föstudagur, október 21, 2005

bara rusl ekki la-rusl

Ég skilaði verkefni í dag í skólanum, það var 15 setninga ritverk sem átti að byrja á: Als ich eines Tages... Ég skrifaði um að ég hefði fundið unga á götunni, farið með hann heim og hjálpað honum og svo hafi hann sungið fyrir mig. Væmið, auðvelt og búið.
Tíminn í dag var öðruvísi því að við fórum í ratleik um borgina, við áttum að finna staði og spyrja spurninga og rata svo á kaffihús undir lokin. Þetta var ágæt tilbreyting frá málfræði og meiri málfræði, ég var í liði með mexíkóskum markaðsfræðingi og japönskum leikhúsfræðinema. Okkur gekk bara nokkuð vel og vorum fyrstir með þetta mikilvæga verkefni.
Undarlegt með mig, stundum dreymir mig um að gera eitthvað merkilegt, sem að skiptir máli fyrir heiminn eða bara eitthvað uppbyggjandi, en svo eyði ég heilu dögunum í ratleik um kaffihús og listasöfn Vínarborgar. Annarrs er nóg af fólki hérna sem heldur að það sé að bjarga heiminum, það stendur á götuhornum og reynir að tala við mann um Greenpeace, þá vil ég nú frekar vera í ratleik. Kannski er það vandamálið, of margir eru að stara út í heiminn í leit að einhverju merkilegu og frábærlega ótrúlegu að gera svo að þeir gleyma að ryksuga heima hjá sér eða flokka ruslið. Ef að allir væru örlítið meira sjálfhverfir, þannig að þeir sæju sína eigin smávægilegu galla og reyndu að laga þá, í stað leita að stórum vandamálum og stórum svörum, ætli heimurinn yrði eitthvað betri?

Lalli

1 ummæli:

larush sagði...

æj takk krútt! en ég hef ekki efni á bíl núna.. svo var ég líka að blogga um að bjarga heiminum og á kort í strætó... takk samt