sunnudagur, apríl 23, 2006

fáfræði fagurgala

Ég get byrjað í skólanum fyrir alvöru í vikunni, eftir því sem ég sé best á netinu er reyndar ekki tími á morgun, sá fyrsti ætti að vera á þriðjudaginn. Markmiðið fyrir þessa önn er að verða enn betri í þýsku, læra á kerfið í skólanum og standa mig í þeim tímum sem ég kemst í. Ég ætla að sjá til hvernig þeir eru áður en ég kem með lýsi því yfir að ég nái eða falli.

Undanfarna viku hefur verið umfjöllum um Kína í "Die Presse" sem ég fæ ókeypis sent heim til mín daglega. Tækifæri og hættur er þessi umfjöllun kölluð, stundum finnst mér eins og vesturlandabúar sjái tækifærið sem sitt tækifæri til að græða en ekki tækifæri íbúa Kína til þess að lifa betra lífi. Landið er ógnarstórt og íbúarnir komnir vel yfir milljarð og ennþá lifir yfir helmingurinn af landinu. Mætti túlka það svo að iðnbyltingin er ókomin til Kína? Nei það væri ekki rétt enda eru borgirnar þar stórar og framleiðsan mikil, en hún er ennþá á leiðinn til mikils hluta íbúanna. Og aðstæður á vinnumarkaðnum eru villandi, vinnulöggjöfin er öflug og eftir vestrænni fyrirmynd en það er ekki alltaf farið eftir henni. Ef að allir þessir íbúar myndu móta sér sama neyslulífstíl og við á vesturlöndum myndu auðlindir heimsins vera klárast á skömmum tíma. Kanski er best að þakka fyrir að þeir gera það ekki. Eða hvað? Ef þessi "ógn" væri ekki til staðar, já "ógn" því afhverju ætti velmegnun milljarðs manna að ógna okkur? Jú því hún gæti dregið úr okkar. Ef þessi ógn væri ekki til staðar þá værum við ekki að hugsa okkar gang. Það sem verst er að ráðamenn einbeita sér frekar að því að berjast um síðustu olíuna heldur en að leggja peningi í rannsóknir. Hvað ætli stríðin undanfarin ár hafi kostað mikla olíu?

Ég verð samt sem áður líka algjörlega stíflaður í hausum á því að hugsa um þetta, hvað veit ég um Kína og heiminn? Kanski meira en margir og minna en sumir. En almennt þá er maður skammarlega fáfróður um heiminn og þá sem hann byggja.
Svo ég ætla í bili að hætta að skrifa og lesa þess í stað.
kveðja úr Kupkagasse,
Lalli

Engin ummæli: