þriðjudagur, maí 15, 2007

ég viðurkenni..

ég er hundfúll!
-
Ég var svo ánægður um miðnætti þegar fyrstu tölur komu. Við á kosningavöku Samfylkingarinnar í Vínarborg, misstum ekki vonina þegar stjórnin náði aftur "meirihluta". En þegar ég vaknaði um morguninn og úrslitin voru ljós, hvarf sólin bak við ský og ólykt gaus upp úr holræsum Vínarborgar!
En í alvörunni, þá liggur við að manni líði svona, því að allt stefnir í að þessi stjórn haldi áfram, með eins þingmanns meirihluta og 48% atkvæða á bakvið sig. Þessi stjórn er ekki búin að vinna að neinu af viti síðustu ár, mestu máli hefur skipt að passa upp á stólana, að sem flestir fái að prófa sem flest ráðuneyti og enginn fari í hættulega mikla fýlu. Valgerður, Guðni og Sif nenna engan vegin að hanga sem óbreyttir þingmenn í 4 ár svo þau heimta frekar að fá fín ráðuneyti til að reka. Svo koma varamenn inn á þing í stað þeirra. Þessi stjórn hefur hvorki getu, þor, dug né metnað til að takast á við þau vandamál sem blasa við á Íslandi í dag.
--
En í rauninni er þetta ekki skelfilegt, vegna þess að þessi stjórn nær aldrei flugi, hún hefur á móti sér stóra og kraftmikla stjórnarandstöðu sem vex ásmegin við hverja hindrun. Ef að Íhaldinu dettur í hug að selja Landsvirkjun eða "finna" þá snilldar lausn að leysa vandamálin í mennta- og heilbrigðiskerfinu með eintómum einkavæðingum þá munu þeir einfaldlega fá fólkið í landinu upp á móti sér og þá mun stjórnin springa! Þetta verður líklega í desember og við kjósum aftur í Janúar og þá - LOKSINS - fellur stjórnin almennilega og til valda kemst stjórn sem að virðir fólkið í landinu.
---
En svo getur líka vel verið að ég hafi algjörlega rangt fyrir mér og það sé í rauninni þannig að 36% kjósenda á íslandi séu rúmlega fimmtugir, mjög vel stæðir karlmenn af Stór-Reykjavíkur svæðinu, sem reka sitt eigið fyrirtæki, eiga gríðarstóra bankareikninga, sem að þrá ekkert frekar en þeir hagnist sem mest á sem skemmstum tíma og er nákvæmlega sama á hvaða hátt það gerist eða með hvaða afleiðingum! Er fólk í alvörunni ekki búið að fá nóg af þessari óstöðvandi græðgi.
----
Það er eins og einhverskonar þoka liggi yfir Íslandi, þessi þoka blindar okkur og gerir það að verkum að við höldum að það sé náttúrulögmál: að vinna lengstu vinnuviku í Evrópu, að allir frá 17 ára aldri þurfi að eiga bíl, að þeir sem lægst hafa launin hafi ekki efni á því að lifa af í "ríkasta landi í heimi", að þeir sem tali um evrópusambandið vilji gefa "landið okkar", að bankar geti verið með vexti sem okurlánarar væru stoltir af, að matvælaverð heimskulega hátt.

Það er hægt að breyta þessu öllu, við þurfum bara að ákveða það. 52% þjóðarinnar vilja það en einhvervegin er það skrítið ætla að 48% ráða!

við felldum þessa ríkistjórn, höldum því bara áfram þar til hún hættir!

kveðja frá Rauðu-Vín
Lalli

Engin ummæli: