sunnudagur, maí 28, 2006

100%

Í nótt vakti ég til klukkan 05 og starði á tölvuskjáinn, undarlegt þar sem ég vissi ósköp vel að ekkert myndi breytast en mér fannst samt betra að fara að sofa þegar ég væri orðinn alveg viss. Ég býst fastlega við því að í kjölfar þessara kosninga hitni örlítið í pólitíkinni heima, menn sjá hvað sjá núna hvar tækifæri sín liggja fyrir næsta vor og hvar þeir eru veikastir fyrir. Auðvitað sjá menn þetta þá líka hjá hinum og geta þá eitthvað byrjað að undirbúa sig. Alltaf skemmtilegt að sjá og heyra formenn flokkanna ræða svona mál rétt að loknum kosningum, allir vinna auðvitað og geta bent á hina og sagt að þeir hafi tapað. Svo þegar tveir til þrír eru búnir að því þá tekur næsti við og ætlar nú ekki að vera segja hinum hvernig þeir stóðu sig, "minn flokkur var fínn" o.s.frv. Það síðasta sem ég sá áður en ég lagði mig voru tölur yfir allt land þar sem fylgi flokkana var sett í landsmeðaltal og spáð hvernig þetta væri nú allt. Í þær tölur var ekki hægt að lesa neitt öðruvísi en það sem nýjustu skoðana kannanir segja. Íhaldið stendur í tæpum 40%, X-S í tæpum 30% VG í tæpum 15%, exbé og frjálslyndir undir 10. (allt sirka, því annarst eru þetta 105%) Og löngu látið fólk kýs ekki ennþá á Íslandi. Spurning hvernig næstu skoðana kannanir mæla svo landslagið. Ég er bjartsýnn og held að Samfylkingin eigi nokkuð inni.

Hanna og krakkarnir koma á morgun! Jibbí, það verður svo gaman að fá þau í heimsókn ég er alveg viss um að þau eiga öll eftir að vera ánægð hjá okkur og hafa það gott. Annarrs er hugur Akureyringa hjá áhöfn Akureyrinnar og fjölskyldum, líkast til ein af þeim erfiðustu raunum sem hægt er að leggja á menn og þeir eru hetjur.

lalli

fimmtudagur, maí 25, 2006

supernörd

Það er líklegast satt hjá Ella um daginn að hérna þýðir ekkert fyrir mig að predika um illsku Íhaldsins. Þar sem lesendur mínir eru fullkomlega færir um að átta sig á henni. Ef til vill vegna þess að ég skrifa sjaldnast um annað. Stundum eru bloggin mín ok og hressandi, en aldrei eins og þeir sem blogga best, segja eitthvað fyndið og frumlegt og búa til skemmtilega lista og eru svakalega kúl. Ég veit að ég er ekki svakalega kúl svo ég reyni ekki að vera það á netinu. Stundum reyni ég að vera kúl fyrir Eyrúnu, en það endar oftast í nördisma, þar sem ég sýni henni annað hvort nýtt trix sem ég var að búa til (sem er bara eitthvað bull) eða dansa eins og kjáni við hressandi tónlist. Þegar ég hugsa um það þá minni ég líklegast á karldúfu í tilhuga dansi, fátt hallærislegra. Ég hugsa að dúfur séu þau dýr sem verst fara útúr velmengunar sjúkdómum okkar tíma. Enda þurfa þær ekkert að hreyfa sig og lifa á McDonalds afgöngum og lifa í skítugum miðbæjum. En ég er samt ekki svoleiðis, enda á ég hjól og elda hollan mat á kvöldin.
Lifið heil, og hvað sem þið gerið ekki setja x-við D! Ég mæli sjálfur með S-i
Lárus(l)

miðvikudagur, maí 24, 2006

bleikar sauðagærur

Það er rosalega mikilvægt að maður trúi því að maður geti gert hlutina sem maður ætlar sér. Það er einnig rosalega mikilvægt að maður geri eitthvað í því sem kemur manni á þann stað að hlutirnir séu framkvæmanlegir. Þess á milli er mikilvægt að slappa af. Því næst hugsa um hlutina. Þá kanski skilur maður þá nógu vel til þess að geta framkvæmt hugmyndina.
-
Ég held að Sjálfstæðismenn hafi hlerað símann hjá veðurstofunni og frétt af þessu kuldakasti sem átti að koma rétt fyrir kosningar og þessvegna skellt sér í bleika sauðagæru, svona til að verjast hretinu.
Undarlegt samt hvað þeim virðist þykja eðlilegt að hlera síma hjá fólki sem var með ólíkar skoðanir. Setja það fram eins og það séu rök fyrir pólitískum njósnum að viðkomandi aðilar hafi verið á móti NATO. Það er nú bara ekkert eðlilegra en það í lýðræði að einhverjir séu með aðrar skoðanir, en ekki þykir Íhaldinu það, best að njósana bara um þá. En það eru einmitt svona gaurar sem klæðast bleiklitaðri sauðagæru þessa dagana 0g þeir fara úr henni um leið og kjörstöðum lokar.

lalli

sunnudagur, maí 21, 2006

pólitík

Er það ekki skrítið hvað Sjálfstæðisflokkurinn er með mikið fylgi í skoðanakönnunum út um allt land? Finnst ykkur það ekki vera undarlegt? - Flokkur sem að setur það fram í stefnuskrám sínum að ekkert sé eðlilegra en að einkavæða skóla, leikskóla, elliheimili, sjúkrahús, ungliðarnir þeirra setja það fram að ekkert sé eðlilegra að sveitarfélögin komi ekki að menningarstarfsemi. Samt tala þeir ekki svona, þeir ræða mest um að hugsa þurfi um gamla fólkið og leikskólabörn, en svo eigi að losa foreldra þeirra undan "skattpíníngu". Hvernig á að hugsa um aldraða og skólafólk ef að við leggjum ekki öll saman í púkk til að reka þær stofnanir sem að eru til þess gerðar? - Þetta er auðvitað ekkert nema hræsni að halda því fram að lausnin á vandamálunum sé "frelsi" til að borga sjálfur fyrir þessi grunnþjónustu! Lausnin felst í því að við hjálpumst að og hugsum um náungann og þar með okkur sjálf. Orðið samfélag felur það nú einu sinni í sér að við erum saman í félagi, sem við viljum gera sem best fyrir alla. Flokkar sem að vilja ekkert frekar en að einkavæða grunnþjónustuna okkar eru ekki að því til að bæta lífið fyrir alla, heldur gefa fáum tækifæri til þess að frá forskot í kapphlaupi þar sem allir eiga að eiga sama rétt.
-
Annarrs fórum við í Tívolí í gær, það var afbragð!

Kveðja Lalli

föstudagur, maí 19, 2006

bara fyrir lúða

Í gærkvöldi komu saman í Vínarborg ungir Íslendingar, sem gátu vart beðið eftir að sjá íslenskt spaug sent frá Aþenu í gengum tyrkneska sjónvarpstöð. Allir vita hvernig sjóferðin endaði, frumlegasta skipinu var sökkt af pú-skotum skilninglausra Evrópubúa.
Mér skildist að Silvía Nótt hafi sagt í viðtali eftir keppnina að keppnin væri bara fyrir lúða og þess vegna ættu íslendingar ekki að taka þátt. - Það er nú alveg ýmislegt til í þessu. Reykjavík á víst að vera ein svalasta borg í heimi og ég las það meira að segja síðast í dag í viðtali Der Standard við Hallgrím Helgason og fleiri, að Reykjavík og Ísland væri töff (tremma í hel?). Kanski er það bara málið, við eru töff og misskilin. Eyrún var svo að lesa áðan viðbrögð Íslendinga við þessum heimsögulega atburði, þar komu svör eins og: "Hún sýndi keppninni óvirðingu" og "hverskonar landkynning er þetta eiginlega?" - Hei, þetta er Júróvísjón og það þarf nú varla að sýna söngvakeppninni virðingu og þó að einhverjir hafi misskilið brandarann, þá þurfum við ekkert að skammast okkar. Svo er að mínu mati skárri landkynning að senda grínista, leikara, lífvörð og Siggu Beinteins út í heim að skemmta sér og okkur, heldur en að senda bimbó sem kemur fram á nærfötunum og talar endalaust um hvað allt í heiminum sé frábært.
Við erum bara misskilin og afrekin okkar eru ekki virt af verðleikum hjá frændþjóðum okkar á meginlandinu. Sama hvað við reynum að kaupa mörg misheppnuð fyrirtæki hjá þeim og gera þau góð, sama hvað við sendum góða tónlistarmenn að spila fyrir þá, þá eru þeir bara púaðir niður og gert grín að fötunum þeirra og sama hvað við reynum í alla staði að vera hress, þrátt fyrir að vera öll bullandi þunglynd 9 dimma mánuði á ári. Þá vilja þeir bara ekkert með okkur hafa og tala oftast bara um Víkinga þegar þeir hitta okkur.
Við erum bara öðruvísi lúðar, íslenskir lúðar. Með auðsæranlegt sveitastolt og okkar hrútar og hryssur eru alltaf flottust.

íslárus

þriðjudagur, maí 16, 2006

hér er næs, ógeðslega næs

Laugardagurinn síðast var ljúfur, sem geit. Við vöknuðum snemma og fórum ásamt öðrum Íslendingum í rútuferð á hestabúgarðinn Stefanshof (var það ekki?). Þar sem ungir og gamlir fengu að stíga létt á bak á nokkrum af þeim 70 íslensku hestum sem þar eru. Við gengum svo upp á hól þar rétt hjá þar sem mannvistarleyfar frá því á steinöld hafa fundist. Á hólum var fallegt útsýni og nokkrir virtust vera í húsbyggingarhug, það má alltaf bóka að Íslendingar sjái framkvæmdatækifæri þar sem þeir stoppa. Um hádegisbilið fengum við okkur bita og dreyptum á víni beint frá vínbónda í nágreninu. Vínið var hreinasta afbragð, við Eyrún keyptum eina flösku til að eiga á einhverjum góðum degi bráðum. Þegar við komum í bæinn settumst við unga liðið á pöbb og fengum okkur eina kollu áður en við héldum í Karokie - sem var ótrúlega hressandi hreint. Að loknu þessu löbbuðum við Eyrún heim, enda vorum við búin að fá okkur meira en fjögur rauðvínsglös og því ekki í standi til að keyra, og að auki eigum við ekki bíl.
-
Það er í það minnsta ein áhrif sem að hrakfarir Eyþórs gætu haft á aðra en Sjálfstæðismenn í Árborg, núna er hægt að fara á fullt skrið með herferð gegn ölvunarakstri. - Það er fyrir augum okkar dæmi um það hvernig er hægt að klúðra málunum með svoleiðis asnaskap, en þetta dæmi er lítilvægt vegna þess að enginn slasaðist eða lést. Hefur einhver labbað skakkt þegar hann hefur fengið sér örlítið of mikið í vinstri tánna? Flestir sem lesa bloggið mitt eru líklegir til þess, ásamt mér. Treystir einhvert ykkar ykkur til þess að keyra bíl á 50-100 km/hraða í því ástandi? Þetta er með því heimskulegasta sem fólk getur gert. - Svo við tölum nú ekki um mann sem er 10 dögum frá því að verða bæjarstjóri í örtstækkandi bæ, síðasta könnun sagði að Íhaldið hefði 51% þar. Úbbs.
-
Ég er bara búinn að fylgjast með þessu á netmiðlunum og sjá Kastljós viðtalið, þeir eru ekkert mikið að þjarma að honum. Enda kanski ekki ástæða til, atvikið dæmir sig og ökumanninn sjálft. Þetta veltir upp mörgum spurningum, t.d. hvort kjörnir fulltrúar eiga að vera "fullkomnir", eða hvort strangari reglur þurfi fyrir þá. Þegar við veljum okkur fólk í störf á vegum okkar, hversu mikils megum getum við ætlast til af þeim. - Fyrir og svo eftir kosningar. Er bæjarfulltrúi, bara fulltrúi bæjarins á meðan að hann er á fundi?
En annarrs þykja mér íslenskir fjölmiðlar vera ósköp ljúfir eitthvað undanfarið. Það vantar alltaf að þeir spyrji spurninganna sem að gætu komið einhverju af stað, opnað á eitthvað nýtt. Þeir taka allt of oft svörum viðmælandann sem sjálfsögðum hlut. - Vantar alltaf, en sorry, þetta meikar bara ekki sens hjá þér! (Svona fyrir utan DV, sem að spyrja líklega sjaldnast spurninga, bara skjóta)
-

Við keyptum hjól í dag og það meikar alveg sens fyrir mér!
Lalli

fimmtudagur, maí 11, 2006

surlaw eht ma i

Las það áðan að núna væri það fólk sem ákveður hvað það les og hvað það telur fréttnæmt en ekki ritstjórnir fjölmiðlanna, vegna þess að maður sækir þær fréttir sem maður vill lesa á netinu. Jú, auðvitað les maður ekki það sem maður hefur ekki áhuga á að lesa, en það hefur fólk alltaf gert. Núna eyðir maður meiri tíma í að athuga hvort vinir og kunningjar skrifi eitthvað sniðugt, en sjaldnast er það fréttnæmt, merkilegt eða þessháttar. Það sem helst hefur breyst er að núna les maður fréttirnar styttri og í copy/paste-stíl og oftar en ekki virðast þær eftir óreyndari eða "lélegri" blaðamenn, að minnsta kosti er á hverjum degi hægt að sjá fréttir sem eru með heimskulegum villum. Eins og að setja sama textann tvisvar inn eða svoleiðis, það myndi enginn maður skrifa svoleiðis. Ekki það að þetta trufli mig eitthvað mikið, núna les ég bara í staðinn, Fréttablaðið og Moggann og mbl.is, visi.is, ruv.is, diepresse.com. Svo að ég les sömu fréttina frá Reuters á sex mismunandi stöðum og á bæði þýsku og íslensku, ég bæti svo við enskum news.bbc.co.uk og globo.com.br ef ég er í stuði.
Hvernig væri að ég færi að skoða eitthvað annað á netinu, annars enda ég eins og hver? Tja ég veit það ekki ég þekki engan annan sem geri þetta...

annars fór ég í klippingu í gær.
lalli

mánudagur, maí 08, 2006

ég skokkaði á vegg

lausnin við gátunni sem enginn tók þátt í: Love street með The Doors - Undirtektirnar voru mjög litlar, í bæði skiptin commentaði enginn á færsluna, en þess má geta að þessi leikur var endurtekinn því enginn nennti að taka þátt í honum.
-I see you live on Love Street, there's a store where the creatures meet. I wonder what they do in there, summer sunday and a year. I guess I like it fine so far.

Ég skokkaði reyndar ekki á vegg, nema þá vegg lífsins sem umlykur alheiminn og stjórnar honum í brjáluðum dansi. En á skokk ferð minni hugsaði ég mikið um deyfð yfir miðbæ Akureyrar og lausn vandans.

Miðbær - duga gömlu skórnir hans Ronaldinho?
Stundum þá getur nýtt sjónarhorn hjálpað manni að skilja umhverfi sitt betur. Þegar ég fór í morgunskokkið mitt í Vínarborg í dag voru skipulagsmál á Akureyri mér ofarlega í huga. Sumum þykir það eflaust undarlegt, að ekkert meira spennandi hafi skotið upp í kollinum á ungu manni, en ég er nú einfaldlega bara þannig gerður. Ég hljóp af stað, beygði til vinstri og hljóp framhjá leikvelli, hönnuðum með þarfir barna og foreldra í huga, flottum leiktækjum og góðu skjóli og bekkjum svo að foreldrarnir geti lesið blaðið meðan börnin leika sér. Þegar ég hélt leið minni áfram tók ég eftir því að á húsunum voru nánast aldrei svalir, en á öllum neðstu hæðunum voru verslanir eða kaffihús. Svona hélt þetta áfram alla leiðina niður að stofnbraut sem liggur hringinn í kringum miðborg Vínar. Ég herti hlaupið til þess að ná grænakallinum, þegar yfir götuna var komið hljóp ég í hringi í öðrum garði, þessi er frægari og stendur fyrir framan ráðhús Vínar, fallega byggingu í Gothneskum stíl. Þar sat fólk og las, hópar skólabarna skoðuðu styttur af skáldum ljóða og tóna og menn byggðu svið fyrir sumarhátíð. Á þessu torgi stóð ég ásamt 120.000 öðrum jafnaðarmönnum að morgni 1.maí í fjölmennustu samkomu sem ég man til þess að hafa tekið þátt í. En ég var ekki í leiðangri til að frelsa heiminn núna, heldur hressa mig við. Eftir að hafa hlaupið milli styttna og blómabeða í dágóða stund var tími til þess að halda heim á leið. Önnur leið varð fyrir valinu og ég skokkaði áfram og þegar frá garðparadísinni var komið litu húsin alveg eins út og áður. Stórar blokkir, sem héldu áfram svo langt sem augað eygði, og allstaðar það sama, íbúðir án garða og verslanir. Þó svo að ég þekki aðrar borgir Evrópu ekki jafn vel og Vín, þá þykir mér líklegra en ekki að þær séu í svipuðum stíl. Þessi stíll er einmitt að sem heillar okkur smábæjar fólkið, við sjáum þetta í hyllingum og hugsum okkur að það yrði nú yndislegt að setja niður svona torg hjá okkur, nú eða sýki. En hvernig er þetta öðruvísi? Eins og ég tók eftir ná blokkirnar niður heilu göturnar, byggð á þeim tíma þegar aðeins þeir ríku gátu leyft sér að bæta við svölum og garðar voru eitthvað sem aðalsmenn leyfðu sér. Í seinni tíð hafa byggðirnar svo þróast út frá borgunum og í nýrri hverfi sem oftar en ekki svipar til okkar íslensku bæja. Afhverju ætti þá lausin á deyfð yfir miðbæjarlífi í íslenskum smábæ að vera að búa til hluta af því umhverfi sem gerir miðborgirnar svona heillandi? Ættum við að “feika” borgarstemmingu í smábænum okkar? Skoðum þetta frá örðu sjónarhorni. Ef að foreldrar þráðu ekkert heitar en sonur þeirra yrði heimsklassa fótboltamaður, sem hann væri þó ekki, myndi það breyta honum ef þau fjárfestu í gömlu skónum hans Ronaldinho? Nei, líklegast ekki því hina hlutina vantar. Það er ekki alltaf hægt að kaupa allt, menning er byggð á tilfinningu og því sem fyrir er. Ef að við setjum niður sýki í miðbæ Akureyrar og segjum að það eigi að vera í stíl við Ný Höfn í Köben, breytum við þá einhverju? En hver er þá lausnin á deyfð í miðbæ Akureyar? Fyrir mér er það nokkuð augljóst, við þurfum fólk en ekki fiska. Háskólagarðar eða svipaðar byggingar á Akureyarvelli myndu e.t.v. skila miklu, með fram því að hressa aðeins upp á miðbæinn. Svo myndi það líklegast ekki kosta Akureyarbæ 350 milljónir og íslenska ríkið 500? Og þeim gífurlegu fjármunum gæti verið varið á betri hátt, þjónustu við aldraða, skólamál og alla hina málaflokkana sem eiga ganga fyrir.


-
kanski að ég reyni að koma þessu á víðlestnari stað en þennan hér

lalli

föstudagur, maí 05, 2006

there is this store...,...

Jæja, er einhver þarna sem getur eitthvað í leiknum sem engu máli skiptir og öllum er sama um? Að þessu sinni, eins og reyndar alltaf áður er keppt um ekki neitt.
Botnið titilinn: there is this store...,...

Við Eyrún vorum að koma af reiðhjólauppboði, en þar voru engin fín hjól, bara skrítinir karlar að kaupa notaða gamla og ljóta gsm síma - bless
Lalli

fimmtudagur, maí 04, 2006

alltaf eins

Las það í dag að kvennréttinda félög á Íslandi væru að mótmæla vændi í þýskalandi, sem n.b. mun aukast á meðan HM er í sumar. Einhverjum körlum þótti þetta óþarfa hnýsni og undruðust að konurnar hefðu ekki setta þetta fram fyrr, en hvernær er betri tími en þegar augu heimsis beinast til Þýskalands. Eggerti Magnússyni þótti líka ömurlegt að fá ráðleggingar frá Kirkjunni sem hann sagði að ætti fyrst að líta í eigin barm. Hérna í Austurríki var um daginn skrípamynd af formanni SPÖ og formanni ÖVP, það er nú ekki frásagnarvert nema vegna þess að þeir voru einmitt báðir með fötur af skít á hausnum og bentu á hvorn annan.
Svo var á mbl.is sagt frá því hvernig Seðlabankinn liti á efnahagsmálin heima á Íslandi. Þar kom Davíð fram og lagði fram tillögur og bað ríkisstjórnina vinsamlegast að gera eitthvað. Einhver skítalykt af því líka. Að maðurinn sem stjórnaði Íslandi í rúman áratug og tók ákvarðanirnar sem leiddu til þessa ástands, standi núna illa lyktandi í öðru húsi og bað menn að moka úr skítabingnum sem hann skildi eftir sig.
Að lokum, Þorsteinn Gylfason skrifaði grein í Fréttablaðið þar sem hann gaf það í skyn að ráðning Davíðs í stöðu Seðlabankastjóra, hefði ekki einu sinni gengið í gegn í spiltustu Afríkuríkjum. Reyndar fannst mér eins og ég hafi áður lesið svipaða grein eftir hann, eins og einhverjir hafa líkast til lesið svipað blogg eftir mig.
--
friður,
lalli

mánudagur, maí 01, 2006

120.000 manna útifundur!

Þessi langa helgi er búin að vera dásamleg hjá okkur í Kupkagasse, við höfum farið í göngutúra í rigningu en annarrs höfum við verið heima og tekið því rólega, eldað góðan mat og horft á dvd. Á milli þessara ánægjustunda hefur Eyrún farið á kostum í vefsíðugerð og ég hef tjáð gremju mína varðandi 1.maí á Akureyri.
Ég vaknaði klukkan 08 í morun og heyrði strax í trumbluslætti inn um gluggan, svo ég bjóst við mannfjölda fyrir utan dyrnar mínar. En svo var nú ekki, ég missti greinilega af kröfugöngunni, enda vissi ég ekki af henni og gat því ekki mætt í hana. Ég gekk svo rösklega að ráðhúsinu í Vín og beið Jafnaðarmannanna, sem brátt komu í tugþúsundatali úr öllum áttum og af öllum stéttum. Skreittir fánum og kröfuspjöldum auk fjölda lúðrasveita og trommara. Þáttakendur í göngunni skiptu sér upp í fylkingar(félag járniðnaðarmanna sér, socialnemar osfrv.) og gengu þannig saman í hópum framhjá ræðupallinum þar sem kröfur þeirra voru lestnar upp. Undirlokin fluttu svo borgarstjórinn og formaður SPÖ ávörp. Þegar kröfugangan var búin var sólin farin að skína í Vín og fólk fór á "Rauða markaðinn" sem komið hafði verið upp hjá Burgtheater.

Eyrún var núna komin til mín og við fórum í aukakröfugöngu áleiðinni heim og hlýjuðum okkur svo með góðu kaffi í kotinu okkar.

Hoch 1.mai!
lalli

Alþjóðasöngur Verkalýðsins

Fram, þjáðir menn í þúsund löndum,
sem þekkið skortsins glímutök!
Nú bárur frelsis brotna á ströndum,
boða kúgun ragnarök.
Fúnar stoðir burtu vér brjótum!
Bræður! Fylkjum liði í dag -
Vér bárum fjötra en brátt nú hljótum
að byggja réttlátt þjóðfélag.
þó að framtíð sé falin,
grípum geirinn í hönd,
því Internationalinn
mun tengja strönd við strönd

Á hæðum vér ei finnum frelsi,
hjá furstum eða goðaþjóð;
nei, sameinaðir sundrum helsi
og sigrum, því ei skortir móð.
Alls hins stolna aftur vér krefjumst,
ánauð þolir hugur vor trautt,
og sjálfir brátt vér handa hefjumst
og hömrum meðan járn er rautt
þó að framtíð sé falin o.s.frv.


Vér erum lagabrögðum beittir
og byrðar vorar þyngdar meir,
en auðmenn ganga gulli skreyttir
og góssi saman raka þeir.
Nú er tími til dirfsku og dáða.
Vér dugum, - þiggjum ekki af náð,
Látum bræður því réttlætið ráða,
svo ríkislög vor verði skráð.
þó að framtíð sé falin o.s.frv.

Höf.: Eugén Pottier
Þýðing Sveinbjörn Sigurjónsson