þriðjudagur, maí 08, 2007

ljómandi

Síðasta helgi var góð, það var meira en nóg að gera í skóla og skemmtun. Íslendingafélagið hélt sitt mánaðarlega bjórkvöld á föstudaginn og á laugardaginn hélt Bess, sambýlismaður Jóns, elskhugi hans og ástmaður*, upp á 30 ára afmælið sitt, auk þess sem High5 kjallarapöbbinn "okkar" átti eins árs afmæli. Við mættum að sjálfsögðu á alla þessa merkilegu viðburði. Auk þess kusum við á föstudaginn, en fengum hvorki svart né sykurlaust hvað þá bakkelsi að kosningu lokinni. Eftir kosninguna fór ég í heimsókn með Gundkurs: Österreichische Politik und EU í sjálft þinghúsið í Vínarborg, ákaflega falleg bygging og sjálfsagt væri hægt að koma íslenska þinghúsinu mörgum sinnum inn í það. Annar þingsalurinn var sprengdur í seinni heimstyrjöldinni (flott að við íslendingar gerum bara ráð fyrir fyrri og síðari), og gjöreyðilagðist hann við það, í kjölfarið var hann byggður upp í nútímastíl = 1950 stíl! Skrambans ólukka, stærri salurinn, þar sem Bundesversamlung (sameinað þing) kemur saman t.d. til að staðfesta kjör forsetans og minningarathafnir eru haldnar, er í ótrúlega fallegum gömlum stíl með styttum af heims- og stjórnmálaspekingum liðinna alda og einstaklega fallega innréttaður. Nóg af innlit útlit.
-
Auk þess sem að ég skemmti mér um helgina, lærði ég líka slatta þar sem ég þurfti að skila tveimur verkefnum á mánudeginum.
-
Þingkosningar nálgast óðfluga og mér sýnist Samfylkingin vera að toppa á réttum tíma. Jafnvel gæti farið svo að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn fái bara frí eftir kosningar! Einkavinavæðingu væri lokið. Virðing fyrir fólki tæki við. Stuðningi við morð lokið. Utanríkistefna friðar tæki við. Biðlistar þeirra sem minnst mega sín lengjast ekki meir. Heilbrigðiskerfið myndi vera rekið mannúðlega. Stöðnun í menntmálum væri lokið. Fjárfesting í framtíðinni í gegnum vel menntað fólk tæki við.
Vonandi verða íslendingar svo heppnir að sjálft sig í stjórn, þ.e. venjulegt fólk.

ps. hvernig virkar Morgunblaðið sem stjórnarandstöðusnepill?
-
kveðja úr Kupkagasse,
Lalli
*tekið skal fram að þeir eru samkvæmt því sem ég best veit og þeir sjálfir líka gagnkynhneigðir.

Engin ummæli: