miðvikudagur, mars 15, 2006

vandræði

Frá Ólafi Sindra: Segðu frá vandræðalegasta (eða a.m.k. mjög vandræðalegu) augnabliki í lífi þínu, og drekktu einn bjór á meðan þú skrifar. Það er mjög mikilvægt að þessi bjór sé drukkinn, því annars er leikurinn ónýtur. Síðan skorarðu á nokkra aðra að gera það sama, en þú verður að drekka aukabjór fyrir hvern einstakling sem þú skorar á.


Ég hef oft og tíðum hugsað um það að ég hljóti að vera óvenjulega minnugur maður, ég man eftir ýmsum hlutum, atburðum og samtölum sem ég hef átt við fólk langt aftur í tímann, a.m.k. eins langt og mín ævi og minni nær til. Þegar kemur að því að rifja upp vandræðalegt augnablik fyrir tilstilli áskorunar Ólafs Sindra, þá rekur ekki einn einasta svera rekaviðardrumb á fjörur minninga minna. Hvort það þýðir að ég sé með eindæmum heppinn maður eða óskeikult minni mitt loki á vandræðalegar minningar skal ósagt látið. Í það minnsta eru þær sögur sem ég gæti rifjað upp barnaleikur og í rauninni ekki hót vandræðarlegar, þegar þeim er stillt upp við hlið sögunnar hans Ólafs Sindra. Þá sögu hvet ég ykkur eindregið til þess að lesa, enda er hún einfaldlega vandræðaleg.

Þegar ég var í Brasilíu lærði ég ýmsa nýja hluti, ég tókst á við aðstæður sem þroskuðu mig og leiddu nær þeim einstaklingi sem ég er í dag. Samskipti við fólk af ólíkum uppruna voru án vafa einn af þessum hlutum. Þessi saga fjallar einmitt um það. Ég var staddur ásamt þremur öðrum skiptinemum í glæsilegu húsi, sem fjölskylda stelpunar sem var heima hjá mér átti. Við vorum búin að hafa það gott í heilan dag, liggjandi í sólbaði, dansandi samba með fótbolta á tánum og Capirinha í glasi syngjandi “Girl from Ipanema”. Eftir þetta vorum við Jay orðin hálfþreyttir á þeim Jennifer og Ann-Ev, svo ég ákvað sem hluta af tilraun í samskiptum við fólk af öðrum uppruna að athuga hvernig það væri að henda einni bandarískri og einni þýskri stelpu út í sundlaug ásamt bandarískum strák. Athöfnin sjálf gekk ágætlega eftir, fullklæddar stúlkur enduðu skríkjandi í sundlauginni og við það að lenda í henni æptu þær, “þið skuluð fá að kenna á því!” Ég sem trúgjarn og minnugur ungur drengur treysti Bandaríkjamanni og Þjóðverja ekki frekar en svo til hefndarverka að ég tók á rás og hljóp á fullum krafti rakleiðis á glerhurð sem skildi bakgarðinn frá stofunni. Sem betur fer eru foreldrar Biu efnaðir og höfðu því splæst í hert öryggisgler svo ég braut það ekki. En á ennið fékk ég horn, kinnin varð blá en gleraugun sluppu. Eftir að hafa ætlað að vera rosalega fyndinn og þar á eftir sleppa við illgirni hefndarverka stúlknana endaði eftirmynd af andlitinu mínu á glerhurð og ég varð að hlátursefni.

Ég kvet Atla, Nesa , Heimi og Jón til þess að gera vandræðum sínum góð skil og gleðjast yfir líð á meðan.
Lárus

Engin ummæli: