sunnudagur, janúar 29, 2006

krukkuhaus

Við vorum að koma úr bíó... byrjum á byrjuninni:
Í gær fengum við okkur pizzu og vorum heima og horfðum á sjónvapið. Þegar við vöknuðum í morgun fórum við svo í Badminton, ég var örlítið skárri í þetta skiptið og veitti Eyrúnu örlitla keppni. Eyrún ákvað svo að baka vöfflur og við buðum Jóni og Pétri að maula þær með okkur, enda bakar Eyrún alltaf 16 vöfflu-uppskrift;) Í kvöldmat (sem var stuttu seinna) elduðum við svínalund skorna í "medalíur" ég kryddaði þær með salti, pipar, dijon sinnepi og sólblómahunangi. Eftir sunnudagssteikina fórum við svo í bíó.
Myndin sem varð fyrir valinu var "Jarhead", hún segir sögu byggða á bók bandarísks hermanns sem tók þátt í Eyðimerkurstormi. Hún sýnir vel þá firringu, vitleysu og þann heilaþvott sem á sér stað hjá bandaríska hernum. Umfram allt sýnir hún stráka sem hent er út í stríð sem þeir skilja ekki.. og þó umfram allt sýnir hún bandaríska hermenn og gerir engar hetjur úr þeim. Við fórum á myndina í Hydin Cinema, sem sýnir myndirnar á ensku. Það gerir það að verkum að auk Íslendinga eru aðrir enskumælandi íbúar þessa heims þ.m.t. Bandaríkjamenn. Ég veit ekki hvort fólkið sem var fyrir ofan okkur tengdist bandaríkjaher, en ég einhvern vegin hafði það á tilfinningunni. Þau fögnuðu atriðum í myndinni nánast eins og hermennirnir í henni fagna atriðum í stríðsmyndunum sem notaðar voru til að æsa þá upp. Þau hlógu að sorglegum atriðum, þar sem ég velti fyrir mér spurningum um hvort heimurinn ætti einhvern tíma eftir að verða "góður". Þessi mynd skildi eiginlega meira eftir í mér en margar aðrar stríðsmyndir, ekki vegna hryllings eða brálaðs áróðurs með eða á móti stríðum. Heldur vegna þess að hún fygldi eftir gaur sem að skildi ekki hvað hann var að gera, en samt gerði hann það. Samt hefði verið hægt að gera betri mynd, en hvað um það hún var nú einu sinni framleidd í Hollywood!
Jæja best að sleppa því dæma Bandaríkjamenn hérna..... frekar fer ég að sofa

p.s. svo væri líka gagnlegra að hjálpa þeim en að dæma

lalli

föstudagur, janúar 27, 2006

Freitag ist Zielpunkt Tag!

Ég fór í próf í dag, gekk bara ágætlega, engin undur og stórmerki, engar uppgötvanir sem breyta heimsögunni, bara ágætt. Ef mér gekk í rauninni svona, þá fer ég þann 6. febrúar í kúrs sem að leiðir mig að háskólanum, loksins!
-
Svo fórum við Eyrún í Badminton, Eyrún rústaði mér! Þetta var ótrúlega skemmtilegt og íþróttamiðstöðin var mjög flott.

Segi ég, sit og bordaebab!
Bless í bili
lalli

mánudagur, janúar 23, 2006

psst! hei þú.. pssst!


Elsku Ásgeir Snær, til hamingju með afmælið!
---
Þegar ég fór út í morgun bjóst ég allt eins við því að sjá hunda með frosnar bunur fasta upp við ljósastaura. Þess í stað sá ég risastórann Rottweiler urra og gelta og stökkva að fólki! Sem betur fer var hann í ól og með beisskorb, svona þétt utan um bjarnarkjaftinn svo hann bíti ekki fólk. Það er langt síðan ég hef séð alvöru hund, s.s. ekki hund á stærð við gamla farsíma eða skó, sem ég hef ekki viljað hafa "samskipti" við. En ég færði mig frá þessu óargardýri í morgun.
Aftur að því sem ég nefndi í upphafi frásagnarinnar af óargar-risa-villi-bjarnskepnunni. Ég bjóst við því að sjá hunda með frost bunur vegna þess að í morgun voru ekki nema -16°c og eftirmiðdaginn voru þær -13°c. Oft tölum við Íslendingar um hvernig við klæðum okkur ekki eftir veðri, hérna er þetta alveg eins, fólk hríslast um milli sporvagna húfulaust og íklætt leðurjökkum. Það er ótrúlegt að fólk vilji frekar vera með gel í hárinu heldur en hlýtt! Það mætti meira að segja gera hvort tveggja, vera með húfu og taka gelið með ef fólk er á annað borð að fara eitthvert merkilegt.

Nýr liður á la-rusl:
Getraun dagsins mun ekki koma daglega, heldur bara þegar mér sýnist:
Hei, má maður safna bunum!
Hver sagði þetta?

Lalli

sunnudagur, janúar 22, 2006

rotta!

Ég sagðist ætla að skrifa um pólitík, en ég nenni því ekki, öllu heldur vil ég það ekki, þar sem ég sá auglýsingu í gær sem ég ætla frekar að minnast á.
Þetta var bílaauglýsing sem ég sá þegar ég fletti Mogganum á netinu: Efst stóð risaSmár og fyrir neðan var mynd af rottu! Fyrir neðan hana var svo mynd af Yaris og einhverjar upplýsingar um bílinn. Hver flettir blaðinu, sér svo rottu og hugsar: "hei ég verð að fá mér bíl!"
Bless kex,
Lalli

föstudagur, janúar 20, 2006

Eins og fjöður fjaður penna, orðin ljúf úr huga renna

Ég hugsa leiðinlega mikið um pólitík, stundum stend ég sjálfan mig að því að hugsa: "nei, kommon hættu þessu og hugsaðu um eitthvað annað, auli!" Sjáið hvernig ég er, ég get ekki einu sinni kallað mig eitthvað annað en aula, þegar ég er óánægður með mig. Síðan hugsa ég um að fara í Óperuna á morgun, en fyrst verð ég að lesa svolítið í Öxin og jörðin (til að kynna mér pólitík siðaskiptanna) og læra þýsku svo ég komist inn Politikalwissencraft í UniWien. Á kvöldin svekki ég mig svo með því að ég veit ekkert hvað ég á að gera við þessa "vitneskju" sem er ekkert merkileg því hún stendur hvort sem er allstaðar.
Ég segi sárasjaldin "fokkin" eða tala við einhvern um hressilegu tónlistina sem ég var að heyra í fyrsta skipti. Einna helst væri að ég talaði um bækur en þá oftar en ekki bækur sem sá sem ég tala við hefur ekki lesið og því varla hægt að halda áfram með þá langloku...

Kanski verð ég svo ótrúlega hress og kátur þegar ég verð stór, en ég þarf að snú einhverju við í hausnum á mér þangað til svo ég skapi eitthvað. Helvítis stöðnunarstöðuleikastandlegkeit!

Ahhhah nú veit ég..
bless
Lárus Heiðar Ásgeirsson
(p.s. næst skrifa ég um pólitík, ég "fokkin" lofa)

þriðjudagur, janúar 17, 2006

valhoppaðu inn í víðihlíð...

Við eina af fyrstu athöfnum Mozart ársins 2006 mun Condoleezza Rice spila á píanó (pínano) ásamt Wolfgang Schüssel Bundenskanzlar. Gæti þetta ekki hljómað eins og eitthvert bull sem ég segi? Ælti það ekki, en svo er nú ekki. Þann 28. janúar munu þau spila saman í Salzburg. Spurning hvort það sé hægt að fá fleiri bandarríska, nú eða bara aðra ónothæfa, stjórnmálamenn til að snúa sér að tónlistinni. Þó svo að Schüssel megi alveg koma aftur til Vínar. Þeir sem vilja, endilega kommenta og leggja til stjórnmálamann og tónlistargrein.

Lalli

mánudagur, janúar 16, 2006

Bærinn minn, bærinn minn og þinn


Mér finnst skemmtilegt að horfa á bæinn minn úr fjarlægð núna. Þegar maður er orðinn vanur einhverjum ákveðnum rythma í lífinu og vanur umhverfinu, þá þarf oft nýja stöðu og sjónarhorn. Í það minnsta þegar allt sem maður gerir er gert í þeim tilgangi að þroska sjálfan sig. Um jólin tókum við Eyrún eftir því hvað Akureyri er lítil og þægileg. Stundum þegar maður er þar virðist bærinn ekkert minni en aðrar borgir. Svo áttaði ég mig t.d. á því um daginn að þegar maður býr á Akureyri og fylgist með þá veit maður oftast um allt sem er á dagskránni. Hvaða listaviðburðir eru á dagskrá, á móti hverjum hver keppir í íþróttum og svo framvegis. Hérna er ekki möguleiki að fylgjast með þessu, það er svo margt hægt að sjá. Þetta finnst mér samt þægilegt við Akureyri, en um leið þvingandi, maður veit afþví ef maður missir af einhverju.
Annað sem maður tekur eftir úr fjarlægð. Það eru skrítnir hlutir, eins og þörfin fyrir því að grafa sýki inn á göngugötuna þegar að ekki er hugsað nægilega vel um eldri borgara og leiksskólabörn. Undarlegt almenningssamgöngukerfi sem virðist fara útum allt en samt svo hægt að enginn notar það, líkast til er það sniðið að þörfum of fárra. Svo er fólk líka meðvitað um samborgara sína og tekur hiklaust eftir breytingum sem verða á þeim. Stundum hefur mér þótt þetta vera leiðinlegt, líklegast vegna þess að ég horfði um og of á þann þátt sem snýr að því hvernig fólk breytir sér og reynir að falla að ákveðnum hópi. En þrátt fyrir það þá má líka líta á þetta sem öryggisnet samfélagsins, pínulítið súrt en samt... Ef einhver er andfélagslegur, þá taka allir eftir því, kanski skiptir það engu máli en svo gæti líka eitthvað verið að, þá eru líkur á því að hjálp berist.

Nóg komið af rausi, mikið bulla ég mikið...
Lárus Geimapi

laugardagur, janúar 14, 2006

Glæpur mannkyns

Eftir að ég las Hugsjónareld, bókina um Einar Olgeirsson sem kom út fyrir jólin hef ég verið að velta fyrir mér stöðu Jafnaðarmennskunnar í dag og þeirra mála sem ef til vill tilheyra gömlum baráttumálum, sem engu að síður eru grunnurinn að hugsjóninni um jöfnuð. Þetta eru bara pælingar, ekki úthugsaðar en þær geta vonandi hjálpað við að brýna hugann í upphafi árs.

Það oft erfitt í dag að átta sig á því hvernig baráttan sem fór fram á síðustu öld fyrir bættum kjörum fólks hefur skilað sér og hver staðan sé í raun og veru. Einhvern tíman las ég að það snjallasta sem fjármagnseigendur fundu upp var að hækka laun almennings og gefa eftir á vissum sviðum. M.ö.o. láta okkur halda að takmarkinu væri náð, láta okkur líða vel og fá fjárhagslegt öryggi. Hver vinnur ekki betur þegar hann telur sig hluta af þeim sem fær ríflega til baka og e.t.v. ráða einhverju niðurstöðu mála? Ætli ágætis dæmi sé ekki að gefa þurfandi eða þyrstum nóg fyrir þá, en sitja svo sjálfur að afganginum. Græðgi.
Mér finnst stundum eins og við gleymum því að baráttu er ekki lokið, fátækt er til staðar meðan að annað fólk sem fær milljónir á mánuði í laun og getur fengið tugi og jafnvel hundruð milljóna við starfslok. Stundum verða heilu samfélögin að taka á sig misgjörðir nokkurra einstaklinga eða ákveðinna hópa. Í svona tilfellum er það ekki þannig, fólki ofbýður en samt gerist ekkert. Ríkisstjórnin stofnar nefndir til þess að taka á málum, það er eins og þeir hafi aldrei séð neitt fyrir og taki aðeins bara á því sem upp kemur með því að raða hæfu fólki í nefndir. Hvernig væri að hafa þær alltaf starfandi og vera þá viðbúin og setja reglur um þessa hluti? Núna er ég meira að segja komin út fyrir efnið mitt. Sem átti að leiða að glæp mannkyns eins og Einar Olgeirsson orðaði það: Fátækt.
Afhverju látum við það líðast að fólk svelti til dauða þegar til er nóg fyrir alla? Eðlilegt væri að spurningin: Afhverju líðum við að mannréttindi fólk breytist þegar farið er á milli landa? Ég ætla ekki að fara út í skrif um menningu og hvort hún sé afstæð gagnvart sjálfsögðum mannréttindum, en í stað þess að munnhöggvast um réttindi er þá ef til vill ekki betra að byrja neðan frá. Matur veitir orku og orka gefur af sér afl til að takast á við hlutina. Til að takast á við þá þarf oftar en ekki menntun, menntun gefur okkur stundum hugmyndir og hugmyndir breyta svo einstaklingum og jafnvel samfélögum.

Afhverju hefur ekki meira breyst frá þeim tímum hippakynslóðarinnar? Hvort erum að við sem núna gætum mótmælt, en þau sem hefðu átt að halda áfram sem ætti að benda á? Eru það ef til vill báðir hópar? Sósíalisminn og það sem við stöndum fyrir í dag Jafnaðarmennskan á enn langt í land.

Hugsið vel um ykkur,
Lalli

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Fyrir ofan arð og neðan

Ísland logaði í illdeilum yfir hátíðarnar, allt ætlaði í háaloft og menn rifust og skömmuðust, í það minnsta í hausnum mínum. Ég kom mér í skemmtilegt stjórnmálalega þenkjandi stuð og það voru íslenskir auðmenn (FL group) og Einar Olgeirsson sem komu mér í það, ásamt álsölunum og rafmangssugunum sem héldu umhverfisverndartónleika í Höllinni.
En ég ætla að leyfa þeim pælingum mínum að bíða annarra tíma.
--
Ég sótti um í síðasta þýskunámskeiðinu sem ég þarf að taka áður en ég fer í háskóla í dag og borga það á morgun, því líkur léttir! ég er hress með það:)

Lalli kominn til Vínar