mánudagur, apríl 14, 2008

Af sauðburði og vertíðarlokum

Maður les það og heyrir frá Íslandi að frónverjar séu orðnir pirraðir á stjórnmálamönnunum sínum. Þetta er né ekkert eins dæmi, ég horfði á þátt í gær á ríkissjónvarpinu hérna í Austurríki þar sem fjallað var um leiðtogakrísu Evrópu, það vantar alvöru leiðtoga í stjórnmálin í álfunni. Ég held að þetta sé komið til vegna þess að það kerfi sem við búum við, var ekki hannað fyrir okkar tíma, þ.e. 21. öldina þar sem fólk er vel menntað og getur sjálft fundið upplýsingar um allt milli himins og jarðar. Við vitum flest öll töluvert margt um flesta hluti og lítum þess vegna síður á ákveðna einstaklinga sem "alvitra snillinga" sem eiga að redda hlutunum - okkur vantar frekar fyrirliða sem heldur hópnum saman og s.s. einn af okkur sem stýrir leiknum.

Á Íslandi var fólk pirrað yfir því að þingmenn réðu sér aðstoðarmenn, en í rauninni finnst mér furðulegt að aðstoðarmenn hafi ekki verið komnir fyrr til þeirra eða fleiri aðstoðarmenn verið til staðar fyrir þingflokkana. Þeir myndu og munu gera þingstarfið skilvirkara, þ.e.a.s ef þeir vinna störf sín vel. Að auki ætti svo að fækka þingmönnum e.t.v. niður í 43 og gera landið að einu kjördæmi, svo innan fárra ára verðum við komin með 5 menn á þingið í Brussel.
Núverandi kerfi var hvorki hannað fyrir Ísland þar sem sauðburðu og vertíð skipta ekki höfuðmáli og heldur ekki fyrir Ísland þar sem tekur aðeins 45 mín að ferðast landshorna á milli. Það að hafa 63 þingmenn í Reykjavík í nokkra mánuði og svo í fríi þess á milli "til að sinna kjördæmunum" á einfaldlega ekki við í dag.
Það væri einnig hægt að gera fleiri tilbreytingar til dæmis að ráðherrar hafi ekki fast sæti á þingi eins og sumstaðar er gert.

Þegar þessar breytingar fara í gegn ætti einnig að auka vald sveitarfélaganna og færa meira af þjónustu yfir til þeirra, þar af leiðandi þyrfti ríkið að gefa þeim eftir skatttekjur. Það myndi auðvelda almenning mikið að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, auk þess sem fólk myndi vera áhugasamara um stjórnmál, þar sem það hefði meira að segja.

Er nokkurt vit í öðru en að breyta til í þessu 19. aldar kerfi sem að við búum við? Stjórnmálkerfi sem og stofnanir sem í því vinna eiga að vera í endalausri endurskoðun sem reynir að bæta þær, því eins og önnur sköpunarverk eru þau ekki fullkomin.

Lalli

Engin ummæli: