fimmtudagur, mars 02, 2006

lítill leiðangur

Nú rétt í þess var ég að koma heim úr leiðangri sem bar vinnuheitið "myndir af múhamed og fuglaflesa". Leiðangur þessi var gerður út af Lárusi Heiðari Ásgeirssyni en óafvitandi styrktur af Eyrúnu Unnarsdóttur. Vopnaður skáldsögu eftir Gabriel Garcia Marquez, One Hundred Years of Solitude og Konica Minolta stafrænni ljósmyndavél hélt ég á vit ævintýranna á slóðir keisara og keisaraynja í Schönbrunn Schloss garðinum. Það tók á að komast huldu höfði dulbúinn sem ferðamaður en ekki leiðangursmaður inn í garðinn, en með þeirri snilli að taka mynd af höllinni að framan eins og asískur túristi tókst það með naumindum. Þegar inn í garðinn var komið tók ég eftir því að njósnarar höfðu komið sér fyrir aftan við sjálfa höllina dulbúnir sem verkamenn. Til að vekja ekki á mér grunsemdir settist ég á bekk og gluggaði í bókinni, á blaðsíðu 61 starði ég milli þess sem ég sá hvaða fuglar voru á svæðinu. Fyrir aftan mig voru endur, að öllum líkindum nýkomnar til landsins, fyrir faman mig voru mávar og krákur. Þegar að Neptunbrunninum var komið tók ég mynd af styttunum og velti því fyrir mér hvort þeim væri ekki kalt. Síðan laumaðist ég til þess að taka mynd af skilti sem boðaði bann við því að fóðra fuglana. Ég gekk því næst upp brekkuna, framhjá dýragarðinum og sá þar örn sem virtist hress, en engu að síður skynjaði ég hræðslu hans. Ofar í garðinum sá ég heimskar dúfur og lítinn sætan fugl sem stillti sér upp fyrir myndatöku, hann var greinilega athyglissjúkur því hann hætti ekki uppstillingunum. Á sömu stundu og ég áttaði mig á tvöfeldni hins athyglissjúka smáfugls heyrði ég bank, aftur og aftur, það var spæta. Ég gekk örlítið áfram og sá spætuna hátt upp í tré, senda morsskilaboð til allrar fugla í skóginum að ég væri kominn! Bölvuð spætu álkan! Meira að segja íkornarnir skildu hvað hún átti við og hlupu í skjól í hvert sinn sem ég nálgaðist. Vonsvikinn eftir þennan hörmulega endi á þessum hluta leiðangursins rölti ég fram hjá Gloriette og gekk þar fram á endur sem lágu við hliðina á háu tré. "Eruð þið með flensu?" spurði ég. Ekkert svar, líklega voru þær hásar og þar með fársjúkar.
Hinn hluti leiðangursins var leit að mynd af múhamed, ég fann enga mynd en ég fann tvo hryðjuverkamenn. Það voru ítalskir vinstrisinnar, fyrrverandi liðsmenn Rauðu Herdeildanna, sem sátu á bekk í garði dulbúnir sem arabískar konur.

--
Lalli

Engin ummæli: