sunnudagur, október 29, 2006

brunavarðapistill

Upp og niður sigann í húsinu okkar hafa í dag hlaupið fullklæddir brunaverðir, það flokkast líklegast með óþægilegri heimsóknum sem maður getur fengið. Þeir létu okkur samt ekki vita hvað væri að gerast, svo að við ákváðum að kíkja út og athuga hvort við kæmust að því hvað væri að. Þá var búið að loka stóru götunni sem að okkar gata liggur út frá og lögreglu- og brunaliðsbílar með blikkandi ljós voru út um allt, í rauninni stóðum við í miðju öryggissvæðinu sem afmarkað var með bílum og borðum, svo töltum við út fyrir það. Það virtist ekkert sérstakt vera að og þegar ég spurði einn slökkviliðsmanninn hvað væri að sagði hann að vinnupallurinn utan á húsinu var laus og það þyrfti að festa hann betur. Það var hvasst og því hætta á því að pallurinn myndi hrynja.
-
Brunaliðsmenn í Frakklandi eru búnir að slökkva eld í nokkrum bílum eftir ólæti. Einhvern veginn virðist mér eins og fjölmiðlar heimsins býði eftir því að aftur sjóði uppúr, þeir byrjuðu fyrir löngu að segja að líklega yrðu aftur ólæti líkt og í fyrra. Í rauninni virðast þeir bara hafa beðið eftir því að eitthvað fréttnæmt gerðist og svo fara þeir í fýlu ef ekkert gerist. Svona eins og þegar allir fjölmiðlar á Íslandi mættu á Keflavíkurflugvöll í sumar og biðu eftir því að logandi þota frá BA kæmi til lendingar, en svo voru þeir bara hundfúlir þegar það var enginn eldur.
En það væri nú svo sem ekki skrítið ef eitthvað gerðist því aðstæður þessa fólks í París hafa ekkert batnað frá fyrir ári, samkvæmt því sem ég las í Suddeutsche Zeitung er það alveg eins. Enginn hefur reynt að gera neitt til að aðstoða þessa íbúa Frakklands sem að búa við bág kjör. Við heima á Íslandi ættum að læra af hinum fjölmörgu misstökum Evrópubúa og hugsa vel um það fólk sem setst að hjá okkur með því t.d. að veita þeim góða íslenskukennslu. Það er nefnilega ekki sjálfsagt mál að aðlögun að nýja samfélagi gangi fyrir sig án þess að samfélagið taki á réttan hátt við þeim sem koma.
-
Sjálfur er ég í aðlögun, eins og barn á leikskóla og gengur vel þó að ég hugsi stundum til þess hvort að mamma og pabbi komi ekki bráðum.

Lalli

Engin ummæli: