandi tími, hversu langur sem hann nú verður og hvað ég tek mér fyrir hendur á meðan hann líður. En best af öllu er fyrir ykkur er að vita, okkar fólk er ávallt velkomið í Ölwiengasse 4, bara hringja á undan sér til að öruggt sé að nóg sé til af öllu.

Næst skrifa ég frá Vínarborg...
lalli

mánudagur, september 05, 2005

jæja jájú, jamm og jú

Ég biðst afsökunar á því að hafa skrifað góðann daginn síðast, svona geri ég stundum. E.t.v. af fáfræði ellegar klaufaskap, en svona er ég brothættur lítill drengur.
Þessi brothætti litli drengur er á leiðinni út í heim, sumir kalla heiminn, "hinn stóra heim", en ég veit ekki hvort til séu aðrir heimar og hvað þá að ég viti nokkuð um stærð annarra heima. Í rauninni veit ég mest lítið um slíka hluti, vitneskja mín er á afar takmörkuðu sviði, en svona er ég bara lítill "heimskur" drengur í heimi.

Vandamál heimsins, er ég ekki vanur að fjalla um þau? Vandamál liðinnar viku, fellibylur við mexíkóflóa, 1000 létu lífið á brú í Írak, bruni í París, flugslys, ekkert fjallað um fellibyl í Kína (og fleiri Austur-Asíu löndum) og það virðast vera tveir lélegir frambjóðendur í Þýskalandi.
Af nógu er að taka, fellibylurinn sýndi svart á hvítu að í Ameríku vantar allt "social" eitthvað, bjargið sér hver sem getur stefnan sýnir vanmátt sinn. Í kjölfarið er talað um ránsöldu, en e.t.v. er rauninn sú að fólk var fyrst og fremst að stela mat og vatni!
Brú í Írak, hryðjuverk? Tilviljun? Eða einfaldlega harmleikur, líklegast, með blandi af hinu.
Brunarnir í París, þá skilur maður varla, eru þetta íkveikjur? Hlýtur að vera tilviljun af þessu tagi væri ótrúleg.
Fellibylurinn í Kína gerði minni urlsa, þó svo að kona í minni vinnu hafi sagt að milljón hafi farist..sko milljón eð'eikkað..ojjj.
Lélegu frambjóðendurnir í Þýskalandi eru eiginlega ekki vandamál, bara hversdagsleikinn, Bush og Kerry.. ect.

takk fyir og bless

miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Frá degi til dags



Góðann dag,

Ég er búinn að vera lasinn í gær og í dag, eitthvert helvítis slen í mér. En það er að líða hjá, hægt og bítandi, svo ég verð ferskur í kvöld og frískur á morgun.

Áðan kom maður í heimsókn hérna niðri í kjallara í Eyrarlandsveginum, hann bauð mér góðann dag og sagðist heita Davíð (minnir mig) og sagðist hafa tekið sér tíma í dag til þess að tala við fólk um Biblíuna. Mér þótti þetta mjög snjallt hjá manninum, taka sér frí frá vinnunni til þess að tala við fólk. Ég sagði manninum frá því að ég hefði ekkert farið í vinnuna í dag svo ég væri ef til vill ekki í sem bestu ástandi til þess að ræða við hann um sín áhugamál. Þá bauð hann mér bæklinga um það sem hann ætlaði að tala um, þrjá bæklinga. Einn þeirra heitir "Bók fyrir alla", næsti "Vaknið!" og sá þriðji "Varðturninn, - Kunngerir Ríki Jehóva" en framan á honum stendur einnig Ættirðu að óttast dauðann?
Ég dauð sé eiginlega eftir því að hafa ekki rætt við manninn, tja og þó... Kanski hefði ég átt að bjóða honum upp á hafragraut, maður kann sig ekki.

Í dag var Litáhinn frá Kaunas sýknaður af ákærunni um að hafa flutt inn til landsins brennisteinsýru til þess að framleiða Amfetamín. Þessir gaukar, lögreglan var víst of fljót á sér og þess vegna fær dópsalinn, sem kemur frá alræmdasta framleiðslubæli fíkniefna í Evrópu að labba burt.
Ég veit ekki hvað skal segja um þetta.. Gaurinn var búinn að koma þrisvar sinnum til landsins á nokkrum mánuðum, kanski er hann bara misskildur íslandsvinur, eins og Elton John.

laugardagur, ágúst 27, 2005

og það var gúrka!

Evrópa hefur undanfarið verið að undirbúa komu okkar Eyrúnar, við erum tilbúin og því þurfti aðeins að baka fleiri brauð og auka við slátrun á nokkrum stöðum til að anna eftirspurninni sem fylgir okkur. Heyrst hefur að milljóna tugir munu á næstu dögum flytjast búferlum og þar með fara nær okkur skötuhjúunum.
Nei, þetta er nú ekki alveg satt, en við erum að minnsta kosti að verða tilbúin.. svona allt að því tilbúin.

Síðan að við Alti ræddum vandamál heimsins sitjandi efst í kirkjutröppunum við Akureyrarkirkju, þá hef ég mikið velt fyrir mér fréttaflutningi hjá okkur og þeim málum sem við viljum fylgjast með. Það sem gerist í stjórnmálum Vesturlanda, auk hryðjuverka, glæpa og náttúruhamfara eru þeir atburðir sem við fáum fréttir af. Ef að svokölluð gúrkutíð er í þessum fréttum, þá kippa fréttastofurnar inn fréttum af hungursneyð og vosbúð frá fjarlægum og framandi löndum.
Að sama skapi virðumst við beina okkar auka orku í átt til þess sem okkur er sagt að séu mest aðkallandi málefnin, en gelymum hinu, nema kanski þegar að gúrkutíðar fréttamennskan hefur áhrif á okkur.
Það sem jók ennfrekar á þessar hugsanir mínar var myndin Hotel Rwanda, sem sýnir hvernig þetta virkar í raun og veru.

Það er svo lítið mál að vera svartsýnn og dapur yfir heiminum, þess vegna reyni ég að tileinka mér bjartsýni, þó svo að ég þurfi oft að plata sjálfan til þess.

Lárus, ritstjóri la-rusl

fimmtudagur, ágúst 25, 2005

Fyrsta blogg á nýjum stað

Mér líkar vel við svona bloggsíður, enda get ég þar tjáð mig í orðum rituðum niður af fingrum mínum og það líkar mér.
Ég á alveg eftir að skoða þetta blogger kerfi, en ég ætla að hafa þetta betra en annað sem ég hef gert á netinu. Þetta verðum minn miðill og því mun ég vanda vel það sem ég set niður. Þetta þykir einhverjum líklegast lummó, sama aðila þykir orðið lummó væntanlega einnig hallærislegt, en þeim, sem og öðrum ráðlegg ég að lesa færslurnar vandlega og reglulega og ræða málin í kjölfarið á síðunni.

Takk og bless
Lalli