miðvikudagur, apríl 12, 2006

afsakaðu

Við Eyrún komum heim frá Essen í dag, við skelltum okkur í ferð yfir helgina, í upphafi páskafrísins. Við fórum að sjálfsögðu með lest, á leiðinni til Þýskalands fengum við tveggja manna klefa þar sem morgunmaturinn okkar var borinn inn í klefann og annað fínerí. Við keyptum okkur nú bara svoleiðis miða því aðrir svefnklefamiðar voru ekki í boði. Á Laugardeginum var Dóri að keppa, við Eyrún fórum með Hönnu og krökkunum á leikinn og hrópuðum áfram Tusem. Honum lauk að sjálfsögðu eins og þeirra var von og vísa, með sigri, þeim 28. í röð og því eru Essen komnir upp um deild eins og reyndar ljóst var fyrir löngu. Leikurinn endaði 27-34 Essen í vil, og reyndar voru þeir komnir í 10 marka mun á tímabili, en þá fengu óreyndari menn að spreyta sig í leiknum. Eftir leikinn fórum við fullorðna fólkið svo út á lífið með liðinu og skemmtum okkur vel. Liðsfélagar Dóra eru flestir hressir, Helmuts markmaður sagði mest megnis "danke" og ruglaði svo í fólki, á meðan að Hvít-Rússinn Igor sagði mér frá stjórnmálaástandinu í heima landinu sínu. Við tókum svo aftur lestina til baka, en fengum okkur bara pláss í 6 manna klefa, enda er annað bruðl og vitleysa.
--
Eftir tvo tíma fáum við svo heimsókn, en mamma og pabbi Eyrúnar ásamt systrum hennar eru á leiðinni frá Bratislava. Páskarnir verða því íslenskir í Kupkagasse og við fáum ef til vill íslenskt lambalæri og ef við verðum heppin súkkulaði... En alveg pottþétt góða gesti sem njóta páskanna með okkur.
--
Þýskaland er um það bil að missa sig í heimsmeistaramóts brjálæði, auðvitað eru þeir með duglegir við að ná í auglýsingasamninga og reyna að selja sem mest tengt mótinu. En þegar ég sá "baðlínu" (sápur, handklæði, bursta og ilmkerti) í fótboltamynstri og þýskum fánalitum var mér öllum lokið. Svo ég settist dapur niður undir næsta tré og grét....
--
Ef til vill á eftir að vera lítið um færslur yfir þessa páska, ég vona nú samt að ég verðir ekki svo uppáþengjandi gestgjafi að ég gefi gestunum ekki frí frá mér í minnsta kosti 10 mínútur til að pikka inn á veraldarvefin skilaboð til páskahéra..

Hinn fornfrægi spurninga- og skemmtileikur sem skiptir engu máli er hér með tekinn upp aftur á síðunni.
Botnið titilinn á þessari bloggfærslu rétt: Afsakaðu...

Lalli í Vínarborg

Engin ummæli: