föstudagur, mars 14, 2008

Guðbergur, ópera, Hitler og kertaljós

Á miðvikudaginn síðasta var afmæli Vínarborgarháskóla, ekki var mikið gert úr því annað en að senda engan í skólann. Frekar undarlegt svona eftir á að hyggja, væri ekki betra að heiðra háskólann með mega-session af lærdómi í stað þess að loka, loka og læsa og allt það. En það var fleira markvert á seiði þann 12. mars. Guðbergur Bergsson var í Vínarborg við kynningu á Flatey-Frey sem að var að koma út í þýskri þýðingu. Frábært framtak, því önnur síðan er á íslensku og hin á þýsku svo hún passar mjög vel fyrir þá sem glíma við bæði málin. Jón Bjarni Atlason íslensku kennari við UniWien sá um að kynna Guðberg fyrir þeim sem mættir voru á Shakespeare & Company, sem er skemmtileg bókabúð og mjög sjarmerandi. Mér þótti margt vera skemmtilegt í því sem að lesið var upp, sem dæmi má nefna þetta hér:
En Freyr
þegar orðið verður eingilt eins og í íslenskri list
og gengi þessi endanlega skráð
eins og hjá óhagganlegum skáldum
sem skrifa bækur líkar velreyttum hænum
þá ætti vesælt orðið að liggja á vöxtum í lands-
bankanum
og vera í útláni handa leigupennum fyrir jól.

Eftir upplesturinn voru samt margir í vafa um hvort þeir hefðu skilið eitthvað af því sem að Guðbergur las, það sem helst stóð uppúr var án vafa Orða-Borða óperan sem Guðbergur söng hluta úr. Skemmtileg gagnrýni á ofneyslu orða og mikilvægi þess að melta það sem maður les, því annarrs gubbar maður.
-
12. mars 1938 er dagsetning sem að gleymist seint í Austurríki, þá marseruðu Þjóðverjar inn í landið - án nokkurar mótstöðu þeirra austurrísku. Þjóðin er enn í dag að glíma við söguna og hættir því sjálfsagt aldrei. Sumir vilja meina að Austurríkismenn geti með sanni kallað sig fórnarlömb, aðri vilja ekki heyra á það minnst, enda voru ofsóknir gegn gyðingum löngu byrjaðar og barátta vinstir og hægrimanna staðið yfir í mörg ár, með tilheyrandi blóðsúthellingum.
Til að minnast þessa dags og þeirra 80.000 Vínarborgara sem að myrtir voru af nasistum, var skipulögð athöfn á Heldenplatz þar sem kveikt var á yfir 80.000 kertum. Eftir upplestur Guðbergs löbbuðum við þangað og litum yfir kertahafið. Ég las svo síðar í Der Standard að aðeins 5.000 manns hefðu mætt á minningarathöfnina. Til samanburðar tóku yfir 250.000 manns á móti Hitler 70 árum áður.
Hvað segir það okkur?

Lalli

Engin ummæli: