laugardagur, janúar 14, 2006

Glæpur mannkyns

Eftir að ég las Hugsjónareld, bókina um Einar Olgeirsson sem kom út fyrir jólin hef ég verið að velta fyrir mér stöðu Jafnaðarmennskunnar í dag og þeirra mála sem ef til vill tilheyra gömlum baráttumálum, sem engu að síður eru grunnurinn að hugsjóninni um jöfnuð. Þetta eru bara pælingar, ekki úthugsaðar en þær geta vonandi hjálpað við að brýna hugann í upphafi árs.

Það oft erfitt í dag að átta sig á því hvernig baráttan sem fór fram á síðustu öld fyrir bættum kjörum fólks hefur skilað sér og hver staðan sé í raun og veru. Einhvern tíman las ég að það snjallasta sem fjármagnseigendur fundu upp var að hækka laun almennings og gefa eftir á vissum sviðum. M.ö.o. láta okkur halda að takmarkinu væri náð, láta okkur líða vel og fá fjárhagslegt öryggi. Hver vinnur ekki betur þegar hann telur sig hluta af þeim sem fær ríflega til baka og e.t.v. ráða einhverju niðurstöðu mála? Ætli ágætis dæmi sé ekki að gefa þurfandi eða þyrstum nóg fyrir þá, en sitja svo sjálfur að afganginum. Græðgi.
Mér finnst stundum eins og við gleymum því að baráttu er ekki lokið, fátækt er til staðar meðan að annað fólk sem fær milljónir á mánuði í laun og getur fengið tugi og jafnvel hundruð milljóna við starfslok. Stundum verða heilu samfélögin að taka á sig misgjörðir nokkurra einstaklinga eða ákveðinna hópa. Í svona tilfellum er það ekki þannig, fólki ofbýður en samt gerist ekkert. Ríkisstjórnin stofnar nefndir til þess að taka á málum, það er eins og þeir hafi aldrei séð neitt fyrir og taki aðeins bara á því sem upp kemur með því að raða hæfu fólki í nefndir. Hvernig væri að hafa þær alltaf starfandi og vera þá viðbúin og setja reglur um þessa hluti? Núna er ég meira að segja komin út fyrir efnið mitt. Sem átti að leiða að glæp mannkyns eins og Einar Olgeirsson orðaði það: Fátækt.
Afhverju látum við það líðast að fólk svelti til dauða þegar til er nóg fyrir alla? Eðlilegt væri að spurningin: Afhverju líðum við að mannréttindi fólk breytist þegar farið er á milli landa? Ég ætla ekki að fara út í skrif um menningu og hvort hún sé afstæð gagnvart sjálfsögðum mannréttindum, en í stað þess að munnhöggvast um réttindi er þá ef til vill ekki betra að byrja neðan frá. Matur veitir orku og orka gefur af sér afl til að takast á við hlutina. Til að takast á við þá þarf oftar en ekki menntun, menntun gefur okkur stundum hugmyndir og hugmyndir breyta svo einstaklingum og jafnvel samfélögum.

Afhverju hefur ekki meira breyst frá þeim tímum hippakynslóðarinnar? Hvort erum að við sem núna gætum mótmælt, en þau sem hefðu átt að halda áfram sem ætti að benda á? Eru það ef til vill báðir hópar? Sósíalisminn og það sem við stöndum fyrir í dag Jafnaðarmennskan á enn langt í land.

Hugsið vel um ykkur,
Lalli

Engin ummæli: