mánudagur, maí 08, 2006

ég skokkaði á vegg

lausnin við gátunni sem enginn tók þátt í: Love street með The Doors - Undirtektirnar voru mjög litlar, í bæði skiptin commentaði enginn á færsluna, en þess má geta að þessi leikur var endurtekinn því enginn nennti að taka þátt í honum.
-I see you live on Love Street, there's a store where the creatures meet. I wonder what they do in there, summer sunday and a year. I guess I like it fine so far.

Ég skokkaði reyndar ekki á vegg, nema þá vegg lífsins sem umlykur alheiminn og stjórnar honum í brjáluðum dansi. En á skokk ferð minni hugsaði ég mikið um deyfð yfir miðbæ Akureyrar og lausn vandans.

Miðbær - duga gömlu skórnir hans Ronaldinho?
Stundum þá getur nýtt sjónarhorn hjálpað manni að skilja umhverfi sitt betur. Þegar ég fór í morgunskokkið mitt í Vínarborg í dag voru skipulagsmál á Akureyri mér ofarlega í huga. Sumum þykir það eflaust undarlegt, að ekkert meira spennandi hafi skotið upp í kollinum á ungu manni, en ég er nú einfaldlega bara þannig gerður. Ég hljóp af stað, beygði til vinstri og hljóp framhjá leikvelli, hönnuðum með þarfir barna og foreldra í huga, flottum leiktækjum og góðu skjóli og bekkjum svo að foreldrarnir geti lesið blaðið meðan börnin leika sér. Þegar ég hélt leið minni áfram tók ég eftir því að á húsunum voru nánast aldrei svalir, en á öllum neðstu hæðunum voru verslanir eða kaffihús. Svona hélt þetta áfram alla leiðina niður að stofnbraut sem liggur hringinn í kringum miðborg Vínar. Ég herti hlaupið til þess að ná grænakallinum, þegar yfir götuna var komið hljóp ég í hringi í öðrum garði, þessi er frægari og stendur fyrir framan ráðhús Vínar, fallega byggingu í Gothneskum stíl. Þar sat fólk og las, hópar skólabarna skoðuðu styttur af skáldum ljóða og tóna og menn byggðu svið fyrir sumarhátíð. Á þessu torgi stóð ég ásamt 120.000 öðrum jafnaðarmönnum að morgni 1.maí í fjölmennustu samkomu sem ég man til þess að hafa tekið þátt í. En ég var ekki í leiðangri til að frelsa heiminn núna, heldur hressa mig við. Eftir að hafa hlaupið milli styttna og blómabeða í dágóða stund var tími til þess að halda heim á leið. Önnur leið varð fyrir valinu og ég skokkaði áfram og þegar frá garðparadísinni var komið litu húsin alveg eins út og áður. Stórar blokkir, sem héldu áfram svo langt sem augað eygði, og allstaðar það sama, íbúðir án garða og verslanir. Þó svo að ég þekki aðrar borgir Evrópu ekki jafn vel og Vín, þá þykir mér líklegra en ekki að þær séu í svipuðum stíl. Þessi stíll er einmitt að sem heillar okkur smábæjar fólkið, við sjáum þetta í hyllingum og hugsum okkur að það yrði nú yndislegt að setja niður svona torg hjá okkur, nú eða sýki. En hvernig er þetta öðruvísi? Eins og ég tók eftir ná blokkirnar niður heilu göturnar, byggð á þeim tíma þegar aðeins þeir ríku gátu leyft sér að bæta við svölum og garðar voru eitthvað sem aðalsmenn leyfðu sér. Í seinni tíð hafa byggðirnar svo þróast út frá borgunum og í nýrri hverfi sem oftar en ekki svipar til okkar íslensku bæja. Afhverju ætti þá lausin á deyfð yfir miðbæjarlífi í íslenskum smábæ að vera að búa til hluta af því umhverfi sem gerir miðborgirnar svona heillandi? Ættum við að “feika” borgarstemmingu í smábænum okkar? Skoðum þetta frá örðu sjónarhorni. Ef að foreldrar þráðu ekkert heitar en sonur þeirra yrði heimsklassa fótboltamaður, sem hann væri þó ekki, myndi það breyta honum ef þau fjárfestu í gömlu skónum hans Ronaldinho? Nei, líklegast ekki því hina hlutina vantar. Það er ekki alltaf hægt að kaupa allt, menning er byggð á tilfinningu og því sem fyrir er. Ef að við setjum niður sýki í miðbæ Akureyrar og segjum að það eigi að vera í stíl við Ný Höfn í Köben, breytum við þá einhverju? En hver er þá lausnin á deyfð í miðbæ Akureyar? Fyrir mér er það nokkuð augljóst, við þurfum fólk en ekki fiska. Háskólagarðar eða svipaðar byggingar á Akureyarvelli myndu e.t.v. skila miklu, með fram því að hressa aðeins upp á miðbæinn. Svo myndi það líklegast ekki kosta Akureyarbæ 350 milljónir og íslenska ríkið 500? Og þeim gífurlegu fjármunum gæti verið varið á betri hátt, þjónustu við aldraða, skólamál og alla hina málaflokkana sem eiga ganga fyrir.


-
kanski að ég reyni að koma þessu á víðlestnari stað en þennan hér

lalli

Engin ummæli: