laugardagur, desember 30, 2006

Ár


Á þessu ári trúlofaði ég mig, við Eyrún fluttum í fallega íbúð og ég byrjaði á fullu í háskólanum í Vínarborg, fyrir mína parta þá er þetta ár gott ár og ég varð að betri gaur á þessum 12 mánuðum. Vonandi verður árið 2007 jafn gott fyrir mig, en um fram allt vona ég að það verði betra fyrir heiminn, fyrir jafnrétti og frið í honum. Árið 2006 endar engu að síður ekki á þann hátt að við getum vonað það. Síðast liðna nótt var Saddam Hussein myrtur, þeir sem að myrtu þann auma einræðisherra gerðu það í nafni frelsis og réttlætis. Morð kalla venjulega ekki á frið og sættir, hví ætti þetta morð að gera það? Hlýnum heimsins er vandamál sem við vitum öll af, en samt er bara rætt um það, en ekkert gert, hvergi nokkursstaðar.
Í síðustu Gallup könnum ársins er Sjálfstæðisflokkurinn með 38% en Samfylkingin aðeins með 24%, þetta þýðir auðvitað aðeins að allir þeir sem vilja sjá réttlátt samfélag þurfa að bretta upp ermarnar og hætta að rífast í öllum hornum og nota kraftana til þess að hlúa að öllum í samfélaginu. Þegar púðri, peningum og kröftum er eitt í að drepa 9 óæta hvali en 5000 börn eru fátæk þá þarf að skipta um stjórn. Við þurfum að taka höndum saman. Hætta að skemma fyrir hvoru örðu og breyta samfélaginu okkar.

Ég ætla að gera mitt til að og ég vona að þið gerið ykkar.

Sameinuð stöndum vér sundru föllum vér,
hjartans óskir um gleði- og friðarár.

Lalli

laugardagur, desember 23, 2006

Jólin koma..

Ég rétt svo lauk við að skrifa jólapistilinn minn, ýtt svo á publish og þá sagðist Internet Explorer ekki vilja framkvæma þá skipun, u.þ.b. 5 mínútum áður hafði ég brennt jólagrautinn, þegar ég reyndi að sjóða vatn og kveikti á vitlausri hellu. Við þessum vandamálum eru til lausnir, annarrs vegar henda grautnum og sjóða ný grjón fyrir Ris a la Mand og hins vegar ná í Mozilla Firefox, ég hef nú þegar gert hvort tveggja. Jólin koma þrátt fyrir þetta og ekkert stress. Jólastress þekki ég ekki af eigin raun, ferðaþreyta en ekkert stress.
Jólin eru falleg hátíð og við getum hvert og eitt nýtt okkur það sem við kjósum úr boðskap hennar, um fram allt eru jólin afsökun til þess að vera góður við fólkið sitt, hugsa um kærleika og njóta þess að vera til. Við getum hvorki keypt jólin, bakað þau né eldað, jólin eru ekki neitt eitt sem við finn, fáum eða þurfum að leita að. Jólahátíðin kemur okkar, hvort sem við erum gömul eða ung, rík eða fátæk. Þau ykkar sem viljið fá smá skammt af fallegum jólaboðskap gætuð t.d. farið í Hátíðarmessu í Akureyrarkirkju klukkan tvö, ef að presturinn nær ekki að færa ykkur boðskapinn, þá er ég þess fullviss að hún Eyrún mín færir ykkur hann en hún syngur tvo sálma.
Umfram allt njótum þess að hitta vini og vandamenn og knúsa fólk og brosa til þess, segja hátt og snjallt gleðileg jól!

Lalli

fimmtudagur, desember 21, 2006

úr -19 í +12

Ísland tekur aldeilis vel á móti manni, hamfara hláka og rokrassgat. Ég bíst nú samt við því að það sé algjörlega toppur sjálfhverfunnar að halda að því fram að veðrið breytist fyrir mig.
Fréttirnar hérna á Íslandi hafa undanfarið fjallað um veðrið og dónakalla. Það er lítið sem við getum gert í þessu veðri en þessir bölvaðir ógeðslegu siðspiltu "menn" sem að nauðga og misnota stúlkubörnum og konum, það er ýmislegt sem hægt er að gera við þá. En í því nýfrjálshyggju andrúmslofti sem löglærðir Reykvíkingar, sem stjórna landinu okkar, anda að sér virðist ekki vera rými fyrir þau vandamál samfélagsins sem hægt er að stjórna með "frjálsum" viðskiptum. Laga frumvörp, t.d. frá Ágústi Ólafi, um afnám fyrningarfrests komast ekki í gegn, dómstólar og lögregla sleppa mönnum út þrátt fyrir að þeir hafi í tvígang nauðgað fermingarstúlkum. Karlmenn eiga það til að móðgast ef það er sagt að þetta vandamál sé lýti á karlmönnum sem samfélagshóp eins og t.d. Egill Helgason gerði um daginn eftir að Þórunn Valdimarsdóttir benti á þetta.
En næst ætla ég ekki að benda á það sem er ljótt og leiðinlegt, heldur skrifa fallegan jólapistil og svo í lok desember ætla ég að rifja upp árið hérna á ruslinu mínu.

þangað til næst, þá verða jólin alveg að koma...

lalli

fimmtudagur, desember 14, 2006

ég vaknaði í morgun

Ég sýndi ótrúlegan aulahátt í morgun, ég vaknaði klukkan 07:07 og þegar að vekjaraklukkan hringdi klukkan 07:15 þá fór inn á bað burstaði tennurnar, fór svo í sturtu og að því loknu fór ég aftur inn í herbergi þar sem ég hefði átt að fara í fötin mín en hún Eyrún lá í rúminu okkar svo að ég lagðist við hliðina á henni og knúsaði hana og viti menn ég sofnaði svo ég svaf yfir mig þrátt fyrir að hafa vaknað, burstað og sturtað mig! Ég hlýt að vera eitthvað veikur...
----
Sá einhver Kastljósþáttinn þar sem Ingibjörg og Geir H. Haarde mættust? Mikið rosalega þótti mér Hr. Haarde vera aulalegur í honum. Þátturinn var varla byrjaður þegar að hann kvartaði yfir því að Ingibjög hefði gripið fram í, næst þegar að Ingibjörg fékk orðið greip hann sjálfur fram í og Ingibjörg bað hann um að biðja fólk ekki um að grípa ekki fram í ef hann gæti ekki setið á sér sjálfur. Svo svaraði hann umræðunni um fátækt með því að skýrslan væri léleg, en hún kemur einmitt úr hans ráðuneyti (árinni kennir... líklega illur árasmiður í þessu tilfelli) og rökin fyrir flestu sem rætt var um voru leiðréttingar á hinum og þessum mistökum sem að ríkisstjórnin hefur gert og hann bakkaði útúr hvalveiðiumræðunni og sagði hana bara smámál. Svo undirlokin var hann orðinn pirraður og sagði að Ingibjörg hefði talað allann tímann. Hann hefði nú þá barasta átt að tala meira, ekki var það henni að kenna ef henni tókst að færa rök fyrir sínu máli og hann gat engum nema sjálfum sér um kennt ef hann talaði ekki nóg.
---
Við erum búin að pakka í eina tösku, það er hlunkataskan okkar og í henni eru allir pakkarnir svo það er eins gott að hún skili sér, hún er samt svo stór að það væri gríðarlega erfitt að týna henni. Á morgun er föstudagur og klukkan 03.30 á laugardaginn þurfum við að leggja af stað út á flugvöll, við förum alla leið til Akureyrar í einni lotu og verðum lent á Akureyrarflugvelli klukkan 18:15.
--
Það verður ljómandi gott að komast heim, það verður gaman að hitta fólk, borða mat, labba í snjó, vera kalt á tánum, fara í fjallið, hanga og byrja svo aftur að læra á fullu því prófin eru eftir.
-
Ég vildi að ég væri duglegri við að skrifa um allt sem ég hugsa, kanski verður það áramótaheit, ásamt því að hreyfa mig meira og almennt að vinna í tilgangi lífsins: verða betri maður.

Vesist blesa og sjáumst fljótt,
Lalli

mánudagur, desember 11, 2006

jólaköttur


Ég held að jólakötturinn sé stórlega misskilin skepna, hann var gríðarstór og átti hvergi heima, hann var illa hyrtur og með ljót augu, svo vildi hann ekki mýs og mjálmaði aumlega og var þessvegna talinn skrítinn eins og oft vill með þá sem eru örðruvísi en hinir. En hann vildi vel þessvegna lagðist hann á fátæka fólkið sem fékk enga nýja spjör, hann lagðist á þau og reyndi að hlýja þeim! Svo kvæsti hún á þá sem að fengu föt og hvarf svo á braut, e.t.v. var hún bara að hrópa húrra á kattamáli. Við hinum ættum að taka köttinn okkur til fyrirmyndar og passa upp á það að öll börn fái nýja flík, það eru um 5000 börn á Íslandi sem lifa undir fátækrarmörkum
-
Síðasta bloggfærsla var óvenjuleg, enda nenni ég ekki alltaf að segja frá því sem að ég geri hérna í Vínarborg, en hún sýndi e.t.v. að stundum geri ég eitthvað annað en læra, blogga og hugsa um stjórnmál og vandamál.

næst verð ég samt að skrifa um stjórnmál, ef ekki, þá fer ég að hafa áhyggjur af mér.
lalli

sunnudagur, desember 10, 2006

TransAktionsNummern

Það var frí á föstudaginn í skólum og allstaðar nema í búðum, Maria Empfängnis hét þessi hátíðardagur Kaþólskra, en satt best að segja veit ég ekki 100% tilganginn með honum, eitthvað með erfðasynd heimsins og að María hafi fæðst án hennar, held ég en, æj ég ætla ekki að ljúga að ykkur, þetta var í það minnsta kærkomið frí. Ég var í tíma í skólanum til klukkan 20 á fimmtudagskvöldið og þegar ég kom heim voru Eyrún og Kristín farnar í partý í listaskólanum, svo að ég tók því rólega fékk mér rauðvínsglas og hékk á netinu, eins og ég geri ekki nóg af því. Seinna um kvöldið hitti ég Jón á ágætri Ölstofu og við röbbuðum um heima og geima.
Helgin fór svo í að rúnta um jólamarkaði og í búðir að leita uppi síðustu pakkana, sem fundust að lokum.
-
ljómandi fínt alveg hreint, pís át.. blogga meira og betur síðar..
lalli

fimmtudagur, desember 07, 2006

Nýtt útlit og nýjir tímar

Það var kominn tími á að gera þetta blogg mitt fallegra, var það ekki? Mér fannst það í það minnsta svo ég breytti því og núna þykir mér það fínt. Efnistökin verða ennþá þau sömu, allt það sem hrærist inn í hausnum mínum og mér tekst að koma frá mér, svona næstum skiljanlega.
Bloggmenningin á Íslandi hefur tekið gríðarlegan kipp frá því að mbl.is bauð upp á blogg í tengslum við fréttirnar hjá sér og margir eiga þar mjög góðar síður og loksins virðist umræðan um þjóðmál geta farið fram á vefnum án þess að Egill Helga eða Össur þurfi að skrifa um eitthvað.
Ekki ætla ég að hengja mig aftan í Moggann til þess að ég komi mínum hugmyndum á framfæri, nei bandarísk stórfyrirtæki skal það vera!
--
Ingibjörg Sólrún benti á flís í auga Samfylkingarinnar í ræðu um helgina, auk þess sem að hún sýndi og sannaði að öflugasta stjórnmálastarf landsins fer fram í flokknum. Starfsmenn Timburverksmiðju ríksins voru ekki lengi að hefja hróp og köll um að Samfylkingin væri með flís, en gleymdu að líta sér nær og sjá bjálkana sem þvers og kruss liggja gegnum þau öll. Hæst glumdi samt í gömlu tunnunum sem notaðar voru til að brenna njósnaskjöl frá Sjálfstæðisflokknum, en bergmálið úr tómum sölum Framsóknar var síst minna. Það eru fimm mánuðir til stefnu, það er kominn tími til að við tökum á þessu Íhaldsfuskum. Sameinuð stöndum við sundruð föllum við!
-
Ég var svo að lesa það áðan að Whole Foods í Bandaríkjunum væru hætt að markaðsetja íslenska matvöru vegna hvalveiðibröltsins. Flott hjá ríkisstjórninni, skemma það sem íslensk fyrirtæki eru að vinna að, með því að drepa óætar skepnur.

Lalli

fimmtudagur, nóvember 30, 2006

ég ætlaði að blogga um bólu!

Ég kláraði "vinnutörn" í skólanum á mánudagskvöldið, síðastliðnar fjórar vikur hafa verið frekar erfiðar þar sem ég skilaði af mér verkefnum, ritgerðum og hélt fyrirlestra í bunum (má maður safna bunum!?). Ég vildi ekki byrja of snemma á svoleiðis hlutum á þessari önn, en heldur ekki vera að því í kringum prófin sem eru í Janúar, svo að þetta var allt á sama tíma, en gekk samt upp... vona ég.
Ég er kominn með allskonar hugmyndir í kollinn eftir þessa törn, sem að þýðir að núna "þarf" ég að skoða það sem mér datt í hug á meðan ég skrifaði þessi verkefni. Það sem mér datt í hug voru m.a. lýðræðisbyltingar, frjálsfélagasamtök, gegnsæji hjá Esb og að endalokum fullkomlega sanngjarn heimur. Eitthvað nýtt? það efast ég um, en það er hollt að hafa eitthvað að hugsa um og vinna að. Hví ekki sanngjarnari heimur? - Tja, fyrst maður má safna bunum þá hlýtur að vera leyfilegt að láta sig dreyma.
--
Kanski verður aldrei hægt að snúa heiminum frá heimsku og græðgi, mér finnst t.d. hryllilegt að hugsa sér að fólk hafi það í sér að þiggja 20. milljónir í mánaðarlaun og ganga með eyrnalokka sem kosta 10 milljónir. Það deyja börn vegna þess að þau fá ekki hreint vatn. HREINT VATN!
Svo gefa svona millar kanski 500.000. krónur í söfnun og láta taka mynd af sér brosandi góðmennsku colgatebrosi. Stundum þegar að fólk eins og ég núna, skammast yfir þessu, þá er það sagt öfundsjúkt, fyrir mér er þetta ekki öfundsýki, ég hef það ágætt. Þeir sem að fá 500.000 á mánuði og eiga það skilið vegna dugnaðar, menntunar, hæfileika eða hvað annað sem telur, það er ekki hvorki vandamálið né hættulegt. Því að það er heimskulega mikill munur á svona velstæðum einstaklingi og siðblindufólki sem tekur margar milljónir fyrir að vinna vinnuna sína, sem á sínar eigin skútur og einkaþotur til að færa sig á milli hallanna sinni og mælir lífshamingju sína í hagvexti.
Við eigum ekki að vera feimin við að segja það að þetta sé rangt.
Skelfingaröfund er þetta í mér!
-
Annað, ef að svo færi núna að kreppa kæmi, eins og svo oft áður hefur gerst og sagan segir okkur að líklega komi aftur. Hvernig fer þá fyrir okkur? Hvernig fer fyrir íslenskum heimilum? Ungu fólk sem að skuldar 200.000 í yfirdrátt?

Ekki nóg með að ég verði að læra stjórnmálafræði og stjórnmálaheimspeki til að komast að því sem ég hugsa heldur verð ég að skilja hagfræði líka.

ég hef ekki tíma fyrir þetta, því að ég fæ bara námslán í nokkur ár...
lalli

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Leopold Engleitner

Stundum þá finnst mér að ég sé allt að því einfaldur í pólitíksri rétthugsun, rétt skal vera rétt og rangt rangt. Það er auðvitað hættulegt því að ekkert er alveg svart og hvítt, heitt eða kalt og maður á hvorki að trúa öllu né engu sem maður sér og heyrir.
Það kom t.d. upp umræða hérna í Austurríki um daginn eftir að þingmaður Freiheitliche Partie Österreichs (Frjálslyndaflokksins) svaraði spurningunni hvort að ríkisstjórn Hitlers hefði gert eitthvað gott játandi, hann útrýmdi atvinnuleysi árið 1933 á erfiðustu krepputímunum. Afhverju gerði hann það? Ég veit það ekki sagði þingmaðurinn, ég var ekki fæddur þá. Ef til vill til að undirbúa stríðið, bryggja vopnaverksmiðjur og vegi sem að nýttust því að skapa Þjóðverjum "Lebensraum" í austri, sagði fréttamaðurinn og fékk ekkert svar...

Í skólanum í dag sat 101 árs gamall Austurríkismaður, Leopold Engleitner að nafni, í hjólastól fyrir framan 200 háskólanema og með aðstoð ævisöguritarans síns sagði frá ævi sinni í máli og myndum. Hann hitti Franz Josef keisara árið 1914, en sagði hann hafa verið slæman einvald en ágætan veiðimann. Leopold var fátækur í æsku og heima hjá honum var varla til brauð en keisarinn var með gullmedalíur í jakkanum sínum þegar hann heilsaði krökkunum. Eftir fyrri heimstyrjöldina fékk hann Spænskuveikina og var vart hugað líf en hann þraukaði. Árið 1932 gerðist hann Votti Jehóva og fyrir það var honum mismunað um árabil og að lokum var hann sendur í fangabúðir Nasista t.d. KZ Buchenwald og KZ Ravensbrück. Núna er hann elsti eftirlifandi fangi þeirra búða og líklega allra hinna líka. Hérna er hægt að lesa söguna hans.
Ótrúlegt svona fólk sem stendur á sínu, neitar að láta kúga sig. Hann neitaði að skrifa undir skjal þar sem hann gæfi upp trúnna sína. Einfaldur bóndi frá Austurríki sem trúði ekki á stríð og morð.

Ég bara varð að skrifa eitthvað um þennan mann á bloggið mitt, þó svo að hann eigi meira skilið en þessi fátæklegu orð. Hann vill ekki láta líta á sig sem hetju, heldur vill hann að fólk sjái að það sé hægt að standa á sínu þó maður sé einn og lítill, þess vegna ferðast hann um Austurríki og raunar heiminn t.d. þvert yfir Bandaríkin í Maí og segir frá ævi sinni. Hann vildi hitta Arnold Schwarzenegger í Californinu en ríkistjórninn komst ekki svo hann sagði: "I'll be back!" og brosti. Hress gamall karl.

Lalli litli

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

think globally



Í gær var frétt á Vísi að á laugardaginn væri alþjóðlegur "ekki kaupa neitt dagur", gott og blessað og hvað um það, ég kíkti inn á tengil frá þessum samtökum þar voru m.a. gervi-auglýsingar frá ýmsum stórfyrirtækjum. T.d. Esso, Nike og fleirum. klikkið á þær til að geta lesið smá letrið
--
Ég hef svo sem ekkert fyrir mér þessu, ég sá þetta og þótti áhugavert. Stundum þegar við hugsum um svona mál þá detta okkur alltaf í hug svo greinilegir og stórir hlutir en við gleymum þessum smáu. Eins og með hluta af umhverfismálum, ef við á Íslandi sem miðað við umræðuna þykjumst allt að því umhverfisvæn myndum vera það í verki. Til dæmis varðandi litla hluti: labba út í búð, nota innkaupapoka aftur og aftur eða bara bakpoka, flokka sorp, kaupa mat sem er lífrænn og e.t.v. í endurunnum umbúðum sem við settum svo aftur í endurvinnslu o.s.frv. þá myndi margt breytast hjá okkur. Við myndum eitt og eitt ekki umbreyta heiminum með byltingu en á endanum ætti umbreyting sér stað. Ef að hvert og eitt okkar breytir sinni hugsun, þá þýðir það að sjálfsögðu það að þeir sem að vinna í eða reka fyrirtæki og stofnanir gera það líka því þau eru bara venjuleg eins og við. Kanski á ég einhvern tíman eftir að vinna í fyrirtæki eða stofnun, svo að ég ætla núna að breyta minni hugsun og passa allt þetta smá sem ég geri, því margt smátt...

kv.

lalli ljóstillífandi rauðgrænþörungur

laugardagur, nóvember 18, 2006

lhá

Það hefur verið og verður nóg að gera í skólanum, sem er hið besta mál, ég er duglegastur að læra þegar að ég þarf að gera eitthvað. Þess á milli á ég það til að detta niður í smá leti, þessvegna hef ég óbeit á tilgangslausum fríum sem slíta í sundum þann tíma sem ég vil nota til að læra. Ég er þannig skilyrtur að ég má oft ekki við svoleiðis truflunum. Eftirhádegi á mánudaginn á ég að skila ca. 2-3 blaðsíðna "ritgerð" um alþjóðlega aðlila sem hafa komið að málum Eystrasaltslandanna frá 1989. Mér finnst það áhugavert og bísna spennandi. Svo heldur skólinn áfram og ekkert frí svo að ég næ að halda mínu striki. Ein af greinum sem að ég las í dag til að kynna mér umbreitingarnar sem hafa átt sér stað, fjallaði örlítið um hvort þjóðríki séu nauðsynleg á 21.öldinni. Mér þykja þessar pælingar vera áhuga verðar og ætla að kynna mér þær frekar. Er skynsamlegt og nauðsynlegt að líta á sig sem einstakling frá sérstöku landi? Þetta ætla ég að skoða.
--
Jólamarkaðurinn hjá ráðhúsinu í Vín opnar í dag, Bürgermeister Häupl kveikir á trénu klukkan hálf sex. Dr. Häupl er eins mikill Bürgermeister og þeir geta orðið, með bumbu, yfirvaraskegg. Við Eyrún ætlum að skella okkur þangað, enda finnst mér að Häupl eigi alfarið að stjórna því hvenær jólaundirbúningur má hefjast og það er best að byrja hann með því að slappa af á fallegum stað í Vín með Glühwein í bolla.
-
Skrítið hvað það þarf stundum stóra viðburði til þess að hreyfa við fólk, maðurinn bíður og bíður þar til hann verður að taka stökk áfram til að detta ekki. Hlýnun jarðar er dæmi um þetta, ekkert hefur verið gert fyrr en allt í einu þarf að gera eitthvað í einu stökki. Við vanrækjum umhverfið og okkur sjálf þar til við sjáum að það gengur ekki lengur og tökum stökk. Ef samfélagið okkar og við sjálf væri í raun og veru skipulög væri þetta vandamál ekki til staðar.

ciao,
lalli

sunnudagur, nóvember 12, 2006

90.000€

Við Eyrún förum stundum í labbitúra, stundum í fallegum görðum, stundum í hverfinu okkar og stundum í miðbænum þar sem við skoðum í búðir og búðarglugga. Á Kohlmarkt eru fínustu búðirnar í Vínarborg s.s. Armani, Gucci, Chanel þar getur ríkt fólk keypt sér föt við hæfi. Í þessari götu eru líka fínar skartgripabúðir sem hæfa vel fína fólkinu eins og Tiffany's og Carter, þar eru verðmiðarnir sérstaklega stílaðir á mold-skíta-ríka. Þegar við löbbuðum í gegnum Kohlmarkt um daginn litum við í gluggann hjá Carter, verðmiðinn á einum eyrnalokkunum skar sig úr, litlar 90.000€, er ekki í lagi heima hjá fólki? Ætli sá eða öllu heldur sú, sem að gengur með gullglingur fyrir næstum 10 milljónir hangandi í eyrunum á sér hafi enga samvisku gagnvart umheiminum? Það væri hægt að finna fínt glansandi og glitrandi dót fyrir 25€ eða jafnvel 250€ eða hjá þeim eiga mikla peninga 2500€.
Ef ég myndi hitta svona manneskju myndi ég líklega segja við hana "stansaðu! Skammastu þín og snáfðu burt!" en það myndi líklegast ekki breyta neinu því sumu fólk er held ég ekki við bjargandi.

argandi gargandi,
lalli

föstudagur, nóvember 03, 2006

n 1 x

Ég er í býsna áhugaverðum áfanga á föstudögum, Grunnkúrs í Alþjóðastjórnmálafræði þar sem aðallega er horft til átaka sem blossað hafa upp í fyrrum Sovétríkjum, Transformationsländer. Fyrstu tímarnir hafa mest megnis farið í að tala um þau hugtök sem tengjast þessu svæði og aðra theoríu en í dag kom til okkar kona frá samtökum sem kallast International Labour Organization, ILO, í Rússlandi. Það var margt áhugavert sem hún benti okkur á varðandi Mið-Asíu og Kákasus löndin, land eins og Kasakstan t.d. sem á vesturlöndum er ekki talaðum nema minnst sé á Borat á undan, er 2,717.300 km2 og þar búa samt bara 15 milljónir manna meðan að Frakkland er 543.965 km2 og þar búa 60 milljónir.

Þetta var auðvitað ekki aðalatriðið, en pælið því í stærðinni og hvað veit venjulegur maður um landið? Ekkert. Hvað veit maður um Tajikistan? Ekkert. Það eina sem fréttist frá Turkmenistan er að Saparmurad Niyasov, öðru nafni Turkmen Basi, stýrir öllu þar með alræðisbrölti. Í þessum löndum eru Non Govermental samtök bönnuð, það að vera meðlimur Amnesty er lífshættulegt og Evrópubúum er alveg sama um þetta svæði. Það er varla hægt að kenna olíunni um það því að t.d. eru olíulindir í Kazakstan og Turkmenistan, peningunum frá þeim er svo vandlega ekki deilt á meðal ríkisborgaranna. Ekki vantar Islamista til að berjast við því þeir liggja og fela sig á landamærum Kasakstan, Úsbekistan og Tajikistan. Mannréttindi eru brotin á íbúum þessara landa daglega og þau eiga meira sameiginlegt með Evrópu heldur en Asíu þó svo að þessi heimshluti kallist Mið-Asía. Staða barna í þessum heimshluta er efni í annan svona pistil, en hún er vægast sagt ömurleg.

Í Kákasuslöndunum virðast svo deilur milli Armena og Azerbaijana engan enda ætla að taka og Georgíumenn hafa þurft að þola eins og öll hin löndin á þessu svæði ótrúlegan yfirgang frá Rússum allt frá falli Sovétríkjanna. Moskvustjórnin heldur þessu svæði í erfiðri stöðu eins og dæmin sanna; þegar að -30°c frost var í Gegoríu í fyrra vetur skrúfuðu þeir fyrir gasið. En samt er Moskvustjórnin sú eina sem að fær einhverja athygli frá öðrum ríkjum heimsins.

Hvað gera Evrópuþjóðir? Þær líta ekki á þessa stöðu sem sitt vandamál, heldur draga línuna við Úkraínu og reyna að hjálpa íbúum Hvíta-Rússlands sem býr við alræðiðstjórn.

Það er hræsni af okkur að fordæma mannréttindabrot og berjast gegn fátækt hér og þar, svona eins og okkur hentar til að friða sálartetrið, en horfa svo framhjá hinum hlutunum. Einræðis- og harðræðisstjórnir eiga allar að fá skömm, en svo þarf líka að styðja fólkið til að brjótast úr ömurleikanum og til mannsæmandi lífs.
-

En núna þarf ég að stuðla að eigin heilsu, bæði líkamlegri og andlegri með því að kyssa konuna mína, elda mat og drekka bjór með íslenskum öðlingum.

kv.
Lalli

p.s. hvað þýðir titillinn?

sunnudagur, október 29, 2006

brunavarðapistill

Upp og niður sigann í húsinu okkar hafa í dag hlaupið fullklæddir brunaverðir, það flokkast líklegast með óþægilegri heimsóknum sem maður getur fengið. Þeir létu okkur samt ekki vita hvað væri að gerast, svo að við ákváðum að kíkja út og athuga hvort við kæmust að því hvað væri að. Þá var búið að loka stóru götunni sem að okkar gata liggur út frá og lögreglu- og brunaliðsbílar með blikkandi ljós voru út um allt, í rauninni stóðum við í miðju öryggissvæðinu sem afmarkað var með bílum og borðum, svo töltum við út fyrir það. Það virtist ekkert sérstakt vera að og þegar ég spurði einn slökkviliðsmanninn hvað væri að sagði hann að vinnupallurinn utan á húsinu var laus og það þyrfti að festa hann betur. Það var hvasst og því hætta á því að pallurinn myndi hrynja.
-
Brunaliðsmenn í Frakklandi eru búnir að slökkva eld í nokkrum bílum eftir ólæti. Einhvern veginn virðist mér eins og fjölmiðlar heimsins býði eftir því að aftur sjóði uppúr, þeir byrjuðu fyrir löngu að segja að líklega yrðu aftur ólæti líkt og í fyrra. Í rauninni virðast þeir bara hafa beðið eftir því að eitthvað fréttnæmt gerðist og svo fara þeir í fýlu ef ekkert gerist. Svona eins og þegar allir fjölmiðlar á Íslandi mættu á Keflavíkurflugvöll í sumar og biðu eftir því að logandi þota frá BA kæmi til lendingar, en svo voru þeir bara hundfúlir þegar það var enginn eldur.
En það væri nú svo sem ekki skrítið ef eitthvað gerðist því aðstæður þessa fólks í París hafa ekkert batnað frá fyrir ári, samkvæmt því sem ég las í Suddeutsche Zeitung er það alveg eins. Enginn hefur reynt að gera neitt til að aðstoða þessa íbúa Frakklands sem að búa við bág kjör. Við heima á Íslandi ættum að læra af hinum fjölmörgu misstökum Evrópubúa og hugsa vel um það fólk sem setst að hjá okkur með því t.d. að veita þeim góða íslenskukennslu. Það er nefnilega ekki sjálfsagt mál að aðlögun að nýja samfélagi gangi fyrir sig án þess að samfélagið taki á réttan hátt við þeim sem koma.
-
Sjálfur er ég í aðlögun, eins og barn á leikskóla og gengur vel þó að ég hugsi stundum til þess hvort að mamma og pabbi komi ekki bráðum.

Lalli

föstudagur, október 20, 2006

Smjörklípusteiktur hvalur

Ef það hefur farið framhjá einhverjum þá kenndi Davíð Oddsson Íslendingum smjörklípu aðferðina í viðtali í Kastljósinu fyrir ekki alls löngu. Vafðist það fyrir ykkur hvernig þessi aðferð virkar í Praxis? Allt er um það bil að verða brjálað vegna leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins og þá er skellt inn hvalveiðimálinu. Tilgangslaust mál sem breytir engu nema því að Sjallarnir fá frið og tíma til að brenna skjöl í olíutunnum.
Hvalveiðar sitja undarlega djúpt í sálum Íslendinga, ég sá t.d. skoðanakönnun þar sem mikill meirihluti Íslendinga taldi að hvalveiðarnar myndu ekki skaða ímynd Íslands. Meirihluti Íslendinga virðist ekki fatta að það er ekki bara hryðjuverkamaðurinn Paul Watson sem er á móti hvalveiðum, RÍKISSTJÓRNIR Breta, Ástrala, Bandaríkjanna og Evrópusambandið hafa mótmælt okkur. Ekki það að við megum ekki fara geng því sem þeim er þóknanlegt, þá hefur þetta að sjálfsögðu áhrif á ímynd okkar. Þetta eru ekki bara Greenpeace (sem eru risa-NoGo-samtök) eða eitthvað þessháttar, þetta eru þjóðkjörnir fulltrúar annara landa. Auðvitað eru þeirra rök ekki fullkomin, frekar en okkar. Þetta skemmir bara fyrir því að hlustað sé á okkur, þ.e. að við hlustum ekki á aðra. Það er ekki sjálfsagður hlutur að hlustað sé á Ísland á alþjóðavettvangi og það bætir ekki fyrir þegar við látum jafn lítið mál og hvalveiðar trufla það. Hvalveiðar í vísindatilgangi voru ágætur millivegur í skrítnum heimi. Sú aðferð hefur undanfarið veitt okkur ágætt magn af hrefnukjöti, ég veit ekki til þess að það hafi verið skortur á því.
En aftur að smjörklípunni, sem betur fer eru hvalir sjávardýr og innihalda mikla fitu svo að smá smjöklípa rennur bara af þeim og við getum haldið áfram að rannsaka leyniþjónustumálið.

góðar stundir,
Lalli litli

þriðjudagur, október 17, 2006

þar er gleði birta ylur

Það er farið að kólna hérna í Vínarborg, kanski kominn tími til og það er reyndar ekkert algjörlega slæmt, þegar haustið kemur færist smá ró yfir alla, hún varir fram að jólun og tekur svo aftur við í febrúar. Í gær kom maður frá Vaillant að kíkja á gashitarann okkar, hitarinn í íbúðinni vinnur ekki stöðug heldur hefur átt það til að rjúka upp í þrýstingi þegar við þurfum að hita vel. En vonandi virkaði hreinsunin hjá honum. Svo kom pípari í morgun að kíkja ofnan, en þeir hitna ekki algjörlega, vegna þess að einhver sem bjó hér áður hefur brotið litla tappann á ofninum sem að notaður er hleypa lofti út. En þessi pípari ætlaði að skipta um þessa tappa, vonandi virkar þetta bara og íbúðin okkar nær að hitna almennilega. En ef þetta virkar ekki, verðum við annaðhvort að flytja inn gám af lopapeysum eða vinna í lottói og kaupa nýjann hitara.
-
Á morgun fáum við flygilinn okkar, við leituðum lengi uns fundum einn flygil. Það er varla hægt að bjóða Eyrúnu uppá það að vera í tónlistarnámi en hafa ekki hljóðfæri hérna heima og í Vínarborg eru flyglar til í nokkrum eintökum. Í næsta húsi við okkur fundum við píanósmið sem að seldi okkur flygil í toppstandi, stilltan og fluttan í íbúðina okkar fyrir sanngjarnt verð.
-
Stundum birtast greinar eftir mig á uja .is
-
En núna er kominn tími til að halda áfram að læra.

lalli kveður, á bleikum náttkjól!

fimmtudagur, október 12, 2006

heimurinn l nnirumieh

Ég er ekki viss, en ég hef sterkan grun um að heimurinn snúi eitthvað undarlega þessa dagana. Á Íslandi er ólögleg leyniþjónusta og hún hefur að öllum líkindum njósnaðu um t.d. fyrrum Utanríkisráðherra landsins. Það þykir reyndar ekki merkileg frétt, því frekar er maðurinn spurður að því af hverju hann hafi ekki sagt einhverjum, t.d. þeim sem líklega njósnuðu um hann frá því. Jón Baldvin sagði líka frá því að njósnakerfi Bandaríkjamanna næðu til sín upplýsingum frá allri Evrópu með gervihnöttum. Maður sem var sendi- og utanríkisráðherra hlýtur að hafa eitthvað fyrir sér í þessum efnum. Ekki nema hann sé orðinn nógu bilaður til að fara í Seðlabankann.
Svo eru Bandaríkjamenn og Kínverjar sammála. Hverjum hefði dottið það í hug? Nema út af því atriði að önnur þjóð er að troða sér inn í kjarnorkuvopnaklíkuna þeirra. Þjóð sem reyndar hefur átt kjarnorkuvopn frá 2003, miðað við fyrri yfirlýsingar stjórvelda eins og USA og Íslands.
Það sem að sannfærir mig aftur á móti að þetta eru bara tvær tilviljanir er það, að þegar enskusnillingurinn Valgerður Sverrisdóttir og Norðmaðurinn Geir Hilmar Haarde mættu til fundar við Condi Rice þá bauð hún ráðherra Írlands velkomna! Er þetta ekki fólkið sem að náði að "bjarga varnarsamningum" með því að samþykkja tilboðið: Við förum og þið takið upp skítinn okkar, ok? -- Betra hefði verið að reka ósómalýðinn af landi með skömm! -- Eða eigum við kanski að taka til eftir þá á fleiri stöðum, næg yrðu þá verkefnin, blóðslóðin liggur þvers og kruss um höttinn.

lifið í friði
surál / lárus

mánudagur, október 09, 2006

Samyrkjuþrotabú

Ég fór í fyrsta tímann á þessari önn í dag, ProSeminar Grundkurs Politischen Theorien, hann er alls ekki jafn flókinn og nafnið gefur til kynna. Það er að sjaldnast með nokkuð hérna í Austurríki, hlutirnir eru bara gerðir töff með því lengja og flækja nafnið. Reynar er ég bara að bulla, ég á það til stundum kemur það mér í klandur og ég segi upphátt hluti sem aðeins "vinnustaðagrínarinn" eða "Trúðurinn sem hafði ekkert að segja" úr fóstbræðrum myndu segja. Þá skammast ég mín og hugsa ég er ekki ég ég er annar það segi ég þér.
-
Sjálfstæðisflokkurinn hefur rekið leyniþjónustu í fjölmörg ár og njósnaði um hættulega vinstri menn. Líklegast hefur Bjarni Ben, pabbi Björns Bjarnasonar, þá verið ábyrgur njósnum um Einar Olgeirsson, ekki nóg með það að þeir hafi unnið á sama vinnustað, þá voru börnin þeirra Björn og Sólveig dóttir Einars leikfélagar. Ó þú litla Ísland. Einar er vafalaust einn þeirra stórhættulegu kommúnista sem höfðu mikil tengsl við Ráðstjórnarríkin, þó svo að hann hafi ekki verið einn þeirra sem hafi fengið þjálfun í vopnaburði. Einhver þau mestu illvirki sem hann framdi voru líklegast baráttufundir með verkamönnum og skrif um málefni jafnaðarstefnu. Meðal þeirra sem lærðu vopnaburð í Rússlandi var söguhetja bókarinnar Yfir Eborfljótið, hann fór til Spárnar til að berjast gegn Franco, þvílíkt og annað eins illmenni hlýtur sá maður að hafa verið, að vera til búinn til þess að fórna lífi sínu svo fasismi nái ekki fótfestu á Spáni.
Þegar um þetta mál hefur verið fjallað af öðrum fjölmiðlum en La-Rusl þá hafa menn bent á það að í landinu hafi verið hópur kommúnista sem þurft hafi að njósna um. Hvergi er minnst á það að peningum hafi verið skotið undan til þess að reka pólitískt apparat sem fylgdist með ákveðnum hópi Íslendinga.
-
Davíð og Halldór rufu 85 ára gamla yfirlýsingu Íslendinga um ævarandi hlutleysi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur um ára bil njósnað um pólitíska andstæðinga sína. Er ekki tími til kominn að breyta um stjórnarhætti á Íslandi. Ég hef heyrt um mjög sniðuga hugmynd hérna á meginlandinu hún kallast lýðræði. Mikið ósköp væri það gott ef Ísland myndi hér eftir þróast eftir fyrirmynd þeirrar hugmyndar.

kveðja,
lalli

föstudagur, október 06, 2006

1 vika búin

Fyrsta vikan mín í fullu námi í Háskólanum í Vínarborg er liðin og í hausnum á mér liggur enginn vafi á því að ég stóð mig best allra í þessari viku og ég efast ekki um það að svo verði áfram.
-
Aldrei þessu vant hef ég verið að velta stjórnmálum fyrir mér, hérna í Austurríki og heima í Klakanum. Austurríkismenn eru núna að bíða eftir því að stjórnmálamenn frá Sósíaldemókrötum og Þjóðarflokknum komi sér saman um að starfa saman í stjórn, ef það gengur ekki þarf líklegast að kjósa aftur, því enginn myndi sætta sig við að fá yfir sig stjórn Þjóðarflokksins og rasistaflokkan tveggja sem eru viðurstyggileg samtök sem draga yfir sóðaleg málefnin sín lök í mildari litum, en hver sá sem sjá vill sér Rasismann og hatrið sem þeir boða.
Heima er ástandið skárra, en samt finnst mér sem einhver ólga sé undirniðri. Sumir í mínum flokki gætu farið að verða pirraðir ef ekki fer að ganga betur í að draga á Íhaldið, sem aftur á móti er orðið þreytt á því að við séum alltaf að skjóta á þá þegar upp kemur um svik þeirra og pretti í gegnum tíðina. Framsókn þarf að fá minnst þrjár auglýsingastofur til að fegra sína ímynd.

Ég er kátur en samt er svartsýni undirliggjandi hjá mér. Ætli það sé ekki bara veturinn sem er á leiðinni. Íslendingar eru snjallir að hafa kosningar á vorin, þá eru allir hressir.

Friður með yður
Surál da la-rusl ritstjóri.

föstudagur, september 29, 2006

nýjir tímar

Hvað á þetta eiginlega að þýða Lárus, að bregaðst hinum fjölmörgu dyggu lesendum La Rusl með þessum hætti?!?
-
Ég veit ég veit, þetta var illa gert af mér, ég hefði átt að blogga í allt sumar, það var, og er væntanlega mjög gott netsamband í Klettaborg og Eyrarlandsvegi. Jæja, það þýðir ekki að kvarta yfir því núna, bara líta björtum augum fram á veginn og skrifa bloggfærslur af miklum móð.
-
Ef einhverjir eru forvitnir um það hvað ég gerði í sumar, þá bendi ég á bloggið hennar Eyrúnar.
Henni tókst að koma heilu sumri fyrir í bloggfærslu sem tók aðeins hluta af seinni hálfleik Barca og Bremen að skrifa.
-
Utanríkisráðherra Íslendinga er, fyrir utan það að vera gjörsamlega vanhæf í það ráðherra embætti sem og önnur, með enskukunnáttu sem að er ekki.. tja lífveru? neh, íslending? neh, aha ekki einu sinni Framsóknarmanni bjóðandi. Heyrðuð þið bort úr ræðunni hennar á þingi S.Þ. uss. -
Lífið í Vínarborg er ljúft eins og alltaf og á næstunni skal ég taka á því í blogginu, ég veit þið saknið mín.. pís

la-rusl lalli

mánudagur, júlí 24, 2006

sumar frí frí sumar frí frí sumar -

Núna er eitthvað liðið af sumri og lítið verið um færslur hjá La Rusl, ekki vegna þess að ég hafi ekkert gert heldur vegna þess að ég nenni ekki að hanga yfir tölvunni og þvælast um veraldarvefinn.
Síðustu helgi fór ég með mömmu og pabba í útilegu, Eyrún komst ekki þar sem hún var að vinna alla helgina (á meðan ég tók því rólega í tjaldferð). Reyndar tók ég því ekkert svo rólega því við tókum gönguskóna okkar með og fórum í 8 klukkustunda labb frá sundlauginni í Reykjahlíð fram hjá Reykjahlíðarfjalli, yfir hraunið í áttina að Leirhnjúk og Kröflustöð og síðan yfir Þríhyrning og niður hjá Námaskarði og til baka að Reykjahlíð. Þessi fjallganga var um það bil 30 kílómetra löng og við höfðum mjög gott af henni, það var kanski síst hún Lukka sem þurfti að fara svona langt því hún var dauðþreytt daginn eftir og neitaði að labba um Lakagíga þegar við skoðum þá daginn eftir. Eftir gönguna grilluðum við okkur lambakjöt sem við krydduðum með blóðbergi og pipar.

Næstu helgi förum við aftur í útilegu, áfangastaðurinn hefur ekki verið ákveðinn en það er pottþétt að gönguskórnir koma með aftur og Eyrún verður í fríi svo ferðin verður ennþá betri. Hver veit nema veiðistangir fái líka að fara með, ég á nefnilega eftir að vígja nýju flugustöngina mína.

Svo verða Sigurrós og Amina að spila í Ásbyrgi um versló, svo það er aldrei að vita hvort við skellum okkur.

friður,
lalli

miðvikudagur, júlí 05, 2006

heim á morgun

Núna er þetta fyrsta ár okkar Eyrúnar hérna úti að verða liðið, við leggjum af stað frá Kupkagasse um klukkan 05 í fyrramálið og lendum á Akureyri klukkan 22 um kvöldið. Það er allt um það bil að verða orðið klappað og klárt, töskurnar dansa á yfirvigtarlínunni eins og aðrir vesturlandabúar og spurning hvort okkur verði refsað fyrir það. Undarlegt að maður hafi ekki leyfi til að taka meira með sér þegar maður flytur, núna verðum við á svipuðu flandri næstu árin og það er frekar leiðinlegt að þurfa alltaf að passa sig á því að taka ekki of mikið pláss, meðan að fólk sem kemur úr tveggja vikna ferð fær sama pláss. En jæja, þetta kennir manni ef laust að maður ætti bara að vera sjálfum sér nægur, með góðum félagskap.

Það er hálfleiðinlegt að fara, en það verðum mjög frábært að koma heim og hitta alla, svo að mjög vinnur hálf! Ég er bara orðinn töluvert spenntur fyrir því að komast til sveita-þorpa-borgar-bæjarins Akureyrar.

hressandi purmp!
lalli

föstudagur, júní 30, 2006

ég hlæ bara

Í gær klukkan 19:35 kláraði ég síðasta prófið mitt á þessari önn í UniWien, það var ótrúlega ljúft og ég held að ég hafi barasta staðið mig ágætlega, fínt flott gott, þ.e.a.s. ef að kennararnir taka inn í myndina að ég skrifa þýsku á minn hátt.
-
Við fórum svo út að borða á Kulin sem er mjög ágætur mexikóskurstaður hérna ekki svo langt frá okkur. Þar fengum við okkur góðan mat og Caipirinha, svo fórum við og fengum okkur 3 bjóra á kaffihúsi.
-
Ísraelsmenn eru aldeilis að hjálpa til við það að gera heiminn að friðvænlegri stað þessa dagana, bölvaðir svínamenn að koma svona fram við fólk. "palestina und irak, 1000 leute jeden tag" "israel usa menschenrechte hahaha"
-
lifið heil og sæl og ef þið eruð í Vín þá er party í kupkagasse á morun..
pís át
lalli

fimmtudagur, júní 22, 2006

war is not politiks

Bush kom og fór, greyið karlinn þurfti að stytta dvöl sína í Vín úr 3 dögum í 20 klst. vegna þess að hann var ekkert velkominn. Mótmælagangan var stór og fjölbreytt, þarna var fjölskyldufólk, fólk eins og við Eyrún og Jón, svo voru auðvitað pönkarar Vínarborgar á svæðinu, fjölmargir töffarar og a.m.k. fjórir strípalingar sem að marseruðu með okkur á sprellalingunum og með berann rassinn. Margir voru með fána og borða þar sem rituð voru slagorð gegn Bush & co, gegn heimsvalda- og nýlendustefnu, gegn mannréttindabrotum, friðarslagorð voru líka vinsæl og svo sáum við eina konu með bandarískt vegabréf á spjaldi þar sem stóð "þetta ætti að standa fyrir eitthvað betra". Leiðinlegast þótti mér að nokkrir bílar fóru með göngunni og sumir þeirra spiluðu tónlist alveg rosalega hátt "harðkjarna danstónlist", en það vil ég kalla þetta, ótrúlega hávaðasama og leiðinlega tónlist, þeir hefðu ekkert þurft að vera þarna. Margir sem að þarna voru mótmæltu eflaust öllu sem að þeir gátu mótmælt, svo voru auðvitað einhverjir sem að þurftu að þamba bjór alla gönguna sem að nýttu svo tækifærið við Hofburg við að gríta dósunum í vígbúna lögrelgumenn sem fylgdust með göngunni. En flestir voru þarna bara til þess að biðja um frið í þessum harða heimi. Við löbbuðum tvisvar nálægt hópum af múslimum sem að voru með Palestínskafánann og voru með skilti sem stóð á "hendurnar burt frá íran". Reyndar sáum við líka bandarísk hjón fylgjast með göngunni og ég heyrði konuna segja þegar hún tók mynd af vígalögrelgumönnunum "ná æ ken sjó þem bekk hóm, þat jú ver prípered". Einhverjir aðrið heyrðu líka í henni og buðu þeim hjónum að taka þátt í göngunni, ekki líkaði karlinum það sérstaklega og sagði "æ dónt marts in þiss pöþetik þeing".
En hvað sem því nú líður þá vorum við ánægð með okkar marseringu í hópi góðs fólks sem að vill ekki meira af stríði, blóðsúthellingum og örðum ófögnuði sem að nokkrum "stjórnmálamönnum" fylgir og við vorum þreytt og sveitt þegar við komum heim, en umfram allt ánægð með vel nýttan tíma.

lalli

mánudagur, júní 19, 2006

velkominn?

Það er ekki landsins forni fjandi sem að stefnir til Vínar núna á morgun, heldur heimsins mesti vandi sem er líklegur til borgarinnar. George W. Bush kemur og íbúa Vínarborgar býða nú lokanir á helstu götum, leyniskyttur á þaki Hofburg og einhver hundruð alvopnaðir her- og lögreglumenn. Á miðvikudaginn klukkan 17.00 hafa verið skipulögð mótmæli gegn Bush og hans athöfnum og hugmyndum innan Bandaríkjanna og utan þeirra. Mér sýnast þessi mótmæli vera skipulögð meðal annarrs af kommúnistum og örðum sem oftast væru líklegast vinsta megin við mig, eða nei þegar betur er að gáð eru það minnst 18 samtök sem taka þátt í þessu. En það er nú bara þannig að við verðum að standa saman - Svo ég mæti í það minnsta meðan að ekkert hættulegt er á ferðinni, en um leið og einhverjir fara að vera með læti þá fer ég í burtu, því ofbeldi er aldrei lausnin. Það er algjörlega tilgangslaust að lemja á bílum ókunnugra til að mótmæla morðæði Bush. Enda virðist það ekki vera á dagskránni og var heldur ekki svoleiðis þegar að leiðtogar EU og S-Ameríku hittust hérna um daginn.
Leyniþjónustumenn CIA hafa verið í nokkrar vikur í Vín að undirbúa allt fyrir komu Bush. En það hafa líka aktivistarnir gert og eiga núna heimasíðuna www.bushgohome.at
Ef þið viljið senda Bush kveðju skiljið hana þá eftir í kommentunum hjá mér og ég skal taka hana með mér í mótmælin og rétta honum hana ef ég kemst nægilega nálægt;) - það væri sem án vafa hættulegt.
Við ræddum um þetta 17.júní hátíð Íslendingafélagsins á laugardaginn og eftir að upplýsingarnar um hvar lokanirnar verða og hver áhrifin verða á íbúa Vínar, sagði einn: "Hver vill eiginlega fá svona gest?"
Ég las ævisögu Kennedy einu sinni og hann fór í velheppnaða Evrópureisu, þar sem hús, torg og fleira var nefnt eftir honum. Núna þar líklegast að flytja inn amerísk börn til að veifa fánum fyrir Bush.

ykkar mótmælandi,
Lalli

mánudagur, júní 12, 2006

meinl's kaffespezialitäten

Ég hjólaði ekkert smá hratt áðan, það fór bíll framúr mér tvisvar en ég náði honum í bæði skiptin á ljósum og svo var ég langt á undan þegar ég kom að gatnamótunum. Stigið, glímið... Lalli vann!
-
Það sem mér hefur þótt skemmtilegast við byrjun HM er að litlu liðin eru að standa sig mjög vel, eins og Trinidad og Tóbak, Angóla og Fílabeinsströndin og líka bara Paragvæ og Ríka Strönd. Svo er bara að sjá hvort þetta haldi áfram, ég bíst nú varla við því að þau komist langt en það er bara svo skemmtilegt að sjá svona lið standa sig frábærlega, það gerir keppnina að hátíð.
-
Ég man eftir því að hafa fyrir nokkru síðan skrifað um hvernig oft væri talað um að stjórnmálaflokkar þeyttust frá hægri til vinsti eins og kantmenn á flakki. Í dag las ég pistil eftir Þorstein Pálsson þar sem hann sagði eitthvað á þá leið að Samfylkingin væri líklegast á leiðinni leiðinni aftur yfir til vinstri. Mér þykir þetta alveg jafn undarlegt og áður, að flokkar sem eru allir með fastar línur til að vinna eftir, hendist til og frá eftir hentisemi blaðamanna eða í þessu tilfelli frv. forsætisráðherra. Afhverju ætti það að teljast til tíðinda ef að flokkur sem að var stofnaður úr þremur félagshyggjuflokkum nái frá miðju og til vinstri. En jæja öll vitleysan er ekki eins og það er ef til vill eins gott að hún sé það ekki því að þá hefði ég ekkert til þess að "pirra" mig og nördast yfir. Afhverju er ég ekki bara Star wars nörd?

Lalli á hjóli

laugardagur, júní 10, 2006

popp í poka

Hún Eyrún mín söng svo undursamlega fallega í gærkvöldi/nótt í Péturskirkjunni hérna í Vín, hún söng aríur úr Gloriu eftir Vivaldi með Stúlknakór Akureyrarkirkju og stóð sig Vá! svo vel. Þær gerðu það líka hinar stelpurnar og undir lokin risu viðstaddir á lappir og hlýddu á Lofsöng okkar Íslendinga og settust svo ekkert niður þegar lófatakið hófst. Kirkjan var þéttsetin og þegar Eyrún söng sá ég nokkra lygna aftur augunum með sælubros, en ég var of montinn til þess að geta leyft mér það:) Brosti bara og horfði á kristilega gullið og marmarann í kringum mig.
-
Blessað boltasparkið byrjað með öllum sínu, það byrjar bara býsna vel. Deutschararnir voru sprækir og núna í fyrri hálfleik hafa Fílabeinsstrendingar skemmt mér þrátt fyrir að vera 0-2 undir. Auðvitað er hægt að minnast á margt slæmt sem fylgir mótinu, ofbeldi, kynþáttahatur og þess háttar, en í dag fylgir þetta manninum verst er með þetta hórerí sem er á mönnum það er viðurstyggð. En seinni hálfleikur hefst vonbráðar...nó diggidí nó dát, pís jó æm át!
larus feiknaóði

þriðjudagur, júní 06, 2006

Bland

Mikið rosalega var gott að fá Hönnu og krakkana í heimsókn, krúttarakrakkarnir sáu um að halda uppi stuðinu í Vínarborg og gerðu það með sóma. Þeim fannst allt skemmtilegt, hvort sem það var að vera á róló eða á listasafni, frábærir gestir. Svo átti mamma afmæli í gær, hún eyddi afmælishelginni sinni í að gera garðinn tilbúinn fyrir sumarið, ég get ekki beðið eftir að eiga góða daga á pallinum í sumar.
-
Ég er ekki frá því að Framsóknarflokkurinn sé eitt undarlegasta stjórnmálafyrirbæri sem þekkist á byggðu bóli, svona fyrir utan rasistaflokka með bláeigða frambjóðendur sem kalla sig "echte Wiener". Svo benda þeir á Finn Ingólfsson sem bjargvætt sinn, ef þeir vilja endalega fá á sig ímynd lítillar og spilltrar valdaklíku þá er hann líkast til rétti maðurinn. Hann fældist frá pólitík vegna þess að þar var fylgst með því sem hann gerði og fór svo fyrir S-hópnum í bankasölubruðlinu, er það ekki einmitt það sem íslensk stjórnmál þurfa, hugsjónasnauðan peningastrák?
-
Ég er búinn að taka eftir kommentum á Samfylkingarsíðunni á Akureyri og það eru greinilega ekki allir sáttir við X-S og X-D bandalag í bæjarstjórn, aftur á móti held ég að það sé besti kosturinn, listi VG var einfaldlega ekki nógu vel mannaður til að vinna með honum, þó að Oddur hafi verið til í slaginn. Ég held að það hafi ekki strandað á Samfylkingunni að mynda meirihluta, VG voru bara ekki til í að gera málamiðlanir, sem er einmitt það sem meirihlutaviðræður snúast um.
-
Nóg um það, það er kalt í Vín en sumarið kemur aftur, svo er farið að styttast í að við komum heim. Ljúfa litla borg, það er nýja Indíánanafnið á Akureyri.

:Lalli

sunnudagur, maí 28, 2006

100%

Í nótt vakti ég til klukkan 05 og starði á tölvuskjáinn, undarlegt þar sem ég vissi ósköp vel að ekkert myndi breytast en mér fannst samt betra að fara að sofa þegar ég væri orðinn alveg viss. Ég býst fastlega við því að í kjölfar þessara kosninga hitni örlítið í pólitíkinni heima, menn sjá hvað sjá núna hvar tækifæri sín liggja fyrir næsta vor og hvar þeir eru veikastir fyrir. Auðvitað sjá menn þetta þá líka hjá hinum og geta þá eitthvað byrjað að undirbúa sig. Alltaf skemmtilegt að sjá og heyra formenn flokkanna ræða svona mál rétt að loknum kosningum, allir vinna auðvitað og geta bent á hina og sagt að þeir hafi tapað. Svo þegar tveir til þrír eru búnir að því þá tekur næsti við og ætlar nú ekki að vera segja hinum hvernig þeir stóðu sig, "minn flokkur var fínn" o.s.frv. Það síðasta sem ég sá áður en ég lagði mig voru tölur yfir allt land þar sem fylgi flokkana var sett í landsmeðaltal og spáð hvernig þetta væri nú allt. Í þær tölur var ekki hægt að lesa neitt öðruvísi en það sem nýjustu skoðana kannanir segja. Íhaldið stendur í tæpum 40%, X-S í tæpum 30% VG í tæpum 15%, exbé og frjálslyndir undir 10. (allt sirka, því annarst eru þetta 105%) Og löngu látið fólk kýs ekki ennþá á Íslandi. Spurning hvernig næstu skoðana kannanir mæla svo landslagið. Ég er bjartsýnn og held að Samfylkingin eigi nokkuð inni.

Hanna og krakkarnir koma á morgun! Jibbí, það verður svo gaman að fá þau í heimsókn ég er alveg viss um að þau eiga öll eftir að vera ánægð hjá okkur og hafa það gott. Annarrs er hugur Akureyringa hjá áhöfn Akureyrinnar og fjölskyldum, líkast til ein af þeim erfiðustu raunum sem hægt er að leggja á menn og þeir eru hetjur.

lalli

fimmtudagur, maí 25, 2006

supernörd

Það er líklegast satt hjá Ella um daginn að hérna þýðir ekkert fyrir mig að predika um illsku Íhaldsins. Þar sem lesendur mínir eru fullkomlega færir um að átta sig á henni. Ef til vill vegna þess að ég skrifa sjaldnast um annað. Stundum eru bloggin mín ok og hressandi, en aldrei eins og þeir sem blogga best, segja eitthvað fyndið og frumlegt og búa til skemmtilega lista og eru svakalega kúl. Ég veit að ég er ekki svakalega kúl svo ég reyni ekki að vera það á netinu. Stundum reyni ég að vera kúl fyrir Eyrúnu, en það endar oftast í nördisma, þar sem ég sýni henni annað hvort nýtt trix sem ég var að búa til (sem er bara eitthvað bull) eða dansa eins og kjáni við hressandi tónlist. Þegar ég hugsa um það þá minni ég líklegast á karldúfu í tilhuga dansi, fátt hallærislegra. Ég hugsa að dúfur séu þau dýr sem verst fara útúr velmengunar sjúkdómum okkar tíma. Enda þurfa þær ekkert að hreyfa sig og lifa á McDonalds afgöngum og lifa í skítugum miðbæjum. En ég er samt ekki svoleiðis, enda á ég hjól og elda hollan mat á kvöldin.
Lifið heil, og hvað sem þið gerið ekki setja x-við D! Ég mæli sjálfur með S-i
Lárus(l)

miðvikudagur, maí 24, 2006

bleikar sauðagærur

Það er rosalega mikilvægt að maður trúi því að maður geti gert hlutina sem maður ætlar sér. Það er einnig rosalega mikilvægt að maður geri eitthvað í því sem kemur manni á þann stað að hlutirnir séu framkvæmanlegir. Þess á milli er mikilvægt að slappa af. Því næst hugsa um hlutina. Þá kanski skilur maður þá nógu vel til þess að geta framkvæmt hugmyndina.
-
Ég held að Sjálfstæðismenn hafi hlerað símann hjá veðurstofunni og frétt af þessu kuldakasti sem átti að koma rétt fyrir kosningar og þessvegna skellt sér í bleika sauðagæru, svona til að verjast hretinu.
Undarlegt samt hvað þeim virðist þykja eðlilegt að hlera síma hjá fólki sem var með ólíkar skoðanir. Setja það fram eins og það séu rök fyrir pólitískum njósnum að viðkomandi aðilar hafi verið á móti NATO. Það er nú bara ekkert eðlilegra en það í lýðræði að einhverjir séu með aðrar skoðanir, en ekki þykir Íhaldinu það, best að njósana bara um þá. En það eru einmitt svona gaurar sem klæðast bleiklitaðri sauðagæru þessa dagana 0g þeir fara úr henni um leið og kjörstöðum lokar.

lalli

sunnudagur, maí 21, 2006

pólitík

Er það ekki skrítið hvað Sjálfstæðisflokkurinn er með mikið fylgi í skoðanakönnunum út um allt land? Finnst ykkur það ekki vera undarlegt? - Flokkur sem að setur það fram í stefnuskrám sínum að ekkert sé eðlilegra en að einkavæða skóla, leikskóla, elliheimili, sjúkrahús, ungliðarnir þeirra setja það fram að ekkert sé eðlilegra að sveitarfélögin komi ekki að menningarstarfsemi. Samt tala þeir ekki svona, þeir ræða mest um að hugsa þurfi um gamla fólkið og leikskólabörn, en svo eigi að losa foreldra þeirra undan "skattpíníngu". Hvernig á að hugsa um aldraða og skólafólk ef að við leggjum ekki öll saman í púkk til að reka þær stofnanir sem að eru til þess gerðar? - Þetta er auðvitað ekkert nema hræsni að halda því fram að lausnin á vandamálunum sé "frelsi" til að borga sjálfur fyrir þessi grunnþjónustu! Lausnin felst í því að við hjálpumst að og hugsum um náungann og þar með okkur sjálf. Orðið samfélag felur það nú einu sinni í sér að við erum saman í félagi, sem við viljum gera sem best fyrir alla. Flokkar sem að vilja ekkert frekar en að einkavæða grunnþjónustuna okkar eru ekki að því til að bæta lífið fyrir alla, heldur gefa fáum tækifæri til þess að frá forskot í kapphlaupi þar sem allir eiga að eiga sama rétt.
-
Annarrs fórum við í Tívolí í gær, það var afbragð!

Kveðja Lalli

föstudagur, maí 19, 2006

bara fyrir lúða

Í gærkvöldi komu saman í Vínarborg ungir Íslendingar, sem gátu vart beðið eftir að sjá íslenskt spaug sent frá Aþenu í gengum tyrkneska sjónvarpstöð. Allir vita hvernig sjóferðin endaði, frumlegasta skipinu var sökkt af pú-skotum skilninglausra Evrópubúa.
Mér skildist að Silvía Nótt hafi sagt í viðtali eftir keppnina að keppnin væri bara fyrir lúða og þess vegna ættu íslendingar ekki að taka þátt. - Það er nú alveg ýmislegt til í þessu. Reykjavík á víst að vera ein svalasta borg í heimi og ég las það meira að segja síðast í dag í viðtali Der Standard við Hallgrím Helgason og fleiri, að Reykjavík og Ísland væri töff (tremma í hel?). Kanski er það bara málið, við eru töff og misskilin. Eyrún var svo að lesa áðan viðbrögð Íslendinga við þessum heimsögulega atburði, þar komu svör eins og: "Hún sýndi keppninni óvirðingu" og "hverskonar landkynning er þetta eiginlega?" - Hei, þetta er Júróvísjón og það þarf nú varla að sýna söngvakeppninni virðingu og þó að einhverjir hafi misskilið brandarann, þá þurfum við ekkert að skammast okkar. Svo er að mínu mati skárri landkynning að senda grínista, leikara, lífvörð og Siggu Beinteins út í heim að skemmta sér og okkur, heldur en að senda bimbó sem kemur fram á nærfötunum og talar endalaust um hvað allt í heiminum sé frábært.
Við erum bara misskilin og afrekin okkar eru ekki virt af verðleikum hjá frændþjóðum okkar á meginlandinu. Sama hvað við reynum að kaupa mörg misheppnuð fyrirtæki hjá þeim og gera þau góð, sama hvað við sendum góða tónlistarmenn að spila fyrir þá, þá eru þeir bara púaðir niður og gert grín að fötunum þeirra og sama hvað við reynum í alla staði að vera hress, þrátt fyrir að vera öll bullandi þunglynd 9 dimma mánuði á ári. Þá vilja þeir bara ekkert með okkur hafa og tala oftast bara um Víkinga þegar þeir hitta okkur.
Við erum bara öðruvísi lúðar, íslenskir lúðar. Með auðsæranlegt sveitastolt og okkar hrútar og hryssur eru alltaf flottust.

íslárus

þriðjudagur, maí 16, 2006

hér er næs, ógeðslega næs

Laugardagurinn síðast var ljúfur, sem geit. Við vöknuðum snemma og fórum ásamt öðrum Íslendingum í rútuferð á hestabúgarðinn Stefanshof (var það ekki?). Þar sem ungir og gamlir fengu að stíga létt á bak á nokkrum af þeim 70 íslensku hestum sem þar eru. Við gengum svo upp á hól þar rétt hjá þar sem mannvistarleyfar frá því á steinöld hafa fundist. Á hólum var fallegt útsýni og nokkrir virtust vera í húsbyggingarhug, það má alltaf bóka að Íslendingar sjái framkvæmdatækifæri þar sem þeir stoppa. Um hádegisbilið fengum við okkur bita og dreyptum á víni beint frá vínbónda í nágreninu. Vínið var hreinasta afbragð, við Eyrún keyptum eina flösku til að eiga á einhverjum góðum degi bráðum. Þegar við komum í bæinn settumst við unga liðið á pöbb og fengum okkur eina kollu áður en við héldum í Karokie - sem var ótrúlega hressandi hreint. Að loknu þessu löbbuðum við Eyrún heim, enda vorum við búin að fá okkur meira en fjögur rauðvínsglös og því ekki í standi til að keyra, og að auki eigum við ekki bíl.
-
Það er í það minnsta ein áhrif sem að hrakfarir Eyþórs gætu haft á aðra en Sjálfstæðismenn í Árborg, núna er hægt að fara á fullt skrið með herferð gegn ölvunarakstri. - Það er fyrir augum okkar dæmi um það hvernig er hægt að klúðra málunum með svoleiðis asnaskap, en þetta dæmi er lítilvægt vegna þess að enginn slasaðist eða lést. Hefur einhver labbað skakkt þegar hann hefur fengið sér örlítið of mikið í vinstri tánna? Flestir sem lesa bloggið mitt eru líklegir til þess, ásamt mér. Treystir einhvert ykkar ykkur til þess að keyra bíl á 50-100 km/hraða í því ástandi? Þetta er með því heimskulegasta sem fólk getur gert. - Svo við tölum nú ekki um mann sem er 10 dögum frá því að verða bæjarstjóri í örtstækkandi bæ, síðasta könnun sagði að Íhaldið hefði 51% þar. Úbbs.
-
Ég er bara búinn að fylgjast með þessu á netmiðlunum og sjá Kastljós viðtalið, þeir eru ekkert mikið að þjarma að honum. Enda kanski ekki ástæða til, atvikið dæmir sig og ökumanninn sjálft. Þetta veltir upp mörgum spurningum, t.d. hvort kjörnir fulltrúar eiga að vera "fullkomnir", eða hvort strangari reglur þurfi fyrir þá. Þegar við veljum okkur fólk í störf á vegum okkar, hversu mikils megum getum við ætlast til af þeim. - Fyrir og svo eftir kosningar. Er bæjarfulltrúi, bara fulltrúi bæjarins á meðan að hann er á fundi?
En annarrs þykja mér íslenskir fjölmiðlar vera ósköp ljúfir eitthvað undanfarið. Það vantar alltaf að þeir spyrji spurninganna sem að gætu komið einhverju af stað, opnað á eitthvað nýtt. Þeir taka allt of oft svörum viðmælandann sem sjálfsögðum hlut. - Vantar alltaf, en sorry, þetta meikar bara ekki sens hjá þér! (Svona fyrir utan DV, sem að spyrja líklega sjaldnast spurninga, bara skjóta)
-

Við keyptum hjól í dag og það meikar alveg sens fyrir mér!
Lalli

fimmtudagur, maí 11, 2006

surlaw eht ma i

Las það áðan að núna væri það fólk sem ákveður hvað það les og hvað það telur fréttnæmt en ekki ritstjórnir fjölmiðlanna, vegna þess að maður sækir þær fréttir sem maður vill lesa á netinu. Jú, auðvitað les maður ekki það sem maður hefur ekki áhuga á að lesa, en það hefur fólk alltaf gert. Núna eyðir maður meiri tíma í að athuga hvort vinir og kunningjar skrifi eitthvað sniðugt, en sjaldnast er það fréttnæmt, merkilegt eða þessháttar. Það sem helst hefur breyst er að núna les maður fréttirnar styttri og í copy/paste-stíl og oftar en ekki virðast þær eftir óreyndari eða "lélegri" blaðamenn, að minnsta kosti er á hverjum degi hægt að sjá fréttir sem eru með heimskulegum villum. Eins og að setja sama textann tvisvar inn eða svoleiðis, það myndi enginn maður skrifa svoleiðis. Ekki það að þetta trufli mig eitthvað mikið, núna les ég bara í staðinn, Fréttablaðið og Moggann og mbl.is, visi.is, ruv.is, diepresse.com. Svo að ég les sömu fréttina frá Reuters á sex mismunandi stöðum og á bæði þýsku og íslensku, ég bæti svo við enskum news.bbc.co.uk og globo.com.br ef ég er í stuði.
Hvernig væri að ég færi að skoða eitthvað annað á netinu, annars enda ég eins og hver? Tja ég veit það ekki ég þekki engan annan sem geri þetta...

annars fór ég í klippingu í gær.
lalli

mánudagur, maí 08, 2006

ég skokkaði á vegg

lausnin við gátunni sem enginn tók þátt í: Love street með The Doors - Undirtektirnar voru mjög litlar, í bæði skiptin commentaði enginn á færsluna, en þess má geta að þessi leikur var endurtekinn því enginn nennti að taka þátt í honum.
-I see you live on Love Street, there's a store where the creatures meet. I wonder what they do in there, summer sunday and a year. I guess I like it fine so far.

Ég skokkaði reyndar ekki á vegg, nema þá vegg lífsins sem umlykur alheiminn og stjórnar honum í brjáluðum dansi. En á skokk ferð minni hugsaði ég mikið um deyfð yfir miðbæ Akureyrar og lausn vandans.

Miðbær - duga gömlu skórnir hans Ronaldinho?
Stundum þá getur nýtt sjónarhorn hjálpað manni að skilja umhverfi sitt betur. Þegar ég fór í morgunskokkið mitt í Vínarborg í dag voru skipulagsmál á Akureyri mér ofarlega í huga. Sumum þykir það eflaust undarlegt, að ekkert meira spennandi hafi skotið upp í kollinum á ungu manni, en ég er nú einfaldlega bara þannig gerður. Ég hljóp af stað, beygði til vinstri og hljóp framhjá leikvelli, hönnuðum með þarfir barna og foreldra í huga, flottum leiktækjum og góðu skjóli og bekkjum svo að foreldrarnir geti lesið blaðið meðan börnin leika sér. Þegar ég hélt leið minni áfram tók ég eftir því að á húsunum voru nánast aldrei svalir, en á öllum neðstu hæðunum voru verslanir eða kaffihús. Svona hélt þetta áfram alla leiðina niður að stofnbraut sem liggur hringinn í kringum miðborg Vínar. Ég herti hlaupið til þess að ná grænakallinum, þegar yfir götuna var komið hljóp ég í hringi í öðrum garði, þessi er frægari og stendur fyrir framan ráðhús Vínar, fallega byggingu í Gothneskum stíl. Þar sat fólk og las, hópar skólabarna skoðuðu styttur af skáldum ljóða og tóna og menn byggðu svið fyrir sumarhátíð. Á þessu torgi stóð ég ásamt 120.000 öðrum jafnaðarmönnum að morgni 1.maí í fjölmennustu samkomu sem ég man til þess að hafa tekið þátt í. En ég var ekki í leiðangri til að frelsa heiminn núna, heldur hressa mig við. Eftir að hafa hlaupið milli styttna og blómabeða í dágóða stund var tími til þess að halda heim á leið. Önnur leið varð fyrir valinu og ég skokkaði áfram og þegar frá garðparadísinni var komið litu húsin alveg eins út og áður. Stórar blokkir, sem héldu áfram svo langt sem augað eygði, og allstaðar það sama, íbúðir án garða og verslanir. Þó svo að ég þekki aðrar borgir Evrópu ekki jafn vel og Vín, þá þykir mér líklegra en ekki að þær séu í svipuðum stíl. Þessi stíll er einmitt að sem heillar okkur smábæjar fólkið, við sjáum þetta í hyllingum og hugsum okkur að það yrði nú yndislegt að setja niður svona torg hjá okkur, nú eða sýki. En hvernig er þetta öðruvísi? Eins og ég tók eftir ná blokkirnar niður heilu göturnar, byggð á þeim tíma þegar aðeins þeir ríku gátu leyft sér að bæta við svölum og garðar voru eitthvað sem aðalsmenn leyfðu sér. Í seinni tíð hafa byggðirnar svo þróast út frá borgunum og í nýrri hverfi sem oftar en ekki svipar til okkar íslensku bæja. Afhverju ætti þá lausin á deyfð yfir miðbæjarlífi í íslenskum smábæ að vera að búa til hluta af því umhverfi sem gerir miðborgirnar svona heillandi? Ættum við að “feika” borgarstemmingu í smábænum okkar? Skoðum þetta frá örðu sjónarhorni. Ef að foreldrar þráðu ekkert heitar en sonur þeirra yrði heimsklassa fótboltamaður, sem hann væri þó ekki, myndi það breyta honum ef þau fjárfestu í gömlu skónum hans Ronaldinho? Nei, líklegast ekki því hina hlutina vantar. Það er ekki alltaf hægt að kaupa allt, menning er byggð á tilfinningu og því sem fyrir er. Ef að við setjum niður sýki í miðbæ Akureyrar og segjum að það eigi að vera í stíl við Ný Höfn í Köben, breytum við þá einhverju? En hver er þá lausnin á deyfð í miðbæ Akureyar? Fyrir mér er það nokkuð augljóst, við þurfum fólk en ekki fiska. Háskólagarðar eða svipaðar byggingar á Akureyarvelli myndu e.t.v. skila miklu, með fram því að hressa aðeins upp á miðbæinn. Svo myndi það líklegast ekki kosta Akureyarbæ 350 milljónir og íslenska ríkið 500? Og þeim gífurlegu fjármunum gæti verið varið á betri hátt, þjónustu við aldraða, skólamál og alla hina málaflokkana sem eiga ganga fyrir.


-
kanski að ég reyni að koma þessu á víðlestnari stað en þennan hér

lalli

föstudagur, maí 05, 2006

there is this store...,...

Jæja, er einhver þarna sem getur eitthvað í leiknum sem engu máli skiptir og öllum er sama um? Að þessu sinni, eins og reyndar alltaf áður er keppt um ekki neitt.
Botnið titilinn: there is this store...,...

Við Eyrún vorum að koma af reiðhjólauppboði, en þar voru engin fín hjól, bara skrítinir karlar að kaupa notaða gamla og ljóta gsm síma - bless
Lalli

fimmtudagur, maí 04, 2006

alltaf eins

Las það í dag að kvennréttinda félög á Íslandi væru að mótmæla vændi í þýskalandi, sem n.b. mun aukast á meðan HM er í sumar. Einhverjum körlum þótti þetta óþarfa hnýsni og undruðust að konurnar hefðu ekki setta þetta fram fyrr, en hvernær er betri tími en þegar augu heimsis beinast til Þýskalands. Eggerti Magnússyni þótti líka ömurlegt að fá ráðleggingar frá Kirkjunni sem hann sagði að ætti fyrst að líta í eigin barm. Hérna í Austurríki var um daginn skrípamynd af formanni SPÖ og formanni ÖVP, það er nú ekki frásagnarvert nema vegna þess að þeir voru einmitt báðir með fötur af skít á hausnum og bentu á hvorn annan.
Svo var á mbl.is sagt frá því hvernig Seðlabankinn liti á efnahagsmálin heima á Íslandi. Þar kom Davíð fram og lagði fram tillögur og bað ríkisstjórnina vinsamlegast að gera eitthvað. Einhver skítalykt af því líka. Að maðurinn sem stjórnaði Íslandi í rúman áratug og tók ákvarðanirnar sem leiddu til þessa ástands, standi núna illa lyktandi í öðru húsi og bað menn að moka úr skítabingnum sem hann skildi eftir sig.
Að lokum, Þorsteinn Gylfason skrifaði grein í Fréttablaðið þar sem hann gaf það í skyn að ráðning Davíðs í stöðu Seðlabankastjóra, hefði ekki einu sinni gengið í gegn í spiltustu Afríkuríkjum. Reyndar fannst mér eins og ég hafi áður lesið svipaða grein eftir hann, eins og einhverjir hafa líkast til lesið svipað blogg eftir mig.
--
friður,
lalli

mánudagur, maí 01, 2006

120.000 manna útifundur!

Þessi langa helgi er búin að vera dásamleg hjá okkur í Kupkagasse, við höfum farið í göngutúra í rigningu en annarrs höfum við verið heima og tekið því rólega, eldað góðan mat og horft á dvd. Á milli þessara ánægjustunda hefur Eyrún farið á kostum í vefsíðugerð og ég hef tjáð gremju mína varðandi 1.maí á Akureyri.
Ég vaknaði klukkan 08 í morun og heyrði strax í trumbluslætti inn um gluggan, svo ég bjóst við mannfjölda fyrir utan dyrnar mínar. En svo var nú ekki, ég missti greinilega af kröfugöngunni, enda vissi ég ekki af henni og gat því ekki mætt í hana. Ég gekk svo rösklega að ráðhúsinu í Vín og beið Jafnaðarmannanna, sem brátt komu í tugþúsundatali úr öllum áttum og af öllum stéttum. Skreittir fánum og kröfuspjöldum auk fjölda lúðrasveita og trommara. Þáttakendur í göngunni skiptu sér upp í fylkingar(félag járniðnaðarmanna sér, socialnemar osfrv.) og gengu þannig saman í hópum framhjá ræðupallinum þar sem kröfur þeirra voru lestnar upp. Undirlokin fluttu svo borgarstjórinn og formaður SPÖ ávörp. Þegar kröfugangan var búin var sólin farin að skína í Vín og fólk fór á "Rauða markaðinn" sem komið hafði verið upp hjá Burgtheater.

Eyrún var núna komin til mín og við fórum í aukakröfugöngu áleiðinni heim og hlýjuðum okkur svo með góðu kaffi í kotinu okkar.

Hoch 1.mai!
lalli

Alþjóðasöngur Verkalýðsins

Fram, þjáðir menn í þúsund löndum,
sem þekkið skortsins glímutök!
Nú bárur frelsis brotna á ströndum,
boða kúgun ragnarök.
Fúnar stoðir burtu vér brjótum!
Bræður! Fylkjum liði í dag -
Vér bárum fjötra en brátt nú hljótum
að byggja réttlátt þjóðfélag.
þó að framtíð sé falin,
grípum geirinn í hönd,
því Internationalinn
mun tengja strönd við strönd

Á hæðum vér ei finnum frelsi,
hjá furstum eða goðaþjóð;
nei, sameinaðir sundrum helsi
og sigrum, því ei skortir móð.
Alls hins stolna aftur vér krefjumst,
ánauð þolir hugur vor trautt,
og sjálfir brátt vér handa hefjumst
og hömrum meðan járn er rautt
þó að framtíð sé falin o.s.frv.


Vér erum lagabrögðum beittir
og byrðar vorar þyngdar meir,
en auðmenn ganga gulli skreyttir
og góssi saman raka þeir.
Nú er tími til dirfsku og dáða.
Vér dugum, - þiggjum ekki af náð,
Látum bræður því réttlætið ráða,
svo ríkislög vor verði skráð.
þó að framtíð sé falin o.s.frv.

Höf.: Eugén Pottier
Þýðing Sveinbjörn Sigurjónsson

laugardagur, apríl 29, 2006

there is a store where the... ,...

Ef einhver las síðasta blogg, þá þótti það einhverjum líklegast "halló", en svona er það bara. Sama þó að fólk vilji ekki mæta á útifund, íþróttaviðburði, listasýningu eða hvaða w.t.f.-hlut sem er, þá er það ömurlegt að þeir sem eiga að skipuleggja viðburðinn leggji árar í bát: Ekki hefur Glímusamband Íslands hætt störfum þrátt fyrir að enginn sýni því áhuga. Heimurinn er bara svona núna, kaldur og harður, með sprengjuregni og fátækt en við þurfum samt sem ekki að taka því þegjandi og hljóðalaust. Hvar eru t.d. allir þeir sem kveða um vandamál heimsins í rokk og rapptextum þegar kemur svo að því að taka á hlutunum, vandamál heimsins verða ekki leyst yfir kollu af bjór, þó það sé ljúft að ræða þau yfir slíkri. Hvar eru svo líka kynslóðin sem ól upp mína kynslóð? Ættu þau ekki að láta sjá sig...
Nei, ef til vill ekki, en það er nú bara svona, blessað frelsið..
--
En til að létta aðeins andrúmsloftið á blogginu þá ætla ég að skella inn öðrum leik, sem engu máli skiptir og veitir enginn fríðindi (hvorki hjá Iceland Express né Iceland Air). Það eina sem leikurinn á að veita er ánægja, sem að sjálfsögðu skortir í heiminum...
Enn og aftur er spurt botnið Titlinn á blogginu. (svo væri hljómsveitar og lags nafn vel þegið)
there is a store where the... , ...

ykkar óvenju-harðorði bloggari
Lalli

föstudagur, apríl 28, 2006

28. apríl, í tilefni af 1.maí

1. maí kröfugöngur á Íslandi eru um það bil að deyja. Til dæmis verður engin kröfuganga á Akureyri á mánudaginn næsta, þess í stað er bara skemmtidagskrá og kökuhlaðborð. Stjórnarmenn í alþýðusamböndunum segja að kröfugangan sé barn síns tíma, og það sé ekki áhugi fyrir hendi að taka þátt í kröfugöngum, né öðrum baráttuaðgerðum. Það að ekki sé áhugi fyrir hendi er í sjálfu sér ekki óeðlilegt á Íslandi, landi þar sem meira en nóg virðist vera af öllu en hugmyndin á bak við félagshyggju og samstöðu verkamanna er að gruninum til ekki bundin við einstök bæjarfélög og þegar að við höfum náð ákveðnum árangri þá á það ekki að þýða að baráttunni sé lokið. - Öreigar allra landa sameinist - Ekki það að alþýðusamböndin eigi að marsera taktfast á eftir marxískum hugsjónum, þá er ömurlegt að þeir leggi árar í bát og hætti við kröfugöngu. Kanski sýnir þetta öðrufremur að þeir sem eru í fremstu línu til að berjast fyrir réttindum launafólks, séu ekki með hugsjónir og réttlætið að leiðarljósi. Til dæmis eru lög að ganga í gildi sem opna íslenskan vinnumarkað fyrir vinnuafli frá nýju ESB-löndunum. Í landinu eru starfandi leigumiðlanir sem að borga verkamönnum lægri laun en samið hefur verið um, þetta er til dæmis hluti af þessu alþjóðlegasamhengi sem ég minnist á.
Rjómartertuát er ágætt, en ekki leiðin til þess að halda á lofti hugsjónum félagshyggju og réttlætis í heiminum! Það er ekkert mál að sameina baráttu og gleði í eina hátíð, en það verður þá að gera það almennilega, og ekki hætta baráttunni þegar okkur líður vel. Það minnsta sem hægt væri að gera er að heiðra minningu þeirra sem að ferðuðust um landið þvert og endilangt til að taka á gráðugum kapitailistum. Það er nefninlega ekki langt síðan og réttindi komu ekki til okkar að sjálfu sér. Ekki bara rétturinn til að fá veikindafrí.. ect. ect. ect. Nánast allt sem við sjáum fyrirframan okkur í dag eru hlutir þurfti að berjast fyrir = frelsi til að vera þú sjálfur.

Ég hugsa að ég rölti niður á Ráðhústorg í Vínarborg og taka þá í útifundi sem að verður haldinn kl:09 þann 1.maí.

Lalli

miðvikudagur, apríl 26, 2006

fagurt galaði fuglinn sá

Ég er búinn að fara í tvo fyrirlestra í skólanum, ég hef skilið þá og glósað slatta, en ég er ekki alveg kominn á það stig að geta velt þessu fyrir mér á staðnum: fundið svör og spurt spurningar, en það kemur.
Í gær horfði ég á Lord of War, mynd um vopnasala sem var leikinn af Nicolas Cage. Fyrir myndina var auglýsing frá AI þar sem AK-47 hríðskotabyssa var seld í sjónvarpsmarkaði og auglýst "svo einföld að jafnvel barnahermenn geta notað hana". Myndin var í svipuðum tóni, kaldhæðnum og beittum, ég hvetþig hér með til þess að kíkja á hana. Í endann (ég er ekki að gefa upp neitt plott...) var bent á það að fimm lönd sem eiga fastsæti í Öryggisráði S.Þ. séu stærrstu vopnasalar heims.En svo eru auðvitað G8- löndin eru öll í þessu.

Heimsósóma fífla asni!

Friður,
lalli

sunnudagur, apríl 23, 2006

fáfræði fagurgala

Ég get byrjað í skólanum fyrir alvöru í vikunni, eftir því sem ég sé best á netinu er reyndar ekki tími á morgun, sá fyrsti ætti að vera á þriðjudaginn. Markmiðið fyrir þessa önn er að verða enn betri í þýsku, læra á kerfið í skólanum og standa mig í þeim tímum sem ég kemst í. Ég ætla að sjá til hvernig þeir eru áður en ég kem með lýsi því yfir að ég nái eða falli.

Undanfarna viku hefur verið umfjöllum um Kína í "Die Presse" sem ég fæ ókeypis sent heim til mín daglega. Tækifæri og hættur er þessi umfjöllun kölluð, stundum finnst mér eins og vesturlandabúar sjái tækifærið sem sitt tækifæri til að græða en ekki tækifæri íbúa Kína til þess að lifa betra lífi. Landið er ógnarstórt og íbúarnir komnir vel yfir milljarð og ennþá lifir yfir helmingurinn af landinu. Mætti túlka það svo að iðnbyltingin er ókomin til Kína? Nei það væri ekki rétt enda eru borgirnar þar stórar og framleiðsan mikil, en hún er ennþá á leiðinn til mikils hluta íbúanna. Og aðstæður á vinnumarkaðnum eru villandi, vinnulöggjöfin er öflug og eftir vestrænni fyrirmynd en það er ekki alltaf farið eftir henni. Ef að allir þessir íbúar myndu móta sér sama neyslulífstíl og við á vesturlöndum myndu auðlindir heimsins vera klárast á skömmum tíma. Kanski er best að þakka fyrir að þeir gera það ekki. Eða hvað? Ef þessi "ógn" væri ekki til staðar, já "ógn" því afhverju ætti velmegnun milljarðs manna að ógna okkur? Jú því hún gæti dregið úr okkar. Ef þessi ógn væri ekki til staðar þá værum við ekki að hugsa okkar gang. Það sem verst er að ráðamenn einbeita sér frekar að því að berjast um síðustu olíuna heldur en að leggja peningi í rannsóknir. Hvað ætli stríðin undanfarin ár hafi kostað mikla olíu?

Ég verð samt sem áður líka algjörlega stíflaður í hausum á því að hugsa um þetta, hvað veit ég um Kína og heiminn? Kanski meira en margir og minna en sumir. En almennt þá er maður skammarlega fáfróður um heiminn og þá sem hann byggja.
Svo ég ætla í bili að hætta að skrifa og lesa þess í stað.
kveðja úr Kupkagasse,
Lalli

laugardagur, apríl 22, 2006

0987654321°

Ætli kreppa sé á næsta leiti? Krónan stefnir upp upp og upp á fjall og olíuverð líka. Íranar virðast ætla að koma sér upp atómbombu og þá eiga nú allir eftir að verða spinnegal. Svo las ég það um daginn að Brasilíu menn séu með svipaða stefnu í kjarnorkumálum, það er auðga meira úran og svo gætu þeir átt nóg í sprengju. En það er augljóslega munur á utanríkisstefnum landanna, Brassar eru óneitanlega betur liðnir en Íranar, svo þeirra sprengja er ekki jafn stórt mál fyrir stóru strákana/freku strákana.
-
Það er sólarsömbu veður í dag og hefur verið undanfarna daga.
samba-lalli

miðvikudagur, apríl 12, 2006

afsakaðu

Við Eyrún komum heim frá Essen í dag, við skelltum okkur í ferð yfir helgina, í upphafi páskafrísins. Við fórum að sjálfsögðu með lest, á leiðinni til Þýskalands fengum við tveggja manna klefa þar sem morgunmaturinn okkar var borinn inn í klefann og annað fínerí. Við keyptum okkur nú bara svoleiðis miða því aðrir svefnklefamiðar voru ekki í boði. Á Laugardeginum var Dóri að keppa, við Eyrún fórum með Hönnu og krökkunum á leikinn og hrópuðum áfram Tusem. Honum lauk að sjálfsögðu eins og þeirra var von og vísa, með sigri, þeim 28. í röð og því eru Essen komnir upp um deild eins og reyndar ljóst var fyrir löngu. Leikurinn endaði 27-34 Essen í vil, og reyndar voru þeir komnir í 10 marka mun á tímabili, en þá fengu óreyndari menn að spreyta sig í leiknum. Eftir leikinn fórum við fullorðna fólkið svo út á lífið með liðinu og skemmtum okkur vel. Liðsfélagar Dóra eru flestir hressir, Helmuts markmaður sagði mest megnis "danke" og ruglaði svo í fólki, á meðan að Hvít-Rússinn Igor sagði mér frá stjórnmálaástandinu í heima landinu sínu. Við tókum svo aftur lestina til baka, en fengum okkur bara pláss í 6 manna klefa, enda er annað bruðl og vitleysa.
--
Eftir tvo tíma fáum við svo heimsókn, en mamma og pabbi Eyrúnar ásamt systrum hennar eru á leiðinni frá Bratislava. Páskarnir verða því íslenskir í Kupkagasse og við fáum ef til vill íslenskt lambalæri og ef við verðum heppin súkkulaði... En alveg pottþétt góða gesti sem njóta páskanna með okkur.
--
Þýskaland er um það bil að missa sig í heimsmeistaramóts brjálæði, auðvitað eru þeir með duglegir við að ná í auglýsingasamninga og reyna að selja sem mest tengt mótinu. En þegar ég sá "baðlínu" (sápur, handklæði, bursta og ilmkerti) í fótboltamynstri og þýskum fánalitum var mér öllum lokið. Svo ég settist dapur niður undir næsta tré og grét....
--
Ef til vill á eftir að vera lítið um færslur yfir þessa páska, ég vona nú samt að ég verðir ekki svo uppáþengjandi gestgjafi að ég gefi gestunum ekki frí frá mér í minnsta kosti 10 mínútur til að pikka inn á veraldarvefin skilaboð til páskahéra..

Hinn fornfrægi spurninga- og skemmtileikur sem skiptir engu máli er hér með tekinn upp aftur á síðunni.
Botnið titilinn á þessari bloggfærslu rétt: Afsakaðu...

Lalli í Vínarborg

miðvikudagur, apríl 05, 2006

1,2 og byrja!

Tók eftir því við lestur á Morgunblaðinu í dag að það er kominn í kosningaham, í það minnsta farinn að hita upp fyrir þær. Það er því ekki seinna vænna en að miðillinn ykkar La Rusl, geri slíkt hið sama, enda hef ég löngum fylgt Mogganum eins og skugginn og lýg ekki frekar en hann. Grein eftir borgarstjórann í Reykjavík var neðst niðri á milli tveggja síðna, en sprelligosinn Kristján Þór bæjarstjóri á Akureyri var með svo gott sem alla miðopnuna. Hana notaði hann til að skjóta nokkrum skotum á Samfylkinguna á Akureyri, og sakaði hana um alla mögulega hluti. Þó helst að gagnrýna hann og hans hugmyndir, þó svo að það sé einmitt í þeirra verkahring núna að gagnrýna hann og leita leiða við að bæta það sem slæmt er, nú eða þegar það á við gott er. Hann ætti að taka sér þetta til fyrirmyndar, enda vilja 64% íbúa bæjarins fá nýjan meirihluta að loknum sveitastjórnarkosningum og því tímabært fyrir hann að læra þetta.
Staksteinar Morgunblaðsins sviku ekki í dag frekar en fyrri daginn, Mörður Árnason fékk meira að segja mynd af sér birta þar, þegar þeir fjölluðu almennt um þingmál. Það er nokkuð góður árangur, satt best að segja mjög góður hjá Mirði.
Undarlegt að á Íslandi skuli enn þann dag í dag vera starfrækt flokksblað, blað sem geri daglega, með ritstjórnarstefnu sinni, upp á milli íbúa 300.000 manna þjóðar vegna skoðana þeirra.
Við þetta er svo að bæta. Undanfarið hefur Mogginn hamrað á því að ofbeldisalda fari yfir landið og óþjóðalýður sé út um allt að hrella sakleysingja. Helgi Gunnlaugsson félagsfræðingur sendi þeim bréf í dag og benti á að frá 2000 hafi ofbeldisverkum fækkað um 20%.

Nú jæja, þetta virkar víst hjá þeim að hafa þessa stefnu, hvað skrifaði hinn virti miðill La Rusl um í dag? Jú blessaðan íhaldssepilinn Moggann;)

bis später,
lalli

mánudagur, apríl 03, 2006

sonne

Heimurinn, íbúar hans og lífið eins og það leggur sig, er asskoti lúnkið við það að laumast upp að manni og koma manni á óvart. Stundum þegar að lífið virðist, fyrir manni sjálfum a.m.k., bara snúast um eitthvað eitt. Þá gæti bara eitthvað allt annað verið á seyði. En svona er þetta dularfullt. Ef til vill væri það ekki eins áhugavert ef það væri einfalt, en þrautir eru til að læra af þeim.
-
Nóg komið af "hálf"spekilegum vangaveltum mínum sem ég efast um að fólk átti sig á.
-
Laugardagurinn var með afbirgðum fallegur dagur og góður. Veðrið lék við íbúa Vínarborgar, sem þökkuðu fyrir sig með því að leika við aðra íbúa í almenningsgörðum og hér og hvar. Við fórum út um þrjú leitið og hittum Jón og Pál, Pál þessi er frá Tirol og er í söngnámi hérna, Gilli lét líka sjá sig. Við stoppuðum á sushistað á Naschmarkt og eftir fullnægjandi át á hráum eldislaxi og tilheyrandi meðlæti fórum við í Burggarten. Settumst niður á grasið og spjölluðum saman og dreyptum á öli. Jón æfði sig á einhjólinu sínu og Pál sýndi listir sýnar með "diablo". Svo fundum við hóp af pitlum í hakkísakk, þeir voru rosalega færir að sýna listir og gera trix, en spörkuðu honum sjaldnast oftar en 4 sinnum á milli manna.
Þegar sólin faldi sig bak við byggingarnar í kring héldum við heim á leið og bökuðum saman pizzu fyrir hópinn. Afar ljúft og gott allt saman.
-
Í gær lituðum við Eyrún hárið hennar, svo hún verði glæsileg á tónleikunum í vikunni. Hún á eftir að standa sig vel.
-
En núna er það skólinn... þetta verður undarlegur tími að byrja í námi á þýsku, usss;)

lalli

fimmtudagur, mars 30, 2006

röð

Enn einn daginn byrjaði ég á því að fara í Ölweingasse og athuga hvort mér hefði borist bréf, og hvað haldið þið? Auðvitað barst mér ekki bréf frekar en liðsforingjanum hans Marquez. En ég var búinn að segja sjálfum mér það að ef ég ekkert bréf hefði borist, þá færi ég bara niður eftir og heimtaði að fara í skólann. Ég mætti tveimur klukkutímum áður en tekið yrði á móti umsækendum, það tyggði mér pláss fremst í röðinni. Ég þurfti reyndar að reka nokkra tyrkneska raðartroðara aftur fyrir mig áður en hurðin opnaðist en ekkert mannfall varð samt við það. Þegar ég kom inn sagðist ég fyrst þurfa að breyta heimilsfanginu mínu og gaf upp bearbeitungsnummer-ið mitt og viti menn, herramaðurinn bak við borðið sagði að þeir væru búnir að svara umsókninni minni og sent svarið á Klettaborg 9. Jæja, svarið var jákvætt og því er ég búinn með þessa raða vitleysu í bili. OG ÉG ER KOMINN INN Í HÁSKÓLANN!

takk og bless,
lalli

p.s. ég þakka líka þeim sem buðust til þess að meiða manninn bak við dyrnar um daginn. En þess má geta að hann var ekki á staðnum í dag. Sjálfsagt misst vitið og vinnuna um leið.

miðvikudagur, mars 29, 2006

í tunglskugga

Ég sit núna í nýju íbúðinni og horfi á tölvuskjáinn, fyrir stuttu síðan horfði ég í gegnum plastfilmu og sá hvernig tunglið skyggði á sólina. Í Nígeríu hafa stjórnvöld sent út þá tilkynningu að sólmyrkvi sé ekki upphafið að endilokum alheimsins, en einhverjir íbúanna brugðust víst harkalega við síðasta sólmyrkva þar í landi. Dæmi um grátbroslega fáfræði, sem er auðvitað ekki á nokkurn skapaðan hátt fyndin en engu að síður.. Tja það er bara ekki allt alveg eins í þessum heimi.

Til dæmis er Berlusconi með eindæmum undarlegur karakter, á meðan aðrir stjórnmálamenn í heiminum láta út úr sér dularfullar setningar eins og "það geta ekki allir farið heim af ballinu með sætustu stelpunni, svo maður verður bara að finna sér eitthvað jafngott". Þá þykir honum mikilvægt í miðri kosningabaráttu á Ítalíu að fjalla í ræðu um meint barnaát Kommúnista í Kína á tíma Maos formanns. Það er auðvelt mál að setja út á mannréttindamál í Kína, en hvort þeir hafi kerfisbundið soðið börn til manneldis og áburðarframleiðslu? Rökin fyrir slíkum fullyrðingum þyrftu að vera algjörlega skotheld til þess að forseti lands geti látið hafa þau eftir sér.

En annarrs er ég bara að lesa mig aftur í tímann í þessa viku sem ég var án sambands við netheiminn, það breyttist svo sem ekkert, enda var varla við því að búast. Því að "heimurinn er alltaf eins hann breytist bara smá, en við getum ekki sé það því við horfum bara inna frá. "

lalli

mánudagur, mars 27, 2006

nýtt hús

Jæja þá er netið komið í nýja húsið, í þessa einu netlausu viku hefur heimurinn haldið áfram að snúast á þess að ég fylgist náið með honum. Það kom mér ótrúlega mikið á óvart, ég bjóst satt best að segja ekki við því.
Mamma og pabbi komu í heimsókn í vikunni sem leið, þó að maður eigi að heita fullorðinn þá er óneytanlega gott að hafa mömm' o pabba hjá sér.
Eyrún er búin að vera á fullu að æfa og núna sýna kórhlutverk í óperu með skólanum, það er bekkurinn hans Jóns sem setur hana upp og Jón fer með nokkur hlutverk og gerir það bara ljómandi vel. En Eyrún stendur sig auðvitað langbest.

bis später
lalli

miðvikudagur, mars 15, 2006

vandræði

Frá Ólafi Sindra: Segðu frá vandræðalegasta (eða a.m.k. mjög vandræðalegu) augnabliki í lífi þínu, og drekktu einn bjór á meðan þú skrifar. Það er mjög mikilvægt að þessi bjór sé drukkinn, því annars er leikurinn ónýtur. Síðan skorarðu á nokkra aðra að gera það sama, en þú verður að drekka aukabjór fyrir hvern einstakling sem þú skorar á.


Ég hef oft og tíðum hugsað um það að ég hljóti að vera óvenjulega minnugur maður, ég man eftir ýmsum hlutum, atburðum og samtölum sem ég hef átt við fólk langt aftur í tímann, a.m.k. eins langt og mín ævi og minni nær til. Þegar kemur að því að rifja upp vandræðalegt augnablik fyrir tilstilli áskorunar Ólafs Sindra, þá rekur ekki einn einasta svera rekaviðardrumb á fjörur minninga minna. Hvort það þýðir að ég sé með eindæmum heppinn maður eða óskeikult minni mitt loki á vandræðalegar minningar skal ósagt látið. Í það minnsta eru þær sögur sem ég gæti rifjað upp barnaleikur og í rauninni ekki hót vandræðarlegar, þegar þeim er stillt upp við hlið sögunnar hans Ólafs Sindra. Þá sögu hvet ég ykkur eindregið til þess að lesa, enda er hún einfaldlega vandræðaleg.

Þegar ég var í Brasilíu lærði ég ýmsa nýja hluti, ég tókst á við aðstæður sem þroskuðu mig og leiddu nær þeim einstaklingi sem ég er í dag. Samskipti við fólk af ólíkum uppruna voru án vafa einn af þessum hlutum. Þessi saga fjallar einmitt um það. Ég var staddur ásamt þremur öðrum skiptinemum í glæsilegu húsi, sem fjölskylda stelpunar sem var heima hjá mér átti. Við vorum búin að hafa það gott í heilan dag, liggjandi í sólbaði, dansandi samba með fótbolta á tánum og Capirinha í glasi syngjandi “Girl from Ipanema”. Eftir þetta vorum við Jay orðin hálfþreyttir á þeim Jennifer og Ann-Ev, svo ég ákvað sem hluta af tilraun í samskiptum við fólk af öðrum uppruna að athuga hvernig það væri að henda einni bandarískri og einni þýskri stelpu út í sundlaug ásamt bandarískum strák. Athöfnin sjálf gekk ágætlega eftir, fullklæddar stúlkur enduðu skríkjandi í sundlauginni og við það að lenda í henni æptu þær, “þið skuluð fá að kenna á því!” Ég sem trúgjarn og minnugur ungur drengur treysti Bandaríkjamanni og Þjóðverja ekki frekar en svo til hefndarverka að ég tók á rás og hljóp á fullum krafti rakleiðis á glerhurð sem skildi bakgarðinn frá stofunni. Sem betur fer eru foreldrar Biu efnaðir og höfðu því splæst í hert öryggisgler svo ég braut það ekki. En á ennið fékk ég horn, kinnin varð blá en gleraugun sluppu. Eftir að hafa ætlað að vera rosalega fyndinn og þar á eftir sleppa við illgirni hefndarverka stúlknana endaði eftirmynd af andlitinu mínu á glerhurð og ég varð að hlátursefni.

Ég kvet Atla, Nesa , Heimi og Jón til þess að gera vandræðum sínum góð skil og gleðjast yfir líð á meðan.
Lárus

að mörgu að hyggja



Við Eyrún erum á fullu í pökkunar- og flutningahugleiðingum, við eigum ekki mikið af dóti hjá okkur. En það tekur samt sinn tíma og svo verðum við líka að flytja heimilisfangið okkar á nýja staðinn og þess háttar.
Næsta helgi verður svolítið strembin hvað það varðar. Fyrst hjálpa ég Örvari og Þóru, sem búa núna í húsinu, að flytja út, svo byrja ég að flytja eitthvað af okkar dóti yfir í nýju íbúðina. Vonandi get ég fengið flutningabíl á föstudeginum og þá flytjum við þvottavélina og nokkra kassa. Ef ekki þá gerum við það eftir hádegi í laugardaginn. Þá getum við tekið til í Ölweingasse og verðum vonandi laus undan henni. Milli klukkan 8-11 á laugardaginn koma svo hraustir sveinar með IKEA-húsgögnin okkar og bera þau upp á fjórðu hæð. Þá ætti allt að vera komið inn, þá tekur við að skrúfa saman húsgögn frá IKEA:) Það verður nóg af þeim á staðnum...

Vonandi get ég svo byrjað í skólanum í næstu viku, en ef allt gengur eftir þá fæ ég bréf frá skólanum á þriðjudaginn. Núna er ég að lesa bók um stjórnmálasögu Austurríkis, kanski er bara best að halda því áfram..

meira blogg síðar...
lárus

laugardagur, mars 11, 2006

ég er þyrstur sósíalisti

2. gr.: "Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi..."

Eruð þið ekki að grínast, ef einhvern tíman þarf Gúttóslag númer tvö og að stjaka við Sigurði Kára (segi ég sem friðarsinni), þá gæti það verið núna. Ekki ætla ég að hvetja til ofbeldis, en þetta mál er samt gríðarlega mikilvægt. Eftir hundrað ár verður Kárahnjúkavirkjun e.t.v. verðlaust mannvirki, en þá þurfum við samt að drekka vatn!
Vatn er ekki verslunarvara og það er ekki hægt að eiga það sem öll jörðin þarf til að lifa! -Nema hvað þá verður fyrst hægt að segja, "ég þarf að gefa blómunum að drekka"

Í dag sá ég Írana mótmæla á Graben, þeir mótmæltu Ajatollunum sem stjórna landinum þeirra og voru með myndir af sósíalistum sem hengu úr vinnukrönum vegna skoðana sinna og kúguðum konum. Ég studdi þá, enda stoppaði ég við mótmælaspjöldin og las.
Það er margt sem er undarlegt við þessar þjóðir og oft skil ég þær ekki, en mannréttindi eru að mínu mati ekki afstæði, því við erum bara fólk.

lalli

fimmtudagur, mars 09, 2006

bókasafnsferðir


Ég er að hugsa um að stofna ferðaþjónustu fyrirtæki sem sérhæfir sig í bókasafnsferðum milli landa. Þá geta bókaormar allra landa sameinast og farið í hópferðir milli landa og safna.
Mér datt þetta í hug í dag eftir að hafa farið á stærsta bókasafn sem ég hef kom í og varð hissa á úrvalinu. Þar voru ýmsar bækur sem ég gæti hugsað mér að lesa, ég tók með mér heim bók um stjórnmál í Austurríki. Hún gæti komið sér vel ef ég kemst í háskólann, en ef ég kemst ekki í hann, þá les ég bara endalaust á þessu safni og finn mér vinnu og........ NEI! lalli þetta má ekki segja, því ég fer í þennan bölde háskóla. Og vitið þið hvað ég ætla að vera jafn ánægður með háskólann og ég var mað seðilinn hans Jóns!

Lalli

miðvikudagur, mars 08, 2006

það er fátt leiðinlegra en að bíða eftir svari
fátt leiðinlegra en fá loforð og svo er ekki staðið við það
leiðinlegt er að drekka of heitt kaffi
það er fátt leiðinlegra en að vita ekki alveg hvernig maður á að bera sig að
fátt leiðinlegra en tala við Frau Dehimi
leiðinlegt er að bíða eftir því að kaffið kólni og bíða of lengi

-lallinho eða lallaou

þriðjudagur, mars 07, 2006

mynd

sólargeislum rignir yfir mynd

þetta er fallegasta mynd gjörvallrar veraldar sögunnar

teiknuð af heimsins besta eintaki af mannskepnu

undir áhrifum allra góðra verka og hugmynda

lítil börn hlægja en fullorðnir standa undrunar vegna agndofa

teiknarinn hvílir sig

leggur, frá sér litina og augun aftur

setur hönd í vasann og tekur upp eldspýtur

myrkur

gjörvöll veröldin lokar augunum

og grætur

því í myrkrinu skynjar hún tilgangsleysi

og hún man ekki að sólin kemur upp á morgun

það sem skipti engu máli

skemmdi heiminn

fimmtudagur, mars 02, 2006

lítill leiðangur

Nú rétt í þess var ég að koma heim úr leiðangri sem bar vinnuheitið "myndir af múhamed og fuglaflesa". Leiðangur þessi var gerður út af Lárusi Heiðari Ásgeirssyni en óafvitandi styrktur af Eyrúnu Unnarsdóttur. Vopnaður skáldsögu eftir Gabriel Garcia Marquez, One Hundred Years of Solitude og Konica Minolta stafrænni ljósmyndavél hélt ég á vit ævintýranna á slóðir keisara og keisaraynja í Schönbrunn Schloss garðinum. Það tók á að komast huldu höfði dulbúinn sem ferðamaður en ekki leiðangursmaður inn í garðinn, en með þeirri snilli að taka mynd af höllinni að framan eins og asískur túristi tókst það með naumindum. Þegar inn í garðinn var komið tók ég eftir því að njósnarar höfðu komið sér fyrir aftan við sjálfa höllina dulbúnir sem verkamenn. Til að vekja ekki á mér grunsemdir settist ég á bekk og gluggaði í bókinni, á blaðsíðu 61 starði ég milli þess sem ég sá hvaða fuglar voru á svæðinu. Fyrir aftan mig voru endur, að öllum líkindum nýkomnar til landsins, fyrir faman mig voru mávar og krákur. Þegar að Neptunbrunninum var komið tók ég mynd af styttunum og velti því fyrir mér hvort þeim væri ekki kalt. Síðan laumaðist ég til þess að taka mynd af skilti sem boðaði bann við því að fóðra fuglana. Ég gekk því næst upp brekkuna, framhjá dýragarðinum og sá þar örn sem virtist hress, en engu að síður skynjaði ég hræðslu hans. Ofar í garðinum sá ég heimskar dúfur og lítinn sætan fugl sem stillti sér upp fyrir myndatöku, hann var greinilega athyglissjúkur því hann hætti ekki uppstillingunum. Á sömu stundu og ég áttaði mig á tvöfeldni hins athyglissjúka smáfugls heyrði ég bank, aftur og aftur, það var spæta. Ég gekk örlítið áfram og sá spætuna hátt upp í tré, senda morsskilaboð til allrar fugla í skóginum að ég væri kominn! Bölvuð spætu álkan! Meira að segja íkornarnir skildu hvað hún átti við og hlupu í skjól í hvert sinn sem ég nálgaðist. Vonsvikinn eftir þennan hörmulega endi á þessum hluta leiðangursins rölti ég fram hjá Gloriette og gekk þar fram á endur sem lágu við hliðina á háu tré. "Eruð þið með flensu?" spurði ég. Ekkert svar, líklega voru þær hásar og þar með fársjúkar.
Hinn hluti leiðangursins var leit að mynd af múhamed, ég fann enga mynd en ég fann tvo hryðjuverkamenn. Það voru ítalskir vinstrisinnar, fyrrverandi liðsmenn Rauðu Herdeildanna, sem sátu á bekk í garði dulbúnir sem arabískar konur.

--
Lalli

þriðjudagur, febrúar 28, 2006

:( ?

Ég er þreyttur, fúll og töluvert pirraður núna. Ahverju? Jú, síðustu tvo daga er ég búinn að bíða í röð í tvo klukkutíma í senn og bíða eftir að fá að tala við pirraðan starfsmann UniWien. Um daginn söng ég "ég er frjáls", en núna langar mig mesta að hverfa ofnan í iður jarðar og koma til baka með brennandi heita kviku og gefa gaurnum á bak við ljótu hurðina að borða. - Nei ætli það ekki, það væri fulllangt gengið.
En í gær gat hann ekkert gert fyrir mig vegna þess að ég var með frumrit af gögnunum sem sanna þýskukunnáttu mína og í dag tók hann við ljósriti af þeim en sagði að ég þyrfti að bíða í 3 vikur eftir að fá að vita eitthvað meira. Samkvæmt öllum mínum upplýsingum byrjar skólinn eftir næstu helgi! Ég var ítrekað búinn að fara og tala við "student point" í skólanum og spyrja hvort ég gæti gert eitthvað fyrr en ég væri kominn með F3-útskrif, nei var svarið. Og ég heyrði það rétt, Eyrún er vitni, og svo fékk ég líka 10 í hlustun á helvítisprófinu...

Kanksi fer ég bara aftur á morgun og bíð í röðinni, mæti kanski fyrr, ekki 20 mínútum fyrir opnum heldur klukkutíma. Ég efast stórlega um að Universtität Wien sé einn af 100 bestu háskólum í heimi, en ef hann er þar þá er það ekki vegna þjóunustu við nýnema!

sunnudagur, febrúar 26, 2006

þorrablót

Gærdagurinn var góður, ég vaknaði snemma og las Morgunblaðið og Fréttablaðið og svo fórum við Eyrún í Badminton. Ég stóð mig betur en í hin skiptin en á ennþá langt í land með að fullkomna hæfnina og ógna Eyrúnu eitthvað að ráði í keppninni um "Hinn ógnar mikilvæga titil milli Lalla og Eyrúnar í Badmintonkeppni sem ekki er til".

Um kvöldið var síðan haldið á Þorrablótið, þar var sungið, helgið, drukkið, spjallað og síðast en ekki sýst þá var etið. Ekki voru trogin tómleg, heldur svignðu borðin af íslenskum kræsingum: rúgbrauð, flatkökur, síld, reyktur lax, harðfiskur, slátur, hákarl, hrútspungar, lundabaggar, hangikjöt, rófustappa, svið, sviðasulta, kartölfur í uppstúf og íslenskt smjör. Ég tók bara nokkuð vel á því í átinu og skemmti mér hið besta. Við Eyrún löbbuðum heim þegar okkur þótti nóg komið og það verður að teljast afar vel til fundið hjá okkur, enda ekki til betri aðferð til að jafna sig á bjór og brennivíni en að labba í örlitlum kulda og spjalla saman. Svo eigum við inni í ískáp smá nesti sem við tókum með okkur, 2 kjamma og pínu lítið smjör:)

Mér þótti skemmtilegt að hitta marga íslendinga sem ég hafði ekki áður hitt, auðvitað var líka gaman að hitta hina, það er ekki eins og maður hitt þetta fólk á hverjum degi.

Á morgun fer ég svo í háskólann og skrái mig, vonandi gengur allt vel í því...

lalli kjammi

föstudagur, febrúar 24, 2006

frjáls


Förum út til að fagna,
lyftum freyðandi skálum
gleði og ánægju aukum
öllum leiðindum kálum
alsæll er ég því orðinn
og er einhvern við skála:
"ég er frjáls!"

lalli syngur í tilefni af því að hafa lokið þýskunámskeiði!

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

tröll



Stjórnmálaþurs


Þú ert vanaföst, tilfinningarík félagsvera.

Í margmenni á stjórnmálaþursinn oftar en ekki orðið. Ef einhver hyggst grípa fram í fyrir honum talar hann bara hærra - og það virkar. Hann hefur sterkar skoðanir á flestu, hvort sem um er að ræða fjárlagahalla ríkisins eða það hvort SS eða Goða pylsur eru betri, og gerir hvað hann getur til að þröngva þeim upp á aðra. Stjórnmálaþursinn þarf að passa sig þegar hann er í nærveru þeirra sem eru ósammála honum því blóðþrýstingurinn á það til að rjúka upp.



Stjórnmálaþursinn vantar ekki nýja skó fyrr en það er komið gat á þá gömlu... sem skósmiðurinn segist ekki geta gert við. Stjórnmálaþursinn veit hvar Guðsteinn er með verslun.


Hvaða tröll ert þú?

sunnudagur, febrúar 19, 2006

harðfsikur og þýskupróf

Ég er að hugsa um að skrifa enn einu sinni um Jótlandspóstinn og myndirnar. Það hjálpar mér að koma böndum á óreiðuna í hausnum á mér. Nema hvað að ég ætla ekki að skrifa um myndirnar og tjáningarfrelsið, heldur ætla ég að skrifa um það sem skiptir miklu meira máli, aðstæður þeirra sem flytja til Evrópu og lýta ekki út fyrir að vera innfæddir. Ég er útlendingur núna og ég geri ýmislegt til þess að aðlaga mig að umhverfinu, en það er ótrúlega einfalt fyrir mig. Samt sem áður á ég marga íslenska vini hérna, en sárafáa austurríska, reyndar er ég bara ennþá í þýskunámskeiði og því er það ekki undarlegt að þar séu ekki innfæddir. En ég fæ mér kaffi á kaffihúsum Vínarborgar, hugsa meira um klassíska tónlist og fylgist með skíðköppum stundum og stundum. Þrátt fyrir þetta þá tek ég þátt í íslenskum hlutum, t.d. fórum við Eyrún til kunningja okkar í gær í Evróvisíonteiti og næstu helgi höldum við Íslendingarnir hérna þorrablótið okkar. Til að lengja þetta ekki frekar, þá höldum við hópinn að einhverju leyti og styðjum hvert annað, samt tölum við öll þýsku og eigum í litlum vandræðum við að skilja og átta okkur á því sem fram fer í borginni og landinu.
Þeir sem að koma frá Tyrklandi eða Írak, nú eða Afríku eiga líkast til ekki jafn auðvelt með að samlagast umhverfinu. Ef að þeir ákveða svo að gera sér glaðan dag saman er menningin þeirra oftar en ekki algjörlega frábrugðin því sem venjulega tíðkast hér. En auðvitað er það ekkert vandamál, vandamálið er að siðir og venjur úr þeirra löndum stangast stundum á við það sem við teljum siðsamlegt og eðlilegt. Framkoma þeirra við konur og réttindi borgaranna eru mér til dæmis þyrnir í augum, kanski verður þessi þyrnir svo að bjálka svo ég sé ekki hrokann og mistökin sem við Evrópubúar höfum auðvitað verið uppvísir af. Hvað um það, vandamálið er auðvitað ekki að evrópskir fjölmiðlar birti myndir af Múhammed, engan vegin er vandamálið heldur að evrópskar vörur séu sniðgengnar í kjölfarið. Það er réttur þeirra að kjósa ekki að versla við Evrópumenn ef þeir vilja það. Vandamálið er það að Evrópumenn ögra og þeir ögra á móti, það hefði t.d. verið einfalt mál að boða til fundar fyrir nokkrum vikum þar sá í hvað stefndi og ræða saman. Auðvitað hefur verið fundað um þetta mál, en skilningsleysið á báða bóga er óþolandi. Það að ekki megi teikna Múhammed skiptir nákvæmlega engu máli, þegar að mannréttindi eru brotin útum allan heim og þjóðernissinnar sækja í sig veðrið og kveikt er í sendiráðum, má einfaldlega ekki gleyma sér í smáatriðum. Við gætum verið að snúa okkur að mikilvægari hlutum, t.d. fá samviksufanga lausa úr haldi í mið-austurlöndum og víðar, loka Guantanamo pyntingarstöðinni og reyna aftur og áfram að stilla til friðar í Palestínu.

Lifið í lukku
lalli

laugardagur, febrúar 18, 2006

Lakagígar? einhver?


Flatbakan er í ofninum, ég held að þessi verði góð.

Náunginn hérna til hliðar mótmælti teikningunum af Múhamed í London. Mér þykir hann heldur undarlegur.

Ítalskur umbótamálaráðherra mætti í þinghúsið klæddur bol með mynd af Múhamed.

Ég er að fara að borða flatbökuna og svo förum við Eyrún að horfa á Forkeppni söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, afhverju kalla þeir ekki þessa keppni bara Guðmund.

lalli