fimmtudagur, janúar 31, 2008

Ball ballanna

Viðbót þar sem mér blöskraði áðan: Silfrið Rúv

Spilling eða ekki spilling, þetta er ógeðslegt - hvaða heilvita einkafyrirtæki ræður mann til sín með því að borga honum 300 milljónir (!). Svo er þetta trekk í trekk réttlætt með því að ef mönnunum séu ekki borguð hærri laun heima þá fari þeir bestu úr landi, hefur einhverjum þeirra svo mikið sem verið boðin staða við stóran erlendan banka? Var það ekki þannig að forstjórar íslensku smáfyrirtækjanna eru með hærri laun en forstjórar Skandinavískra stjórfyrirtækja eins og Ericsson. Þessir menn sem taka á móti þessum greiðslum hafa ekki vott af siðferðiskennd í sér og það fólk sem ver þetta hérna að ofan varla heldur. Ef þú ert með milljón á mánuði, þá ertu ríkur og getur leyft þér nánast allt, en 300 milljónir fyrir að byrja í vinnunni! Svo um leið og einhver dirfist að segja eitthvað á móti þá er það "öfund" - ég þekki ekki neinn sem öfundar þetta siðblinda og spillta fólk. Það eru greinilega einhverstaðar til peningar í þessu samfélagi þó að leikskólar séu ekki mannaðir, elliheimili undirmönnuð og að því er virðist er siðferðiskennsla við íslenska skóla í algjöru lágmarki.

En passið ykkur að mótmæla þessu nú ekki of kröftuglega, þið gætuð umbreyst í skríl.
--
Í dag gleðjast velstæðir Vínarborgarar, það er komið að sjálfu Óperuballinu. Þar keppast þeir sem aur eiga að sýna hversu flottir þeir eru og svolgra í sig Kampavíni milli þess sem þeir dansa Vínarvals við tónlist Óperu Sinfóníunar. Miðinn inn í húsið kostar 270 € í stæði, s.s. þá máttu vera niðri og dansa o.s.frv.. Þeir sem að eru í alvörunni flottir, fínir og frægir þeir leigja sér bás (loge) í Óperunni og geta þannig lokað sig af og notið þess að fá hvíld frá skítugum almúganum á götunni og verið með fólk sem er fínu fólk sæmandi. Það þarf að loka götum og 700 lögreglumenn verða á vakt í kringum Óperuhúsið til að koma í veg fyrir að skríllinn komist ekki nálægt ballinu. Reyndar hefur oft komið til þess að alvöru skríll, s.s. ekki í morgunblaðs/sjálfstæðisflokks túlkun á því orði, heldur grjót- og molotovkokteilakastandi rugludallar mæti á svæðið til að "berja fína fólkið í augun". Þeir sem að bara vilja púa á eyðsluna og oflætið hætta sér ekki í svoleiðis skrílslæti.
-
Þessi veisla skilar Staatsoper líklega meiri tekjum en allt annað sem að hún setur upp, enda ekki nema örfáir skemmtikraftar sem þarf að borga og þeim mun meira af Kampavíni sem selst. En þeir sem að geta eytt í þetta mættu líka gefa svolítið með sér og því væri snjallt fyrir Óperuna að gefa fólki möguleika á því að borga í góðgerðarsjóð eða eitthvað slíkt á sama tíma og miðinn er keyptur. Reyndar veitir Óperunni heldur ekkert af aurunum því þar koma fram á hverjum einasta degi tugir listamanna á heimsmælikvarða. Það er einmitt það fallegast og skemmtilegasta við ballið, að sjá balletinn, sem að þessu sinni var Fussballet í tilefni af EM í fótbolta og svo söng sjálfur Carreras, svolítið gamall orðinn en flottur engu að síður. Svo tekur við snobb, snobb og aftur snobb. Íslenskir auðkylfingar og bankaræningjar væru flottir þar að láta rigna kampavíni upp í nefið á sér.
--
Þeir sem að lesa bloggið mitt en eru ekki búnir að lesa Rottumanns bakþanka Óla Sindra, ef einhverjir eru, þá eru þau hér með hvött til þess.

Lalli

Engin ummæli: