fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Lungu jarðarinnar – í minningu Önnu Nicole Smith

Amasón frumskógurinn minnkar með hverjum deginum. Þessi stutta setning felur ekki í sér nein ný sannindi, enginn hrekkur við eða hváir, gamalt vandamál sem ennþá er til staðar sem ekki fær marga dálksentimetra í dagblöðum heimsins og fáir stjórnmálamenn velta fyrir sér. Það sem var vinsælast á mbl.is klukkan 19.15 á Valentínusardaginn 14. febrúar 2007 var:
Nr.1 – Lífvörðurinn kann að vera barnsfaðir Önnu Nicole.
Nr.2 – Upptaka af símtali hjúkrunarkonu Smith við neyðarlínu gerð opinber.
Nr.3 – Fréttastofur gagnrýndar fyrir slælega umfjöllun um andlát Önnu Nicole.
Nr. 4 – Þrír í haldi grunaðir um skemmdarverk í Hafnarfirði í nótt.
Nr.5- Verjendur mótmæla löngum yfirheyrslum í Bausmáli.
Fyrstu þrjár fréttirnar um konu sem var fræg fyrir það vera fræg og nú nýlátin, fjórða fréttin um skemmdarverk unglingspilta í Hafnarfirði og sú fimmta um svartan blett á íslensku samfélagi. Ef til vill er það Mogginn sem aldrei lýgur sem virðist helst setja upp slúðurfréttir á vefinn eða þá að íslenskir lesendur velji sér ekki alvarlegra lesefni.

En ég fór að velta fyrir mér Amasónskóginum eftir að afi minn gaf mér eintak af National Geographic, hann sagði að þar væri grein um Brasilíu sem ég hefði vafalaust áhuga á. Mikið rétt hjá gamla, þar var grein sem hét Amazon – Forest to Farms. Battel to Stop the Land Grab. Hún vakti mig til umhugsunar í flugi milli Englands og Austurríkis. Hún minnti mig á að landið sem að ég var svo heppinn að fá að kynnast í heilt ár 17 ára gamall þarfnast hjálpar frá Evrópskum Jafnaðarmönnum. Evrópa er nefnilega vandamálið, við þurfum ódýr matvæli og til að framleiða þau þarf ódýrt hráefni. Regnskógurinn er höggvinn niður og nautgripum beitt á landið. Eftir að það grær aftur er soja plantað og baunirnar sendar beint til Evrópu þar sem þær eru nýttar, skv. því sem ég sá á BBC, til kjúklingaeldis. Ég veit ekki með ykkur en ég hef lítinn áhuga á því að verða saddur á kostnað þess að Amasón frumskógurinn hverfi. Þeir íbúar Brasilíu sem að reyna að standa upp í hárinu á landræningjunum, lifa við ofbeldi og hótanir og hundruðir þeirra hafa fallið í valinn á síðustu áratugum. Þeir sem að rækta sojabaunirnar eða eiga nautgripina eru ekki hluti landlausra fátækra bænda, heldur stóreignamenn með viðskipasamninga í Evrópu og þeir standa ekki sjálfir í búskapnum. Einn þessara mann er Blairo Maggi, fylkisstjóri í Mato Grosso og einn stærsti framleiðandi sojabauna í heiminum, en hann á yfir 400.000 ha (4000 km2) af ræktarlandi. Alríkisstjórnvöld í Brasilíu, Umhverfisráðuneytið og fleiri vilja stöðva þessa þróun, en á meðan markaðurinn í Evrópu kallar á meira og aftur meira, er lítið hægt að gera. Skógarsvæðið sem á hverjum degi hverfur undir sojarækt fyrir Evrópu er stórt, en land eins og Brasilía, þar sem vandamálin eru mörg og stór, ræður ekki eitt og sér við verkefnið.
Er það ekki athyglisvert að 80% þeirra sem búa við hungur í heiminum búa á svæðum sem nærri eingöngu framleiða mat. Á meðan að við í Evrópu áttum okkur ekki á því að við erum hluti, og e.t.v. rót, vandans þá er hann ennþá til staðar.

Afhverju þarfnast Brasilía og önnur sambærileg lönd hjálpar jafnaðarmanna? Einfaldlega vegna þess að það er í kjarna jafnaðarstefnunnar að líta á heiminn sem heild. Í dag, á tímum alheimsvæddrar peningahyggju og hlýnunar jarðar, er það hlutverk evrópskra jafnaðarmanna að snúa blaðinu við. Hugmyndin um jöfnuð þekkir ekki landamæri. Í fjölmiðlum á Íslandi fangar andlát Önnu Nicole Smith athygli okkar, en á jörðinni okkar eru vandamálin stærri og fleiri. Við höfum vitað af þeim alltof lengi, núna er kominn tími fyrir aðgerðir á öllum sviðum, ef ekki þá er baráttan gegn mönnum eins og Blairo Maggi, peningahyggju þeirra og vanvirðingu gagnvart öðrum íbúum heimsins fyrirfram töpuð.

hafið það gott,
lallinn ykkar

2 ummæli:

jóNi sagði...

Allt í lagi, ég er tilbúinn að vera með í baráttunni. En hvað get ég þá gert? Ég gæti hætt að borða kjúkling, en þar sem ég borða hann samt þegar svo sjaldan er ég ekki viss um að það hjálpi. Ég gæti sagt vinum mínum frá þessum fregnum og reynt að vekja þá til umhugsunar, og ef þeir taka boðskapnum alvarlega, þá gerðu þeir slíkt hið sama, og þannig mjakast gjörningurinn áfram. En er það nóg?
Þarf ekki eitthvað stórt afl að taka þetta fyrir, eða einhver frægur einstaklingur eins og Bono eða e-r?
Nei, ég bara svona fór að pæla, og held því eflaust áfram.
En Lalli, haltu áfram svona, að minnsta kosti þegar einhver vekur umhugsunina hreifir hann við e-m öðrum og svo frvs.

larush sagði...

við þurfum bara að vita af vandamálinu og vita að við erum hluti af stórri heild.. ef allir áttuðu sig á því og því að gera ekki örðum eitthvað sem þú vilt ekki að þeir geri þér, þá væru vandamálin ekki mörg..